Morgunblaðið - 18.01.2009, Page 29

Morgunblaðið - 18.01.2009, Page 29
29 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 18. JANÚAR 2009 Reuters Óhugnaður Palestínumenn syrgja við útför ættingja sinna, sem féllu í árásum Ísraela á Beit Lahiya á Gaza 15. janúar. S vo virðist sem blóðbaðinu á Gaza-svæðinu gæti lokið nú um helgina. Talsmaður Ehuds Olmerts, forsætis- ráðherra Ísraels, sagði á föstudagskvöld að svo virt- ist sem allt væri klárt og átti öryggisráð Ísraels að koma saman að kvöldi laug- ardags til að greiða atkvæði um vopnahlé. „Allir eru mjög bjartsýnir,“ sagði talsmaðurinn, Mark Regev. Eftir stendur spurningin um það hverju blóðbaðið hafi skilað. Tæplega 1.200 Palestínumenn hafa fallið frá því að Ísraelar hófu árásir sínar 27. desember. Stór hluti af þeim er óbreyttir borgarar – konur og börn. Rúmlega 5.000 Palestínumenn hafa særst. 13 Ísraelar hafa fallið, þar af þrír óbreyttir borg- arar. Ísraelsk yfirvöld segja að 233 hermenn hafi særst. Samkomulagið er afrakstur milligöngu Egypta, en Bandaríkjamenn eiga einnig hlut að máli. Tzipi Livni, utanríkisráðherra Ísraels, og Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkj- anna, undirrituðu á föstudag samkomulag um að Bandaríkjamenn myndu grípa til tiltekinna aðgerða til þess að stöðva flutning nýrra vopna til samtakanna Hamas, sem fara með völd á Gaza. Vopnunum hefur verið smyglað inn á svæðið í gegnum göng, sem liggja frá Sinai- skaga í Egyptalandi. Traustara samkomulag en áður? Þessi milliganga er eitt af síðustu verkum rík- isstjórnar George W. Bush, sem lætur af emb- ætti eftir helgi. Barack Obama tekur við emb- ætti á þriðjudag og var samkomulagið gert með samþykki hans og verðandi utanríkisráðherra, Hillary Rodham Clinton. Hamas viðurkennir ekki Ísrael og á meðan svo er neita Ísraelar að eiga viðræður við sam- tökin. Ísraelsstjórn og Hamas talast því ekki beint við og hafa Egyptar borið boð á milli. Það er hins vegar ekki ljóst hvort Hamas muni fara eftir þeim skilmálum, sem settir hafa verið í við- ræðunum. Hljóðið í forustumönnum Hamas á Gaza er allt annað en í forustu samtakanna utan svæðisins. Khaled Meshal, útlægur leiðtogi Ha- mas, kom fram fyrir helgi á ráðstefnu, sem hald- in var í Doha í Katar um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs. Hann hafnaði skilmálum Ísraela fyrir vopnahléi og hvatti til áframhaldandi and- spyrnu. „Ísraelar munu ekki geta eyðilagt mót- spyrnu okkar og Bandaríkjamenn munu ekki geta lagt okkur sínar reglur,“ sagði hann. Mes- hal skoraði á arabaríki um allan heim að standa með Hamas í baráttunni gegn mannfalli óbreyttra borgara úr röðum Palestínumanna. Samkvæmt fréttum virðast leiðtogar Hamas á Gaza hins vegar hafa fallist á vopnahlés- samkomulagið í stórum dráttum þannig að ekki ríkir eining á milli þeirra, sem eru í eldlínunni, og hinna, sem sitja fjarri átökunum. Fundurinn í Katar sýnir að arabaheimurinn er heldur ekki samstiga. Egyptar, Sádar og Jórdanar komu ekki til fundarins, en hann var engu að síður haldinn og má velta fyrir sér hvort það sýni að áhrif þeirra arabaríkja, sem eru Bandaríkjunum hliðholl, fari þverrandi. Á fundinum voru fulltrúar frá Tyrklandi, Íran, Líbanon, Sýrlandi, Alsír og um tíu öðrum ríkj- um. Ísraelar hafa borið því við að þeir hafi ekki átt annars kost en að láta til skarar skríða á Gaza vegna látlausra eldflaugaárása Hamas þaðan á þorp og bæi í Ísrael. Það er hins vegar mikil ein- földun að segja að Hamas-liðar hafi verið einir um að ögra. Segja má að starfsemi samtakanna Hamas, sem voru stofnuð fyrir 21 ári, skiptist í þrennt. Mikið af kröftum samtakanna fer í fé- lagslega aðstoð við Palestínumenn af marg- víslegum toga. Í öðru lagi sjá samtökin um lög- gæslu. Í þriðja lagi er hinn vopnaði armur samtakanna, sem berst gegn Ísrael. Líkt og Hisbollah í Líbanon nýtur Hamas stuðnings