Gripla - 01.01.1975, Page 102
GRIPLA
98
eigi fé sitt fyrir þá sok.’11 Á þessu finnur sagan enga aðra skýringu en
tröllskap Þorgríms nefs og horfir því framhjá þeirri frumskyldu
höfðingja að gæta laga og réttar. Samúð Gísla sögu er þannig með
þeim, sem honum eru nákomnastir og halda við hann tryggð, snúast
ekki á sveif með óvinum hans. Þar ber Auði konu hans og Ingjald
í Hergilsey hæst, enda hafa skipti þeirra við óvini Gísla orðið mörg-
um hugstæð. Þeir sem leggja sig í hættu vegna Gísla eru ekki höfð-
ingjar, heldur óbreytt bændafólk og þjónustufólk allt niður til hinnar
lægstu stéttar, sbr. liðsemd Bóthildar, sem var ambátt Ingjalds í
Hergilsey.
Svipuð lögmál samúðar og andúðar gilda í Grettis sögu. Grettir
brýst úr skorðum þjóðfélagsins vegna verka, sem eiga rætur í skap-
brestum hans, en sagan er honum trygg og vermir þá sem duga
honum. Grettla er þó ekki eins köld í garð höfðingja og hinar útlaga-
sögurnar, enda þótt einn þeirra, Þórir Skeggjason í Garði, stæði fyrir
sekt Grettis og ofsækti löngum. Nokkru skiptir, að Skafti Þóroddsson
lögsögumaður og Snorri goði lögðu honum liðsyrði á þingi, þótt þeim
tækist ekki að koma í veg fyrir sekt hans né fá hann sýknaðan. Þá
má nefna skörungsskap Þorbjargar digru, er hún barg Gretti, og loks
orðstír þann, er Þorgils Arason á Reykhólum gat sér með því að
halda sakamenn. Sést af þessu, að samúð Grettlu er ekki stéttbundin,
en ákvarðast af afstöðunni til skógarmannsins.
Aðalandstæðingur Harðar Grímkelssonar er móðurbróðir hans,
Torfi Valbrandsson. Um hann segir Landnámabók:
Torfi drap Kroppsmenn tólf saman, ok hann réð mest fyrir drápi Hólms-
manna, ok hann var á Hellisfitjum ok Illugi enn svarti ok Sturla goði, þá
er þar váru drepnir átján Hellismenn, en Auðun Smiðkelsson brenndu þeir
inni á Þorvarðsstpðum.12
Vera má, að höfundur þessarar greinar, Sturla Þórðarson, hafi hér
stuðst við Harðar sögu, en víst er það ekki. Um Kroppsmenn er
ekkert vitað. í heild virðist greinin vitna um óvenjulegan skörungs-
skap eins höfðingja við að koma óaldarmönnum fyrir kattarnef. En
ekki hefur höfundur Harðar sögu kunnað að meta framtakssemi hans,
að því er varðar Hólmsmenn, þótt hann leggi áherslu á rán þeirra og
11 Gísla saga Súrssonar. íslenzk fornrit VI, bls. 68.
12 Landnámabók. Islenzk fornrit I, bls. 75.