Morgunblaðið - 07.12.2010, Qupperneq 21
Þú vaktir yfir mér þegar ég
fæddist og kallaðir á mömmu um
leið þú hélst að ég væri að vakna
eða að það þyrfti að fara að skipta
á litlu systur.
Þetta lýsir þér svo vel, Bjarni.
Þú varst einstaklega umhyggju-
samur og máttir ekkert aumt sjá.
Þú varst fyrirmyndin sem ég dáði
og leit upp til.
Vitur maður sagði að enginn
gæti unnið dauðastríðið, en ég hélt
þó alltaf í vonina um að þú gætir
það, eins og þegar ég var lítil og
trúði því að stóri bróðir gæti allt í
heiminum.
Aldrei skammaðir þú mig eða
yngri systkinin þótt við værum að
stelast í þitt dót. Ég gleymi aldrei
hvað ég og Guðbjörg systir vorum
skömmustulegar þegar þú sagðir
okkur að það væri teljari á „fón-
inum“ sem sýndi hvað væri búið að
spila margar bítlaplötur á meðan
þú værir í burtu. Ég man ekki eftir
einu einasta styggðaryrði frá þér.
Ég man líka þegar þú sigldir um
höfin sjö og komst heim með alls
kyns góðgæti handa okkur. Þú
naust þess að gera vel við aðra og
varst fullur af náungakærleik.
Þú kenndir mér að borða þorra-
mat, hættir ekki fyrr en ég hafði
smakkað allt góðgætið. Enda
varstu mikill sælkeri og elskaðir að
elda og borða góðan mat í faðmi
fjölskyldu og í vinahópi.
Þú varst einstakur smekkmaður
í öllu, ekki síst þegar þú valdir
hana Sigurveigu sem lífsförunaut.
Heimili ykkar er einstaklega fallegt
og smekklegt og alltaf gott að
koma heim til ykkar. Mesta ríki-
dæmi þitt var fjölskylda ykkar.
Elsku Bjarni; við erum í ótrúlega
gæfuríkri og samheldinni fjöl-
skyldu. Ég er svo þakklát fyrir að
hafa verið hjá þér síðustu dagana
þegar þú varst umvafinn ást og
umhyggju fjölskyldunnar. Það var
mjög sárt að sjá á eftir þér, en ég
er samt þakklát fyrir að þú sérst
laus við þær miklu kvalir sem lagð-
ar voru á þig.
„Breytileiki lífsins er sannleik-
urinn. Maðurinn er það augabragð
sem hann lifir og breytist á. Í lífi
mannsins er aðeins til eitt auga-
bragð þessa skilyrðislausa sann-
leika sem stendur stöðugur í eitt
skipti fyrir öll, – og það er dauða-
stundin, sú stund þegar maðurinn
hættir að lifa og breytast. Og það
er jafnvel vafasamt hvort þetta
augabragð er til í raun og veru.“
(Halldór Laxness: Salka Valka.)
Er þetta augabragð nokkuð til?
Því þú verður alltaf hluti af lífi
mínu og lifir að eilífu í hjarta mínu.
Með söknuði kveð ég þig að
sinni, elsku Bjarni. Ég trúi því að
við munum hittast á ný, þangað til
get ég glaðst yfir öllum minningum
um þig. Sigurveig og fjölskylda þín
hafa staðið eins og hetjur við hlið
þér í þessum erfiðu veikindum. Ég
bið góðan guð að gefa þeim styrk á
erfiðum tímum.
Guðmundína Ragnars-
dóttir (Dína systir).
Komið er að kveðjustund. Elsku-
legur bróðir minn, hann Bjarni, er
dáinn.
Á hugann leita ótal minningar
allt frá því ég man fyrst eftir mér
sem lítilli stelpu.
Ég átti besta stóra bróður í
heimi. Ég var sannfærð um það
sem barn og ekki síður sem full-
orðin.
Bjarni naut þess að hlusta á tón-
list og fyrstu bernskuminningarnar
eru frá Bítlatímanum en Bjarni
smitaði litlu systur af einlægum
Bítlaáhuga sínum. Hann hefur
sennilega lagt drög að tónlistar-
smekk mínum því það kom í ljós á
fullorðinsárum að þar áttum við
ýmislegt sameiginlegt.
Bjarni fór ungur á sjóinn og það
var ávallt mikil eftirvænting þegar
von var á honum í land. Alltaf kom
hann með eitthvað til að gleðja
okkur yngri systkinin. Hann var
mikill töframaður og heillaði mig
upp úr skónum með ótrúlegustu
brögðum og brellum. Ekki eru
nema örfáir mánuðir síðan hann
töfraði fyrir mig síðast og ég var
enn jafn hrifin af lagni hans.
