Morgunblaðið - 11.03.2011, Qupperneq 28
28 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. MARS 2011
✝ Katrín Kolkafæddist á Sauð-
árkróki 29. sept-
ember 1982. Hún
lést 27. febrúar
2011. Foreldrar
hennar eru Jón
Bjarnason, áður
bóndi í Bjarn-
arhöfn, skólastjóri
á Hólum í Hjaltadal
og síðar þingmaður
og ráðherra, f. í
Asparvík 1943, og Ingibjörg Sól-
veig Kolka Bergsteinsdóttir,
þroskaþjálfi og húsfreyja, f. á
Blönduósi 1947. Systkini Katr-
ínar eru: 1) Bjarni, f. 1966, fiski-
fræðingur. Dóttir Kristín Kolka,
f. 1994. Fyrrv. sambýliskona og
barnsmóðir Guðrún Þóra Gunn-
arsdóttir. 2) Ásgeir, f. 1970, hag-
fræðingur, kvæntur Gerði Bolla-
dóttur. Börn Sólveig Kolka, f.
1993, Þórir Kolka, f. 2000, og
Kjartan Kolka, f. 2005. 3) Ingi-
björg Kolka, f. 1972, íslensku-
fræðingur, gift Guðmundi Sæ-
mundssyni. 4) Laufey Erla, f.
1978, stjórnmálafræðingur, unn-
usti Mikhail Timofeev. 5) Páll V.
Kolka, f. 1983, jarðvegsfræð-
ingur, unnusta Sandra Sif Ein-
arsdóttir.
Eiginmaður Katrínar Kolku
er Eiríkur Valdimarsson þjóð-
fræðingur, f. 1982.
Þau Eiríkur giftu
sig á heimili sínu 25.
febrúar 2011, á fjög-
urra ára trúlofunar-
afmæli sínu. For-
eldrar Eiríks eru
Valdimar Eiríksson
og Selma Guðjóns-
dóttir, bændur í
Vallanesi, Skaga-
firði. Saman eiga
Katrín og Eiríkur
soninn Valdimar Kolka, f. 2006.
Katrín ólst upp á Hólum í
Hjaltadal. Hún tók stúdentspróf
á náttúrufræðibraut frá Mennta-
skólanum á Akureyri og kynntist
þar Eiríki, eiginmanni sínum.
Eftir útskriftina var Katrín
skiptinemi í Toscana á Ítalíu en
eftir það hófu þau Eiríkur há-
skólanám og sambúð. Þau eign-
uðust Valdimar Kolka þremur
árum síðar. Katrín hóf nám í
hjúkrunarfræði við HÍ og út-
skrifaðist vorið 2010. Hún starf-
aði m.a. á vökudeild Landspít-
alans og lokaritgerðin fjallaði
um nýbura í áhættumati. Katrín
hugði á framhaldsnám í ljósmóð-
urfræðum.
Útför Katrínar Kolku fer fram
frá Hallgrímskirkju í dag, 11.
mars 2011, og hefst athöfnin kl.
13.
Við erum komin á þann stað
sem ég hélt að við myndum aldrei
ferðast til. Eftir allar okkar ferðir
um náttúru Íslands, þangað sem
við sóttum orku, styrk og ró, er-
um við komin að krossgötum. Það
er komið að kveðjustund þar sem
þú þarft að halda áfram ein. Eftir
standa ljúfsárar minningar. Und-
anfarin misseri hafa verið erfið,
það var erfitt að horfa á kraft-
mikla eiginkonu, móður og sálu-
félaga veikjast, missa þrek og lík-
amlega orku. Þá verður maður
svo lítill, vanmáttugur og hissa yf-
ir lundarfari þess sem öllu ræður.
Við Katrín ákváðum að skuld-
binda okkur hæfilega mikið, tók-
um engin lán heldur litum á lífið
sem lán. Eignuðumst son okkar
hann Valdimar í miðju háskóla-
námi, en það dró ekki úr ham-
ingju okkar. Framtíðin var líka
okkar. Við vorum með þetta allt á
hreinu, enda ung og rétt að byrja
að feta fjárgötur lífsins. Við höfð-
um stór plön, væntingar og áttum
mikla ást.
