Morgunblaðið - 20.02.2010, Page 38
38 Minningar
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. FEBRÚAR 2010
✝ Björn Helgasonfæddist á Fossi á
Síðu 6. desember
1943. Hann lést á
líknardeild Landspít-
alans í Kópavogi hinn
12. febrúar.
Foreldrar hans
voru Helgi Eiríksson,
bóndi á Fossi á Síðu,
fæddur þar 17.6.
1900, d. 9.5. 1990, og
Guðrún Sigríður
Björnsdóttir frá
Hafnarfirði, f. 2.7.
1901, d. 20.6. 1992.
Eftirlifandi systir Björns er Guðleif
Helgadóttir ljósmóðir, f. 9.2. 1937,
búsett á Fossi.
Björn ólst upp á
Fossi, og fór ungur að
taka þátt í bústörfum.
Um tvítugt fór Björn
nokkrar vertíðar til
Vestmannaeyja. Hann
starfaði um tíma sem
héraðslögreglumaður
í Vestur-Skaftafells-
sýslu en tók síðan við
búi föður síns, hans
ævistarf var fyrst og
fremst sauð-
fjárbúskapur.
Björn verður jarð-
sunginn frá Prestbakkakirkju laug-
ardaginn 20. febrúar kl. 14.
Björn frændi minn á Fossi er far-
inn í sína hinstu ferð. Hann var svo
sem ekki alveg tilbúinn í þetta ferða-
lag frekar en aðrar ferðir sem hann
talaði um að fara. En eitt er víst að
þótt hann hefði ekki farið víða þekkti
hann kennileiti og staðhætti á Íslandi
eins og hann hefði komið þangað
sjálfur margoft.
Hann frændi minn var um margt
sérstakur maður, gat verið jafn ljúfur
sem hrjúfur, en þá hlið sýndi hann
mun sjaldnar. Honum var meinilla
við að vera í sviðsljósinu, vildi ekki
fara fremstur eins og hann orðaði
það, „far þú, ég kem á eftir“. Af hon-
um lærði ég bæði málfar og tónfall
sem er að falla í gleymsku, þetta að
draga sérhljóðana á einstakan hátt,
til dæmis að segja kjur og ukkur. Ég
hef þekkt hann frá því ég man eftir
mér, hann var hluti af ættingjum
mínum í sveitinni sem ég tilheyrði á
hverju sumri í barnæsku.
Foss var á þeim tíma fyrir mér eins
konar heimsendi, það tók heilan dag
að komast þangað og rútan gekk ekki
lengra. Bæjaþyrpingin iðaði af lífi,
unnið á daginn en á kvöldin fórum við
krakkarnir í leiki og það var alltaf
gott veður. Með árunum fækkaði
fólkinu og þótti okkur Bjössa það
undarlegt að hann væri eini bóndinn
austan við læk á Fossi.
Þeir sem þekktu hann vita að dýr
voru honum kær, þó sérstaklega
hundur að nafni Glói, en sá naut sömu
réttinda og aðrir heimilismenn. Þetta
átti nú ekki alltaf upp á pallborðið hjá
mér þegar ég var fyrir austan að
sumarlagi nú fullorðin í húsverkum.
Þegar ég hugsa til baka sé Bjössa
ljóslifandi fyrir mér sitjandi við eld-
húsborðið, í horninu, önnur höndin
hvílir á eldhúsborðinu, hann álútur,
kíminn á svip þegar ég skammast í
hundinum að snauta úr eldhúsinu.
Hundur hlýðir ekki, stingur sér undir
stól hjá Bjössa, sem launar honum
með sykurmola og skjallar hundinn
fyrir snilldina. Það var reyndar svo
með dýrin að hann náði einhverjum
tengslum við sum hver eins og máv-
inn sem hefur komið árlega undan-
farin ár nánast upp á sama dag. Þessi
mávur hefur verið matargestur
Bjössa í nokkur sumur og launaði
fuglinn honum með því að fylgja hon-
um, sveimaði kringum hann þegar
hann var að vinna í nágrenni við bæ-
inn.
