Morgunblaðið - 23.09.2009, Page 29

Morgunblaðið - 23.09.2009, Page 29
Minningar 29 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 23. SEPTEMBER 2009 sundlaugunum skömmu síðar og barst þetta í tal. Hann mundi vel eftir þessu og sagði: „Guðmundur var góður nágranni, ég var að sýna hon- um hinstu virðingu.“ Þeim hjónum Helga og Jóhönnu varð ekki barna auðið en þau voru oft með börn í gæslu. Eitt sinn var Helgi á ferð í Álf- heimunum og var með barn í vagni þegar löggan stoppaði Helga og tróð honum inn í svörtu Maríu. Lögreglan virti Helga að vettugi þegar hann benti á að hann gæti ekki skilið barn- ið eftir. Niður á stöð fóru þeir með hann og skildu barnið eftir í vagn- inum. Það varð barninu til happs að kona tók eftir þessu, gáði í vagninn og kom barninu heim. Þessir molar lýsa Helga betur en ég get gert með langri ræðu. Einhverjir hafa komið með þá hugmynd að byggja minn- ismerki um Helga. Ég er ekki viss um að Helga hefði líkað það. En eitt gæti glatt Helga: Ef kirkjuyfirvöld lýstu því yfir að skírn Helga væri ógild væri það honum örlítil upp- reisn. Einar B. Ásgeirsson. Mér er það bæði ljúft og skylt að minnast Helga Hóseassonar nokkr- um orðum. Helga kynntist ég fyrst á uppvaxtarárum mínum. Var mikil vinátta meðal Jóhönnu konu hans og foreldra minna en þau voru samsveit- ungar úr Miðfirði í Húnavatnssýslu. Það mun hafa verið veturinn 1956 sem faðir minn veiktist heiftarlega af botnlangabólgu og botnlanginn springur. Móðir mín var þá ein með okkur syni sína og var því hjálpar þurfi við bústörfin. Helgi Hóseasson fréttir þetta og hringir til móður minnar og býður henni hjálp sína sem hún þáði með miklum þökkum. Þá kynntist ég Helga enn betur, það var alveg sama hvort það var kristni- fræði eða landafræði, alls staðar var hann heima og miðlaði mér óspart af þekkingu sinni. Eitt lítið sýnishorn situr ávallt í mér en það voru árnar sem falla í Dóná. Til að auðvelda mér lærið fór Helgi með vísur oft á tíðum, eftir sjálfan sig og aðra, en minnisvísan eftir Björn Halldórsson situr einna fastast í mér (Í Dóná falla Ísar inn …). Of langt mál væri upp að telja allt það sem Helgi lagaði og betrumbætti þann mánuð sem hann var ráðsmaður á Bjargarstöðum. Einhverju sinni var ég að bíða eftir frænku minni, Sigríði Birnu Ólafs- dóttur, þá kom Helgi til mín og sagði: Hátt af sulti gaular görn, geispar skóladrengur. Sérðu hana Birnu, Björn, bíddu ekki lengur. Svo var það vorið 1958, ferming- arárið mitt, að Helgi kom með þrjú hundruð krónur handa okkur þrem og fylgdi vísa hverri gjöf. Læt ég hér með vísuna er Helgi bróðir fékk en hún er svo hljóðandi: Helgi karlinn ekkert á, illu vanur puði. En hann Björn fær allt sitt hjá, almáttugum Guði. Kom nú að því að Helgi væri laus úr vistinni og fór faðir minn að spyrja Helga hvað hann skuldaði honum mikið. Helgi rétti fram hönd sína og horfði fast í augu föður míns og sagði: Það tíðkaðist ekki í minni sveit að menn þægju greiðslu fyrir er þeir buðu fram vinnu sína eða annað. Þessi litla frásögn lýsir velgjörðar- manninum Helga