Litli Bergþór - 01.06.2007, Blaðsíða 15

Litli Bergþór - 01.06.2007, Blaðsíða 15
þar sem Biskupstungnabraut er nú, til norðausturs vestan Tungufljóts og yfir það á brú, sem var nokkru norðar en brúin er nú. Brúin sú var hengibrú byggð fyrir konungskomuna. Meðal þeirra sem að byggingu hennar unnu var Jóhannes Erlendsson á Torfastöðum, bróðir Sigurlaugar þá húsmóður þar. Austan Fljótsins lá vegurinn fyrst til suðurs en svo austur spölkorn sunnan við bæinn Brú og þar austur yfir Brúarlæk og sunnan við neðsta hluta Kjóastaðalækjar. Síðan lá hann austur Gýgjarhólshagana og sést móta fyrir honum norðan og austan í hæðinni, sem nefnd er Hóll og eru útihús frá austurbænum á Gýgjarhóli vestan í honum en Gýgjarhólslækur austan hans á mörkum við Gýgjarhólskot. Skorningarnir þarna eru nefndir Kóngsvegur. Af Kóngsveginum vestarlega í Gýgjarhólshögunum var farið upp að Gullfossi, og norðaustur land Kjóastaða og Brattholts. Ekki munu sjást merki um hann nú enda ekki verið gerður þar vagnfær vegur. Vegurinn mun hafa legið suðvestan við bæinn í Gýgjarhólskoti og áfram til suðausturs að Hvítá á Brúarhlöðum. Þar hafði verið byggð brú sumarið áður, 1906. Merki um þessa brú sjást þar sem eru samanlímdir steinar á gljúfurbörmunum nokkurn spöl sunnan núverandi brúar. Kóngsvegurinn lá til suðurs austan Hvítár, vestan við bæinn í Haukholtum, hjá Skipholti og áfram suður Hrepp og um Álfaskeið í Langholtsfjalli. Þessi vegur var lagður með handverkfærum og fólst í því að slétta leiðina. Engin tækni var til að malbera hann og varð því að velja sæmilega þurrt vegarstæði. Verkstjóri við vegagerð þessa var Guðjón í Laxnesi í Mosfellssveit, faðir Halldórs Kiljan. Einn af þeim, sem vitað er um að unnu við hana, er Helgi Ágústsson frá Birtingaholti. Haft er eftir honum að „þessi vinna hefði verið þrotlaust erfiði og vinnudagurinn langur.“ Sigurður Greipsson í Haukadal hafði einnig munað eftir vegalagningunni og líklega lagt þar hönd að, þó hann væri aðeins 10 ára. Væntanlega hafa margir bændur á þessum slóðum og heimafólk þeirra unnið eitthvað að þessari vegagerð, sem fór að mestu fram vorið 1907. Þetta hefur verið kærkomið tækifæri til að fá launaða vinnu. Vegurinn er sýndur í stórum dráttum frá Þingvöllum að Skipholti í Hrunamannahreppi með punktalínu á korti hér til hliðar. Minningar um konugskomuna Nokkuð er til af rituðum frásögnum um konugskomuna, sem skrifaðar voru af mönnum sem voru vitni að henni. Daníel Daníelsson, sem þekktastur er fyrir að hafa verið dyravörður í Stjórnarráðinu, skrifar um hana í bók sinni I áföngum, sem kom út í Reykjavík árið 1937. Tveir danir, Svenn Poulsen, sem átti Bræðratunguna um tíma, og Holger Rosenberg, skrifuðu bókina íslandsferðin, sem kom út í Reykjavík 1958 í þýðingu Geirs Jónassonar, og Hannes Þorsteinsson frá Brú hér í sveit birti í Pjóðólfi, hálfsmánaðarriti, sem hann ritstýrði, greinina Konungsförin 16. ágúst 1907. I þessum frásögnum er lítið sagt frá samskiptum við heimafólk. Gísli Sigurðsson frá Uthlíð segir nokkuð frá henni í árbók Ferðafélags íslands 1998, Fjallajarðir og Framafréttur Biskupstungna. Hann greinir m. a. frá því er kóngurinn kom að Kjóastöðum og kveður söguna ekki hafa verið skráða fyrr en lifað á vörum fólks í 90 ár. Getur sá er þetta ritar tekið undir það, enda heyrði hann af þessari heimsókn í æsku. Kóngurinn hafði óskað eftir því að fá að koma á bæ, þar sem hús væru með torfþökum. Á Kjóastöðum bjó þá Egill Þórðarson, f. 1853. Dóttir hans var Steinunn á Spóastöðum móðir Þórarins föður Þorfinns, nú bónda þar, og þeirra systkina. Voru menn sendir að Kjóastöðum til að fá leyfi til að koma þangað með konunginn og undirbúa heimsóknina. Egill gekk alltaf með hatt, en honum var sagt að hann ætti að taka ofan þegar hann heilsaði kónginum. Egill kvaðst ekki vanur að taka ofan hattinn, þegar hann heilsaði fólki og myndi ekki gera það heldur þegar hann heilsaði konungi. Kvaðst Egill ekki vilja gera upp á milli manna. Friðriki var sagt frá þessu og setti hann það ekki neitt fyrir sig. Ef til vill hefur þessi saga orðið svo lífseig vegna þess að hún þótti bæði sýna sjálfstæði bóndans og lítillæti konungsins. Þorfinnur á Spóastöðum, afkomandi Egils, ólst upp við þá sögu að ofarlega í baðstofunni hefði vínflösku verið stungið á bak við þilið. Hún var svo hátt uppi að flestir sáu hana ekki, en Friðrik konungur var svo stór að hann sá flöskuna. Kóngur ku hafa hent gaman að þegar hann sá til felustaðar vínsins. Konungskoman vakti mikla athygli hér í nágrenninu. Bæði Einar Guðmundsson í Brattholti, sem fæddur var 2. nóvember 1904, og Einar Gíslason í Kjarnholtum, f. 1. september 1904, höfðu farið til móts við kónginn, þó þeir væru ekki fullra þriggja ára, og var það minnisstætt fram á elliár. Indriði Guðmundsson, móðurbróðir Einars í Kjarnholtum, reiddi hann upp að Geysi. Konungskoman komst einnig til tals við Ingu Kristjánsdóttur á Gýgjarhóli. Hún minntist þess að Margrét, föðursystir sín, hefði sagt frá því að ungu stúlkunum þar á bæ hefði þótt lítið til fatnaðar drottningarinnar koma, en hún hefði bara verið í grárri drakt. Þær hafa viljað sjá hana klædda eins og drottningarnar voru í ævintýrum. Líklega er þessi sögn frá konugskomunni 1921. A. K. 15 Litli Bergþór

x

Litli Bergþór

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Litli Bergþór
https://timarit.is/publication/884

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.