SunnudagsMogginn - 20.12.2009, Síða 12

SunnudagsMogginn - 20.12.2009, Síða 12
12 20. desember 2009 G rýlur birtist í ýmsum myndum í Norður- Evrópu og sömuleiðis verur, sem koma til byggða nær jólum og hverfa svo aftur þegar dag tekur að lengja á ný. Terry Gunnell, pró- fessor í þjóðfræði við Háskóla Íslands, hrærist í heimi þjóðsagna og þekkir vel þann leir, sem íslenskar jóla- hefðir eru mótaðar úr. „Við höfum þá vitneskju úr Íslendingasögunum og ís- lenskum kveðskap að haldin var jólahátíð fyrir kristni- töku,“ segir Terry. „Haraldur hárfagri og aðrir konungar í Noregi héldu jólaboð fyrir hirðmenn og gáfu þá gjafir og svo framvegis. Sá siður tíðkaðist þó lítið á Íslandi. Hér voru gefnar sumargjafir.“ Kristnar hátíðir samræmdar heiðnum sið Terry segir að kveikjan að þessari hátíð hafi verið miðs- vetrarbrot eða vetrarsólhvörf. „Þá er lengsta nóttin og síðan fer sólargangur að lengj- ast á ný,“ segir hann. „Þá er verið að fagna endurfæðingu jarðarinnar.“ Fæðing Krists var þannig tengd þessari endurfæðingu. „Þetta vakti fyrir kirkjunni,“ segir Terry. „Enginn vissi hvenær Jesús var fæddur, en þessar hátíðir voru til. Rómverjar héldu á svipuðum tíma hátíð, sem kölluð var saturnalia og snerist um umsnúning. Einn dag voru yf- irmenn undirsátar og þrælar stjórnuðu. Umsnúningur er kannski lykilorð í þessu sambandi. Ljóst er að á Norður- löndum voru einhverjar hátíðir á þessum tíma. Orðið jól var til, en við vitum ekki fyrir víst hvaðan það kemur. Einn mánuðurinn kallaðist jól, en eins og Árni Björnsson þjóðháttafræðingur hefur skrifað, vitum við ekki hvort það tengist orðinu hjól og táknar hringrás ársins, orðinu él, Jólni, sem er eitt af nöfnum Óðins, eða sé dregið af orðinu öl, en í Noregi var bruggað jólaöl á þessum tíma. Þarna er annað dæmi um þennan umsnúning – það á að drekka vegna þess að það er öðruvísi árstími, sem kallar á öðruvísi hegðun.“ Terry rekur að haldnar hafi verið tvær stórar vetrar- hátíðir, fyrst í upphafi vetrar, vetrarnætur hér á landi, halloween eða allraheilagramessa sé leifar af því sama og í keltneskum löndum hafi verið haldið upp á Samhain í vetrarbyrjun. Síðan hafi komið miðsvetrarhátíð. „Samkvæmt Konungasögum var þeim breytt formlega úr heiðnum hátíðum í kristnar í tíð Ólafs Tryggvasonar konungs,“ segir Terry. „Það var því gert viljandi. Í bréfi frá Gregoríusi páfa til Englandskonungs snemma á mið- öldum leggur hann til að hof og heiðnir staðir verði ekki eyðilagðir, ekki verði reynt að þvinga fólk til að leggja niður gamla siði, heldur breyta þannig að hof verði kirkjur og hátíðir þar sem dýrum var slátrað og blót færð verði helgaðar kristni. Menn voru hjátrúarfullir og vildu gera eins og þeir höfðu alltaf gert, þótt það tengdist heiðni. Best var að gera það í nafni Krists í staðinn og þannig seldi kirkjan kristnina, með spuna þess tíma. Þeir vissu hvað þeir voru að gera.“ Terry segir að trú á náttúruvætti megi rekja allt aftur til landnáms. „Menn trúðu á Norðurlöndum og annars staðar á náttúruvætti, sem seinna voru kallaðir álfar,“ segir hann. „Hér á landi eru á seinni tímum margar sögur um heimsóknir álfa á jólum. Vættir yfirtaka hús til að halda dansleiki. Elstu dæmin um svipuð sagnaminni eru Grettir og Glámur og Eyrbyggja - Fróðárundrið - þar sem draugar ráðast á hús á jólum þegar myrkrið er mest og hetju þarf til að losna við þá.