Árbók VFÍ - 01.01.1991, Page 150
148 Á rbókVFÍ 1989/90
5. VIÐUNANDI HÁMARK TRUFLANA
Ekki eru til neinir alþjóðlegir staðlar varðandi gæði veituspennu, en í Bandaríkjunum
hefur verið gerð tillaga um mörk truflana, eins og sýnt er á meðfylgjandi mynd, til að nota
við hönnun nýrra tölva og annarra tækja, sem byggjast á örgjörvum. Sig, ris, undir-
spenna, yfirspenna og púlsar sem fyrir koma í veitukerfum teljast viðunandi, ef þau falla
innan þeirra marka, sem mynd 1 sýnir.
Samkvæmt þessari viðmiðun má búast við, að yfir- og undirspenna sem hefur meira
frávik frá málspennu en +6% eða -13% í meira en 500 msek. (25 rið) geti skapað
vandamál. Einnig má búast við að ris eða sig, sem er meira en +20% eða -30% af
málspennu í meira en 8 millisekúndur (0.4 rið) valdi truflun á starfsemi rafeindatækja.
Mörk fyrir púlstruflanir er erfiðara að skilgreina, en almennt má telja, að púlsar, sem eru
stærri en sem svarar toppgildi málspennunnar geti haft neikvæð áhrif á starfsemi
tækjanna.
Um þessi mörk er ekki til nein reglugerð, en komi fram truflanir á veituspennunni,
sem fara yfir þau, einkum ef þeirra verður vart áður en hátæknibúnaður er settur upp,
getur ítarleg rannsókn komið í veg fyrir alvarleg vandamál síðar.