Árdís - 01.01.1951, Blaðsíða 61
Ársrit Bandalags lúterskra kvenna
59
chewan; Guðbjörg Þórunn Sigríður, og María Solveig Sigurbjörg,
báðar á heimilinu í Winnipeg.
Þessi mikilhæfa kona, bæði áður en hún giftist og einnig síðar,
hlífði sér aldrei við heimilisstörfin, en í viðbót við þau leysti hún
af hendi mikið af vel unnu félagslegu starfi.
Hún og fólk hennar fylgdu íslenzku Lútersku kirkjunni að
málum af einlægni og áhuga. Hún var fyrst starfandi í félagsskap
ungra kvenna, í Fyrsta Lúterska söfnuði. Með frjálsum, glöðum
vilja lögðu þessar ungu stúlkur krafta sína saman til að efla söfn-
uðinn og styrkja hann fjárhagslega.
Snemma á árum fór hún einnig að gefa sig að bindindisstarf-
semi. Hún gjörðist meðlimur í stúkunni Heklu og vann þar af
kappi. Er stundir liðu fram, var hún kosin í stórstúku Good
Templara í Manitoba. Hún vann áhrifaríkt starf í stórstúkunni í
mörg ár.
Hún talaði norsku og gat bjargað sér í sænsku. Það var að
minsta kosti einn þáttur í því að hún komst í kynni við sænskt
fólk í Winnipeg og stuðlaði að því að á meðal þeirra mynduðust
sænskar Good Templara stúkur.
Á þessum árum var félagsskapur á vegum íslenzku Good
Templaranna, sem nefndist Harpa. Hún var líknarfélag til að veita
hjálp í fátækt og sjúkdómi. Mrs. Thomsen starfaði þar af lífi og sál,
og bar starf hennar, þar sem annars staðar, góðan ávöxt.
Á dögum Jóns Bjarnasonarskóla vann hún af trúmensku og
velvild í kvenfélaginu, sem styrkti Jóns Bjarnasonar skóla. Með
þakklæti vil ég minnast þess hér, að allar þrjár dætur þeirra hjóna,
sem náðu skólaaldri, stunduðu nám í þeim skóla.
Þó þetta sé ófullkomin frásögn af æfi Mrs. Thomsen, er samt
með þessu sýnd nokkur mynd af nytsömu og farsælu æfistarfi; en
sú mynd eignast aukna og fagra drætti við athugun hins dásamlega
kærleika, sem hún veitti ástvinum sínum, foreldrum, systrum,
eiginmanni og dætrum. Unaðslegt var að koma á heimili þeirra
hér í Winnipeg, því þar voru allir samtaka í gestrisni og sérhverju
öðru góðu.
Mrs. Thomsen hafði víst sæmilega heilsu meirihluta æfi, en
fékk slag 1948 og lifði við vanheilsu eftir það. Hún fékk hvíldina
12. maí, 1950. Hún var jarðsungin frá Fyrstu Lútersku kirkju, af
séra Valdimar J. Eylands, 16. maí, og jörðuð í Brookside grafreit.
Hana lifa: eiginmaður, Lorens Thomsen, þrjár dætur áður
nefndar; og ein systir, Mrs. Halldóra Petrína Bjarnason. Ein al-
systir, Mrs. Jóhanna Margrét Johnson, og hálfsystir, Mrs. Thorunn
Lee, voru áður dánar.
Blessuð sé minning þessarar góðu konu. Rúnólfuur Marteinsson