Ír- ans, sem er að verða eitt valdamesta ríkið á svæðinu og hefur hagnast á Íraksstríðinu og falli Saddams Husseins. Þetta hugnast ríkjum á borð við Egyptaland og Sádi-Arabíu lítt. Ráðamenn víða í araba- heiminum óttast einnig uppgang trúarlegra grasrótarsamtaka á borð við Hamas vegna þess að þau gætu grafið undan valdi þeirra. Mál- staður Palestínumanna nýtur mikils stuðnings meðal almennings í arabaheiminum, en stuðn- ingurinn á götunni skilar sér ekki til valdhaf- anna, sem hafa takmarkaðan áhuga á að efla Hamas. Ógæfa Palestínumanna er því ekki aðeins að búa í skugga valds Ísraela, sem hafa þrengt að þeim með fulltingi Bandaríkjamanna, heldur að njóta ekki heldur samstöðu arabaríkja. Þeir eru því að sönnu einangraðir. Þegar Hamas vann sigur í kosningum Palest- ínumanna var reynt að mynda samsteypustjórn með Fatah-hreyfingunni. Upp úr samstarfinu slitnaði og í kjölfarið sölsaði Hamas Gaza undir sig með vopnavaldi, en Fatah ræður ríkjum á Vesturbakkanum. Þessi óeining hefur ekki hjálpað Palestínumönnum. Ísraelar misbeita valdi sínu Ísraelar brugðust þegar öndverðir við valda- töku Hamas. Ísraelsstjórn hefur reyndar kvatt herlið sitt frá Gaza og lokað landtökubyggðum, en það þýðir ekki að hernámi svæðisins, sem staðið hefur frá því að sex daga stríðinu lauk 1967, sé lokið. Ísraelar hafa haldið Gaza í herkví og ráða öllum samgöngum til svæðisins, hvort heldur sem er úr lofti, af sjó eða á landi. Hamas svaraði með eldflaugaárásum. Í fyrravor var samið um vopnahlé, en umsátursástandið hélt áfram. Til marks um ömurlegt ástandið á Gaza er að þar ríkir 80% atvinnuleysi og skortur á öll- um helstu nauðsynjavörum. Vonir um betri tíð með brotthvarfi Ísraela voru fljótar að hverfa. Eftir árásir Ísraela undanfarnar vikur eru inn- viðirnir á Gaza í rúst, heilbrigðiskerfið ónýtt og skólakerfið lamað. Ein og hálf milljón manna býr á Gaza, sem er ekki nema um 360 ferkíló- metrar eða vart helmingurinn af flatarmáli Reykjanesskagans. Um helmingur íbúanna er flóttamenn, sem hröktust þangað við stofnun Ísraelsríkis 1948, og afkomendur þeirra. Í byrjun desember ákvað Hamas að endur- nýja ekki vopnahléssamkomulagið og hófust eldflaugaárásir á Ísrael að nýju. Það er vissu- lega ógnvekjandi að búa við slík skilyrði, en til marks um máttleysi þessara árása er þó að þeg- ar Ísraelar létu til skarar skríða hafði aðeins einn Ísraeli látið lífið í þeim frá því að vopna- hléinu lauk. Ísraelar eiga vissulega rétt á að verja hendur sínar, en þeir eru ekki lítilmagn- inn í þessari viðureign og hryllingurinn, sem þeir hafa kallað yfir íbúa Gaza, er úr öllu sam- hengi við tilefnið. Ásakanir um að Ísraelar hafi beitt fosfórsprengjum þarf að rannsaka og læknar segja óeðlilegt hvað oft þurfi að taka út- limi af hinum særðu. Það er rakið til þess að ísr- aelskir hermenn noti byssukúlur sem springa og valdi því mun alvarlegri sárum en venjulegar kúlur. Er það furða þótt Ísraelar séu vændir um stríðsglæpi? Eðlilegt er að spurt sé hvort þeim gangi ann- að til en að sýna mátt sinn og megin. Þá er ljóst að hvert sem framhaldið verður munu Ísraelar og Palestínumenn þurfa að búa hlið við hlið um ókomna tíð. Með morðum á saklausum borg- urum eru Ísraelar aðeins að auka beiskju og óvild í sinn garð. Ekki má heldur gleyma því að samkvæmt Genfarsáttmálanum ber sá sem hernemur land skyldur gagnvart óbreyttum borgurum á her- námssvæðinu og ábyrgð á öryggi þeirra. Þessar skyldur sínar virða Ísraelar að vettugi. Það sam- ræmist ekki þjóðarétti að beita alla íbúa svæð- isins refsingum fyrir eldflaugaárásirnar. En hvernig er hægt að líta á aðgerðirnar á Gaza sem annað en hóprefsingu? Hvernig er annað hægt en að spyrja hvað margir Palestínumenn þurfi að falla fyrir hvern Ísraela þannig að yfirvöld í Ísrael telji að réttlætinu sé fullnægt? Ísraelar segjast nú hafa náð markmiðum sín- um