Morgunblaðið - 01.09.2009, Síða 17
ÚR BÆJARLÍFINU
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 1. SEPTEMBER 2009
Fjöldi ferðamanna hefur aldrei verið
meiri hér á Flúðum en á þessu sumri
og hið sama gildir um uppsveitir Ár-
nessýslu að sögn Árborgar Arnþórs-
dóttur ferðamálafulltrúa. Kemur þar
mest til nálægðin við þéttbýlið við
sunnanverðan Faxaflóa. Hótel, tjald-
og hjólhýsasvæði voru víðast hvar
fullsetin allar helgar frá því tók að
hlýna upp úr 20. júní og fram í miðjan
ágúst. Það er enda margt að sjá, mikil
náttúrufegurð, merkir sögustaðir og
margvísleg afþreying, t.d. fjöldi golf-
valla, sundlauga, hestaleigur og
margt fleira. Sem fyrr eru það nátt-
úruperlurnar Gullfoss og Geysir sem
draga mest að.
Það reynir á vegakerfið þegar um-
ferðin er svo mikil sem raun ber vitni.
Nú er unnið að mikilvægum sam-
göngubótum, svo sem brú yfir Hvítá
hjá Bræðratungu og lagningu nýs
vegar yfir Lyngdalsheiði. Munu þessi
mannvirki bæta samgöngur mikið og
mannlíf allt á svæðinu. Þá vonast
margir eftir brú yfir Þjórsá skammt
frá Árnesi sem fyrst til að tengja upp-
sveitir Suðurlands enn frekar saman
og greiða leiðir um fagrar og frjósam-
ar byggðir.
Ákveðið er að haldin verði uppskeru-
hátíð á Flúðum 19. september. Í fé-
lagsheimilinu verður til sýnis og sölu
fjölbreytt úrval afurða úr matarkistu
Hrunamannahrepps. Meðal annars
sýnt handverk og gallarí eru opin,
garðyrkjustöðvar verða til sýnis.
Þetta er í fyrsta skipti sem svona há-
tíð er haldin í sveitarfélaginu, enda
vert að þakka fyrir gjöfulan gróður
jarðar. Heyfengur er með besta móti
og vel lítur út með uppskeru af korn-
ökrum. Hið sama má segja um upp-
skeru flestra tegunda matjurta sem
hér eru ræktaðar, ef undan er skilin
kartöfluræktin. Næturfrost síðla júl-
ímánaðar skemmdi kartöflugrös
sumstaðar með þeim afleiðingum að
dró úr uppskerunni.
Fjallmenn halda senn inn á afréttina í
sínar löngu leitir en smalað er allt að
Hofsjökli og Tungnamenn smala inn
fyrir Hveravelli á Kili. Einhver æv-
intýraljómi og tilhlökkun er alltaf yfir
fjallferðunum þó að þær geti verið
bæði langar og strangar, einkum ef
illa viðrar. Mikill fjöldi fólks sækir í
að komast í fjallferðirnar; finnst þessi
vika sem það tekur að smala vera
mest ómissandi hluti ársins. Félgs-
skapurirnn er góður og glaðvær.
Tign og fegurð öræfanna í sinni
haustlitadýrð lætur engan ósnortinn
og lagðprúðar hjarðirnar liðast til
byggða. Sjálfsagt þykir að nýta víð-
feðm afréttarlöndin með sínum
kjarngóðu grösum. Fjöldi sauðfjárins
er aðeins hluti þess sem áður var.
Bændur umgangast landið af varúð
og af virðingu. Það og verulegt upp-
græðsluátak hin síðari ár gerir það að
verkum að alstaðar er afréttur að
gróa.
Réttað verður í Hreppum 11. sept-
ember og Reykja- og Tugnaréttum
þann 12.
Nýtt athafnasvæði fyrir hestamenn
sem hestamannafélagið Smári hefur
unnið að á Flúðum var tekið í notkun
fyrir skömmu með félagsmóti. Vel
þykir hafa til tekist. Svæðið er við
reiðhöllina sem er nýlega risin. Á
mótinu gaf frú Katrín Jónsdóttir fé-
laginu glæsilegan bikar til minningar
um eiginmann sinn, Hermann Sig-
urðsson í Langholtskoti og hans stór-
brotna gæðing Blæ, sem vann það af-
rek að verða efstur í keppni alhliða
gæðinga á tveimur landsmótum. Bik-
arinn verður farandbikar, veittur ár-
lega afreksknapa félagsins og að
þessu sinni féllu þau í skaut Birnu
Káradóttur frá Háholti. Æskulýðs-
nefnd hestamannafélagsins sem
starfar af krafti hélt viku síðar árleg-
an æskulýðsdag þar sem tugir barna
og foreldra komu saman á hestum
sínum í leik og keppni.
FLÚÐIR
Sigurður Sigmundsson fréttaritari
Morgunblaðið/Sigurður Sigmunds
Hestamenn Þessir ungu knapar stóðu sig mjög vel á æskulýðsdegi hestamanna á Flúðum. Hestarnir voru fallegir.
