Morgunblaðið - 05.09.2011, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 05.09.2011, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 5. SEPTEMBER 2011 Seðlabankinn spáir að hagvöxtur á næsta ári verði um eitt og hálft prósent. Gangi það eftir mun atvinnu- leysið ekkert minnka, halda verður áfram niðurskurði í velferð- arkerfinu, kaupmáttur launafólks mun rýrna og við munum halda áfram að horfa á eftir fólki flytja í burtu frá landinu. Efna- hagsvandinn birtist okkur einkar skýrt í þeirri staðreynd að fjárfest- ing á síðasta ári var einungis um 10,3% af vergri þjóðarframleiðslunni og hefur hún þó minnkað verulega síðustu ár. Á undanförnum áratug- um hefur þetta hlutfall hins vegar verið vel yfir 20%. Fjárfesting er ávísun á hagvöxt í framtíðinni, en án fjárfestinga fjölgar störfum lítt eða ekki. Samkvæmt frétt Morgunblaðs- ins er Ísland í neðsta sætinu yfir fjárfestingar á EES-svæðinu. Það eru mjög alvarlegar fréttir, þegar horft er fram til næstu ára. Hag- kerfið er að festast í hægagangi, vítahringur skattahækkana, sam- dráttar í ríkisútgjöldum og minnk- andi kaupmáttar blasir við. Þann vítahring verðum við að rjúfa. Hvað eigum við ekki að gera? Við leysum ekki vandann með skattahækkunum á fyrirtæki og al- menning. Yfirlýsingar ríkisstjórn- arinnar um skattahækkanir eða yf- irvofandi þjóðnýtingu fyrirtækja eru til þess helst fallnar að fæla fjár- magn frá landinu. Vandinn verður heldur ekki leystur með því að skapa óvissu um framtíðarfyrirkomulag helstu atvinnugreinar þjóðarinnar, sem setur byggðarlög og bankakerfi í enn eitt uppnámið. Endalaus nún- ingur og átök á milli ríkisstjórn- arflokkanna um stór mál og smá, auka svo enn óvissuna, jafnt í hinu stóra efnahagslega samhengi sem og í hinu smáa, við eldhúsborðið hjá fólkinu í landinu. Áhugavert verður t.d. að fylgjast með afgreiðslu innan- ríkisráðuneytisins á umsókn aðila ut- an EES um stórfellda fjárfestingar í ferðaþjónustu eða hvernig brugðist verð- ur við kröfu vinstri grænna um að hinir augljósu og hagkvæmu virkjanakostir í neðri hluta Þjórsár verði settir í bið. Fjölmörg önnur dæmi mætti nefna um hvernig ríkisstjórnin og hinn veiklaði meiri- hluti hennar á þingi hefur beinlínis lagt steina í götu atvinnu- starfsemi í landinu. Þar er sjávar- útvegurinn augljóst dæmi, en eins mætti benda á bitra reynslu Suð- urnesjamanna af valdstjórninni. Þar gildir einu hvaða hugmyndir eru viðraðar eða tillögur settar fram, allt er það stöðvað, gert tortryggilegt eða tafið. Á meðan bíður atvinnu- laust fólk eftir launaðri vinnu þús- undum saman og þeim fjölgar hratt sem þurfa að leita á náðir sveitarfé- laganna um framfærslu. Sá kostn- aður leggst þungt á sveitarfélögin, sem mörg hver hafa ekki borð fyrir báru. Hvað er til ráða? Enginn vafi er á því að við Íslend- ingar getum unnið okkur út úr þess- um vanda. Það hefur þjóðin áður gert og það við verri aðstæður. Þeg- ar við lítum til þeirra erfiðleika sem mörg ríki innan ESB eru að fást við má ljóst vera að við eigum alla mögu- leika til að búa þannig um hnúta að Ísland verði áfram í hópi þeirra þjóða sem bjóða þegnum sínum hvað best lífskjör. Mig langar að nefna nokkur