Sameiningin

Árgangur

Sameiningin - 01.05.1948, Blaðsíða 7

Sameiningin - 01.05.1948, Blaðsíða 7
Sameiningin 69 hurð nærri hælum hvað sjálfan hann snerti í það sinn, því að ráðið hafði verið, að hann færi með skútunni, en var, þegar til kom, hindraður frá því að fara þá ferð. Eignatjónið lét hann þó lítt á sig fá, enda voru aðdrættir slíkir í presta- kalli hans, að harla fljótt var unnt úr því að bæta. Hitt var honum stórum þungbærara, að á síðasta áratug ævinnar átti hann við veikindi og oft miklar þjáningar að stríða. En hetjulega bar hann þær raunir sínar, og orti bæði ný kvæði og ljóðabréf og endurskoðaði eldri kvæði sín sér til hugar- hægðar og dægrastyttingar. Er því auðsætt, að hann hefir haldið andlegum þrótti sínum og áhuga fram til hins síðasta. Hann andaðist síðsumars árið 1707, rétt sextugur að aldri. Harmaði hann stór hópur ættmenna og vina, og eigi varð hann Hálogalendingum síður harmdauði, og létu þeir í ljós sorg sína með fágætum og varanlegum hætti, því að frá dánarári hans var það almennur siður að sauma svartan bleðil í ráseglið á fiskiskipum þeirra; leið meir en hálf önn- ur öld áður en síðasta sorgarmerkið af því tagi hvarf úr seglum Hálogalendinga í Alstahaug-prestakalli. Þá er Petter Dass lézt, hafði svo að kalla ekkert af skáld- skap hans komið fyrir almenningssjónir á prennti; eigi að síður hafði hann um sína daga unnið sér skáldfrægð, bæði á Hálogalandi og annarsstaðar í Noregi, því að kvæði hans höfðu víða farið í afskriftum, og eru eigi all-fáar þeirra enn við lýði. Hefir hann auðsjáanlega notið mikillar hylli sem tækifæriskvæðaskáld, því að hann orti margt af slík- um kvæðum, svo sem brúðkaups- og erfiljóð, en þau eiga, eins og verða vill löngum um þesskonar kveðskap, harla lítið gildi, þó að þar bregði stundum fyrir skáldlegum leiftr- um og sérkennandi fyrir höfundinn. Öðru máli gegnir um þann skáldskap hans, hvort heldur er um veraldleg eða andleg efni, sem ortur er út frá eigin reynslu hans og af innri þörf, á sér rætur í brjósti hans og tilfinningum. Þau kvæði hans og sálmar bera svip hins sterka persónuleika hans og djúpa innileika, skera sig að því leyti úr öðrum kvæðum samtíðarinnar, og eru af þeim ástæðum lífrænn skáldskapur, sem tryggja höfundinum heiðurssess meðal norskra öndvegisskálda. Yfir þeim skáld- hans er ferskur blær og hressandi, frjálsleiki og hispursleysi, og þar lýsir sér einnig hin næma tilfinning hans fyrir máli og hrynjandi, en samræmar málmyndir og bragarhættir sérkenna hið bezta í skáldskap hans, lipurð og léttleiki.

x

Sameiningin

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sameiningin
https://timarit.is/publication/673

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.