Í lok árs 2008 hófst nýr kafli í
lífi okkar. Hnútur í brjósti varð að
krabbameini. Hnútur í maga varð
að hafsjó af áhyggjum. En við fór-
um í ferðalög og nutum samvista.
Við, litla fjölskyldan. Katrín
styrkti sig á sál og líkama, borð-
aði hollt, stundaði líkamsrækt,
jóga, sótti myndlistartíma. Var
skapandi, elskandi og kraftmikil í
senn. Síðan greindist krabba-
meinið aftur. Og þvílíkt áfall, eftir
alla þá þrotlausu vinnu sem fer í
að finna sitt heilbrigði eftir erfið
veikindi. Um haustið missti Katr-
ín mátt í fótum, sjónin varð slæm
og margt fleira hrjáði hana síð-
ustu mánuðina. Allan þann tíma
stóðum við saman, gengum í takt
og veittum hvort öðru þá nánd
sem við bæði þörfnuðumst. Og
með tímanum tókst að hnika
sjúkdómnum spölkorn til hliðar.
Þær vonir brustu síðan aftur í
febrúar síðastliðnum. Eftir það
var erfitt að blása glóð í bjartsýn-
ina og baráttuna. En Katrín var
ekki hætt. Hennar staðfesta og
lífsspeki fann sér nýjan farveg, að
sætta sig við orðinn hlut og klára
þetta verkefni reisulega. Saman
náðum við að ræða um dauðann
nokkrum sólarhringum fyrir and-
látið. Þar urðum við sammála um
að minning hennar myndi alltaf
lifa með syni okkar honum Valdi-
mari. Og næstu sólarhringar liðu
hratt og atburðirnir stórir. Við
giftum okkur heima á Aragötu
föstudaginn 25. febrúar, en þann
dag áttum við fjögurra ára trúlof-
unarafmæli. Katrín safnaði sam-
an allri sinni takmörkuðu orku,
og við nutum stundarinnar til
fullnustu. Þennan eftirmiðdag
naut hún lífsins betur en nokkur
heilbrigð manneskja getur gert.
Um kvöldið var Katrín þreytt, en
ég vissi ekki að einum og hálfum
sólarhring síðar myndi ég kveðja
hana í hinsta sinn.
Ég trúi því ekki að þú sért far-
in, að ég hafi horft á eftir þér
hverfa mér úr augsýn. En ég veit
að ég á ýmis ferðalög eftir ófarin,
áður en ég fer á eftir þér. Við eig-
um eftir að hittast aftur. Kannski
við kyrrlátt heiðarvatn undir ein-
um af hinum unaðslegu kvöldroð-
um vorsins þar sem augu okkar
munu mætast aftur.
Við vatnið sem roðann lýsir,
við nálgumst nú bakkana tvo.
Tvær álftir á vatninu miðju
snertast og sofna svo.
Vornóttin færist loks yfir,
friðsæl og löng.
Ég og þú.
Eiríkur Valdimarsson.
Katrín ólst upp á stóru heimili
á Hólum í Hjaltadal í sólbjartri
æsku. Þar undi hún á sumrum við
skógræktina, móttöku gesta og
leiðsögn um Hólastað, en útivera,
fjallgöngur og náttúruskoðun
voru ætíð hennar helstu áhuga-
mál. Katrín okkar geislaði af per-
sónulegum þokka sem heillaði
alla. Hún var ákaflega lífsglöð og
hláturmild stúlka og samvisku-
söm með allt sem hún tók sér fyr-
ir hendur, hvort sem það tengdist
því að læra heima eða laga til í
herberginu sínu. En verkum sín-
um, í lífi og starfi, sinnti hún ætíð
með alúð og nákvæmni og skilaði
með óaðfinnanlegum hætti. Katr-
ínu var mjög umhugað um fólkið
sitt, kærleiksrík fjölskyldumann-
eskja. Þess fengu systkinin að
njóta. Margar stundirnar áttu
þau saman Katrín og Páll yngsti
bróðir hennar í skógræktinni á
Hólum en þar átti hún sér einkar
kæra staði.
Katrín kynntist Eiríki, eigin-
manni sínum, á námsárunum í
MA. Eftir dvöl Katrínar sem
skiptinemi á Ítalíu hófu þau Ei-
ríkur háskólanám og sambúð.