Bjössi hafði þann eiginleika að
skilja án þess að nota mörg orð, til
dæmis hýsti hann eitt sinn hrakta
ferðamenn, gaf þeim að borða og kom
þeim í skilning um að smjörið ætti að
vera jafn þykkt og rúgbrauðssneiðin.
Um jólin kom svo kort með heimboði
frá næturgestunum hvenær sem
hann væri á ferðinni um Sviss.
Bjössi var höfðingi heim að sækja
en gat verið seintekinn ef honum
sýndist svo. Hlýja, gjafmildi og vænt-
umþykja var það sem hann sýndi mér
og börnum mínum, Eiríki og Rós-
eyju, sem ég verð honum ávallt þakk-
lát fyrir. Síðasta gjöfin frá honum var
sú að nú ætti ég að kaupa dúk fyrir
aurinn sem hann lét mig fá, og lét það
fylgja með að hann væri ekki að gera
lítið úr dúkaeign minni, „en ég vil að
þú eigir fallegan 12 manna dúk“.
Bjössi minn, í minningu þína verður
veislan haldin með fallegum dúk.
Hafðu þökk fyrir allt frændi.
Halla Eiríksdóttir.
„Sæl ljúfan mín.“ Þessi orð munu
alltaf minna mig á þig elsku Bjössi
minn. Það er svo erfitt að trúa þessu,
að þú sért farinn frá okkur öllum.
Besti frændi sem var hægt að óska
sér, þú varst mér samt alltaf eins og
afi. Alltaf þegar ég kom á Foss á Síðu
til ykkar Lillu fann ég fyrir gleði og
umhyggju. Það var alltaf jafngaman
að heyra hljóðið í bílnum þegar mað-
ur renndi í hlaðið hjá ykkur og sá
hundana koma á móti sér og svo ykk-
ur systkinin koma að knúsa mann.
Ég á svo margar skemmtilegar og
fallegar minningar frá því að vera hjá
ykkur.
Það er alveg ógleymanlegt þegar
ég kom til ykkar ein og fékk að vera
hjá ykkur í viku að hjálpa til. Einn
daginn fékk ég svo að hjálpa til við að
smala. Þú sagðir mér að fara upp-
fyrir túnið og svo suðureftir og ganga
svo áfram í austur og ég hafði ekki
hugmynd hvað þessi orð þýddu. Ég
reyndi eins og ég gat að átta mig á í
hvaða átt ég ætti að fara en sem bet-
ur fer gekk allt vel að lokum. Það
runnu oft tár þegar við kvöddumst og
einhvern veginn náðir þú alltaf að
lauma pening í höndina á mér þegar
ég fór.
Það var svo skrítið að heyra að þú
værir orðinn veikur og værir á
sjúkrahúsi, þú sem varst alltaf svo
duglegur og hraustur og það amaði
aldrei neitt að þér. Ég veit að Glói er
svo ánægður núna þegar þú ert kom-
inn til hans en þetta er svo erfitt fyrir
okkur hin hér niðri.
Ég á eftir að sakna þín svo mikið
elsku Bjössi minn, það verður aldrei
eins að koma í heimsókn á Foss á
Síðu án þín. Minning þín mun alltaf
lifa hjá mér og ég vona að þú hafir
það gott núna þar sem þú ert.
Hvíldu í friði.
Þín
Rósey.
Helgi? Sæll, Bjössi hérna. Hvað
segirðu ljúfurinn?
Nokkurn veginn svona byrjuðu
símtölin þegar Bjössi hringdi. Þessi
símtöl voru alltaf skemmtileg, frændi
léttur í skapi, farið yfir það helsta
sem framundan var og ákveðið að
hittast næst þegar ég kæmi austur.
Þá var þar kaffi og moli, jafnvel
súkkulaði. Það var gott að finna vin-
áttuna og hlýleikann frá Bjössa,
svona eins og hann ætti hlut í manni.