“ Aldrei út úr húsi á jóladag Í sveitum Noregs fóru menn aldrei út úr húsi á jóladag því menn trúðu að úti væru alls konar vættir á kreiki. „Í Vestur-Noregi tók þetta form hópur af vættum, sem áttu að koma niður úr fjöllunum og nefndir voru Oskosk- reia,“ segir Terry. „Þetta hefur stundum verið kallað Ju- leskreid. Í sögunum fer Guðrún Gjúkadóttir fyrir þeim og með í för er Sigurður Fáfnisbani, sem er orðinn svo gam- all að hann þarf að halda augunum opnum með spýtum og kann ekkert lengur. Þessi söfnuður gerir árás á bæi, fólk á ferli er tekið og barið og jafnvel rifið í sundur. Þeir stela mat og öllu lauslegu. Þessar sögur virðast hafa kom- ið seinna til Íslands og verið þýddar inn í íslenskar þjóð- sögur. Í Noregi kallast meðlimir hópsins stundum troll. Allir Íslendingar vita að það gengur ekki að hópur trölla komi í heimsókn og gisti stærðarinnar vegna þannig að í við aðlögun að svæðisbundinni þjóðtrú verða þau að álf- um.“ Terry heldur áfram: „Hugmyndin á bak við þetta er sú að í október byrja vættir að nálgast og taka landið til sín aftur. Hápunkturinn er á jóladag þegar þeir koma að bænum og eftir það byrja þeir að draga sig til baka. Þeir eru eins og myrkrið og snjórinn, sem nálgast bæinn og fara síðan burt. Þetta endurspeglast í jólasveinunum hér á landi.“ Í Noregi og víðar hermir fólk eftir þessum vættum á þessum árstíma. „Í gamla daga klæddu menn sig upp í búninga og fóru milli bæja,“ segir Terry. „Þeir voru stundum kallaðir julebukk (jólahafur) eða julegeit (jóla- geit) og þetta var mjög útbreitt á öllum Norðurlöndunum. Upphaflega voru menn í búningi geithafurs og notuðu dýraskinn og fleira. Maður tekur eftir að Grýlu var seinna lýst eins og hún væri hálfgert dýr með horn og fleira. Sums staðar í Vestur-Noregi voru gervin ekki bara dýr með horn heldur dýrsleg kona, sem heitir Lusse eða Lussia. Menn komu dulbúnir, reynt var að giska á hverjir væru bak við grímuna, og þeir gáfu ekki heldur tóku. Í gamla daga voru þeir að jafnaði ungir, ókvæntir karl- menn, fengu mat og áfengi og urðu oft blindfullir. Hér á Íslandi voru leifar af slíkum siðum, meðal annars Barðaströnd og eru enn á Þingeyri á Vestfjörðum og í Grindavík. Vilborg Davíðsdóttir hefur skrifað um þetta, en við vitum ekki hvort þetta kom með landnáms- mönnum eða með Norðmönnum, sem komu til Íslands til hvalveiða og héldu grímuböll. Við höfum sem sagt vættir, menn sem fara í gervi þeirra, koma í heimsókn og taka og stela. Þetta sést í nöfnum jólasveinanna hér, til dæmis Kjötkrókur og Bjúg- nakrækir og nöfnum, sem minna á gamlar þvottavélar, Askasleikir og Pottasleikir.“ Hugmyndin um jólasveinana, stráka, sem koma til byggða og eru leiddir af kvenkyns veru, á sér líka hlið- stæðu annars staðar. Kvenkyns verur leiða karla og stráka „Ég nefndi Guðrúnu Gjúkadóttur áðan – hún er eins konar Grýla,“ segir hann. „Á Írlandi kemur vera sem heitir Cailleach og er persónugerving á vetrinum – indó- germanskt orð, sem reyndar þýðir kerling – og hún er líka á kreiki á jólunum. Á þessum tíma eru þannig á sveimi í mismunandi löndum kvenvættir og hópar af körlum, sem stela.