Bjargey Arnórsdóttir sendiþættinum línu með spurning-
unni: „Er skáldið að drukkna í leið-
indum á alþingi?“ Og auðvitað
fylgdi vísa:
Í Sigmund minn Erni illa nú leggst
Alþingis leiðinda þrasið.
En ein er þó leið sem að aldregi bregst
bara oftar að fá sér í glasið.
Helgi Seljan orti eftir lestur
Vísnahornsins á dögunum þar sem
Sigurður Jónsson lagði sitthvað til
mála:
Í vísnahorni vel ég skil,
að vísnafólk þar monti sig.
Mig hefur lengi langað til
að leggja það sjálfur undir mig.
Sigurður Jónsson leggur orð í
belg um byltu forsetans:
Af Ólafi Ragnari reyndar ég frétti
ríðandi um landið á hesti,
en blessaður karlinn, ég býst við hann
detti
af baki á tíu ára fresti.
Tómas Tómasson yrkir einnig
um forsetann:
Ætla má að okkur hraki
Íslendingum nú um sinn.
Allavega oft af baki
er að detta forsetinn.
Rúnar Kristjánsson skrifar að í
sumum tilfellum mætti víst segja:
„Milli manns og hests hangir
meinaþráður.“
Ólafur er axlarbrotinn,
útreiðin var laus við glans.
Alveg féll hann eins og skotinn,
enda skrítið reiðlag hans.
VÍSNAHORN pebl@mbl.is
Af byltu og
forseta
HEILAKROT er
þrautabók fyrir klára
og káta krakka sem
var að koma út. Bókin
segir sögu 12 ára tví-
bura, Iðunnar og
Freys, sem leggja í
sveitaferð til ömmu
sinnar og afa og
þarfnast þau hjálpar
við að leysa skemmti-
legar en jafnframt
krefjandi þrautir á
leiðinni.
Í bókinni er að finna hinar ýmsu
þrautir eins og krossgátur, dul-
mál, stafarugl, fimm villur og
fleira. Heilakrot hentar vel börn-
um á miðstigi grunnskólans, en
duglegir krakkar í
þriðja og fjórða bekk
ættu líka að geta
leyst þrautirnar og
haft gaman af. Bók-
inni fylgir blýantur,
sem hægt er að
þræða í kápuna,
þannig að allt er á
sínum stað og auð-
velt að grípa bókina
með og vinna í henni
á ferð og flugi. Heila-
krot fæst meðal ann-
ars í Eymundsson, A4 og Hag-
kaupum. Höfundur bókarinnar er
Signý Gunnarsdóttir, teikningar
eru eftir Andrés Andrésson og út-
gefandi er Góður dagur ehf.
Heilabrot fyrir krakka
Í DAG kemur út ný
bók um lungna-
krabbamein. Bókin er
sú fyrsta sinnar teg-
undar á Íslandi og er
skrifuð af 9 læknum á
Landspítala sem
ásamt fleiri læknum
mynda samstarfshóp
um lungnakrabba-
mein.
Lungnakrabba-
mein er það krabba-
mein sem verður
flestum Íslendingum að aldurtila, og orsök þess má yfirleitt rekja beint til
reykinga, þó nýlegar rannsóknir bendi til þess að erfðaþættir komi einnig
við sögu.
Einkenni lungnakrabbameins eru oft almenns eðlis. Lungnakrabbamein
finnst því oft seint en gera má ráð fyrir að tveir af hverjum þremur sjúk-
lingum séu með
mein sem hefur sáð sér víðar um líkamann þegar það finnst/greinist.
Læknar gefa út bók um
lungnakrabbamein
Bók Bókin er skrifuð af læknum á Landspítala.
– meira fyrir áskrifendur
Glæsilegt sérblað um börn og
uppeldi fylgir Morgunblaðinu
föstudaginn 11. september
Börn &
uppeldi
Fáðu þér áskrift á
mbl.is/askrift
Pöntunartími auglýsinga er fyrir klukkan 16
mánudaginn 7. september.
Nánari upplýsingar veitir Katrín Theódórsdóttir
í síma 569 1105 netfang: kata@mbl.is
Víða verður komið við í uppeldi barna
bæði í tómstundum þroska og öllu því
sem viðkemur börnum.
Meðal efnis:
• Öryggi barna innan og utan heimilis.
• Barnavagnar og kerrur.
• Bækur fyrir börnin.
• Þroskaleikföng.
• Ungbarnasund.
• Verðandi foreldrar.
• Fatnaður á börn.
• Þroski barna.
• Góð ráð við uppeldi.
• Umhverfi barna.
• Námskeið fyrir börnin.
• Barnaskemmtanir.
• Tómstundir fyrir börnin.
• Barnamatur.
• Ljósmyndir.
• Ásamt fullt af spennandi efni um börn.