Gripla - 01.01.1975, Page 186
ÓLAFUR HALLDÓRSSON
RÍMUR AF FINNBOGA RAMMA
Finnboga ríma færeyska er ort af efni úr Finnboga sögu. Jóhan
Hendrik Poulsen hefur gert nákvæman samanburð á rímunum og þeim
kafla sögunnar sem hún er kveðin af í grein, ‘Um Finnbogarímu fær-
eysku’, sem birtist í Skírni 1963, bls. 46-58. Finnboga ríma er prent-
uð í sjö gerðum, auðkenndum A-G, í F<þroya kvœði . . . Herausge-
geben von Chr. Matras, Band II, Kopenhagen 1941, bls. 146-162.
í rímunni er Finnbogi færeyskur maður og býr í Sikilsoy (Siglisoy eða
Siguloy eftir gerðum), sem Jóhan Hendrik sýnir fram á að sé auk-
nefni á Nólsey, notað í kveðskap. Efni er staðfært með þeim ágætum,
að allir mundu hiklaust telja rímuna orta eftir færeyskri sögn, sem
meira að segja fengi stuðning af vitnisburði fornminja,1 ef sagan væri
ekki til.
Efni það sem Finnboga ríma er ort af er í 12.-17. kapítula Finn-
boga sögu, sjá íslenzk fornrit XIV, bls. 276-286. í þessum kafla eru
notuð þrjú sagnaminni: A Maður gistir hjá ræningja. Að kveldi skipta
þeir með sér verkum, ræninginn sækir vatn, en gesturinn kveikir eld.
Ræninginn ætlar að vega gestinn, en gesturinn sér við honum og
drepur hann. B Söguhetja verður að leysa höfuð sitt með því að
glíma við blámann. C Söguhetja verður að leysa höfuð sitt með því
að þreyta sund við hvítabjörn. í öðrum sögum koma þessi minni fyrir,
A í Hallfreðar sögu og Áns sögu bogsveigis,2 B í Kjalnesinga sögu og
víða annars staðar,3 C í Vilmundar sögu viðutan.4
1 Skírnir 1963, bls. 48: ‘Þegar menn voru að grafa í Álvab0, komu þeir niður
á bæjarrúst. Þar fannst m. a. talsvert af brunnum viði og í eldstónni brot af eir-
potti.’ Sbr. Finnboga rímu D og E, 38-39.
2 ísl. fornrit VIII, bls. 169-171, Fornaldar sögur Nordrlanda . . . útg. af C. C.
Rafn, II, bls. 345-346.
3 ísl. fornrit XIV, bls. 35-37; Helgi Guðmundsson, Um Kjalnesinga sögu . . .
Studia Islandica 26, § 2.47; Inger M. Boberg, Motif-lndex of Early Icelandic Lit-
erature, Bibliotheca Arnamagnæana XXVII, H1166.1.
4 Late Medieval Icelandic Romances IV, Ed. by Agnete Loth, Editiones Arna-
magnæanæ, Ser. B, vol. 23, bls. 169-170.