og hóta því jafnframt að hefja aðgerðir að nýju verði haldið áfram að skjóta eldflaugum frá Gaza. Hamas krefst þess á móti að herkvínni verði aflétt. Ekki skiptir Ísraela hins vegar minna máli að átökunum linni áður en Barack Obama tekur við embætti á þriðjudag. Ein ástæðan fyrir því að þeir hófu árásirnar um jólin var sú að þeir vissu ekki hvernig Obama myndi bregðast við. Málflutningur hans hefur hins veg- ar verið það hliðhollur málstað Ísraels að einnig er líklegt að Ísraelar hafi ekki viljað setja Obama í óþægilega stöðu fyrstu vikurnar í emb- ætti. Bush hafði í upphafi forsetatíðar sinnar lítinn áhuga á að miðla málum fyrir botni Miðjarðar- hafs. Stefna afskiptaleysis hefði ef til vill getað skilað einhverju ef stjórn Bush hefði í raun hald- ið að sér höndum, en sú var ekki raunin. Banda- ríkjamenn hafa ávallt tekið málstað Ísraela í stjórnartíð Bush. Það var ekki fyrr en fór að nálgast lok valdatíðar Bush að hann ákvað að þrýsta á um samkomulag, en það var of seint og ef til vill hefur veik forusta bæði í Ísrael og hjá Palestínumönnum haft sitt að segja. Ljóst er að Obama mun leggja áherslu á að stilla til friðar fyrir botni Miðjarðarhafs. Það hafa fleiri Bandaríkjaforsetar gert og ekki haft erindi sem erfiði. Bill Clinton reyndi að knýja fram samkomulag. Þegar slitnaði upp úr samn- ingunum var Yasser Arafat, leiðtoga Palest- ínumanna, kennt um að hafa átt sök á því með þrákelkni sinni, en nú virðist sú söguskoðun vera að ryðja sér til rúms að í raun hafi skilmálar Ísr- aela verið óaðgengilegir fyrir Palestínumenn. Það getur verið dýrkeypt fyrir ísraelska leið- toga að fara friðarleiðina. Það var ástæðan fyrir því að Yitzhak Rabin var ráðinn af dögum. Nú nálgast kosningar í Ísrael. Ekki er langt síðan fylgi Verkamannaflokksins var í molum og flokkurinn var sakaður um linkind. Innrásin á Gaza hefur skilað sér rækilega í auknu fylgi. Obama hefur lýst yfir því að deila Ísraela og Palestínumanna verði sett á oddinn frá fyrsta degi. Hann ætlar sömuleiðis að breyta stöðu Bandaríkjanna í heiminum, meðal annars með auknu samráði við ríki heims. Martin Indyk var sendiherra í Ísrael í tíð Clintons og hefur verið ráðgjafi Obama um Mið-Austurlönd. „Hann mun nálgast báða aðila,“ segir Indyk í viðtali við þýska vikuritið Der Spiegel um stefnu Obamas. „Bandaríkin eru nánasti bandamaður Ísraels- ríkis og verða það áfram. Obama á þess hins vegar kost að hafa sterkari áhrif í arabaheim- inum en forverar hans. Það helgast af lífshlaupi hans. Hann er sonur föður frá Kenía, á æskuár- um var hann í múslímaríkinu Indónesíu, milli- nafn hans er Hussein og hann komst til valda án þess að eiga sjálfur peninga eða vera með vold- ugt ættarnafn. Allt þetta heillar araba.“ Þegar bent er á að þetta hafi hvorki fært Obama traust Hamas né Hisbollah svarar In- dyk: „Boðskapur þeirra hefur árum saman ver- ið: Við komum á réttlæti og virðingu hinna arab- ísku þjóða með andspyrnu, ofbeldi og lítilsvirðingu á vestrinu. Þeir vilja strax setja þann stimpil á Obama að hann sé annar Bush. Þess vegna mun hann tafarlaust eftir innsetn- ingu í embætti grípa frumkvæðið í Palestínumál- inu, einnig til að sýna að hann er ekki annar Bush.“ Átökunum á Gaza lýkur sennilega um helgina. Vandinn er hins vegar óleystur. Ljóst er að nú verður tekið á deilu Ísraela og Palestínumanna af meiri alvöru en undanfarin átta ár, en Barack Obama hefur ekki töfralausn á henni frekar en aðrir. Nýtt upphaf í deilunni endalausu Reykjavíkurbréf 170109 1.193 Fjöldi fallinna Palestínumanna. 410 Fjöldi barna meðal hinna föllnu. 108 Fjöldi kvenna meðal hinna föllnu. 13 Fjöldi fallinna Ísraela. Þar af eru þrír óbreyttir borgarar. Tölurnar eru fengnar hjá palest- ínska heilbrigðisráðuneytinu á Gaza annars vegar og ísraelsk- um yfirvöldum hins vegar.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.