Hóseassyni, vetr- armanninum á Bjargarstöðum í Mos- fellssveit. Það var svo í ágúst 2005 er ég átti leið um Langholtsveginn að Helgi stóð þar með eitt af sínum þörfu mót- mælaskiltum. Ég nam staðar, lagði bílnum og gekk til hins aldna skör- ungs, bar fram þakklæti mitt fyrir allt sem hann gerði fyrir mig og mína og sér í lagi veturinn góða sem hann kenndi mér að þiggja ekki alltaf dag- laun að kvöldi fyrir vinnu sem maður býður fram. Helgi strauk hvarma sína og þerraði tár sem féllu. „Drengur minn, það er oftar sem ég fæ hnotyrði fyrir það sem ég hef gert en hitt, en orð þín ylja mér inni- lega.“ Svo er eitt Helgi, það er um ána Dóná sem alltaf hefur verið mín uppáhaldsá síðan þú kenndir mér vís- una góðu. Ég tók utan um minn aldna vin Helga, „þakka þér allt og vertu sæll“, sem ég endurtek nú. Sveinbjörn Benediktsson frá Bjargarstöðum. Hinn 6. september 2009 andaðist Helgi Hóseasson, trésmiður og góð- menni. Líf mitt varð auðugra við að kynnast mannkostum Helga. Hans lík- ar eru sjaldgæfir. Það var árið 1961 að ég kynntist fyrst Helga og föður hans, Hóseasi Björnssyni, en þeir unnu þá báðir hjá byggingarfélagi sem ég stýrði. Þeir voru hæglátir feðgarnir og fór gott orð af þeim sem fagmönnum, enda hafði Hóseas verið yfirsmiður við kirkjubyggingu í Stöðvarfirði á 3. ára- tug aldarinnar. Unnu þeir gjarnan ein- ir sér. Við kynntumst svo nánar árin 1965- 66, en á þeim árum sló Helgi upp fyrir kjallara raðhúss, sem við hjónin byggðum í Sæviðarsundi, og vann síð- an ýmsa trésmíðavinnu við innrétting- ar. Það var við þessar framkvæmdir sem ég kynntist samviskusemi og vandvirkni Helga. Við vorum að steypa kjallarann, en steypubílarnir komu seint og stóð steypuvinnan langt fram á kvöld. Helgi var niðri og fylgd- ist með mótunum, þegar fyrstu steyp- unni var rennt í þau. Tvisvar sinnum kom ég að máli við hann um að líklega væri þetta nú allt í lagi með mótin og stakk upp á því að hann kæmi sér bara heim. Hann sinnti því engu og í síðara sinnið sagði hann við mig eitthvað á þá leið að hann bæri ábyrgð á mótunum og eftirlit hans með þeim væri innifalið í ákvæðisvinnutaxtanum. Ég skyldi ekki hafa áhyggjur af því. Endaði þetta með því að hann stóð sína vakt til miðnættis, en óvanalegt var á þessum árum að smiðir gættu steypumóta án sérstakrar greiðslu. Ef Helga vantaði eitthvert byggingarefni eða fyrirmæli varðandi verkið og við hittumst ekki áður en degi lauk, þá skrifaði hann mér boð þar um með tréblýanti á rifr- ildi af naglapakka og negldi upp á vegg. Að jafnaði voru slík skilaboð í vísuformi. Trúmál bar ekki á góma okkar á milli, en ég vissi hug hans. Eldri dóttir okkar hjónanna var fermd rétt um það bil að húsbyggingunni lauk. Þær syst- ur voru stundum að skottast í kringum Helga og spjölluðu við hann. Hann var þá í kerskni að spyrja þá eldri hvort hún vildi nú nokkuð láta ferma sig. Á laugardeginum fyrir ferminguna hitti ég hann á förnum vegi, en við vorum nágrannar. Dró hann þá upp peninga- seðil og rétti mér. Sagði hann að þessi seðill væri ætlaður fermingarstúlk- unni