Morgunblaðið - 14.12.2008, Síða 39
Samfélagsmál 39
MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14. DESEMBER 2008
Eftir Ragnhildi Sverrisdóttur
rsv@mbl.is
Hvað veldur því að fólk sit-ur við tölvuna sína ogfylgist aðgerðalaust meðungum manni svipta sig
lífi í beinni útsendingu á netinu?
Erum við skeytingarlausari um
náungann núna en áður fyrr?
Bandaríkjamönnum er illa
brugðið eftir sjálfsvíg ungs manns í
Flórída fyrir skömmu. Abraham
Biggs, 19 ára piltur í Flórída, til-
kynnti á spjallþræði að hann ætlaði
að svipta sig lífi með því að taka of
stóran skammt af geðlyfjum. Hann
var með myndavél tengda við tölv-
una sína og allir gátu fylgst með at-
höfnum hans.
Viðbrögðin voru á ýmsan veg.
Sumir efuðust um að honum væri
alvara, hann hefði áður hótað að
svipta sig lífi en ekki látið af því
verða. „Ó, nei, ekki aftur! Þessi
náungi klúðrar þessu.“
Annar skóf ekkert af hlutunum:
„Þeir sem svipta sig lífi fara til hel-
vítis.“ Og sá þriðji hæddist að hon-
um og kallaði hann huglausan.
Og svo voru þeir sem hvöttu
hann áfram, sögðu honum bless-
uðum að drífa í þessu. Eða komu
með góð ráð: „Ef þér væri alvara
myndirðu gera þetta á allt annan
hátt,“ sagði einhver og ráðlagði
hæfilegan skammt lyfja, sem
myndi örugglega draga piltinn til
dauða.
Abraham gleypti pillurnar og
lagðist svo upp í rúm, beint fyrir
framan myndavélina. Fjölmargir
fóru inn á síðuna hans og fylgdust
með gangi mála. Hann sást bæra á
sér, en svo lá hann hreyfingarlaus.
Heimsóknirnar á síðuna hans
héldu áfram um nóttina og margir
sáu ástæðu til að tjá sig um það
sem fyrir augu bar. Og enn voru
viðbrögðin blendin. Sumir lýstu
skelfingu sinni, en öðrum virtist
þykja þetta fyndið.
Þar kom, að einhverjir höfðu
samband við netþjónustuna þar
sem síða Abrahams var vistuð og
málið barst til lögreglunnar. Þá
voru liðnar tíu klukkustundir frá
því að Abrahams lýsti fyrirætlun
sinni og gleypti pillurnar. Lög-
reglan fór inn á heimili hans og enn
gátu áhorfendur við tölvur sínar
fylgst með atburðarásinni. Abra-
ham lá örendur á rúmi sínu, en lög-
reglan kastaði klæði yfir vefmynda-
vél hans, svo útsendingunni lauk
loksins. En athugasemdirnar héldu
áfram. Sumir áhorfendur voru
skelfingu lostnir. OMG! skrifuðu
þeir í athugasemdakerfið (Oh, my
God - Guð minn góður!) en enn og
aftur birtust athugasemdir þeirra
sem létu sig þetta litlu varða og
gerðu jafnvel grín að öllu saman.
LOL! (Laughing out loud -
Skellihlæ!) og „Hahaha!“ var á
meðal athugasemda.
Ábyrgð allra?
Í kjölfar sjálfsmorðsins hafa
vaknað miklar umræður um at-
burðinn. Sumir benda á, að áður
fyrr hefði Abraham ef til vill farið
fram á þakbrún og áhorfendur
staðið á götu niðri og ýmist hvatt
hann eða latt til verksins. Núna
geti hins vegar hver sem er sent út
efni á netinu, en eðli verknaðarins
sé hið sama. Reyndar hafi enginn
getað talað beint við hann til að fá
hann ofan af ætlun sinni.
Múgur hagar sér á annan hátt en
einstaklingar. Sá sem er hluti af
stórum hópi kýs stundum að fylgj-
ast aðgerðalaus með. Og telur sér
trú um að einhver annar hljóti að
taka í taumana. Þetta gerist þegar
fólk verður vitni að glæpum í raun-
heimum. Það hlýtur þá að vera enn
auðveldara að hunsa atburði þegar
þeir eru fjarlægari. Útsending á
netinu kemur engum beint við, eða
hvað?
Bandaríska dagblaðið Los Angel-
es Times hafði eftir sálfræðingi,
sem hefur sérhæft sig í að rann-
saka samskipti ungs fólks á netinu,
að dauði Abrahams væri dæmi um
skuggahliðar netsins. Áhorfendur
hefðu verið nafnlausir og í raun
fjarstaddir þegar Abraham svipti
sig lífi, en hefðu samt fylgst með
atburðarásinni. En sálfræðingurinn
benti líka á, að ef aðeins einn hefði
snúið við blaðinu og hvatt Abraham
mjög til að hætta við fyrirætlan
sína, þá hefði allt eins verið líklegt
að allir hinir hefðu tekið undir.
Þegar Kitty var myrt
Þegar vitni bregðast ekki við
slysi eða glæp tala Bandaríkja-
menn um Genovese-heilkenni.
Nafnið má rekja til þess þegar ráð-
ist var á unga konu úti á götu í
Queens-hverfinu í New York árið
1964. Árásármaðurinn stakk Kitty
Genovese og hún hrópaði á hjálp.