Þau eignuðust Valdimar Kolka 3
árum síðar. Katrín valdi hjúkrun-
arfræði við Háskóla Íslands því
hugurinn stóð til að geta unnið
sem nánast með fólki og sinnt því
af alúð og umhyggjusemi. Námið
gekk vel en brjóstakrabbamein
tafði hana eitt ár. Það var því mik-
il gleðistund þegar því var fagnað
að hún hefði bæði sigrast á sjúk-
dómnum og lokið hjúkrunar-
fræðináminu. Í starfsnámi var
Katrín á vökudeild Landspítalans
og fann hún sig vel í því hlutverki
og hugði Katrín á framhaldsnám í
ljósmóðurfræðum. Síðsumars
2010 var ljóst að krabbameinið
hafði tekið sig upp og við tók erfið
barátta. Katrín var full lífsvilja þó
sjúkdómurinn lamaði líkamlegan
mátt. Hún þráði að safna kröftum
til að geta gengið og orðið sjálf-
bjarga á ný. Sú orrusta var háð
nánast til síðasta dags. Sú ein-
beitni kom vel fram í þeim dug og
krafti sem hún beindi í endurhæf-
ingu samhliða baráttu við þau
mein sem hrjáðu hana. Þegar
ljóst var að hinn illvígi sjúkdómur
hafði náð endanlegu taki, mætti
Katrín því af einstakri hugprýði
og trúartrausti. Hún skildi aldrei
við sig þá miklu reisn sem ein-
kenndi hana allt hennar líf.
Þau Eiríkur giftu sig á heimili
sínu föstudaginn 25. febrúar, á
fjögurra ára trúlofunarafmæli
sínu. „Ég hef ekki séð augu þín
svo skær og glöð lengi,“ sagði sr.
Hildur Eir Bolladóttir er gaf þau
saman. „Já, er það ekki bara róm-
antíkin,“ svaraði Katrín að
bragði. Hún lagði allt sitt í að
njóta brúðkaupsins og samvista
með allri fjölskyldunni. Katrín
lést í faðmi fjölskyldunnar rúm-
um hálfum öðrum sólarhring síð-
ar, en þá hafði hún fullvissað sig
um að eiginmaðurinn, foreldrar,
öll systkinin og mágfólk hennar
væru mætt í hringinn við sæng-
ina. Nokkrum stundum fyrr hafði
hún átt fallega kveðjustund með
Valdimari sínum, sem sagði henni
að krókusarnir í garðinum hefðu
gægst upp úr moldinni þann dag.
Katrín sveif inn í vorið sem hún
hafði þráð svo heitt.
Við fjölskylda Katrínar erum
þakklát fyrir þau hamingjuríku
ár sem við höfum átt með Katrínu
og hún lifir áfram í hjörtum okk-
ar.
F.h fjölskyldu Katrínar Kolku,
Bjarni Jónsson.
Katrín systir mín
Litli sólargeislinn
með ljósu lokkana og björtu aug-
un
sem hlustaði á lóuna á vorin
syngja til sín einnar:
„Kat-rín! Kat-rín!“
Lítil stúlka
æfði sig að krossleggja fætur
og vera fullorðin …
tveggja ára.
Lítil stúlka
vildi læra að elda hafragraut
og vera reiðubúin
fyrir framtíðina …
þriggja ára.
Krókusinn sem springur út
snemma að vori
og boðar von og væntingar
eftir sumrinu.
Fyrsta blóm vorsins
hverfur
áður en grasið grænkar
og lóan kemur ungunum á legg.
Stór stúlka,
stolt og umhyggjusöm móðir,
ástfangin eiginkona.
Stór stúlka
vinkona og stoð
stóru systur.
Bar með sér sumarið
en fór að áliðnum vetri.
Hún þráði vorið
en vorið var ekki tilbúið.
Samt beið hún söngs lóunnar
því hún fann
að fyrir utan gluggann
gægðust krókusarnir upp úr
moldinni,
krókusarnir
sem hún gróðursetti í garðinum.
Brátt kemur vorið
og senn kemur lóan,
minnist sólargeislans ljúfa
og syngur til hennar einnar:
„Kat-rín! Kat-rín!“
Ingibjörg Jónsdóttir Kolka.
