Gripla - 01.01.1975, Qupperneq 96
ÓSKAR HALLDÓRSSON
SÖGUSAMÚÐ OG STÉTTIR
Íslendingasögur eru félagslegar bókmenntir, þar eð þær fjalla um
margvísleg samskipti mjög margra manna. Þótt kjarni þeirra séu
deilur einstaklinga, eigast aðiljar sjaldan einir við, sumpart af því, að
þeir leita sér fulltingis annarra, sumpart af hinu, að réttarsamfélag
grípur í taumana. Leiðir af þessu, að oft verða margir við málið
riðnir, áður en því er lokið, svo að sögurnar verða breiðar og spanna
í heild allar stéttir hins forna þjóðveldis; fyrir kraft þeirra hefur mynd
þess, rétt eða röng, orðið lifandi.
Þrátt fyrir þetta er félagshyggja fremur takmörkuð í sögunum, en
einstaklingshyggja að sama skapi ríkjandi. Og fjarri fer, að þær séu
hlutlausar skýrslur um bardaga og málaferli. Listareðli sagnanna
krefst stílfærslu, sem ekki kemst af án andstæðna, en þær koma ekki
hvað síst fram í höfundarafstöðu, þ. e. samúð með sumum deiluaðilj-
um, en andúð á öðrum. í mannlýsingunum koma því fram bæði
bjartir og dökkir litir, þótt margir séu blandaðir.
Orsakir höfundarafstöðunnar eru fleiri og flóknari en svo, að þeim
verði gerð skil í stuttu erindi sem þessu. Hér verður aðeins reynt að
athuga, hvort sögusamúðin — og andúðin — eru að meira eða minna
leyti stéttbundin fyrirbæri eða eiga sér aðrar forsendur. En jafnvel
þótt efnið sé takmarkað með þessum hætti, er könnun mín engan
veginn tæmandi, heldur byggð á nokkrum sögum, eins og síðar kemur
í Ijós.
Áður en ég vík að sögunum sjálfum, vil ég drepa á tvær skoðanir
á þessu efni, sem nýlega hafa komið fram. Árið 1970 birti Lars
Lönnroth grein í Bonniers litterára magasin, þar sem hann fullyrðir,
að sögurnar séu yfirstéttarbókmenntir, ‘dikt i överklassens tjánst’, og
þjóni þeim tilgangi að varpa ljóma á höfðingjastéttina.1 Og hann legg-
1 Indoktrinering i den islandska sagan. BLM nr. 10 1970.