Eining - 01.12.1963, Blaðsíða 4

Eining - 01.12.1963, Blaðsíða 4
EINING VIKTORÍA BJARNADÓTTIR Fcedd 25. febrúar 1888, dáin 7. október 1963 * Utfararrœða séra Garðars Svavarssonar í Dómkirkjunni í Reykjavík. ér skuluð því biðja þannig, sagði Jesús forðum við lærisveina sína: Faðir vor, þú, sem ert á himnum. Þetta eru einföld orð: Faðir vor, og vér höfum haft þau yfir svo ótal mörgum sinnum, en á þeirri löngu ævi, sem hér er að baki, voru þetta grund- vallandi orð — bjargið, sem allt líf byggðist á, — guðstraustið. Viktoría Bjamadóttir var ekki gömul, þegar þessi bæn bjó henni svo undur- sterk í brjósti: „Ó, faðir ger mig styrkan staf að styðja hvern sem þarf, unz allt það líf, sem Guð mér gaf, ég gef sem bróðurarf." Og þannig var öll hennar ævi. Hún varð styrkur stafur, þar sem hún bjó fyrir vestan, manni sínum, börnum sín- um og nágrönnum. Og hún varð styrkur stafur hér syðra í höfuðstaðnum á sviði bindindismála og margháttaðra mannúð- armála, það svo, að hún varð þjóðkunn kona. Lífið féll hér ekki máttvana til jarðar. Hér var skilað þeim arfi fúsleika og hjálpsemi til meðbræðranna, sem aldrei verður að fullu metin. Já, sannarlega veitti Drottinn þessari konu „fótfestu á bjargi“ og gerði hana „styrka í gangi,“ eins og komizt er að orði í sálmi Davíðs, einnig síðustu skref- in að hliði dauðans. Því að eins og mað- ur hennar orti fyrir mörgum árum: í stafni ef Drottinn stendur og stýrir lífsins knör, þá ekkert er að óttast, þótt ýtt sé lífs úr vör. „Guði treysti ég og óttast eigi.“ Það var yfirskrift þessarar ævi til enda. Viktoría Bjarnadóttir fæddist hinn 25. febrúar 1888 að Vindheimum í Tálkna- firði, dóttir Bjarna Friðrikssonar, skip- stjóra, og konu hans, Jónínu Eiríksdótt- ur. Vestfirzku fjöllin, hafið og hin harða lífsbarátta fólksins mótaði hugarheim hennar á bernskuárunum og efldi vilja hennar þeim krafti og kjarki, sem aldrei kunni að gefast upp. Faðirinn oft við skipsstjórn úti í æðisgengnum vetrar- veðrunum. Hún, ásamt móður og bróður, heima hjá heimilisfólkinu í hriktandi bæ undan sviftibyljunum. Hér var lífið í sífelldri baráttu við sjálfar höfuðskeppnurnar — oft baráttu upp á líf og dauða. í slíkri baráttu er það aðeins eðlilegt að oft sé talað um Guð. En því þakklátara var líka barns- hjartað og svo síðar konuhjartað, þegar vorið kom og sólin og birtan, og lömbin eltu mæður sínar um döggvotar hlíðar, og f jörðurinn spegilsléttur ómaði af fugla- söng. Þessi heiðríkja sterkrar íslenzkrar nátt- úru átti eflaust sinn þátt í að skapa hér sterka og heiðríka konusál. Það eru tvær setningar í endurminningum henn- ar, sem út komu 1958, er svo að segja anda frá sér ást hennar frá átthögunum vestra. Þessi setning: „Ég sakna þess að heyra aldrei hó í smölunum, heyra ekki framar fjöllin bergmála þau á kyrrum vormorgnum. Og hin setningin er þessi: „Hvergi finnst mér heiðríkjan eins safír- blá og á Vestfjörðum. Haustið 1906 giftist Viktoría Sigur- garði Sturlusyni kennara, ljóðrænum og tilfinningaríkum gáfumanni, sem einnig var hagmæltur vel. Þegar hún talar í bók sinni um merkustu dagana í lífi sínu, þá talar hún um fæðingardaga barnanna sinna. Svo skarpskyggn var hún og vit- ur, því að, hvað er meira til, en undur lífsins — undur nýrra augna, sem horfa inn í þenna heim og eiga eftir að eiga hér óráðin ár og daga. Viktoría Bjarnadóttir Þau Sigurgarður eignuðust 12 börn 4 dóu kornung, en 8 eru á lífi. Ein dóttir gift og búsett í Hollandi. Sonur giftur og búsettur í Bandaríkjunum, og komu þau bæði hingað upp til hennar að bana- sænginni, og sýnir þetta hversu hlý og sterk fjölskylduböndin voru hér. Það var í þeim eitthvað, sem minnti á hinn kjark- mikla trausta vestfirzka gróður. Hin syst- kinin öll eru búsett hér og var hún hin síðustu árin öll umvafin elsku þeirra og barnabarnanna. Sigurgarður var dugmikill