Litli Bergþór - 01.06.2007, Blaðsíða 3
r
Ritstjórnargrein
Þessa dagana gengur Bláskógabyggð fram fyrir skjöldu með dyggum stuðningi við íbúa sína sem
liafa áhuga á flokkun og endurvinnslu sorps. Markmið sveitarstjórnarinnar er að minnka lífrænan
úrgang um 25% á kjörtímabilinu. Til þess að svo megi verða hefur sveitarfélagið niðurgreitt ílát sem
íbúar geta nýtt til þessara hluta. Umhverfisnefnd sveitarfélagsins er einnig að móta tillögur um
hvernig efla megi umhverfisvitund fyrirtækja innan sveitarfélagsins. Þetta er lofsvert framtak af hálfu
sveitarstjórnar og ber að þakka.
Sorphirða og endurvinnsla sorps kostar þó peninga og til að standa undir sorphirðukostnaði greiða
íbúar jafnt sem sumarbústaðaeigendur sorphirðugjald. Slíkt gjald er reiknað út frá heildarmagni rusls
frá íbúum og því er deilt niður á íbúa, fyrirtæki og sumarbústaðaeigendur.
I slíkum útreikningi hljóta að vakna upp spurningar hvers vegna þeir sem hendi meira rusli en
aðrir hljóti af því fjárhagslegan ávinning. Hvers vegna þeir séu verðlaunaðir umfram þá sem verja
tíma og fjármunum í endurvinnslu sorps og annarra vistvænna úrræða? Eins og alþjóð veit þá er fátt
eins öruggt til árangurs og að láta budduna ráða för. Eigi fólk kost á því að spara útgjöld með því að
taka til í eigin ranni þá eru flestir reiðubúnir til þess. í raun býður fjárhagslegur sparnaður í tengslum
við umhirðu sorps upp á margvíslegan hagnað fyrir samfélagið. Minni mengun, fegurra umhverfi og
betri umhverfisvitund eru einungis fá af þeim atriðum sem um er að ræða.
Víða hafa þéttbýl byggðarlög tekið upp þá aðferð að láta sækja rusl heim til einstaklinga og þá er
fólki stundum gefinn sá kostur að láta sækja sorp sjaldnar til sín en á venjulegu heimili t.a.m. í annað
hvert skipti. Þetta er afskaplega þægilegur kostur fyrir fámenn heimili eða þar sem íbúar leggja sig í
líma við að flokka lífrænt rusl frá öðru sorpi. Með þessu móti gefst „umhverfisvænum“ heimilum
kostur á að draga úr kostnaði við sorphirðu.
Annað dæmi sem taka má til er vatnsnotkun. í dag eru vatnsgjöld fyrir kaldavatnsnotkun í
Bláskógabyggð innheimt með fasteignagjöldum. Gjöldin eru óháð notkun heimila og í raun engin
hvati til sparnaðar. Þó er það svo að með aðhaldi í kaldavatnsneyslu sparar sveitarfélagið og þar með
íbúar þess sér endurnýjun vatnsæða og dælukerfis um þó nokkurn tíma þegar flutningsgeta vatnslagn-
anna á orðið erfitt með að anna íbúum vegna fólksfjölgunar. Bláskógabyggð gerði vel þegar hún
bauð garðyrkjustöðvum 30% lægri vatnsgjöld gegn því að þau söfnuðu vatni í miðlunartanka.
Nokkrar garðyrkjustöðvar hafa gripið tækifærið og komið sér upp slíkum búnaði. Þannig hefur
álag minnkað á miðlunarkerfi kaldavatns og t.a.m. í Reykholti hefur verið hægt að fresta fyrirsjáan-
legri stækkun kerfisins. Sé íbúum gert kleift að greiða lægra vatnsgjald gegn því að minnka heimilis-
notkun, t.d. með salernum sem gera notanda kleift að nota vatnsmagn eftir þörfum þegar sturtað er
niður, þá má færa rök fyrir því að lagnakerfi sveitarfélagsins endist lengur og verði því ódýrara í
rekstri.
Það er hverjum manni ljóst að hér á landi og um heim allan er fólk tekið að vakna til vitundar um
áhrif sín á sitt nánasta umhverfi og náttúru. Allsnægtir hafa verið eitt af lykilorðum samtímans en í æ
ríkari mæli ryður nægjusemi sér til rúms. Með því að átta sig betur á því hvernig bæta má umgengni
og komast af með minna er fólk að skila hagnaði til samfélagsins. Hagnaði því ódýrara er fyrir
sveitarfélagið að þjóna þörfum viðkomandi. Og margt smátt gerir eitt stórt. Á sama tíma eiga við-
komandi rétt á að viðleitni þeirra sé metin að verðleikum og að komið sé til móts við þá með lægri
gjöldum þar sem það á við.
V.
s. s.