Ég varð bæði reiður og rauna-
lega örvæntingarfullur við að
missa litlu systur mína. Að horfa
eftir henni í klær sjúkdóms sem
með undarlegri skilvirkni svipti
hana líkamlegum mætti, en
göngugrindin, hjólastóllinn,
sjúkrarúmið standa nú eftir sem
testament um þær þrautir er
voru lagðar á hana.
Já, hún Katrín litla systir mín
hlaut grimm örlög. Og ég vikna
þegar ég hugsa um hvernig
draumar þessarar ungu stúlku
voru slökktir. En mér er nú samt
efst í huga þakklæti fyrir hana,
fremur en reiði fyrir að hafa misst
hana frá mér. Hennar líf var ham-
ingja, ekki harmleikur. Það er
ekki aðeins hún hafi sjálf verið
hamingjusöm þau ár sem henni
voru gefin, heldur stafaði ham-
ingju af henni fram á síðasta dag.
Sumt geta sjúkdómar og dauði
ekki tekið frá fólki. Þrátt fyrir
krabbameinið var hún ávallt heil-
brigð stúlka. Það er hin mesta
hilling nútímans að við getum
ávallt haft stjórn á lífi okkar.
Þannig hættir okkur til þess að
taka lífið sem eitthvað fast og
jafnvel hversdagslegt. En lífið er
gjöf sem við öll þurfum að skila
aftur á einhverjum tímapunkti,
við bara vitum ekki hvenær, og
við getum aðeins verið þakklát
fyrir þann tíma sem okkur er gef-
inn.
Já, ég fékk það þakkarverða
hlutverk að vera annar af eldri
bræðrum Katrínar. Og mér hlýn-
ar um hjartarætur í hvert skipti
er ég hugsa til kvikrar stúlku með
ljósa lokka og hvella rödd sem ég
leiddi við hönd mér á Hólastað til
þess að skoða kýr og kindur
bændaskólans. Þetta var lítil
systir sem ráðskaðist með bróður
sinn og neitaði að fara aftur heim
fyrr en hún hafði skoðað sína lyst.
Og þá lét hún hann ávallt bera sig
aftur heim á staðinn, upp fjósa-
brekkuna. Ég hélt raunar á Katr-
ínu yfir allt Ísland og hálf Norð-
urlönd þar sem faðir minn
ferðaðist um á eyðimerkurbrún-
um Subaru með fimm börn í aft-
ursætinu og eldri systkinin sátu
undir hinum yngri. Það kom því í
minn hlut af hafa ofan af fyrir
henni á löngum bílferðum sem
hafa án efa reynt á þolrif okkar
beggja. En í minningunni voru
þetta ákaflega góðar stundir þar
sem Katrín var strax á unga aldri
ákaflega skemmtilegur félagi. Ég
fór hins vegar suður í nám og síð-
ar vestur um haf til Bandaríkj-
anna til enn frekara náms, og
missti því eiginlega af unglings-
árum hennar. Þess vegna má
segja að ég hafi síðan kynnst
henni upp á nýtt sem ungri full-
orðinni konu með eigin fjöl-
skyldu, en hún var enn ákaflega
skemmtilegur félagi. Í veikindum
hennar má segja að ég hafi
kynnst henni í þriðja skiptið.
Já, hún Katrín tók þroska
heillar mannsævi í veikindum sín-
um. Og ég dáist að henni þegar ég
hugsa um með hve miklum styrk
hún tók á móti örlögum sínum.
Hún tók þá ákvörðun að gifta sig
þegar hún horfði í mót dauða sín-
um og það brúðkaup er ein falleg-
asta stund sem ég hef lifað. Ein-
um og hálfum sólarhring síðar
kvaddi hún með systkini sín og
foreldra sitjandi í kringum sæng
sína sem er ein áhrifamesta stund
er ég hef lifað. Undir lokin hafði
litla systir mín snúið hlutverkum
okkar við og leitt mig við hönd sér
og kynnt mig fyrir lífinu á nýjan
leik. Guð blessi Katrínu, litlu
systur mína.
Ásgeir Jónsson.
Mig dreymdi Katrínu ekki alls
fyrir löngu, hún kom til mín skæl-
brosandi með síða, ljósa hárið
sitt, stóð svona í dyragættinni og
var bara býsna ánægð með sig.