Golfið heillaði Bjarna þegar hann
var ungur maður og þótti mér
þetta sérkennileg íþrótt. Ekkert
hlaup og enginn hamagangur en
þar var Bjarni svo sannarlega á
heimavelli allt frá upphafi. Fyrir
fáeinum árum byrjuðum við Sig-
urveig, konan hans, að spila golf.
Alltaf var Bjarni jafn hvetjandi,
alltaf jafn rólegur og alltaf jafn þol-
inmóður á vellinum þrátt fyrir að
höggin væru ansi mörg hjá okkur.
Hann þreyttist aldrei á að hrósa
fyrir gott högg eða skynsamlega
ákvörðun. Golfið er fyrir alla, sagði
hann, allir geta spilað á jafnrétt-
isgrundvelli.
Bjarni var mikill gourmet-maður
og við Bragi nutum margra góðra
stunda með þeim hjónum þar sem
alúð var lögð við framreiðslu ekki
síður en matseld, enda hjónin mikl-
ir fagurkerar. Golfferðirnar okkar
innanlands sem utan standa upp úr
á þessu ferðalagi minninga. Nú síð-
ast fórum við í Öndverðarnesið í
bústað fjölskyldu Sigurveigar og
spiluðum þar og á Hellu og nutum
þess svo að slappa af í sundlaug-
inni. Á kvöldin skiptumst við á að
töfra fram glæsilega máltíð sem
hefði vel getað prýtt borð betri
veitingahúsa. Ekki eru nema örfáir
dagar síðan Bjarni spurði hvort bú-
ið væri að finna stað fyrir vorferð-
ina. Sú ferð verður ekki söm.
Heiðarleiki, dugnaður og elju-
semi voru einkennismerki Bjarna.
Hann fékkst ekki við neitt með
hálfum hug eða hangandi hendi. Ef
hann tók að sér verk lagði hann allt
í það. Skipti þá engu hvort um var
að ræða að vinna vel fyrir við-
skiptavini sína eða í félagsstarfi þar
sem hann var óspar á krafta sína
þrátt fyrir að burðast með erfiðan
sjúkdóm árum saman. Bjarni tókst
með æðruleysi á við veikindi sín,
hann reyndi ávallt að sjá spaugileg-
ar hliðar mála og gantaðist við okk-
ur allt til loka.
Fátækleg orð geta aldrei túlkað
þær minningar sem ég er svo rík
að eiga. Minningar um góðan, fal-
legan bróður, mikla persónu og
góðan vin. Söknuðurinn er mikill en
þakklætið einnig. Því það eru for-
réttindi að hafa haft Bjarna sem
bróður og vin í hálfa öld.
Guð styrki Sigurveigu, börnin,
barnabörnin, mömmu, pabba og
okkur öll í sorginni.
Guðbjörg Elín.
Bjarni mágur okkar kom í fjöl-
skylduna árið 1973 en þá vorum við
17 og 18 ára gamlar. Okkur varð
fljótt ljóst að stóra systir okkar
hafði krækt i flottan gæja. Fyrsta
minningin um Bjarna er þegar
hann kom í Kastalagerðið að vitja
sinnar heittelskuðu. Eyja kom
heim úr skólanum með happa-
drættismiða sem hún þurfti að
selja vegna fjáröflunar á vegum
nemendafélagsins. Eyja var eitt-
hvað að vandræðast með miðana
enda lítil sölukona og við systur að
hitta Bjarna í fyrsta sinn. Bjarni
gerði sér lítið fyrir og keypti alla
miðana á einu bretti.
Þetta litla atvik lýsir í senn ör-
læti hans og er dæmigert fyrir
hversu grand Bjarni gat verið. Má
með sanni segja að hann hafi
stimplað sig rækilega inn hjá okkur
systrum við fyrstu kynni.
Þegar Sigurveig og Bjarni hefja
búskap er hann stýrimaður á milli-
landaskipi og sigldi á Ameríku. Við
fjölskyldan nutum góðs af því enda
allt svo ódýrt og spennandi í henni
Ameríku auk þess sem hann keypti
ýmislegt matarkyns sem við höfð-
um aldrei smakkað og þekktist
ekki hér.
Bjarni er í hugum okkar prúð-
menni, hjartahlýr og greiðvikinn.
