Heilbrigðismál - 01.09.1998, Blaðsíða 11

Heilbrigðismál - 01.09.1998, Blaðsíða 11
Langvinn lungnateppa Hinn þögli vágestur 1 eðlilegu lunga er fyrirstaða gegn loftflæði aðallega í barka og berkjum, sem hafa það starf að leiða loft út í lungnablöðrurnar. Lofthraði er mikill í barkanum, sem er um 2,5 fersentimetrar að þverskurðarflatarmáli, en hraðinn verður lítill þegar kemur að lungnablöðrunum þar sem þverskurðarflatarmál er orðið 180 fersenti- metrar. Samanlagt innra borð sjálfra lungnablaðranna í meðalmanni er ótrúlega stórt eða um 70 fermetrar, en það er álíka og badmintonvöllur. Þegar kemur að lungnablöðrunum og inni í þeim er loftflæði því mjög hægt. Þar fer hin eiginlega öndun fram. Þeir sjúkdómar sem tilheyra langvinnri lungnateppu eru iungnaþemba (emphysema) og hægfara berkju- bólga (krónískur bronkítis). Rannsóknir síðari ára hafa staðfest að reykingar eru orsök þeirra í flestum tilvik- um. Sjúkdómsbreytingarnar verða fyrst og fremst í lungnablöðrunum og í minnstu berkjunum sem að þeim liggja. Báðir þessir sjúkdómar hindra loftflæðið en vegna lítils hraða loftsins gætir hindrunarinnar eða teppunnar ekkert í fyrstu og framanaf mjög lítið þrátt fyrir talsverðar vefjaskemmdir. Þegar fólk fær að lok- um dæmigerð einkenni byrjandi lungnabilunar, hósta með uppgangi og mæði, eru vefjaskemmdir yfirleitt orðnar svo miklar og varanlegar að ekki verður aftur snúið. Það eina sem hægt er að ráðleggja sjúklingi þá er að hætta reykingum í þeirri von að ástandið versni ekki. Annars er voðinn vís. Langvinn lungnateppa er algeng á íslandi og er áætl- að að hverju sinni séu að minnsta kosti 150 manns bundnir heima og óvinnufærir en með súrefniskút sér til bjargar. Líklegt er að hverju sinni séu um 50 manns vistaðir á sjúkrahúsum landsins af sömu ástæðu. Ekki aðeins valda þessir sjúkdómar mikilli örorku heldur eru þeir algeng dánarorsök fólks á íslandi. Undanfarin ár hafa um og yfir 40 manns dáið ár hvert af þessum sökum. Alþjóðabankinn og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hafa kannað helstu dánarorsakir fólks um heim allan og eru langavinnar lungnateppur núna í sjötta sæti. Ef fer sem horfir verða þær í þriðja sæti árið 2020. Stofn- anirnar leggja áherslu á að eina leiðin til þess að forð- ast þessar hörmungar sé að vinna gegn reykingum. í könnuninni kom einnig í ljós að hjá þrem af hverjum fjórum sjúklingum með þessa sjúkdóma höfðu þeir ekki verið greindir og sjúklingarnir því ekki vitað um ástandið. Fram til þessa hefur verið talið að morgunhósti og slímuppgangur almennt væri eðlilegur fylgifiskur reykinga og að verra væri ekki í vændum. En því mið- ur er þetta ekki rétt og eru því milljónir manna sem reykja núna að fljóta sofandi að feigðarósi. Lengst af hafa langvinnar lungnateppur verið yfir- gnæfandi karlmannasjúkdómar. En nú hefur annað komið í ljós, því tíðni fer ört vaxandi meðal kvenna, enda voru reykingar þeirra lengi vel í örum vexti jafn- framt því sem aukning hefur verið minni á meðal karla. Ekki hefur reykingakonum aðeins fjölgað mikið heldur hefur líka sannast að konur eru næmari en karl- ar fyrir skaðlegum áhrifum tóbaks. Nýleg könnun á íslandi á efnivið frá Rannsóknastöð Hjartaverndar og Krabbameinsskrá Krabbameinsfélagsins leiddi í ljós að reykingar sem áhættuþáttur lungnakrabbameins eru afdrifaríkari hjá konum en körlum (Heilbrigðismál 2/1998). Því er hér mikið verk að vinna fyrir konur þessa lands að taka höndum saman gegn reykingum og ekki síst á meðal kynsystra sinna. Jónas Hallgrímsson prófessor. Samanlagt innra borð lungnablaðranna í meðalmanni er ótrúlega stórt eða um 70 fermetrar, en það er álíka og badmintonvöllur Langvinn lungnateppa er algeng og er áætlað að hverju sinni séu 150 manns óvinnufærir en með súrefniskút sér til bjargar HEILBRIGÐISMAL 3/1998 11

x

Heilbrigðismál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Heilbrigðismál
https://timarit.is/publication/638

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.