“ Nafn Grýlu er mjög gamalt. „Það kemur fram í Sturl- ungu á þrettándu öld og vísan um hana, „Grýla kemur í garð“, er líka frá þessum tíma,“ segir hann. „Það er at- hyglisvert að í danskri mállýsku kemur fyrir orðið gryle, sem merkir að urra og mér finnst passa mjög vel við hana. Nöfn jötna í forn-norrænu tengjast oft hljóði, til dæmis Ýmir og Þrymur. Í Sturlungu er hótun í Grýlu. Hún er á kreiki en ekki tengd við jól. Það kemur síðar.“ Terry segir að nafnið finnist líka í Færeyjum. Þar er Grýlukvöld og á lönguföstu klæðast krakkar sem Grýlur. Á Norður-Hjaltlandi var til siðs að klæða sig í hálm á allraheilagramessu og fara heim til fólks. Þar er talað um Grölik. Þar birtist hún í upphafi vetrar, hér um miðjan vetur og í Færeyjum í lok vetrar og á ættingja í Lusse í Noregi og Cailleach á Írlandi og kannski má hugsa um hana sem persónugervingu vetrarins. Hún er svöng og það endurspeglar óttann við að eiga ekki nógan mat.“ Maður Grýlu vekur ekki sömu skelfingu. „Samkvæmt sumum sögum er Leppalúði seinni maður Grýlu,“ segir Terry og bætir við eftir andartaks þögn: „Hún borðaði þann fyrsta – fyrsta kvennabyltingin átti sér stað á fjöll- um og barst síðar til byggða.“ Jólakötturinn er frekar nýlegur og kemur ekki fyrir í Íslendingasögunum. „Jólakötturinn birtist fyrst á nítjándu öld, en virðist eiga rætur að rekja til jólahafurs- ins í Skandinavíu,“ segir Terry. „Þar er sama hefð. Ef þú klæðist ekki nýjum fötum ferð þú í jólageitina, sem gat þýtt annað hvort að enda í maga hennar eða að þurfa að klæðast sem hún. Þessi þjóðtrú er því til og er mjög út- breidd. Á Íslandi voru Norðmenn á Vestfjörðum og ann- ars staðar við hvalveiðar. Þeir bjuggu hér yfir jólin og héldu stundum grímuböll. Þeir hafa kannski sagt að menn færu í jólageitina, sem Íslendingar þekktu ekki vegna þess að hér var engin geit. Hér gæti því aftur verið um aðlögun að ræða, að fara í jólageit verður að því að fara í jólakött. Með jólakettinum er hin brotna vanda- málafjölskylda Grýlu, Leppalúða og jólasveinanna full- komnuð.“ Terry segir að jólahefðir á Íslandi séu blanda af skand- inavískum, ef til vill einnig írskum og gömlum íslenskum hefðum. „Nú er þetta náttúrulega allt orðið séríslenskt. Menn halda stundum að ég sé að gefa í skyn að þetta sé allt erlent, en Ísland er fjölmenningarsamfélag, innflytj- endasamfélag frá upphafi og náttúrulega koma hefðirnar annars staðar frá, en lagast að íslenskum aðstæðum.“ Heiðnar rætur jólahalds Jól eru haldin til að fagna fæðingu frelsarans, en hátíð á þessum árstíma á rætur langt aftur í heiðni þegar stystur sólargangur var tilefni til að halda upp á endurfæðingu jarðarinnar. Karl Blöndal kbl@mbl.is „Samkvæmt sumum sögum er Leppalúði seinni maður Grýlu,“ segir Terry Gunnell, prófessor í þjóðfræði, og bætir við eftir andartaks þögn: „Hún borðaði þann fyrsta - fyrsta kvennabyltingin átti sér stað á fjöllum og barst síðar til byggða.“ Morgunblaðið/RAX

x

SunnudagsMogginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: SunnudagsMogginn
https://timarit.is/publication/785

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.