Fjölmargir heyrðu til hennar og
einhver hrópaði út um gluggann á
manninn og sagði honum að hypja
sig. Sem hann og gerði. Áfram
hrópaði Kitty á hjálp, en enginn
sinnti neyðarópum hennar. Árás-
armaðurinn sneri hins vegar aftur
og lauk ætlunarverki sínu.
Þegar lögreglan rannsakaði
morðið kom í ljós að um 40 manns
höfðu heyrt hrópin í Kitty, en allir
ákváðu að best væri að skipta sér
ekki af málinu. Einhver annar hlyti
að koma konunni til hjálpar. Þótt
hægur vandi hefði verið að lyfta
a.m.k. símtóli og láta lögreglu vita
af hrópunum gerði það enginn fyrr
en 35 mínútur voru liðnar frá
fyrstu hnífstungu og Kitty var lát-
in. Hver og einn taldi sig ábyrgð-
arlausan, í stað þess að hver og
einn liti svo á að hann bæri fulla
ábyrgð. Einstaklingarnir földu sig í
fjölmenninu.
Vitnin að morði Kitty Genovese
urðu flest miður sín þegar þau átt-
uðu sig á hvaða afleiðingar að-
gerðaleysi þeirra hafði haft. Búast
má við að margir þeirra, sem fylgd-
ust með síðustu andartökum Abra-
hams Biggs, eigi eftir að kljást við
svipaðar tilfinningar um aldur og
ævi. Þar varð hann sannspár,
morðingi Kitty Genovese, sem
reyndi að sannfæra náðunarnefnd
um að sleppa sér úr fangelsi með
þessum sérkennilega sjálfhverfu
rökum: „Fyrir fórnarlambið er
þetta bara einu sinni, í eina klukku-
stund eða eina mínútu. En fyrir
þann sem næst er þetta að eilífu.“
Sem sagt, fórnarlambið sleppur
vel, en gerandinn þarf að líða. Sem
og vitnin, væri líklega hægt að
bæta við.
Náðunarnefndin fylltist ekki
samúð með morðingja Kitty þrátt
fyrir ábendinguna. Hann kom fyrir
nefndina í þrettánda sinn í mars sl.
og var enn hafnað.
Þótt aðdragandi dauða Abra-
hams Biggs veki mörgum óhug er
samt að finna dæmi þess að út-
sending á netinu hafi bjargað fólki í
neyð. Los Angeles Times nefnir að
árið 2005 hafi kona fótbrotnað
mjög illa þegar hryssa sparkaði í
hana. Hryssan hafði rétt lokið við
að kasta folaldi og eigandinn hafði
sýnt þann atburð á netinu. Um leið
og hryssan sparkaði í konuna og
slasaði hana hófust linnulausar
hringingar til lögreglu og sjúkra-
liðs á svæðinu, sem brást við skjótt.
Það er því vísast of snemmt að
spá fyrir um algjört sinnuleysi
gagnvart meðborgurunum.
Látinn Abraham Biggs átti við geðræn vandamál að stríða. Hann var 19 ára
þegar hann svipti sig lífi.
Dauði á tölvuskjá
Umsókn um greiðslujöfnun
fasteignaveðlána
Greiðslujöfnun er úrræði fyrir lántakendur til að létta greiðslubyrði verðtryggðra lána þar til kaupmáttur eykst að
nýju. Vakin er sérstök athygli á því að greiðslujöfnun lána mun leiða til aukins vaxta- og verðbótakostnaðar á
lánstíma þar sem í henni felst frestun afborgana að hluta. Hægt er að óska eftir afnámi greiðslujöfnunar á lánum
hvenær sem er og mun þá sú upphæð sem safnast hefur á jöfnunarreikning leggjast við höfuðstól lánsins og
greiðast á eftirstöðvum lánstíma.
Umsóknir um greiðslujöfnun eru á vefsíðu Íbúðalánasjóðs, www.ils.is.
Starfsfólk Íbúðalánasjóðs er einnig reiðubúið til að veita viðskiptavinum aðstoð við umsóknir.
Skilyrði fyrir greiðslujöfnun er að lán sé í skilum, ekki í frystingu og ekki með greiðslujöfnun frá fyrri tíð.
Allir sem eru með verðtryggð fasteignaveðlán hjá opinberum lánastofnunum,
lífeyrissjóðum eða öðrum fjármálafyrirtækjum með starfsleyfi hér á landi eiga rétt
á greiðslujöfnun, uppfylli þeir skilyrði laganna. Lántakandi skal koma umsókn
sinni á framfæri við viðkomandi lánastofnun og skal hún vera umsækjanda að
kostnaðarlausu.
www.ils.is Borgartúni 21, 105 Reykjavík
Sími: 569 6900, 800 6969, fax: 569 6800
Bílasalar
Undirbúningsnámskeið vegna prófs
til leyfis sölu notaðra bifreiða
verður haldið í Reykjavík 12.- 28. Janúar 2009
ef næg þátttaka næst
Umsóknarfrestur er til 5. janúar 2009.
Nánari upplýsingar og skráning í síma 590 6400
eða ragnar@idan.is og www.bilgrein.is
IÐAN fræðslusetur
Skúlatúni 2 - 105 Reykjavík
www.idan.is - s. 590-6400
Prófnefnd bifreiðasala