Unga Ísland - 01.10.1938, Blaðsíða 14

Unga Ísland - 01.10.1938, Blaðsíða 14
118 UNGA l.SLAND ið í hálfan mánuð. Dauðleiðinlegt verk. Jæja, hvað um það, hann mokaði það að öllu öðru leyti en því, að Gunnsa frænka bar út mykjuna fyrir hann einu sinni. Ja, kannske tvisvar. Svona góð var hún nú, hún Gunnsa frænka, þó að hálsinn á henni væri langur og mjór, skapið stundum úfið og nefið blátt. Hún átti nefnilega spariklæðnað fyrir sálina, sem hún færði hana stundum í og það einmitt á slíkum stundum, sem hún varð svona hjálpsöm. Nei, hún var ef til vill ekkert sérlega mjúk í máli fyrir því. — Svona, greyskarnið, ætli það sé nú ekki best, að ég hjálpi þér við þetta, ræfillinn. Þú ert svo sem ekkert annað en vesaldómurinn, greyið. Það er svo sem engin von að þú getir þetta svona ungur, skömmin. En annað eins mátti ég nú hafa; það var aldrei mulið undir hana Guðnýju, þó að hún væri ekki stór bógur. Þannig voru nú orðin, sem hún þurfti um þetta að hafa. En hvað um það, þetta margborgaði sig. Hún bar út úr fjósinu og Skúli Bjartmar var afar- tindilfættur í kring um hana á meðan og sagði Gunnsa mín í hverri setningu, sem hann þurfti við hana að tala. Þó að þeir að vísu héldu áfram að vera góðir vinir, Bensi og Skúli Bjart- mar, þá er auðvitað ekki þar með sagt, að þeim yrði aldrei sundurorða. Það fór í vöxt eftir því sem báðir stækk- uðu. 0g það, sem þeim oftast bar á milli, var það hvor þeirra raunveru- lega væri meiri maður. Það var ekki svo lítið atriði, fannst þeim. Skúli hafði í ýmsu sýnt, þó að yngri væri, að hann var nokkuð sterkur og það jafnvel svo að Bensi mátti vara sig á honum í fangbrögðum. Svo var það daginn fyrir réttardag- inn, að Skúli Bjartmar sat úti á bæj- arhólnum, hafði nýlokið fjósmokstrin- um og hugsaði nú um heimspekileg efni. Kemur þá ekki Bensi þar að hon- um og er með beisli á handleggnum. — Sæli nú, Skúli, sagði hann. — Komdu sæll, svaraði hinn býsna virðulega og bætti svo við: — Ég fer í réttirnar á morgun . — Ha, ferðu í réttirnar? Ég fór í fyrra og líka í hitteðfyrra. — Já, þú ert nú líka bráðum tíu ára, sagði Skúli Bjartmar. — Já, bráðum tíu, en þú ert bara átta ára og getur ekki riðið eins hart og ég. Ég get látið hann Rauð hans Sighvats stökkva eins hart og hann bara kemst, og þó dett ég aldrei. — Ég get riðið voða hart líka, sagði Skúli Bjartmar, sem fannst Bensi vera farinn að grobba óþarflega mikið. Ég get riðið svo hart, að jörðin fer að hringsnúast, af því hún hefir ekki við. Bensi lét sem hann heyrði það ekki. — Nú fer ég til Reykjavíkur í haust að finna pabba minn og stjúpu mína, konuna sem pabbi er búinn að eiga. — Uss! Þú ferð ekkert til Reykja- víkur, þú sagðir þetta líka í fyrra og ert ekki farinn enn. — Jú, jú, alveg satt. Ég þarf að fá gleraugu, se'gir læknirinn og þá verð ég eins og presturinn. Skúli var í vafa um hvort þorandi væri að mótmæla. En Bensi hélt áfram: — Það eru stór húsin í Reykjavík. — Eru þau stærri en fjóshlaðan? — Ej óshlaðan! Þau eru svo stór, að þegar maður gengur fram hjá þeim, sýnist manni að þau nái upp í himin- inn. — En það gera þau nú ekki, sagði

x

Unga Ísland

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Unga Ísland
https://timarit.is/publication/894

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.