Hún geislaði öll af gleði og heil-
brigði, hló og kleip létt í „maga-
spikið“ og sagðist hafa fitnað. Ég
varð svo glöð, kraftaverkið hafði
loks átt sér stað – hún hafði vakn-
að heilbrigð. En m.a.s. draumur-
inn gat ekki blekkt mig, ég vissi
að þetta gat ekki verið raunveru-
legt. Samt var það skrýtin tilfinn-
ing að vakna og vita af henni
heima hjá sér jafn veikri og áður.
Það er svo einkennilegt þegar
raunveruleikinn breytist í mar-
tröð og næturnar reynast skjólið
fyrir draumana sem eiga að ræt-
ast.
Mér fannst Katrín ekki mikið
fyrir augað þegar ég sá hana fyrst
á fæðingardeildinni á Króknum,
öll bólgin í framan. Ég hafði
hlakkað svo mikið til að sjá litlu
systur og varð fyrir miklum von-
brigðum en Katrín tók fljótt að
fríkka og var afskaplega fallegt
barn. Mér gramdist sérlega að
hún skyldi alltaf vera höfuðstærri
en ég og stundaði reglulegar
mælingar með málbandi til að
bera saman. Hún og Palli bróðir
voru nánast óaðskiljanleg og á ég
þeim að þakka að ég get sofið af
mér alls kyns hávaða. Stundum
var herbergishurðin mín fótbolta-
mark eða ærslafullir leikir áttu
sér stað – einmitt fyrir utan her-
bergið mitt. Þau brölluðu ýmis-
legt saman og lögðu á ráðin um
málefni fjölskyldunnar, s.s.
áframhaldandi barneignir móður
okkar og leit að kvonfangi fyrir
Bjarna bróður. Mig grunar að
Katrín hafi yfirleitt verið leiðandi
í þessum uppátækjum þó hún
hefði einstakt lag á að sýnast sak-
leysið uppmálað. Þegar ég fékk
lánaðar skólabækur til að kenna
þeim að lesa og skrifa með mikl-
um einræðistilburðum sat Katrín
kyrr og lærði allt, hlýðin og sam-
viskusöm. Enda renndi hún sér
ljúflega í gegnum allt nám á lífs-
leiðinni.
Ég naut þess vel að geta átt
margar skemmtilegar samveru-
stundir með litlu fjölskyldunni
hennar Katrínar. Lífið er safn af
minningum og af þeim á ég gnótt
– ekki síst allar skemmtilegu
gönguferðirnar með Valdimar á
bakinu. Katrín var einstaklega
natin móðir og hugsaði vel um fal-
lega heimilið sitt. Nærvera henn-
ar var sterk, hlýleg og björt. Sam-
skiptin einkenndust af
hispursleysi og góðum skammti
af fyndni, enginn hafði eins gott
lag á að segja okkur systkinunum
til og Katrín. Hún átti einstaklega
gott með að skilja hismið frá
kjarnanum.
Ég er óskaplega þakklát fyrir
hana Katrínu systur mína og
sakna hennar sárt. Hafið kallar
hana alltaf til mín, sæt angan af
þaranum, öldurnar taktfastar en
sterkar, formfagrar en þó svo
kraftmiklar að stundum gusast
upp úr þeim. Sjórinn heldur alltaf
sínum staðfasta andardrætti en
undir niðri kraumar ólga og
ferskleiki. Hefði ég aðeins helm-
ing af þeim styrk og krafti sem
Katrínu var gefinn teldi ég mig
ósigrandi. Katrín var og verður
alltaf djúpalónsperlan í lífi okkar
allra, uppfull af taumlausri orku
og sprengikrafti en þó svo traust
og skynsöm.
Ég hætti trúlega aldrei að
ræða við Katrínu í huganum um
ýmis mál og hver veit nema ein-
hver sé að hlusta.
Laufey Erla Jónsdóttir.
Lífið er undarlegt. Stundum
leikur það við mann og brosir, en
stundum er það hart og miskunn-
arlaust. Þessar hugsanir koma
upp í hugann við minningu
frænku minnar, Katrínar Kolka.
Hún var ljúf og létt í skapi, með
góða kímnigáfu og fallegt bros.
