Almanak Hins íslenska þjóðvinafélags - 01.01.1959, Qupperneq 40
hafa komið skýrt i ljós, að miklir pólflutningar
hafi átt sér stað. Frá kolatímabilinu hefur póllinn
flutzt frá svæðinu austan Indlands norður eftir Kyrra-
hafi eða Austur-Asíu og hefur verið kominn hér um bil
á sinn núverandi stað í byrjun tertiertímans.
Pólflutning má nánar hugsa sér þannig til kominn,
að jarðskorpan sem heild hafi runnið til á dýpri,
fljótandi lögum. En sá möguleiki kemur þá einnig til
greina, að skorpan hafi jafnframt aflagazt verulega,
lönd og höf breytt innbyrðis afstöðu. Þetta væri i
anda landflutningakenningarinnar, sem aðallega er
kennd við Wegener og var einkum ofarlega á baugi
eftir 1920, en nú hefur lengi verið hljótt um. Segul-
mælingarnar ættu hér að geta lagt eitthvað til mál-
anna, ef ekki ráðið málinu til lykta. Sumir telja, að
segulmælingarnar hafi þegar leitt í Ijós vesturflutn-
ing Ameríku, miðað við Evrópu. Ég verð þó að draga
það i efa vegna þess, að til mælinganna, sem stuðzt
er við, var mest notaður veikt segulmagnaður sand-
steinn, en ekki sterkt segulmögnuð hraun. Á hinn
bóginn eru mælingar á hraunum á Indlandi mjög at-
hyglisverðar. Hraunin eru frá upphafi tertiers eða
litlu eldri og pólflutning ætti þó ekki að vera um
að ræða. En mælingar sýna að Indland lá á þess-
um tíma langt fyrir sunnan miðbaug. Indlandsskagi
virðist eftir þessum mælingum hafa flutzt um 50—60°
til norðurs eftir lok krítartímans, en Wegener gerði
einmitt ráð fyrir svipuðum flutningi og enginn, sem
virðir fyrir sér kort af Indlandi og Himalayafjall-
garðinum, fær varizt þeirri hugsun, að Indland hafi
komið siglandi að sunnan og hlaðið upp Himalaya-
fellingunum fyrir norðan sig. Óneitanlega er hér
fengin sláandi niðurstaða um landaflutninga. Mæl-
ingar í Ástraliu þykja og benda til mikilla flutninga,
eins og Wegener ætlaði, en á þessu sviði þarf að
vinna mikið enn, áður en niðurstöður eru ljósar og
sannfærandi.
(38)