Morgunblaðið - 14.12.2008, Blaðsíða 18
18 Tengsl
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14. DESEMBER 2008
Anna Sigríður „Gunnar er annar
sonur minn, fæddur ’71. Hann var
ákaflega ljúfur og glaðlegur frá
upphafi, en þó sýndi hann snemma
að hann gat verið harður af sér.
Þegar hann var barn, fékk hann
eyrnabólgur hvað eftir annað, hann
kvartaði þó ekki né grét, ekki fyrr
en vall út úr eyranu á honum og
hljóðhimnan sprakk. Allt frá barns-
aldri hefur hann verið uppá-
tektarsamur prakkari og hann hef-
ur alltaf haft gaman af að stríða og
grínast. Þegar hann var smástrák-
ur stalst hann fram úr rúminu á
hverju kvöldi. Það gerði eldri bróð-
ir hans hinsvegar aldrei heldur lá
hann í sínu rúmi og tilkynnti:
„Gunnar er kominn framúr rúm-
inu“. Gunnar fór að dyragættinni
og beið þar, ef enginn kom til að
stoppa hann, fór hann fram í stofu
og slökkti á sjónvarpinu. Svo hljóp
hann beint upp í rúm aftur! Þetta
dundaði hann við þegar hann var
rétt nýfarinn að ganga. Hann hefur
aldrei verið mjög háður okkur for-
eldrum sínum, hann varð snemma
vinmargur og eignaðist ungur vini
fyrir lífstíð.“
Dýpri skapgerð á sviðinu
„Hann var varla kominn af
barnsaldri þegar hann ákvað að
verða leikari. Ég man að hann og
vinir hans lögðu á minnið heilu
kaflana úr áramótaskaupinu, sjón-
varpsþáttum og kvikmyndum og
höfðu það eftir í tíma og ótíma.
Hann var ungur þegar hann kom
fram í óperunni La Bohème í Þjóð-
leikhúsinu ásamt eldri bróður sín-
um.
Honum fannst leikhúsheimurinn
strax mjög heillandi. Kannski var
það þessi reynsla sem kveikti í hon-
um eða að minnsta kosti ýtti undir
leikaradrauminn. Ég kynntist hon-
um allt öðruvísi eftir að hann fór að
leika, þá sýndi hann meiri dýpt í
skapgerð og tilfinningum en ég átti
að venjast. Hann varð svo snemma
jákvæður og glaður en á sviðinu
hef ég séð hann bæði særðan og
reiðan. Hann er mjög hug-
myndaríkur einsog sjá má á sjón-
varpsþáttunum Sigtinu sem hann
samdi ásamt yngri bróður sínum og
vinum. Ég hef persónulega mjög
gaman af þeim þáttum.“
Leitaði gleðinnar í golfi
„Hann byrjaði ungur að stunda
golf, var bara 9 ára gamall þegar
hann fór að fara með ömmu sinni á
golfvöllinn. Ellefu ára fór hann holu
í höggi og svo aftur, þegar hann
var skiptinemi í Bandaríkjunum.
Hann lætur hluti oft yfir sig
ganga, einsog fram hefur komið, þá
á ég við að hann sætti sig stundum
við of margt. Þegar hann var
skiptinemi í Bandaríkjunum lenti
hann hjá miður góðu fólki. Hann
hefði getað skipt en vildi það ekki.
Pabbi hans heimsótti hann og leizt
ekki á. En Gunnar tók þá ákvörðun
að þreyja, hann hafði eignaðist sína
vini í golfliði skólans sem hann var
í og var ánægður þar. En hann
varð aldrei hluti af fjölskyldunni
sem hann bjó hjá. Þegar hann fór
að heiman, var hann bara svona
mátulega snyrtilegur í umgengni
einsog gerist með unglinga, en
þarna fyrir vestan ákvað hann að
hafa herbergið sitt alltaf fínt og
strokið til að vinna upp á móti
draslinu á heimilinu þar sem hann
var og þar átti hann sitt athvarf.
Hann hefur aldrei haft samband við
þessa fjölskyldu í Bandaríkjunum
síðan.