atriði sem ég tel að muni skipta miklu máli í þeirri framfara- sókn sem verður að hefjast. Nýting orkuauðlinda Nú liggur fyrir áætlun Lands- virkjunar um nýtingu þeirra orku- kosta sem á að vera hægt að ná sátt um að ráðast í og það er hægt að ráð- ast í þessar framkvæmdir með stuðningi mikils meirihluta þjóð- arinnar. Nýtingar- og verndarsjón- armið geta og verða að haldast í hendur. Öfgar í sitthvora áttina mega ekki ráða för, hvorki er hægt að gera þeim til geðs sem við engu vilja hreyfa né þeim sem allt vilja virkja. En ef unnið verður eftir þeirri framkvæmdaáætlun sem Landsvirkjun hefur velt upp, liggur fyrir að þúsundir starfa munu verða til á næstu árum, hagvöxtur mun efl- ast og tekjur ríkissjóðs aukast. Ekki er um að ræða neinar stór- framkvæmdir í líkingu við t.d. Kára- hnjúka, heldur er horft til margra minni virkjanakosta. Alþingi afgreiði rammaáætlun Drög að rammaáætlun um nýt- ingu orkuauðlinda þjóðarinnar hafa litið dagsins ljós. Nauðsynlegt er að Alþingi vinni hratt og taki til af- greiðslu áætlunina. Þau drög sem lögð hafa verið fyrir þingið eru um margt ágæt, en nauðsynlegt er að ræða opinskátt og öfgalaust um ýmsa virkjanakosti sem ýmist hafa verið settir í biðflokk eða jafnvel slegnir af. Má þar nefna virkj- anakosti í Skagafirði sem og Norð- lingaöldu. Við eigum að varast að gera pólitískar málamiðlanir um óskynsamlega niðurstöðu í þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóð- arinnar. Lækkum skatta og einföldum skattkerfið Mjög mikilvægt er að við drögum úr útgjöldum ríkissjóðs með skipu- legum og afgerandi hætti. Nið- urskurðurinn verður að byggjast á skýrri forgangsröðun; langtímasjón- armið skipta hér öllu máli. Nauðsyn- legt er að taka núna þá ákvörðun að skattar verði ekki hækkaðir, hvorki á launafólk né fyrirtæki. Hærri skattar á fyrirtæki draga úr fjárfest- ingum og framkvæmdavilja, og vandi okkar er einmitt sá að það vantar fjárfestingar. Það er ekki skynsamlegt að borða allt útsæðið. Eftir því sem tekjur ríkisins aukast m.a. vegna orkuframkvæmda og uppbyggingar í iðnaði, eigum við að lækka skatta og greiða niður skuldir ríkisins, einkum þær erlendu. Um það þarf að setja fram áætlun, svo bæði fólk og fyrirtæki geti gert raunhæfar áætlanir fyrir sjálf sig. Hættum hringlanda í sjávarútvegsmálunum Eftir mikla fyrirhöfn, langa mæðu og gagnkvæma eftirgjöf náðist sam- staða um sáttaleið í sjávarútvegi, sem allir gátu unað við, en þá urðu innanmein ríkisstjórnarinnar til þess að öllu því var fyrirvaralaust kastað til hliðar og látið undan öfgasjón- armiðum. Fyrir vikið er grundvall- aratvinnuvegur þjóðarinnar — sem nú er mikilvægari fyrir verðmæta- sköpun þjóðarinnar en nokkru sinni fyrr — kominn í uppnám. Nái öfga- öflin innan ríkisstjórnarflokkanna sínu fram er ljóst að sjávarútvegur mun skila umtalsvert minni verð- mætum til þjóðarbúsins, lífskjör á Íslandi munu versna þess vegna og því verður vart trúað að slík ráða- gerð gangi fram. Vitað er að mikil fjárfestingarþörf hefur safnast upp í sjávarútveginum. Við þurfum því að taka ákvörðun strax um að staðfesta þá sátt sem komin var, skapa þannig festu um alla umgjörð sjávarútvegs- ins og