Nýja stúdentablaðið - 01.12.1962, Page 6

Nýja stúdentablaðið - 01.12.1962, Page 6
6 NÝJA STÚDENTABLAÐIÐ VIÐTÖL VIÐ Við notum okkur það tilefni, sem gefst með 30 ára afmæli blaðsins til að bregða venju og hafa tal af þremur mönnum, hverjum frá sínum áratug og biðjum þá að segja frá Félagi róttækra stúdenta og stúdentalíf- inu á þeirra skólaárum. I. tugur. Ég er búin að ganga um og leita að fulltrúa I. áratugs, en allir bera fyrir sig minnisleysi. Hitti ég þá ekki fyrir mér Pál Hallgrímsson, sýslumann á Selfossi, á hraðgöngu inn Laugaveginn. Ég sé ekki lengur ástæðu til þess að út- lista erindið og fæ hann til að tala laust og fast langt inn fyrir Martein, en þá er líka öllum vinskap lokið — í bili. Hvað ertu alltaf að klifa um þetta Félag róttækra og Nýja stúdentablaðið? Ertu allt í einu orðin blaðakona í dag, eða hvað? Farðu sem fyrst og lengst norður. Ég ætti kannske að tala við þig með tveim hrútshornum, en ég segi ekki orð. Af og frá. Þetta félag og þetta blað var mér til einskis annars en raunar og minnkunar á sínum tíma. Á ég að trúa því, að þessum ósköpum sé haldið gangandi enn þann dag í dag? Ja, þeim er ekki fisjað saman, blessuðum stúdentunum, nú, kannske fer því bet- ur. Segirðu að ég sé orðinn gamall, kindin mín? Var Snorri eldri eða yngri en Salómon? Kemur þetta málinu ekki við ? Svo. Ég sé þó ekki betur en, að þú sért samstundis að verða allt að því sjálflýsandi af eintómum skilningi. Þú skilur og sérð, að ég er í þann veginn að verða yngri en þú. Þóknast þér þessi bylgjulengd? Ég býst við að þú sláist hér upp á mig svo sem eins og í krafti þess, að 1. desember fer í hönd, og þá sé margt leyfilegt. Gott og vel. Þú spyrð um heldri menn í hópi stofnenda félagsins. Finnst þér rétt, að ég fari að nefna nöfn? Heldurðu að þeir hafi ekki rænu á að minna á sig sjálfir, blessaðir, eins og betur mundi eiga við, sitjandi í helztu trúnaðarstöðum mannfélagsins. Og þó. Soðbollar og silfurker. Á eins augnabliks alvörustund má minnast þess, að til voru einnig þeir, sem gengnir eru veg allrar verald- ar löngu fyrir aldur fram. Aðstandendur og nokkrir gamlir góðkunningjar muna enn vel Björn Sigurðsson, Eirík Magnússon, Gunnar Cortes, Helga Laxdal og Steingrím Pálsson, en hvað segja þessi nöfn þér? Líklega ekkert. Þó táknuðu þau, á sínum tíma, inntak allrar lífshamingju ungs fólks, góðra manna og kvenna, en við lifum tilgangs- lítið: „Týnist arfur æskumanns, — óskin djarfa blundar, — gáfur, starf og guðmóð hans — gleypa þarfir stundar.“ Hver sagði þetta? Þjóðskáld. Ónei, bara íslenzk sveita- stúlka, en hún var stúdent að guðmóði, og svo var hún tvitug og gáfuð eins og þú! ÞRJÁ MENN Nú jæja, á þetta ekki við. Ef þú endilega vilt, getum við snúið okkur aftur að þessu leiðinlega félagi og verra blaði. Ef nokkurt sérstakt tilefni var til stofnunar þessa félags, þá dettur mér helzt í hug, að það hafi verið kvikn- un og uppgangur nazista á þeim tíma, og skuggalegt gengi þeirra meðal Sjálfstæðismanna. Félag róttækra átti að verða sameiginlegur vettvangur allra andstæðinga þeirrar hreyfingar. Þetta gekk sæmilega til að byrja með. Ég er ekki frá því, að félagið hafi einhvern tíma haft meiri- hlutaaðstöðu í Stúdentaráði. öndvegismaðurinn Benedikt Tómasson mun hafa verið fyrsti formaður þess, en þetta tók leiðinlegan endi eftir fá ár. Kommúnistar voru auð- vitað náttúru sinni trúir og settu sér fyrir að leggja okkur hina undir sig, en það gekk ekki. Til þess voru þeir of klunnalegir. Ég man glöggt eftir minni síðustu rimmu í félaginu. Þá var þessi setning sögð, og hún er orðrétt: „Ég veit ekki betur en að þetta félag hafi ævinlega átt að vera grímubúið kommúnistafélag." Þá var mér rúm- lega nóg boðið. Ég gekk úr félaginu og ýmsir fleiri. Síðan veit ég ekki meir. Og þó. Síðan veit ég miklu meira um ofstæki og hárvissu heimskunnar, sérgæði og óheilindi, en það var ekki þetta, sem tengdi okkur saman á háskóla- árunum, og sízt af öllu voru þetta hugsanirnar 1. des- ember. Við vorum skemmra en þið á leið komin frá 1918. Við fögnuðum enn frelsinu um fram allt, og við trúðum á ódauðlega framtíð þess. Nennirðu enn að jarma um þetta félag. Forsjónin hjálpi þér og því, ef enginn man um það betur en ég. Ég veit ekkert — alls ekkert — um samanburð á stúdentahugsun nú og þá. Ætli hún sé ekki í mörgu nokkuð söm við sig. Við ræddum um pólitík og skáldskap af miklum móði, og menn gaumgæfðu af ótrúlegri þolinmæði mismuninn á því að ganga í hring um grautinn eða í kring um hann. Menn voru latir og óreglusamir, kappsfullir og samvizkusamir, sitt á hvað, en lengstum bálskotnir. Má ekki kannast við þetta enn? Ég held að helztu vandkvæði minna deildar- félaga í Háskólanum hafi verið skortur á námsbókum. Stofnunin var auðvitað ung. Þetta hefur sjálfsagt lagazt mikið síðan. Það mætti segja mér, að stúdentar vinni betur nú en við gerðum í minni tíð. Hef ég ekkert út á ykkur að setja? Hví skyldi ég þurfa að hafa það? Eplið fellur ekki langt, en það má fleygja því burt, hvert sem vill. Auðvitað eruð þið ekkert annað en lifandi eftirmynd okkar kynslóðar, sáð og uppskera. Þó sakna ég nokkurs. Ég sakna þess að heyra íslenzka stúdenta fjalla um efni dagsins. Eigum við að leggja ís- lenzkt sjálfstæði á vogarskál og meta til gulls; eigum við

x

Nýja stúdentablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Nýja stúdentablaðið
https://timarit.is/publication/608

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.