Vilji - 01.12.1928, Page 20
168
VILJI
Smalinn.
Hann mitt í blómskrýddri brekku situr
þars bláir lækir með straumnið falla.
Á túnum glóir hinn guli litur,
og grænkan liðast um hlíðir fjalla.
Um bláhvolf himinsins sólin svífur
og signir hjalla af fegurð ríka.
En söngur smáfugla hugann hrífur,
svo hjörðin gleymist — og tíminn líka.
Hann gleymir skyldum og bóndans banni,
— í blástör engjanna hjörðin rennur —
því heimar opnast hans innra manni
og alt, sem fjötrar í sundur brennur.
Söngur fuglanna, fossins niður,
sem fiðluhljómur í eyrum lætur,
og sál hans gagntekur gleði og friður,
sem gefur djörfustu vonum rætur.
Hann dreymir lengi um daga bjarta,
uns dagsól hverfur við efstu gnípur.
Þá berst af útþrá hans unga hjarta,
og æskumóðurinn sál hans grípur.
Hann finnur eldinn í æðum bruna,
sem ógnarbál gegnum hjartað þjóti.
Hann finnur blóðið í brjósti funa
og brosir vonglaður framtíð móti.
Guðlaugur Lárusson.