Nærvera hennar var hlý og létt-
lyndi hennar smitaði út frá sér.
Katrín var góðum gáfum gædd og
var allur lærdómur henni auð-
veldur. Eftir stúdentspróf frá MA
lá leið hennar í hjúkrunarfræði,
sem hún lauk síðastliðið vor með
barnahjúkrun sem sérgrein. Sú
grein átti vel við natna og sam-
viskusama manneskju eins og
Katrínu.
Katrín var búin að finna
traustan lífsförunaut, Eirík
Valdimarsson og saman áttu þau
soninn Valdimar Kolka.
Lífið virtist svo sannarlega
brosa við Katrínu uns miskunn-
arleysi þess tók völdin er hún
greindist með krabbamein sem
dró hana til dauða. Í þessum erf-
iðleikum stóð Eiríkur sem klettur
við hlið konu sinnar og Valdimar
litli var henni einnig hvatning í
baráttunni.
Á kveðjustund er efst í huga
þakklæti fyrir allar góðu minn-
ingarnar um hana. Sérstaklega
rifjast upp barnæska hennar, en á
milli okkar þróaðist einlæg vin-
átta. Hún tók alltaf á móti frænda
sínum með bros á vör, bað um að
koma í fangið, stundum litla
stund en líka gat hún tekið sér
þar dálítinn lúr.
Ég bið guð að styrkja son
hennar og eiginmann, foreldra og
systkini, sem og aðra nána ætt-
ingja, missir þeirra er mikill.
Valgeir Bjarnason.
Það er sorg og tóm í huga okk-
ar allra nú þegar við kveðjum
Katrínu okkar Kolka eftir alltof
of stutta samveru. Hennar er sárt
saknað. En það væri ekki í anda
Katrínar að fallast hendur og
drúpa höfði í uppgjöf. Katrín var
baráttukona sem kom vel í ljós í
veikindum hennar. Katrín var
ekki há í loftinu þegar ég hitti
hana fyrst en hún og Palli áttu
þegar í stað sérstakan sess í
hjarta mér og eiga enn. Katrín á
líka sérstakan sess í hjarta dóttur
minnar, hún var svo sannarlega
mikil uppáhaldsfrænka. Katrínu
fylgdi enda alla tíð mikil hlýja og
lífsgleði sem smitaði út frá sér.
Ég votta foreldrum Katrínar,
systkinum hennar og þeim feðg-
um, Eiríki og Valdimar, mína
dýpstu samúð, missir þeirra er
mikill en megi minning um ást-
kæra dóttur, systur, eiginkonu og
móður lýsa þeim og ylja um
ókomna framtíð.
Guðrún Þóra.
Kveðja frá Hólum
í Hjaltadal
Katrín Kolka Jónsdóttir var
Hólastelpa. Hún sleit hér
barnsskónum og fetaði inn í
heim hinna fullorðnu. Í ást-
ríkri fjölskyldu, þéttu sam-
félagi, umkringd háum fjöllum
og fegurð náttúrunnar ólst
hún upp. Æskan slær tóninn
fyrir það sem á eftir kemur.
Birta, gleði og dugnaður ein-
kenndu Katrínu þá og ávallt.
Við sem myndum samfélag
Hólafólks fyrr og nú erum
harmi slegin yfir andláti Katr-
ínar Kolku og vottum fólkinu
hennar öllu okkar dýpstu
samúð.
F.h. íbúa og starfsfólks á
Hólum,
Skúli og Sólrún.
Katrín Kolka
Jónsdóttir
Morgunblaðið birtir minn-
ingargreinar endurgjalds-
laust alla útgáfudaga.
Skil | Greinarnar skal senda í
gegnum vefsíðu Morgun-
blaðsins. Smellt á reitinn
Senda inn efni á forsíðu mbl.is
og viðeigandi efnisliður valinn.
Skilafrestur | Ef óskað er eftir
birtingu á útfarardegi verður
greinin að hafa borist eigi síðar
en á hádegi tveimur virkum
dögum fyrr (á föstudegi ef út-
för er á mánudegi eða þriðju-
degi).
Þar sem pláss er takmarkað
getur birting dregist, enda þótt
grein berist áður en skila-
frestur rennur út.
Minningargreinar