Eimreiðin - 01.01.1952, Qupperneq 66
54
FIMMTlU ÁRA MINNING
EIMREIÐIN
Undirbúningurinn. Benedikt Jónsson, frændi minn, á Auðnum
skrifaði mér langt og merkilegt bréf, dagsett 28. marz 1901, þar
sem hann skýrir fyrir mér, hvað söngurinn og kvæðin hafi mikla
þýðingu á slíkri samkomu sem þessari, og því þurfi að vanda
sérstaklega vel allt þar að lútandi. Má svo heita, að bréf þetta
sé skipulagning samkomunnar framsett. Ég skrifaði þeim, sem ég
bezt treysti í sveitunum í kring, Reykjadal, Köldukinn og Fnjóska-
dal, sendi þeim söngprógrammið og kvæðin, sem ég bjóst við
að farið yrði með á héraðshátíðinni. Bað þá að æfa fjórraddaðan
söng, sem seinna yrði svo samæfður. Þetta fékk góðar undirtektir.
Um sumarið, litlu fyrir samkomuna, komu svo allir flokkarnir
saman, og var æft af kappi í kirkjunni á Ljósavatni. En vegna
fjarlægða söngfólksins, sem dreift var um fjórar sveitir, gátu
ekki orðið margar æfingar — aðeins tvær eða þrjár. En það man
ég, að öllum þótti gaman að syngja og vinna sem bezt að þessu
áhugamáli okkar allra. — I flokknum voru 45 manns — karlar
og konur, og fremur góðir söngkraftar, eftir því sem þá gerðist,
og mér virtist ég ná góðum tökum á þessu fólki til samtaka og
hlýðni.
Hátíðin. Þá rann upp hinn mikli hátíðisdagur, 21. júní, bjartur
og fagur, og hélzt gott veður allan daginn. Mér er þessi dagur
mjög minnisstæður, vegna þess starfs, er ég hafði með höndum,
— að stjóma söngnum. Mér er sérstaklega fyrir minni, þegar ég
var búinn að stilla okkur upp á söngpallinn neðan við kirkjuna
á Ljósavatni. Fólksfjöldinn var fyrir neðan túngarðinn og skipaði
sér í flokka hver úr sinni sveit, með fána, er borinn var fyrir.
Sigurður Jónsson í Yztafelli gekk fyrir Ljósvetningum, sem var
fyrsti flokkurinn, er gekk inn um garðshliðið. Og þá var svo
fyrir mælt, að við syngjum móttökusönginn með laginu „Frjálst
er í fjallasal“, þrjú erindi, eftir Steingr. Thorsteinsson. Það var
vissulega „stemning" og hrifni í þessu einbrotna, litla lagi, sem
mörgum, er þarna voru, var lengi minnisstæð. Minni voru flutt
mörg og alltaf söngur á milli, sem bezt átti við, svo sem minni
héraðsins, minni íslands, minni gesta, minni konungs og fleiri,
sem ég er búinn að gleyma. Margir stigu í stólinn og fluttu minni
og ræður. Man ég sérstaklega eftir Sigurði í Yztafelli (sem ég
hygg að hafi verið aðalstjórnandi samkomunnar), Guðmundi á
Sandi og Matthíasi Jochumssyni. Guðmundur á Sandi byrjaði ræðu
sína þannig: „Ég lét klippa höfuðhár mitt, svo enginn gæti haft
hendur í hári mínu út af því, sem ég kann að segja hér.“ Þá var
hann upprennandi stjarna héraðsins í ræðu og skáldskap. Ég man