Búnaðarrit - 01.01.1997, Side 9
BÚNAÐARRIT 1997
1. Inngangur
Árið 1997 var hagstætt íslenskum þjóðarbúskap. Flestar greinar landbúnaðarins nutu þess
og nam heildarverðmæti landbúnaðarafurða 17,6 milljörðum króna samkvæmt verðmæta-
áætlun Framleiðsluráðs landbúnaðarins. Sú þróun hélt áfram að ríkisútgjöld til land-
búnaðarins lækkuðu og heildarstuðningur við landbúnað hér á landi lækkaði einnig að mati
OECD.
Árið 1997 var stundaður búskapur, þ.e. jarðyrkja, garðyrkja eða búfjárrækt á 3.807 búum
sem skráð eru með virðisaukaskattsnúmer. Alls störfuðu 5.900 manns í landbúnaði á árinu
og hlutur hans í landsframleiðslu var talinn vera 2%.
Fleildarsala á kjöti jókst um 1,5% og var alls um 16.600 tonn. Þetta svarar til 61,2 kg
neyslu á íbúa. Mest aukning varð á sölu alifuglakjöts, 16,3%, og svínakjöts, 4,9%. Sala á
mjólkurvörum reiknuð út frá próteininnihaldi nam 102,7 milljónum lítra eða um 379
lítrum á íbúa. Er það ívið meira en árið á undan og kemur þar til aukin sala á osturn og
jógúrtvörum. Framleiðsla á grænmeti og gróðurhúsaafurðum var yfirleitt í góðu meðallagi,
þó bitnuðu langir dimmviðriskaflar illa á paprikurækt. Kartöfluframleiðsla var sömuleiðis í
meðallagi. Vegna efnahagskreppunnar í SA-Asíu lækkaði verð á loðskinnum eftir nokkurn
bata á árinu 1996, sem kemur illa við veika stöðu loðdýraræktarinnar.
Mörg mikilvæg mál, sem varða landbúnaðinn, komu til afgreiðslu Alþingis á árinu 1997.
Má þar nefna setningu laga um búnaðargjald, Lánasjóð landbúnaðarins, breytingar á lögum
um Lífeyrissjóð bænda og breytingar urðu á ákvæðum um verðskerðingargjöld í búvöru-
lögum. Þá var í árslok gengið frá samningi um starfsumhverfi mjólkurframleiðslunnar til
loka verðlagsárs árið 2005.
Ljóst er að landbúnaðarstefnan hér á landi mun á næstu árum að nokkru leyti mótast af
niðurstöðu næstu samningalotu innan Alþjóða viðskiptastofnunarinnar. Sóknarfæri íslensks
landbúnaðar eru meðal annars fólgin í því að framleiða hollar og hreinar afurðir, í hreinu og
ómenguðu umhverfi. Þessa stöðu þarf að styrkja og kynna neytendum. Ennfremur þarf að
skilgreina og viðurkenna fjölþætt hlutverk landbúnaðarins í byggða-, atvinnu- og umhverfis-
málum og hafa að leiðarljósi við mótun landbúnaðarstefnunnar í upphatí nýrrar aldar.
7