Morgunblaðið - 29.09.2009, Qupperneq 11
Fréttir 11INNLENT
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 29. SEPTEMBER 2009
Morgunblaðið/Ómar
Hress Ekki er á Jóni að sjá að hann hafi fæðst fyrir hundrað árum. Taflborðið er mikið notað.
Eftir Kristínu Heiðu Kristinsdóttur
khk@mbl.is
„ER þetta orðinn mjög hár aldur? Eru ekki
allir Íslendingar að eldast? Þetta er ekkert
orðið einstakt, nú verða margir hundrað ára,
bæði karlar og konur,“ segir Jón Magnússon
en á morgun er heil öld frá því hann fæddist,
hinn 30. september árið 1909. Jón er mjög
hress og viðræðugóður og þegar hann er
spurður að því hvernig hann sé til heilsunnar
segist hann vera alveg sæmilegur. „En ég
hleyp náttúrlega ekki hundrað metrana. Og ég
veit ekkert um það hvort ég sé enn klár í koll-
inum, aðrir verða að dæma um það.“ Af spjall-
inu má þó ljóst vera að þetta er hógværð hjá
Jóni, því hann er með allt á hreinu, bæði í for-
tíð og nútíð.
Það var enginn bóndi í mér
Jón fæddist í Skeiðháholti á Skeiðum og ólst
þar upp fyrsta áratug ævi sinnar. „Foreldrar
mínir fluttu til Reykjavíkur þegar ég var tíu
ára, árið 1919. Faðir minn var í byggingar-
vinnu hjá Kornelíusi Sigmundssyni og ég var
þar með honum annað slagið. En ég var send-
ur í sveitina næstu þrettán sumrin og var þá
hjá honum Jóni Eiríkssyni sem bjó í vestur-
bænum í Skeiðháholti. Hann var fóstursonur
frænda míns sem bjó þar, en á þessum tíma
var ekki óalgengt að létt væri undir með skyld-
fólki með því að taka börn í fóstur. Þessi sum-
ur sem ég var hjá Jóni Eiríkssyni var hægt að
nota mig við að hjálpa til við heyskapinn. Ég
var í slættinum, en á þessum tíma voru orf og
hrífa helstu tækin og svo auðvitað hestarnir.
Heyið var bundið og reitt á klakk á reiðingi og
flutt heim í lest utan af engjum,“ segir Jón og
bætir við að hann hafi nú aldrei verið natinn
við fé eða neitt svoleiðis. „Það var enginn bóndi
í mér, en sumir höfðu þetta í sér.“
Siglandi um Atlantshafið í stríðinu
Jón er lærður loftskeytamaður og segist
eiga góðar minningar frá þeim störfum sínum,
siglandi um Atlantshafið. „Ég var á Hafnar-
fjarðartogurunum, svo var ég á Kötlu í eitt ár
og á Snæfellinu frá Akureyri annað ár. Svo var
ég mest í því að leysa af á togurum í stríðinu.
Ég lenti sem betur fer ekki í neinum skakka-
föllum á stríðsárunum en einu sinni sá ég kaf-
bát hérna sunnan við land, þá vorum við að
koma frá Englandi. En það hafði engin eftir-
mál,“ segir Jón og bætir við að útlegurnar hafi
verið mislangar. „Fyrst þurfti náttúrlega að
fiska og það gat tekið uppundir hálfan mánuð
ef fiskaðist sæmilega. Svo þurfti að sigla með
aflann. Þetta gat tekið þrjár vikur, stundum
heilan mánuð.“
Gamall sósíalisti sem fylgist vel með
Jón segist ekki hafa hugmynd um hverju
hann megi þakka það að ná hundrað ára aldri
og vera við svo góða heilsu sem raun ber vitni.
En hann hefur heldur ekki farið illa með sig.
„Það er langt síðan ég hætti að reykja, en ég
reykti reyndar aldrei mikið. Og vín hef ég bara
drukkið í hófi,“ segir Jón sem býr í þjón-
ustuíbúð fyrir aldraða á Dalbrautinni og
stundar hugarleikfimi með því að grípa í skák.
Hann á einn son og eitthvað segist hann eiga
af barnabörnum og barnabarnabörnum. Hann
ætlar ekki að halda upp á afmælið en er nokk-
uð sáttur við að vera í viðtali hjá Morgun-
blaðinu í tilefni tímamótanna. „Ég kaupi
Morgunblaðið þótt ég sá gamall sósíalisti. Það
er ýmislegt að lesa í því blaði og hlutirnir túlk-
aðir á ýmsa vegu, bæði satt og logið.“
Ég hleyp ekki hundrað metrana
Jón Magnússon loftskeytamaður hefur lifað
í heila öld og finnst ekki mikið til koma