Hann var mikill snyrtipinni og allt-
af flottur í tauinu.
Bjarni var fylginn sínum skoð-
unum og ef maður var honum ekki
sammála gerði hann allt sem hann
gat til að sannfæra mann um hið
„rétta“ í málinu. Punktur.
Hann gat líka verið mjög einlæg-
ur og stundum jafnvel barnslega
glaður og spenntur þegar eittthvað
skemmtilegt stóð til eins þegar
hann var að undirbúa fjölskyldu-
golfmót sem hann átti hugmyndina
að.
Hann var góður heim að sækja
enda bæði góður kokkur og gest-
gjafi og eru þau ófá matarboðin þar
sem snilli hans fékk notið sín.
Fyrir einungis tveimur mánuðum
greindist Bjarni með illkynja
krabbamein.Undanfarin ár hefur
hann þurft að glíma við verki og
vanlíðan af völdum liðagigtar. Vafa-
lítið hefur það átt þátt í að krabba-
meinið greinist svo seint sem raun
bar vitni. Upp í honum kom keppn-
ismaðurinn og ætlaði hann ótrauð-
ur að berjast við sjúkdóminn. En
því miður var meinið búið að dreifa
sér um líkamann þannig að við of-
urefli var að etja.
Systir okkar hefur sannarlega
verið hans stoð og stytta í gegnum
árin og hann alltaf getað treyst á
hana í einu og öllu.
Við kveðjum okkar kæra mág
með söknuði.
Elsku systir, María, Steinar,
Annetta og fjölskyldur, megi minn-
ingin um góðan dreng lifa.
Eiríksína og Guðný
Hafsteinsdætur.
Þá er genginn á vit forfeðranna
mágur minn Bjarni Ragnarsson.
Brátt bar það að og ótrúverðugleiki
fjarveru hans er enn til staðar. Við
Bjarni tengdumst fjölskyldubönd-
um fyrir 30 árum og þeirri vegferð
lýkur í dag. Þá var Bjarni eldgam-
all maður, 30 ára að aldri, giftur
Sigurveigu sinni, átti börn og bjó í
húsi í Kópavogi. Hann tók
stráklingnum vel og af ábyrgð og
yfirvegun eins og hans stíll var.
Undir niðri réð einlæg umhyggja
fyrir því að systir hans væri í góð-
um höndum. Eftir því sem árin liðu
yngdust Bjarni og Sigurveig, sam-
gangur milli okkar hjóna varð
meiri, golfið, ferðalög, skemmtanir
og fjölskyldusamvera varð tíðari og
ég er ekki frá því að á síðustu ár-
um hafi Bjarni verið orðinn jafn-
aldri minn.
Bjarni var fríður maður, dökkur
makki, stundum skeggjaður en
annars svört skeggrótin. Dálítið
breiðleitur, svartbrýndur með lif-
andi og kankvíst augnaráð og mið-
andlitið af Bergþórugötunni hvar
móðurættin réð ríkjum. Þar átti
Bjarni góða tíma í æsku. Munn-
svipurinn fagur og svipmótið í heild
sinni lýsti alvöru og ábyrgð. Bros-
andi Bjarni, sá sem ég þekkti mest
og best, lýsti upp tilveruna og lífg-
aði alla í nálægð. Stríðnissvipurinn
kom þegar honum leið vel og þá
var gantast og kannski sýnd töfra-
brögð. Þannig vann hann hug og
hjarta barnanna og bræddi síðan
foreldrana með prinsessu- og
prinsatitlum til handa afkvæmun-
um.
Bjarni var skarpgreindur, sigld-
ur, lífsreyndur og alla tíð þrosk-
aður maður. Hann var ákaflega
hjartahlýr og umhyggjusamur svo
af bar. Virðing, nákvæmni og full-
komnunarárátta í jákvæðum skiln-
ingi þess orðs einkenndi Bjarna og
varkár var hann til orðs og æðis.
Bjarni hafði einstaklega góða nær-
veru og kunni listina að láta öðrum
líða vel. Það var líka hægt að þegja
með honum og það er afrek þegar
tillit er tekið til hans stórskemmti-
legu og frásagnaglöðu ættar sem
sjaldan leggur varir saman nema
til þess að dreifa úr varalitnum.
Snyrtimennska var honum í blóð
borin og smekkvísi hans einstök.
Einhverju sinni þegar við vorum á
leið til veislu fannst honum bindið
mitt algjörlega út í hött. Inn í fata-
herbergi hans lá leiðin og þar varð
ég vitni að slíkri nostursemi að ég
hef ekki borið mitt barr í þeim efn-
um síðan.
