Heilbrigðismál - 01.09.1985, Blaðsíða 4

Heilbrigðismál - 01.09.1985, Blaðsíða 4
Þúsundir mannslífa í veði Okkur stendur ógn af krabbameini. Enginn kemst hjá því að kynnast beint eða óbeint þeim hörmungum sem þessi sjúkdómur veldur. Flest kjósum við að loka augun- um og leita á vit gleymskunnar. Einhver annar verður að takast á við vandann. En hvað gerir þú lesandi minn ef þér er falið að hafast eitthvað að sem máli skiptir til að berja á þessum sjúkdómi? Þú leggst undir feld og hugsar ráð þitt. Þú sérð að vandamálið er stórt. Rúmlega 700 Islendingar kynnast krabbameini í líkama sínum á ári hverju. Hnípnir vandamenn og vinir skipta þúsundum. Og vandinn er mikill. Það er við slægan óvin að etja og þú þekkir ekki lögmál hans. Eða hvað? Þekkir þú ekki eina orsök og þá sem mest munar um? Þér hleypur kapp í kinn undir feldinum. Neysla tóbaks veldur allt ad þriðj- ungi krabbameina. Það munar um minna. Aftur er um að ræða hundruð sjúklinga og þúsundir vandamanna. En nú snýst málið um að firra þá kynnum við krabbameinið. Þessi uppgötvun þín gerir þig samábyrgan. Þú mátt ekki sofna undir feldinum. Nú höfum við verk að vinna. En hvað hefur verið gert í málinu fram að þessu? spyrð þú. Merkileg tíðindi hafa gerst. Alþingi samþykkti ný lög um tóbaksvarnir á Islandi og þau öðluðust gildi um síðustu áramót. Hvað með það? heyrist í þér undan feldinum. Þar með hafa heilbrigðisyfirvöld tekið af skarið. Tóbaksvarningur er banvæn neysluvara og nú merktur í samræmi við það. Þessi aðgerð hefur mælst misjafnlega fyrir. Innanlands höfum við skiptst á skoð- unum um kosti og galla slíkrar löggjafar. I hjarta okkar erum við þó sannfærð um að heilsunni er betur borgið án tóbaksneyslu. Erlendis er annað uppi á teningnum. ísland er allt í einu í fararbroddi með aðgerðir gegn þessari farsótt ávanans sem árlega sviptir milljónir jarðarbúa heilsu og lífi. Við erum talin eiga betri möguleika en nokkur önnur þjóð að losna undan þessu oki. Þar fylgjast að smæð þjóðarinnar og góð menntun hennar. Þegar kaldar staðreyndir liggja fyrir tökum við tillit til skynseminnar. Við stöndum saman þegar á reynir. Við sköpum for- dæmi. Gott fordæmi. En er björninn þá ekki unninn?, heyrist í þér undan feldinum. Ónei! Nú komum við að vandamálinu okkar. Það eru miklir hagsmunir í veði fyrir aðra. Tóbaksfram- leiðendur hafa illan bifur á tiltæki íslendinga. Mjög illan. Neytendamarkaðurinn hér er óverulegur og fram- leiðendur munar ekki hót um hann. Þá munar heldur ekki um að gefa tóbak út á þetta sker til að viðhalda neyslunni. Er nú ekki heldur barnalegt að óttast þetta? - heyrist undan feldinum. Ja, hver eru viðbrögðin? Nú flœða inn á íslenskan markað ódýrar sígarettur sem á nokkrum mánuðum hafa orðið söluhœstar. Allt í einu eru reykingar orðnar ódýrari óhollusta en fyrir ári síðan. Þessar sígarettur eru jafnvel seldar undir vöruheitum sem enginn kannast við utan myrkviða Afríku. Þannig reyna tóbaksframleiðendur að gera lítið úr áhrifum lög- gjafarinnar svo að aðrar þjóðir fari ekki að fordæmi okkar. Og enn eigum við undir högg að sækja. Nú heyrast raddir um að rétt sé að ríkið sleppi því taki sem það hefur haft á dreifingu og sölu tóbaks. Þrátt fyrir ný- breytnina yrðu ríkissjóði tryggðar óskertar tekjur af tóbaksneyslu í landinu. Með því að einblína aðeins á stundarhagsmuni ríkissjóðs firra menn sig þeirri ábyrgð að horfa á vandamálið í heild sinni. Engin ákvœði eru til um lágmarksverð tóbaks. Ef sömu markaðslögmál eiga að gilda um tóbaksvörur og aðrar neysluvörur, hvað varðar sölu og dreifingu, má búast við að þær verði boðnar á tilboðsverði og þá helst þar sem unga kynslóðin leggur leið sína. Augljóst er hvað af því leiðir. íslensk þjóð mun ekki fitna af viðskiptum sínum við tóbaksfram- leiðendur og bandamenn þeirra. Einnig er ljóst að gróði ríkissjóðs mun rýrna þegar að afborgunum kemur. í grein hér í blaðinu lesum við að á fimmta þúsund íslendingar muni látast af völdum reykinga á næstu 15 árum. Hvað heldur þú að það kosti ríkissjóð að hjálpa þessu fólki við að deyja? Er ekki mál að linni? Þú sérð að það er tímabært að þú komir undan feldinum. Við eigum verk að vinna! 4 HEILBRJGÐISMÁL 3/1985 Svala Jónsdónu

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.