Litli Bergþór - 01.06.2007, Blaðsíða 5

Litli Bergþór - 01.06.2007, Blaðsíða 5
Hvað segirðu til? Helstu tíðindi úr sveitinni frá mars til maí. Síðustu mánuði vetrar viðraði vel en veðrið var nokkuð óstöðugt. Hiti var oftast nærri frostmarki, stundum nokkru lægri og oft nokkuð hærri. Úrkoma var nokkur og nær alltaf í formi rigningar og snjór var aðeins föl öðru hvoru, sem tók fljótt upp, og aðeins hæsti hluti fjallanna hvítur að staðaldri. Vetur og sumar frusu saman með milli 5 og 10° frosti aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Samkvæmt þjóðtrúnni á það að boða gott sumar og að mjólkin úr kvíaánum verði feit. Var til sú kenning að rjómaskánin á mjólkurfötunni eftir mjaltir í kvíunum yrði jafn þykk og ísinn á pollum að morgni sumardagsins fyrsta. í sumarbyrjun hlýnaði og varð fljótt vorlegt en kólnaði nokkuð framan af maí og var frost um sumar nætur fram yfir miðjan þann mánuð. Síðari hluti maí var fremur kaldur, snjóaði í fjöll og jörð varð stundum alhvít á láglendi í éljum. Farfuglar komu sumir snemma í apríl og svo hver af öðrum fram í byrjun maí. Heldur virðist færast í vöxt að fuglar, sem litið hefur verið á sem farfugla, hafi hér vetursetu. Einkum er álftin áberandi hér um miðja og sunnanverða sveitina og halda þær sig aðallega á ánum. Gróður fór að lifna í fyrstu viku sumars svo sem rabbarbari, hvönn og blástör. Um það leyti sást víða grænn litur á túnum og blettum við hús. Birkið í Fellsfjalli fór að lifna í byrjun maí og laufgaðist fyrir lok mánaðarins. Héraðsfundur Árnesprófastsdæmis var haldinn í Úthlíð upp úr miðjum mars. Hófst hann með messu í Úthlíðarkirkju, en fundurinn fór fram í Réttinni. Björgunarsveit Biskupstungna hafði opið hús sitt að Bjarkarbraut 1 síðasta sunnudag í mars. Þar var tekinn í notkun klifurveggur félagsins og stofnuð sameiginleg unglingadeild með björgunarsveitunum Ingunni á Laugarvatni og Tintron í Grímsnesi og Grafningi. Hlaut hún nafnið Greipur. Hestamannafélagið Logi, Leikdeild Ungmennafélagsins og Kvenfélagið héldu sameiginlega árshátíð snemma í mars. Þar voru ýmis skemmtiatriði, málsverður og dans. Nýtt hús er risið í Austurhlíð, tvö á austanverðum Laugarási og unnið er að frágangi íbúðarhúsa í Reykholti. Frístundahús eru byggð á ýmsum stöðum í sveitinni og hafa m. a. allmörg risið í Helludal á síðustu mánuðum. Ný gróðurhús er verið að reisa bæði í Gufuhlíð og á Espiflöt. Einnig hafa gróðurhúsin í Birkilundi verið gerð upp og hafin þar ræktun blóma af ýmsum tegundum. I Friðheimum er verið að útbúa aðstöðu til að sýna ferðamönnum hesta og reiðlist. Bændur hófu jarðvinnslu til undirbúnings kornræktar og endurvinnslu túna síðast í apríl, en þá skófu plógarnir víða jarðklakann, sem mun ekki hafa verið yfir hálfur metri að þykkt. Landgræðslufélag Biskupstungna fékk hæsta styrkinn, 7,5 milljónir króna, sem úthlutað var úr Pokasjóði verslunarinnar í maí til uppgræðslu rofabarða og endurheimt landgæða í Biskupstungum. Bráðabirgðabrú hefur verið sett á Brúará fyrir vestan Spóastaði til að taka við umferð um Biskupstungnabraut meðan fyrri brú verður tvöfölduð. Sparkvellir verða byggðir við Grunnskóla Bláskógabyggðar bæði á Laugarvatni og í Reykholti í sumar og hófust framkvæmdir við þá í maí. Vorhátíð Skálholtskórsins var í Aratungu að kvöldi síðasta vetrardags. Auk hans sungu þar Karlakór Hreppamanna, Vörðukórinn, og hlutar kirkjukóra Keflavíkurkirkju og Grafarvogssóknar. Þar voru einnig ýmis skemmtiatriði og hljómsveit lék fyrir dansi. Þrítugsafmælis afgreiðslu Landsbankans í Reykholti var minnst í byrjun maí. Hátíð sú hófst með hlaupi 10-13 ára krakka, en síðan var samkoma í Reykholtsskóla. Þarsýndu leikararog hljóðfæraleikari „Brot úr sögu banka“, þar sem greint var frá 120 ára sögu Landsbankans með leikrænum tilburðum. Fyrsta ferming í prestakallinu í vor fór fram í Torfastaðakirkju á sumardaginn fyrsta. Þá gekk fyrir gafl Kristín Karólína Bjarnadóttir á Brautarhóli. Annan sunnudag í sumri var Þórhildur Sigurðardóttir á Kjóastöðum 3 fermd í Skálholtskirkju, Anna Karítas Omarsdóttir í Heiðmörk var fermd í Bræðratungukirkju 19. maí og Ólafur Aron Einarsson í Haukadal 3 í Haukadalskirkju 20. maí. í Skálholtskirkju voru Ásta Gunnarsdóttir, Hrosshaga 2, Ástrún Sæland Skúladóttir í Reykholti 2, Freydís Halla Friðriksdóttir í Vegatungu, Guðbjörn Bjarki Brynjólfsson á Dalbrún 1, Guðrún Arna Loftsdóttir í Vesturbyggð 1, Hallgrímur Davíð Egilsson í Skálholti, Ida Bjarnadóttir á Kjóastöðum 2, Karítas Róbertsdóttir á Bjarkarbraut 20, Lilja Ósk Geirsdóttir í Kistuholti 6, Linda Rós Ragnarsdóttir í Tröðum, íris Ólafsdóttir á Kirkjuvöllum 3 í Hafnarfirði og Stefán Geir Snorrason á Litlu-Tjörn fermd á hvítasunnudag. Gljásteinn ehf., sem Lofur Jónasson og Vilborg Guðmundsdóttir í Myrkholti eiga, hefur tekið á leigu sæluhúsin og önnur mannvirki í Fremstaveri, Árbúðum og Svartárbotnum til að standa þar fyrir gestamóttöku. Hörpukórinn, sem er hluti af Félagi eldri borgara á Selfossi, söng á samkomu í Aratungu á uppstigningardag. Þar var einnig einsöngur, fjöldasöngur og veitingar. Samkoman var tileinkuð minningu Ragnhildar Ingvarsdóttur frá Hvítárbakka og í boði ekkils hennar, Hafsteins Þorvaldssonar á Selfossi. Sveinn Skúlason í Bræðratungu lést um miðjan mars. Útför hans fór fram frá Skálholtskirkju en hann var jarðsettur í Bræðratungu. Guðmundur Óli Ólafsson, fyrrum sóknarprestur í Skálholti, sem hefur verið búsettur í Reykjanesi í Grímsnesi síðustu ár, andaðist rétt fyrir miðjan maí. Hann var jarðsettur í Skálholti. A. K. __________________________________ 5 Litli Bergþór

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.