þarf þá ekki að kvíða því að sú grein mun leiða efnahagslega end- urreisn landsins. Endurskoðun á stefnu Seðlabankans Vorið 2001 var ný stefna tekin upp við stjórn peningamála á Íslandi, svonefnt verðbólgumarkmið. Full- reynt má telja að sú stefna Seðla- bankans að reyna að styrkja gengi íslensku krónunnar með því að hækka vexti hér á landi langt um- fram það sem gerðist í við- skiptalöndum okkar gangi ekki upp. Í alþjóðlegu samhengi hefur Ísland haldið áfram að vera hávaxtaland eftir hrun, en nýverið sagði Bloom- berg fréttaveitan það greinilegt að forsendur fyrir vaxtamunarvið- skiptum væru að myndast aftur. Það ætti að vekja alla góða menn til um- hugsunar. Það er löngu tímabært að taka það til gagnrýninnar skoðunar hvort svo kallað verðbólgumarkmið henti við stjórn peningamála hér á landi og illa rökstudd vaxtahækkun Seðlabankans á dögunum gerir það enn brýnna. Lögum um Seðlabanka Íslands var breytt í miklu pati árið 2009 til þess eins að losna við þáver- andi seðlabankastjóra og ráða „rétt- an mann“ í staðinn. Þar réð pólitískt ofstæki för, en í engu var hróflað við peningastefnunni frá 2001. Sú gjörð verður ekki aftur tekin, en Alþingi getur og þarf að taka peninga- málastefnuna til sjálfstæðrar endur- skoðunar. Um hana á Seðlabankinn ekki einn að véla. Kapphlaup við tímann Þjóðin þarf ákaflega á því að halda að ríkisstjórnin sé starfssöm og ein- beiti sér að því brýna verkefni að koma efnahagslífinu í lag, en þar ríð- ur mest á að skapa aðstæður til þess að þær þúsundir Íslendinga sem nú ganga um atvinnulausir fái störf við hæfi. Að baki þeirri stjórn þarf að vera traustur og tryggur meirihluti á Alþingi svo unnt sé að ráðast í þær erfiðu aðgerðir sem óumflýjanlegar eru til þess að rjúfa kyrrstöðu efna- hags- og atvinnulífsins. Aðeins þann- ig komust við úr kreppunni: Með því að vinna okkur út úr henni. Ríkisstjórnin hefur sóað dýr- mætum tíma og þrótti í alls kyns gæluverkefni, efnt til ófriðar að óþörfu og svikið gefin loforð við verkalýðshreyfinguna og atvinnu- rekendur. Á hinn bóginn hefur hún vanrækt meginhlutverk sitt, sem stjórnarflokkarnir fengu umboð til vorið 2009: að koma þjóðinni úr öldu- róti hrunsins og á lygnari sjó. Stjórnin hefur illu heilli framlengt þann vanda sem af hruninu leiddi og gert hann verri. Þessu verður að linna og það strax. Við þurfum að setja niður óþarfar þrætur – það er nægur tími til þeirra síðar – og ein- beita okkur að hinu sem við getum gert og getum gert saman í sátt. Þar er erindið augljóst. Allt verður að gera til þess að hægt sé að skapa arðbær störf og stöðva fólksflóttann frá landinu, við megum engan tíma missa. Verkefnin blasa við Eftir Illuga Gunnarsson »Ríkisstjórnin hefur sóað dýrmætum tíma og þrótti í alls kyns gæluverkefni, efnt til ófriðar að óþörfu og svikið gefin loforð við verkalýðshreyfinguna og atvinnurekendur. Illugi Gunnarsson Höfundur er alþingismaður. Helgi Bjarnason Stökkkraftur Fé var rekið inn í almenninginn í Miðfjarðarréttum á laugardaginn. Þessi rolla tók undir sig stökk af spenningi, eflaust ekki búin að átta sig á því að hún var að kveðja frelsið.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.