maður, en ekki heilsuhraustur, og reyndi því oft mikið á húsmóðurina inn við fjörðinn á Eysteinsstöðum, með stóra barnahópinn sinn. Síðustu árin vestra áttu þau heima á Bíldudal, og lá hann þar heilt sumar í sjúkrahúsinu, og 27. marz 1932 dó hann hér á Landsspítalanum eftir langa legu. Þau ár voru ekki létt þeim heima í Bíldu- dal, en aldrei var kiknað né bognað, og þegar Viktoría vorið eftir fluttist hingað suður með föður sinn og yngstu börnin, þá átti hún, er hún stóð á hafnarbakk- anum í Reykjavík, sex krónur og fimm- tíu aura. En Viktoría Bjarnadóttir þurfti ekki meira til að geta hafið nýjan áfanga á gróskuríkri og farsælli ævi, enda stóðu þar henni við hlið börnin, sem hún elsk- aði og brugðust henni aldrei. í gamlatestamentinu er frásögn um, að rödd Drottins hafi komið til manns og sagt: „Blóð bróður þíns hrópar til mín af jörðinni," en Kain, svo hét maðurinn, vildi afsaka sig og svaraði: „Á ég að gæta bróður míns.“ Þeir eru svo margir, sem vilja afsaka sig gagnvart ýmsu því böli. sem fylgir í kjölfar hinnar mörgu svokölluðu menn- ingarfyrirbæra, og segja, afsakandi sig: Hvað get ég gert við því? Á ég að gæta bróður míns? Þannig hvorki hugsaði né talaði Viktoría Bjarnadóttir. Hún hvorki afsakaði sig né þvoði hendur sínar (Píla- tusarþvotti), heldur gerðist ötull liðsmað- ur í þeirri fylkingu, er vildi takast á við að fjarlægja meinsemdirnar. Hún gerðist fljótlega, er hún kom hingað suður, fé- lagi í stúkunni Framtíðin. Eftir það átti bindindishreyfingin hér á landi í henni einn sinn bezta mann til sóknar og varn- ar, svo sem sjá má af því, að hún var um margra ára skeið formaður áfengis- vamarnefndar kvenna hér syðra. Einnig lét hún kirkjumálin til sín taka. Hún beitti sér t.d. fyrir því, að kvenfé- lagskonur safnaðanna hér í bænum sæktu með vissu millibili í einum hópi hinar ýmsu kirkjur og guðsþjónustustaði bæj- arins. Þá áttu slysavarnamálin hug henn- ar og atbeina allan. Hún gleymdi ekki skip- stjórnarárum fólks síns né bróður sínum, sem út af Vestfjörðum varð einn af hin- um mörgu fórnum í skaut Ægis við strendur þessa lands. Jesús sagði: „Ekki kveikja menn ljós og setja það undir mæliker, heldur í ljósastikuna og þá lýsir það öllum, sem eru í húsinu.“ Hér er kvödd kona, sem bar birtu til annarra og vildi vera Ijósberi. Ein mesta mannúðarkona. Þegar börnin voru ung á Eysteinsstöð- um og voru háttuð, fór hún oft með lampann á kvöldin, til að vita hvort þau væru sofnuð og hvort þeim liði vel. Hún sleppti aldrei lampanum og ekki heldur eftir að hingað suður kom. Hún hélt á- fram að bera birtu og varma til með- bræðranna, því minnast hennar svo' marg- ir, já, heil félagasamtök með þakklæti og því varð nafn hennar þekkt með þjóðinni. Ég flyt nú hér þakkir barnanna henn- ar allra, einnig dótturdóttur hennar, sem hún ól upp, tengdabarnanna og barna- barnanna allra og félagssystkina hennar frá fyrstu tíð, ekki sízt í stúkunni henn- ar. Nafnið Viktoría þýðir: sú sem sigrar, en sjálf leit hún aldrei á sig sem neinn sigurvegara, heldur geymdi hún með þökk og lotningu þessi orð í hjartasínu: „Guði séu þakkir. sem gefur oss sigurinn fyrir Drottinn vorn Jesúm Krist." Þessi orð, þessi fullvissa nægði henni í lífi og dauða. Vestfjarða fjöllin horfa enn í dag á litlar stúlkur, sem eru að alast upp á bæjunum við rætur þeirra, en það er ó- víst að þau sjái nokkra nú, er sé táp- eða kjarkmeiri henni sem telpu. sem kvödd er hér í dag. En litlu stúlkunum þar vestra er kennt, eins og Viktoríu Bjarnadóttur áður um frelsarann, og þeim er kennt eins og henni að biðja: Faðir vor. í því er von og kraftur kynslóðanna. Drottinn gaf og Drottinn tók. Lofað veri nafnið hans.

x

Eining

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Eining
https://timarit.is/publication/833

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.