Þannig leið mér allavega. Hann hafði
sérstakt lag á að láta okkur krakkana
finnast við skipta máli þegar við vor-
um ung, hann tók eftir því sem við
vorum að gera og hrósaði okkur fyrir.
Enda var hann mikill barnakall og að
sama skapi sóttu þau í hann. Oft hafa
heyrst hróp inn um dyrnar í vestur-
bænum frá krökkunum okkar, „Við
ætlum til Bjössa“, svo hlupu þau
austrí bæ, fengu að gefa heimagöng-
unum hjá Bjössa og Lillu, fengu
nammi í lófann og jafnvel rúnt á fjór-
hjólinu. Kynni þeirra af Bjössa eru
þannig að þau minnast góðmennis.
Ég minnist allra fjöruferðanna,
þar sem Roverarnir voru þandir eftir
fjöruborðinu, Bjössi og pabbi í kapp-
keyrslu, með bros á vör, ferðanna á
Zodiac-bátnum austur yfir Síki, þar
sem Foss- og Sandmenn fóru á kost-
um. Fjöruferðirnar voru spariferðir,
þar voru Fosskallarnir í sínu besta
skapi og Sandmenn með. Rekinn var
keyrður heim að Sléttabóli og skipt í
þrjú köst. Sandmenn, austan læks og
vestan læks. Þegar búið var að setja
kestina á vagnana komu Austurbæ-
ingar, Bjössi og Siggi, með þá smogn-
ustu spýtu sem þeir fundu, færðu ná-
grönnum sínum fyrir vestan læk að
gjöf með auðmýkt og beygingum. Að
sama skapi var þeim færð önnur eins
ónýta spýtan, með sömu virðingunni.
Svona var kátínan og einingin á körl-
unum í þessum verkum. Minnist ég
smalaferðanna á sandinn og í heiðina,
ferðanna í afréttinn, þar sem „Kvöld-
ið er fagurt“ var sungið hárri raustu
en söngmaður var Bjössi góður.
Bjössi var mikill tækjamaður, átti
stórar og miklar vélar og ég man
hvað mér þótti 165-an stór og falleg-
ur traktor á sínum tíma. Eftir þessu
tók Bjössi og í girðingavinnu austrí
Teygingum þegar var ég lítill pjakk-
ur var mitt hlutverk að gera út
gaddavírinn á gamla Fergusoninum
hans pabba. Stór steinn var í girð-
ingastæðinu og ekki um annað að
ræða en að færa hann frá. Þá lagði
Bjössi til að ég færi upp í nýja trakt-
orinn hans, 165-una, bakkaði að
steininum og drægi síðan steininn
frá. Ósköp hefur þetta nú verið
klaufalegt hjá stráknum í vesturbæn-
um og tekið langan tíma. En mikið
þótti mér til koma. Svona var Bjössi
næmur á drauma okkar krakkanna
og þrár.
Allar þessar minningar ylja mér
um hjartaræturnar á meðan ég
sakna frænda sem var einlægur vin-
ur sem þó bar tilfinningar sínar ekki
stöðugt á torg en gat það og gerði,
þegar vel stóð á.
Kæran frænda kveð ég löngu áður
en ég ætlaði en Björn á Fossi bar þó
höfuðið hátt fram á síðasta dag.
Elsku Lilla, megi góður Guð
styrkja þig í sorginni.
Helgi Pálsson.
Veistu ef þú vin átt
þann er þú vel trúir
og vilt þú af honum gott geta.
Geði skaltu við þann blanda
og gjöfum skipta,
fara að finna oft.
(Úr Hávamálum)
„Mikið er gott að sjá þig væna
mín,“ heilsaði Bjössi mér ávallt og
tók svo þéttingsfast í hönd mína sem
hvarf inn í stóran hramminn. Manni
hlýnaði alltaf inn að hjartarótum að
finna að honum þætti svona vænt um
að maður væri til.