Mér hefur ekki alltaf fundizt gott
hvað hann lætur yfir sig ganga, en
sannarlega sýnir hann það oft að
hann hefur bein í nefinu. Hann
gengur ákveðinn fram í því sem
hann vill sjálfur og þótt hann sé
umburðarlyndur með afbrigðum, þá
lætur hann alls ekki ganga alveg
yfir sig. Hann getur líka sett fólki
mörk, en þegar hann gerir það
brosir hann blíðlega og segir: Hing-
að og ekki lengra, þetta gengur
ekki. Þá þýðir heldur ekkert að
ætla að ganga lengra með hann. Ef
hann tekur stefnuna á eitthvað fer
hann þangað hægt og rólega. Hann
hefur alltaf verið bjartsýnismaður,
miklu bjartsýnni en ég. Þegar mér
finnst hann of bjartsýnn og fer að
vara hann við þá horfir hann bara
blíðlega á mig og segir: „Mamma
mín veiztu, það hefur alltaf borgað
sig fyrir mig að vera bjartsýnn og
ég fer ekki að breyta til núna.““
Ótrúlega utan við sig
„Þegar ég varð sextug fórum við
öll fjölskyldan til Ítalíu og þar kom
í ljós þessi gríðarlegi áhugi hans á
vespum. Þegar við hin fórum heim,
urðu þau hjón eftir og heimsóttu
verksmiðjuna sem framleiðir vesp-
ur. Þar sannfærði Gunnar framleið-
endurna um að það yrði að flytja
vespur til Íslands og að bezt færi á
því að hann gerði það sjálfur. Ég
veit að það er ekki allt komið í ljós
sem býr í Gunnari. Hann býr yfir
svo margháttuðum hæfileikum
einsog reyndar bræður hans líka.
Það kæmi mér ekki á óvart þó að
þeir ættu eftir að hasla sér völl á
nýjum sviðum.
Gunnar getur stundum verið
ótrúlega utan við sig. Þegar ég tala
við hann í síma verð ég alltaf að
spyrja hann hvort hann sé við tölv-
una eða að horfa á sjónvarpið, því
ef svo er, þá er hann bara með
hálfan hugann við samtalið og
stundum dettur hann alveg út úr
því. Hann er kallaður prófessor
Drövel í fjölskyldunni vegna þess
hve utan við sig hann getur verið.
En svo er hann ótrúlega einbeittur
þegar hann vill það við hafa.“
Hann er alltaf til staðar
„Þeir bræður gera endalaust grín
að mér fyrir það hversu auðtrúa ég
er og skemmta sér yfir því hve illa
mér gengur að muna nöfn og hvað
ég fer vitlaust með nöfn á erlend-
um leikurum og bíómyndum. Þegar
þeir segja mér skröksögur getur
fokið í mig rétt þegar ég fatta það
að þeir voru að grínast, en svo er
það oftast ég sem hlæ manna mest.
Þegar Gunnari líður illa er hann
hljóðlátur og alvarlegur. En ég
man ekki til þess að hafa séð hann
reiðast illa nema þá leikandi á leik-
sviði.
Það er auðvelt að láta sér þykja
vænt um Gunnar, hann er svo góð-
ur drengur. Svo er hann líka ótrú-
lega góður pabbi. Hann á þrjú börn
og sýnir bæði kærleik og ábyrgð
gagnvart þeim. Ég fer stundum til
hans að spjalla og þá tölum við
saman tímunum saman um allt
milli himins og jarðar. Hann er
góður sonur, kemur alltaf vel fram
við okkur foreldra sína og er alltaf
til staðar fyrir okkur. Við eigum af-
skaplega kærleiksríkt samband.“
Uppátektarsamur prakkari
Morgunblaðið/Golli
Eftir Freystein Jóhannsson
freysteinn@mbl.is
Mæðginin Anna Sigríður Pálsdóttir dómkirkjuprestur og Gunnar
Hansson leikari rækta með sér falleg og náin tengsl. Hann flytur inn
vespur og ýtir stöðugt við móður sinni, hversu vel hún tæki sig út á
einni slíkri; sérstaklega í hempunni. En þótt hún vilji allt fyrir drenginn
sinn gera, þá hefur hann ekki unnið prestinn í þessu máli.
Hún fæddist 16. júlí 1947, dóttir Sigrúnar Ástrósar
Eiríksdóttur, verzlunarmanns, og Páls Ísólfssonar,
tónskálds og dómorganista. Hún lauk kennaraprófi
frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1968,
embættisprófi í guðfræði frá Háskóla Íslands í
október 1996 og námi í handleiðslu og hand-
leiðslutækni frá Endurmenntun Háskóla Íslands
2000.
Hún var myndmenntakennari við Barnaskóla Garða-
bæjar 1969-1971; einnig við Hvassaleitisskóla frá
1970-1973. Búsett í London árið 1973-1975. Kennari
við Æfingadeild Kennaraháskólans frá 1975-1985.
Hóf störf hjá fjölskyldudeild SÁÁ í janúar 1985 og
starfaði við meðferðarheimilið að Fitjum á Kjal-
arnesi og hefur líka flutt fyrirlestra og haldið nám-
skeið erlendis um alkóhólisma og fjölskyldutengsl.
Prestur Grafarvogsafnaðar 1997 til þess að hún var
valin prestur í Dómkirkjunni, þar sem hún hóf störf
í byrjun október 2007.
Hún er móðir Árna Páls (kvikmyndagerðarmanns),
Gunnars (leikara) og Ragnars (grafísks hönnuðar)
Hanssona.
ANNA SIGRÍÐUR PÁLSDÓTTIR