Íslenskt mál og almenn málfræði - 01.01.1985, Blaðsíða 79
77
Breytingar á nafnvenjum íslendinga
2.2.3 Tíðni karlmannsnafna eftir kjördæmum
Þegar 50 algengustu nöfn í þjóðskránni 1982 eru borin saman við 50
algengustu nöfn í hverju kjördæmi á sama tíma kemur í ljós að breyt-
ingar eru fæstar milli þjóðskrár og Reykjavíkur (2 nöfn), en flestar milli
Austurlands og þjóðskrár (10 nöfn). Það virðist því mega álykta að eftir
því sem fjær dregur Reykjavík þeim mun meiri munur sé á nafnanotk-
uninni. Einnig er röð nafnanna talsvert breytileg eftir svæðum. Jón
heldur alls staðar fyrsta sæti, Þór er í 2, —13. sæti, Örn í 6.-36. sæti
o.s.frv. Athygli vekur að nafnið Jóhannes er í 20, — 50. sæti nema á
Austurlandi. Þar er það í 103. sæti. Sama á við um nafnið Guðni. Það
er í 107. sæti á Norðurlandi vestra og 99. sæti á Norðurlandi evstra, en
annars staðar í 21.—62. sæti.
2.3 Athugun á tíðni kvenmannsnafna
2.3.1 Kvenmannsnöfn flokkuð eftir sæti fyrsta og annars nafns
Svipaða sögu er að segja um kvenmannsnöfnin og fram hefur komið
um nöfn karla. Á meðal 50 algengustu nafna í öðru sæti eru 20, sem
ekki eru í hópi 50 algengustu nafna í fyrsta sæti, og þar af eru 10 sem
ekki komast meðal 50 algengustu nafna í þjóðskránni. Af þeim eru sex
tvíkvæð, hin einkvæð, en meðal fyrsta sætis nafnanna er ekkert ein-
kvætt. Björk, sem er algengasta nafn í öðru sæti, er í 107. sæti sem
fyrsta nafn. Ösp kemst ekki á lista yfir 50 algengustu nöfn í þjóð-
skránni, er í 36. sæti sem annað nafn, en aðeins þrjár konur bera það
nafn sem fyrsta nafn.
Athyglisvert er að Guðrún, sem er í fyrsta sæti í þjóðskrá og í fyrsta
sæti sem fyrsta nafn, er í sjötta sæti sem annað nafn, og Sigríður er í
öðru sæti í þjóðskrá, í öðru sæti sem fyrsta nafn og í tíunda sæti sem
annað nafn. Stuttu nöfnunum hefur ekki tekist að þoka þessum tveim-
ur algengustu nöfnum íslenskra kvenna neðar á listann.
2.3.2 Kvenmannsnöfn flokkuð eftir tímabilum
í 5. töflu eru sýnd 50 algengustu kvenmannsnöfn í þjóðskránni 1982
og skipting þeirra eftir tímabilum. í megindráttum fylgir hún 2. töflu.
Sé litið á nöfnin fyrir aldamót kemur í ljós að meðal 50 algengustu
nafnanna eru 18, sem ekki eru meðal 50 algengustu í þjóðskránni
1982. Eins og sjá má á töflunni verða litlar breytingar á tíu algengustu
nöfnunum yfir allt tímabilið. Glögglega má sjá skyndilegar vinsældir
einstakra nafna: Erla, sem er í 199. sæti 1910—19 er komin í 23. sæti