Bjössi var góður nágranni og vinur
sem oft átti leið vestur yfir lækinn í
ýmsum erindagjörðum, alltaf akandi
á bíl eða traktor. Stundum kom hann
og leit út eins og hann hefði allar
áhyggjur heimsins á herðunum. Þá
var oftast eitthvað bilað eða eitthvert
verkefni svo snúið að aðstoðar var
þörf. Var þá stundum viðkvæðið að
honum þætti nú ekki mikið til sín
koma að þurfa að leita á náðir for-
eldra minna með aðstoð hvort sem
var við bilaða vél eða rifna brók. Hið
mikla og einlæga þakklæti sem hann
lét í ljós fyrir hvert viðvik í hans þágu
er nokkuð sem maður upplifir ekki
oft í hröðum heimi nútímaborgarlífs-
ins.
Oft leit hann inn og þáði kaffi og
ræddi landsins gagn og nauðsynjar.
Kíminn sagði hann hnyttnar sögur og
kátt var á hjalla. Bjössi hló ekki hátt
en hann gat grátið af hlátri. Svo þeg-
ar hæst lét stóð hann stundum allt í
einu upp og þurfti að sinna einhverju
brýnu. Það var eins og hann vildi ekki
að það yrði of skemmtilegt svona eins
og í máltækinu; hætta ber leik þá
hæst stendur.
Það eru forréttindi að hafa fengið
að alast upp í nágrenni við mann eins
og Bjössa. Hjálpsemi, ósérhlífni, hóg-
værð og nægjusemi eru dæmi um
þau mörgu góðu gildi sem maður
kynntist af umgengni við hann. Von-
andi ber ég gæfu til að hafa þau í há-
vegum. Hvíl í friði, kæri Bjössi.
Kristín Jónsdóttir.
Þau eru orðin mörg árin síðan ég
tók að venja komur mínar að Fossi,
til þeirra systkina Björns og Lillu.
Foss er næstum nákvæmlega á
miðri leið frá Reykjavík austur í Lón.
Á tíðum milliferðum hefur verið kær-
komið að þiggja þar nokkra bolla af
sterku rjómakaffi og meðlæti ef svo
bar undir. Foss 1 er langbesta kaffi-
húsið á þessari leið.
Oftar en ekki var Björn heima og
áttum við þá góðar stundir í eldhús-
inu á spjalli um heima og geima. Í
seinni tíð barst talið óhjákvæmilega
að spillingunni og glæfrahyskinu,
sem svívirt hefur öll okkar gildi.
Hvorugur skildi mikið, en sýnu
minna Björn, sem hafði minna en ég
varið lífinu við lystisemdir og forvölt-
un peninga.
Ef sporöskjulaga borð hefur enda
þá sat Björn alltaf við vesturenda
borðsins, við vesturgluggann þaðan
sem fossinn blasir við skáhallt út og
upp. Á meðan við ræddum saman
blíndi hann ævinlega á fossinn og ég
horfði á vangasvip hans bera við
fosshamrana í vestri, út um
gluggann.
Að lokum varð vangasvipur
Björns gluggi minn að fossinum og
þeir runnu saman í eina ódeilanlega
mynd. Nú er þessi mynd brotin og ég
þarf að læra að horfa á fossinn á ný
eins og sá sem fyrst kom að honum í
árdaga.
Stríð Björns við krabbann var
hljóðlátt og æðrulaust eins og allt
hans líf og fas. Það er gæfa að fá að
þekkja og umgangast hvunndags-
hetjur, sem vaxa út úr landinu lausar
við flærð, og lifa lífinu í átakalausri
sátt við almætti og menn.
Að leiðarlokum þökkum við Birni
vináttu hans og hlýju og vottum Lillu
okkar dýpstu samúð.
Árni, Kristbjörg og börn.