Hæfileikar Bjarna voru margir
en einbeitingarhæfni ein sú mesta.
Golfíþróttin endurspeglar persónu
Bjarna býsna vel þar sem virðing,
traust, kurteisi, andleg og líkamleg
geta fara saman. Þar var Bjarni á
heimavelli. Mikið mun ég sakna
þeirra góðu stunda sem við áttum
saman þar því það var einstaklega
gaman að spila með Bjarna. Virð-
ing hans fyrir íþróttinni og með-
spilurum leiddi ávallt fram hið
besta í manni. Hið besta dugði þó
ekki því einbeiting Bjarna tryggði
honum oftast betra skor.
Bjarni skilur eftir sig fjársjóð
minninga. Hann var börnum sínum
og systkinum einstök og góð fyr-
irmynd. Elsku Sigurveig, Anetta,
María, Steinar, Steinvör og Ragn-
ar. Missir ykkar er mikill en fjár-
sjóðurinn er huggun harmi gegn.
Við rifjum upp góða tíma saman á
næstu misserum. Bjarni verður
alltaf hluti af okkur.
Kv.
Bragi Bragason.
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. DESEMBER 2010
Fleiri minningargreinar
um Bjarna Ragnarsson bíða birting-
ar og munu birtast í blaðinu næstu
daga.
✝
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir og amma,
SIGRÍÐUR THEÓDÓRA PÉTURSDÓTTIR,
Lágholti 21,
Stykkishólmi,
sem lést miðvikudaginn 1. desember, verður
jarðsungin frá Stykkishólmskirkju föstudaginn
10. desember kl. 14.00.
Eggert Bergmann Halldórsson, Særún Sigurðardóttir,
Þórir Halldórsson, Þórkatla Kristín Valþórsdóttir,
Erla Halldórsdóttir, Ívar Sigurður Kristinsson,
Gyða Stefanía Halldórsdóttir, Ævar Karlsson
og barnabörn.
✝
Elskuleg móðir okkar, tengdamóðir, amma og
langamma,
JÓHANNA ÞÓRUNN EMILSDÓTTIR
frá Lækjarmótum,
Borgarbraut 1,
Borgarnesi,
verður jarðsungin frá Fáskrúðarbakkakirkju
fimmtudaginn 9. desember kl. 14.00.
Veronika Kristín Guðbjartsdóttir, Jóhannes Þórarinsson,
Þóra Kristrún Guðbjartsdóttir, Guðjón Gunnarsson,
Erla Guðrún Guðbjartsdóttir, Magnús Kristjánsson,
Helgi Þröstur Guðbjartsson, Inga Sigríður Ingvarsdóttir,
ömmu- og langömmubörn.
Elskuleg móðir okkar og amma,
HULDA ALDA DANÍELSDÓTTIR,
lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi
föstudaginn 3. desember.
Jarðarförin fer fram frá Hjallakirkju í Kópavogi
þriðjudaginn 14. desember kl. 13.00.
Anna H. Guðmundsdóttir,
Sigurður A. Guðmundsson,
Hans Eirik Dirlie.
✝
Ástkær móðir mín,
SIGRÍÐUR MARÍA SIGURÐARDÓTTIR,
Stigahlíð 20,
Reykjavík,
lést miðvikudaginn 24. nóvember.
Útför hennar fer fram frá Háteigskirkju
miðvikudaginn 8. desember kl. 13.00.
Hanna Þórarinsdóttir.
✝
Ástkær móðurbróðir minn,
KRISTMANN ÁGÚST STEFÁNSSON
frá Húki Miðfirði,
síðast til heimilis að,
Hvammstangabraut 22,
lést að morgni sunnudagsins 5. desember á
Sjúkrahúsinu Hvammstanga.
Fyrir hönd fjölskyldunnar,
Unnur Sveinsdóttir.
Morgunblaðið birtir minningargreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga.
Skil | Greinarnar skal senda í gegnum vefsíðu Morgunblaðsins. Smellt á
reitinn Senda inn efni á forsíðu mbl.is og viðeigandi efnisliður valinn.
Skilafrestur | Ef óskað er eftir birtingu á útfarardegi verður greinin að
hafa borist eigi síðar en á hádegi tveimur virkum dögum fyrr (á föstudegi ef
útför er á mánudegi eða þriðjudegi).
Þar sem pláss er takmarkað getur birting dregist, enda þótt grein berist
áður en skilafrestur rennur út.
Minningargreinar