Litli Bergþór - 01.07.1997, Blaðsíða 11

Litli Bergþór - 01.07.1997, Blaðsíða 11
L-B: Og við hvað störfuðuð þið? Helgi: Ég var hjá sjónvarpinu í 19 ár, fyrst sem nemi og síðar sem ljósmyndari og kvikmyndatökumaður. Byrjaði þar á fyrsta útsendingardegi árið 1967. Ég lærði hjá Óskari heitnum Gíslasyni, var síðasti neminn hans og er stoltur af því að hafa fengið að vera hjá honum. Björg: Ég var hjá Glit í 10 ár, aðallega við málningu á keramikmunum. Svo var ég hjá Optik í Hafnarstræti og lærði þar gleraugnasmíði, það sem hægt er að taka hér heima. L-B: Hvað kom til að þiðfluttuð hingað í Tungurnar? Helgi: Það var alltaf fjarlægur draumur að flytja austur. En fyrst var þetta bara fikt. Björg keypti tómata- og gúrkufræ og sáði í potta í íbúðinni okkar í Reykjavfk. Plönturnar urðu fljótlega svo stórar að þær komust ekki fyrir í stofunni og þá byggðum við plasthús við sumarbústaðinn á Iðu og fluttum plönturnar þangað. Það þurfti auðvitað að vökva þær daglega, svo við skruppum á kvöldin eftir vinnu til að vökva! Okkur fannst þetta spennandi og fórum að athuga með möguleika á að kaupa garðyrkjustöð. Við komumst hinsvegar að þeirri niðurstöðu að hagstæðara væri að leigja land af hreppnum og byggja. Þetta var auðvitað bilun og ekkert vit í þessu! En við höfum alltaf gert það sem okkur hefur dottið í hug, margt hefur tekist, annað ekki. Ef við hefðum sest niður fyrirfram og reiknað allan kostnað hefði aldrei orðið neitt úr neinu. Það gerðum við ekki og á árinu 1985 fluttumst við í Tungurnar og settumst að í sumarbústaðnum. Seldum litlu íbúðina okkar í bænum, fengum land og byggðum garðyrkjustöðina Slakka. Fyrst 500 fermetra hús, síðan 800 fermetra hús á fjórum árum. Séð yfir hluta húsdýragarðsins. L-B: En hvernig kom dýragarðurinn til sögunnar? Helgi: Dýragarðurinn. Hann kom eiginlega óvart. Við vorum alltaf með mikið af dýrum í kringum okkur. Fyrst vorum við með endur á Iðu sem við fluttum hingað í gróðrarstöðina. Þá byggðum við fyrsta smáhýsið, sem stóð þar sem stóri burstabærinn, eða veitingahúsið, er núna. Það voru nokkrar fjölskyldur á tjaldsvæðinu, sem uppgötvuðu að þarna var eitthvað fyrir bömin að skoða. Fyrst kom ein fjölskylda, síðan önnur og fljótlega var varla vinnufriður fyrir gestagangi. Það var því annaðhvort að hætta við dýrin eða gera þetta að búgrein. Þetta hefur verið um 1989 - '90. Við kusum að halda áfram og bættum við okkur kanínum. Fljótlega uppúr því byggðum við burstabæinn. Hann var þó ekki hugsaður í sambandi við dýragarðinn, heldur til að selja minjagripina okkar, sem við ætluðum að hafa svo mikinn tíma til að dunda okkur við að framleiða á veturna, þegar ekkert væri að gera! Björg hefur gert töluvert af munum úr leir, og saman höfum við gert kertastjaka úr Hekluhraungrýti o.fl. Hraunið sækjum við upp að Heklu, þegar tími vinnst til. Skreppum svona á kvöldin eftir vinnu. Kertastjakar úr Hekluhrauni. Helgi dregur fram skemmtilega muni úr leir eftir Björgu og sýnir blaðamanni. Þetta með bæinn datt okkur bara í hug einn daginn, sáum það fyrir okkur að það myndi vera fallegt að hafa burstabæ á milli gróðurhúsanna, og 28 dögum síðar var bærinn risinn. Eins og ég sagði, höfum við alltaf framkvæmt það, sem okkur hefur dottið í hug ef við höfum getað. - En tímann til að framleiða minjagripina höfum við hinsvegar ekki fundið ennþá. Litli - Bergþór 11

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.