Litli Bergþór - 01.12.2001, Page 22

Litli Bergþór - 01.12.2001, Page 22
Grenjaleitir fyrr á tíð Höfundur: Tómas Tómassonfrá Helludal Slunginn maður í viðskiptum hefur gjarnan verið kallaður refur og er það á margan hátt góð samlíking þar sem vitsmunir rebba koma við sögu í samskiptum við manninn. Frá því að elstu menn muna hefur það verið föst regla hjá sveitarfélögum sem að hálendinu liggja að ráða sér menn til refaveiða, svo kallaða grenjaleitarmenn. Þeirra starf var fólgið í því að leita fyrst og fremst í gömlum tófugrenjum sem vitað var um. Þessi greni voru á ólíklegustu stöðum en þó sérstaklega í hraunhólum og grjóturðum. Ef ekki tókst að alvinna gömul greni, það er að ná öllum dýrum, og fullorðið dýr náðist ekki þá voru miklar líkur á að það héldi tryggð við grenið og hefði þar bústað á næsta ári. Þegar ráðnir voru menn til þessara starfa var gjarnan ætlast til þess að þeir vissu um öll gömul tófugreni og hefðu einhverja reynslu af því að liggja við greni eins og það var kallað, en það var gjarnan fólgið í því að byrja starfið með manni sem hafði einhverja starfsreynslu og gat leiðbeint öðrum. En oft þurfti að hafa þolinmæði við þetta starf til þess að einhver árangur næðist. Liggja kannski við sama grenið í nokkra sólarhringa og skiptast á um að vaka um nætur. Nóttin var stundum lengi að líða, ekki síst ef kalt var í veðri og ófullkominn klæðnaður til að verjast vatni og vindum. Allt hefur þetta breyst í gegnum árin og nú er svo komið að dæmi eru til þess að grenjamenn keyri á bílum að grenjum, haldi sig inni í bílunum með spenntar byssur og bíði eftir að rebbi komi í færi. En engin ein regla gildir í þessu starfi. Aðstæður allar eru svo mismunandi og háttalag dýranna sem verið er að eltast við býsna ólíkt. Ég var ungur að árum þegar ég fór að fylgjast nokkuð með starfi grenjaleitarmanna, en þeir fóru venjulega að leita í grenjum í byrjun júnímánaðar. Þá stóð sauðburður yfir og alltaf mátti búast við að lömb færu að hverfa ef tófa var með yrðlinga í greni. Það var algeng sjón að sjá hræ af lömbum við grenin. Oft var allt nagað innan úr skinninu, lappirnar kannski hangandi við bjórinn og stundum hausinn lrka. Nokkur lambahræ þessu lik var stundum að sjá við sama grenið. Við þetta bættist svo meira og minna af fuglahræjum. Allt fram um 1950 var það algengt á fjallajörðum að fé var sleppt frá húsi áður en sauðburður byrjaði og ærnar voru að bera í námunda við tófugreni. Var þá oft hægur vandi fyrir lágfótu að ná sér í nýfætt lamb til matar. Við fjárskiptin sem fóru fram á árunum 1952 og '53 varð sú breyting á að farið var að hafa fé við hús og heima á túnum fram yfir sauðburð. Ég held að þetta hafi breytt miklu, því þá hafði tófan ekki eins greiðan aðgang að því að ná sér í lamb eins og þegar ærnar voru að bera við grenismunnana. Tófan varð því að aðlaga sig þessum breytingum. Á síðari árum er svo komið að tófan er farin að leggja undir sig eyðijarðir um allar sveitir og víða eru að finnast greni bæja á milli. Ekki að undra þótt ein og ein tófa lendi undir bíl á vegunum. Það eru sennilega fá sveitarfélög sem hafa eins stór svæði til að sjá um grenjavinnslu á eins og Biskupstungnahreppur. En það tekur yfir svæðið frá Brúará, um Úthlíðarhraun, Haukadalsheiði, Tunguheiði og til norðurs beggja megin við Bláfell og allt Kjalarsvæðið norður á Hveravelli. Þarna eru eitthvað á annað hundrað tófugreni sem vitað er um og alltaf eru að finnast ný greni. Ef maður fer að líta til baka þá kemur margt upp í hugann í sambandi við grenjaleitir. Sum grenin eru kennd við þann sem fyrstur fann þau. Þar má nefna Snjólfsgren í Úthlíðarhrauni og kennt við Snjólf sem þá bjó á Miðhúsum og Stjánagren í Kjalhrauni, kennt við Kristján á Gýgjarhóli, sem lengi var við grenjavinnslu í Biskupstungum og á ég eftir að minnast nánar á hann. Það virðist vera að tófan geri sér nokkurn mun á grenjum eins og mannfólkið á bústöðum sínum. Þetta marka ég af því að sum af elstu grenjum sem vitað er um hverfa aldrei úr ábúð hjá lágfótu til lengdar. Má þar nefna greni í Úthlíðarhrauni, Vallagren, Þjófabrúnargren, Götugren, Höfðagren, Nátthagahól, Hólagren, Hrossatungugren og svo lengra uppi í hálendinu Frenstaversgren. I Kjalhrauni má nefna Hrefnubúðagren, Bugagren, Skútagren, Svartárbotnagren og Stjánagren. Litli - Bergþór 22

x

Litli Bergþór

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.