með bestu árnaðaróskum. Helgi var mikill barnavinur. Eftir að hann var farinn að standa sína sér- stöku mótmælavakt á horni Lang- holtsvegar og Holtavegar stoppaði ég nokkrum sinnum hjá honum og tók hann tali. Einu sinni dró hann upp úr plastpoka ljóðabókina sína Þrælar og Himnadraugar, sem hann skrifaði undir nafninu Helgi Ingibjargarson, og færði mér að gjöf. Á ég þetta eintak til minningar um fjölskylduvininn Helga Hóseasson. Megi hann hvíla í friði og öðlast sína langþráðu sátt við Guð og menn. Gunnar Torfason verkfræðingur. Aum er sú stofnun sem getur ekki unnt manni þess að rifta samningi, sem hún þóttist þess umkomin að gera fyrir hans hönd sem ómálga barns, við himnadrauga. Hræsni hennar því yf- irgengilegri að hún þykist eini mál- svari kærleika og réttlætis hér á jörðu. Helgi Hóseasson mátti þola þessa svívirðu alla sína ævi en hann gerði það hvorki þegjandi né hljóðalaust, sem betur fór. Réttlætiskennd hans var sterkari en svo. Þeir sem þekktu Helga og baráttu hans vita vel að hann bar af upphöfnum andskotum sínum eins og gull af eir. Viku fyrir andlát Helga var þetta boðskapur í einni af messum þjóð- kirkjunnar: „Allt er fyrirgefið í þess- um heimi, allt getur Guð umborið, jafnvel það að mæla gegn Jesú sjálf- um. Aðeins eitt er ekki fyrirgefið og það er að mæla gegn Heilögum anda.“ „Að hallmæla gegn Heilögum anda er einfaldlega trúleysi, að hafna Anda Guðs í okkur, sem segir að Guð sé Guð og maðurinn sé heimilislaus án trúar og ástartengslanna við Guð.“ Þetta er kærleiksboðskapur óþokk- anna sem neituðu Helga um nokkurt réttlæti. Skömm þeirra er ævarandi. En Helgi talaði ekki bara fyrir daufum eyrum farísea og kerfiskarla. Fjölmargir hafa tekið við kyndlinum og halda baráttunni áfram. Mikilvæg- ast er að vernda börnin. Sjálfur sagði Helgi: „Það er alveg furðulegt að menn sem halda að þeir séu með fullu ráði og rænu skuli vera að ljúga þess- um bölvuðu lygasögum í börn.“ Helgi var óþreytandi í baráttu sinni fyrir réttlæti, skynsemi og friði, drengur góður. Betri orðstír er vand- getinn. Reynir Harðarson. Maðurinn sem stóð úti á horni og mótmælti þótti skrýtinn. Hann þótti líka skrýtinn þegar hann mótmælti reykingum kennara sinna í Iðnskól- anum á Akureyri og þegar hann sendi gesti sína út þegar þeir vildu fá sér sígarettu. Helgi Hóseasson stóð í langri deilu við ríkisvaldið og ríkiskirkjuna vegna skírnarsáttmála sem var gerður fyrir hans hönd. Hann þótti skrýtinn að taka þetta alvarlega. Enginn á Íslandi virtist þá hafa velt fyrir sér að rík- isvaldið hefði ekki rétt til þess að skipta sér af hlutum sem voru fyrst og fremst einkamál hvers og eins. Helgi leyfði sér að efast um, gagn- rýna og hæðast að kennisetningum kristinnar kirkju. Fyrir þetta er ég honum þakklátur. Trúarkreddur þarf að gagnrýna. Helgi ruddi leiðina og þess vegna virðumst við sem fylgjum í kjölfarið ekki jafnskrýtin. Við þingsetningu í október 2004 stóðum við í félaginu Vantrú fyrir mótmælum á Austurvelli. Annars vegar var tilgangurinn að hvetja til aðskilnaðar ríkis og kirkju