Ég hugsa um sumarkvöld á
hlaðinu á Fossi. Það er sól, heimaln-
ingar jarma og vonast eftir því að fá
athygli frá Bjössa, þessum hávaxna
bláklædda karlmanni sem er á leið á
milli húsa. Hundurinn Skussi heldur
sig til hlés en hvolpurinn Glói ólmast
um hlaðið. Búið er að setja upp lítið
grill undir vegg og verið er að gera
því skóna að grilla lax sem galdraður
var fram eins og í einni andrá. Það er
sumarlykt í loftinu, þessi sérkenni-
lega blanda af gras- og skepnuilmi og
himinninn er blár. Við sitjum á
tröppum gamla hússins og njótum
sumarblíðunnar, bíðum eftir því að
laxinn verði klár og lífið virðist óend-
anlega fullt af möguleikum og nánast
endalaust, rétt eins og landið sem
hverfur í sandinn suður undan bæn-
um og óvíst er hvar endar. Ég átti því
láni að fagna að kynnast Birni bónda
og fá að dvelja í gamla húsinu á Fossi
af og til í sumarblíðu um nokkurra
ára skeið. Björn var bóndi og virtist
lítt kæra sig um skarkala heimsins,
enda ekki laust við að hægt væri að
kúpla sig frá þessum téða skarkala
um leið og rennt var í hlaðið á Fossi,
þar sem fossniðurinn tók völdin.
Björn var samt heimsmaður á sína
vísu og býsna vel með á nótunum og
tók virkan þátt í rökræðunum sem
fram fóru í gamla húsinu. Átti hann
það til að lauma kímilegum athuga-
semdum inn í margt hitamálið sem
brann á gestum gamla hússins liðna
sumardaga.
Eflaust hefði verið auðsótt mál að
koma og dvelja á Fossi eins lengi og
oft og mig hefði lyst og trúlega hefði
hljómur sumranna þá einhvern veg-
inn orðið tærari og hreinni í sveita-
sælunni á Síðunni. Ég kveð Bjössa
með þessum minningabrotum og
hugsa til hans þar sem honum líður
best í hinu eilífa landi sumarsins.
Dagný Bergþóra Indriðadóttir.
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
Engið, fjöllin, áin þín
– yndislega sveitin mín! –
heilla mig og heim til sín
huga minn úr fjarlægð draga.
Blessuð sértu sveitin mín!
sumar, vetur, ár og daga.
(Sigurður Jónsson)
Björn Helgason var fæddur og
uppalinn á Fossi á Síðu, sem í mínum
huga er fallegasti staður landsins.
Ég var send í sveit að Fossi til föð-
urbróður Björns, Óskars Eiríksson-
ar. Óskar var einbúi og laðaðist ég
fljótt að næstu nágrönnum, Bjössa,
Lillu, Guðrúnu og Helga Eiríks,
enda alltaf eins og ég væri ein af
þeim. Þar var hjartarúmið nægt. Frá
þessum tíma hef ég verið heilluð af
sveitinni. Björn var hár og myndar-
legur maður. Mér fannst hann „týp-
ískur“ V-Skaftfellingur. Hann var
hugljúfur maður, eilítið feiminn en
húmorinn var til staðar þegar við átti
og svo var hann óvenju glöggur. Ég
er þakklát forsjóninni fyrir að hafa
kynnst Birni og Guðleifu systur
hans, sem lifir nú bróður sinn, sem
og fyrir allar yndislegu stundirnar
sem ég átti á Fossi.
Guðný Aðalsteinsdóttir.
Björn Helgason
Allar minningar á einum stað.
ÍS
L
E
N
S
K
A
S
IA
.I
S
M
O
R
48
70
7
01
/1
0
–– Meira fyrir lesendur
Minningar er fallega innbundin bók sem hefur að
geyma æviágrip og allar minningargreinar sem birst
hafa um viðkomandi í Morgunblaðinu eða á mbl.is.
Bókina má panta á forsíðu mbl.is eða á slóðinni mbl.is/minningar
Um leið og framleiðslu er lokið er bókin send í pósti.
Hægt er að kaupa minningabækur með greinum sem
birst hafa frá árinu 2000 og til dagsins í dag.
Minningarkort
535 1825
www.hjarta.is 5351800