og hins vegar að minna á réttindabaráttu Helga Hóseassonar. Okkur þótti táknrænt að bjóða þingmönnum upp á skyr (einungis tveir þáðu). Helgi var svo góður að mæta með okkur. Eftir mótmælin keyrði ég Helga heim af Austurvelli. Í þakklætisskyni fyrir farið (og líklega mótmælin líka) gaf hann mér epli, flösku af sykurlausu appelsíni og Macintosh-mola. Maðurinn sem stóð úti á horni og mótmælti þótti skrýtinn. En líklegast eru það við hin sem erum raunveru- lega skrýtin. Við getum horft upp á stríð og aðrar manngerðar hamfarir í sjónvarpsfréttunum og gleymt því fimm mínútum seinna. Líklega vant- aði einhverja síu í Helga. Líklega væri best ef það vantaði þessa síu í okkur öll. Við í félaginu Vantrú syrgjum and- lát eina heiðursfélaga okkar og vott- um aðstandendum hans samúð. Um leið lofum við því að baráttumál Helga munu ekki gleymast. Óli Gneisti Sóleyjarson, formaður Vantrúar. Meira: mbl.is/minningar                                        ✝ Elskuleg eiginkona mín, móðir okkar, tengdamóðir, amma og systir, HULDA KRÖYER, Åmål, Svíþjóð, sem andaðist sunnudaginn 6. september, verður jarðsungin frá Åmål föstudaginn 25. september. Fyrir hönd aðstandenda, Andrés Þórarinsson, Hjördís Kröyer. ✝ Elskuleg móðir okkar, VILBORG STEFÁNSDÓTTIR frá Litla-Hvammi, Mýrdal, Kleppsvegi 6, Reykjavík, verður jarðsungin frá Víkurkirkju, Vík í Mýrdal, laugardaginn 26. september kl. 14.00. Sætaferð verður frá BSÍ (að vestanverðu) kl. 11.00. Blóm og kransar eru vinsamlegast afþakkaðir, en þeim sem vilja minnast hennar er bent á Mæðrastyrksnefnd kt. 470269-1119, nr. 0101-26-35021. Fyrir hönd annarra aðstandenda, Sólrún Jónsdóttir, Steinunn Helga Lárusdóttir. ✝ Faðir okkar og tengdafaðir, BJARNI BJARNASON, áður til heimilis í Borgarnesi, sem lést á hjúkrunarheimilinu Ási, Hveragerði, mánudaginn 14. september, verður jarðsunginn frá Borgarneskirkju laugardaginn 26. september kl. 14.00. Kjartan V. Bjarnason, Jenný Marelsdóttir, Vilný R. Bjarnadóttir og aðrir aðstandendur. ✝ Elskulegur faðir, stjúpfaðir, tengdafaðir, afi, langafi og langalangafi, STEFÁN EGILSSON kaupmaður, Kirkjuvegi 11, Keflavík, verður jarðsunginn frá Keflavíkurkirkju föstudaginn 25. september kl. 14.00. Ástdís Björg Stefánsdóttir, Sveinbjörn S. Reynisson, Alma V. Sverrisdóttir, Egill Jónsson, Sigurður J. Kristinsson, Sólborg Bjarnadóttir, Kristinn Kristinsson, barnabörn, barnabarnabörn og barnabarnabarnabörn. ✝ Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og lang- amma, RANNVEIG MAGNÚSDÓTTIR frá Súgandafirði, andaðist á hjúkrunarheimilinu Sóltúni fimmtu- daginn 17. september. Jarðarförin fer fram frá Fossvogskirkju föstudaginn 25. september kl. 13.00. Sigríður S. Jónsdóttir, Magnús S. Jónsson, Ágústa Gísladóttir, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Bróðir okkar, frændi og vinur, SIGURÐUR LINDBERG PÁLSSON, andaðist á heimili sínu sunnudaginn 13. september. Útför hans fer fram frá Fossvogskirkju fimmtu- daginn 24. september kl. 13.00. Aðstandendur.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.