Bændablaðið - 10.03.2004, Blaðsíða 7

Bændablaðið - 10.03.2004, Blaðsíða 7
Miðvikudagur 10. mars 2004 7 Eftir Pál eða Björgu? Við spurðum í síðasta þætti um höfund vísunnar ,,Elli hallar öllum leik..." Flestir segja hana eftir Pál Ólafsson. Þó voru þeir til sem töldu vísuna eftir Björgu Sveinsdóttur úr Kelduhverfi og skal hér ekki lagður á það dómur. Ekki orð um það meir Það var eitthvað dauft á Leirnum einn daginn og þá sendi Gylfi Þorkelsson þessa ágætu limru í loftið. Þið andlausu limir á leir: Hér ljóðagerð bráðlega deyr! Ég hef ekkert að segja og ætla að þegja. Ekki svo orð um það meir! Baðvísur Valgerðar Valgerður Sverrisdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, var mynduð í bak og fyrir í sturtu og sundi á dögunum þegar hún kynnti nýjar íslenskar baðvörur. Auðvitað fóru hagyrðingarnir af stað. Hjálmar Freysteinsson orti þessa: Valgerður er voða nett en víst er skrítið að sjónvarpinu finnist frétt fari hún í bað. Stefán Vilhjálmsson lagfærði limru eftir Ólaf Stefánsson og sagði: Þegar Valgerður vætti sinn kvið, fór vafasöm hugsun á skrið, hún minnti mig á þegar Maó ég sá synda' í fljóti við fagnaðarklið. Stefán sendi vísuna til kunningja síns á Akureyri og fékk þetta til baka: Þegar Valgerður vætti sitt brjóst þá varð öllum heiminum ljóst að þarna fer kona sem kannski er svona heldur meiri en maður við bjóst. Drottinn refsar Þegar þak Alþingishússins tók að leka og ráðherra varð fyrir bununni fóru hagyrðingar í gang. G.Þorkell Guðbrandsson orti þessa vísu. Hart er orðið heims um ból Heljar magnast plottin ef ráðherra í ræðustól refsar sjálfur Drottinn. Allt á einn veg Hreiðar Karlsson á Húsavík sendi þetta á Leirinn í tilefni lekans og sagði: ,,Þetta er allt á einn og sama veg. Í haust láku þingmenn, nú er það húsið." Allir sem búa við ágjöf slíka úrlausnar vænta senn. Alþingishúsið lekur líka líkt og alþingismenn. Afleitur á skíðum Hjálmar Freysteinsson yrkir um væntanlegt forsetaframboð: Það er margt sem miður fer mörgu því við kvíðum, þó er verst hve Ástþór er afleitur á skíðum. Mælt af munni fram Umsjón: Sigurdór Sigurdórsson Lambeyrar Um Lambeyrar sagði ráðherra m.a. ,,Býlið Lambeyrar í Dölum er framarlega í Laxárdal sunnan- verðum. Þær voru byggðar sem nýbýli út úr Dönustöðum og er land þeirra nú nýtt saman eftir að Dönustaðir fóru í eyði 1967. Daði Einarsson bóndi á Lambeyrum hóf búskap 1973 þá í félagsskap með foreldrum sínum, Sigríði Skúladóttur frá Dönu- stöðum og Einari Ólafssyni en þau byggðu upp jörðina. Árið 1978 voru byggð þúsund kinda fjárhús á Lambeyrum, rúmgóð (1000 fer- metrar) og af þeirri gerð sem þá þótti best hæfa og við þau flat- gryfjur yfir heyfenginn eins og þá tíðkaðist. Árið 1997 var hafist handa um breytingar á öllum húsakosti fjár- búsins með það fyrir augum að létta vinnuna, hagræða á öllum sviðum og auka afurðir búsins. Eitt atriðið var að taka upp gjafa- grindur heimahannaðar, í stað gömlu garðanna, annað að hag- ræða fóðurflutningi og svo að auð- velda flutning kinda innan húsanna og utan húsa var hagrætt með tilliti til fjárrags. Einstætt skipulag á vinnubrögðum á sauð- burði er hluti af þessu en það er löngu landsþekkt. Flatgryfjur fengu nýtt hlutverk, sem burðar- sstíur eða fyrir geldneyti. Háreist stórbaggahlaða var byggð þar sem hlaða má böggum í fimm hæðir, en má síðan nota sem viðbótar- fjárhús ef með þarf á sauðburði. Rimlagólf fjárhúsanna með plastvörðum rimlum er nýjung og uppfinning heimamanna. Girð- ingar á Lambeyrum, sem eru miklar, eru allar með nýju sniði og er þar um merka uppfinningu heimamanna að ræða. Rafmagns- girðingar á íslenskframleiddum plaststaurum og þannig gerðar að auðvelt er að leggja þær niður eða lyfta upp og raunar einnig að flytja þær til, allt eftir þörfum. Hið s.n. veltikerfi gerir þetta mögulegt." Að lokum sagði ráðherra. ,,Daða Einarssyni bónda á Lamb- eyrum eru nú veitt landbúnaðar- verðlaun árið 2004 fyrir margar nýjungar sem hann hefur fundið upp og beitir í búskap sínum og fyrir að hafa verið í forystu í þróun nýrra búskaparhátta í sauðfjárrækt." Stóra-Hildisey II ,,Landeyjar í Rangárvallasýslu eru meðal þeirra sveita á landinu sem hvað mestum stakkaskiptum hafa tekið eftir að búskapur á Ís- landi gekk inn í ræktunaröld. Því veldur hefting straumvatnanna sem þar byltust áður fram og brutu land og engu eirðu..." sagði landbúnaðarráðherra. Síðan sagði hann: ,,Eitt af mörgum góðbýlum Landeyjanna er Stóra-Hildisey II í Austur- Landeyjum. Þar búa nú með fjöl- skyldu ung hjón, Hildur Ragnars- dóttir og Jóhann Nikulásson, áður bjuggu þau um skeið í Akurey. Hófu þar búskap 1991 en árið 2000 fóru þau að Stóru-Hildisey og tóku þar við mikilli og góðri uppbyggingu og að hluta til kúm frá fyrri ábúendum. Þessi ungu hjón hafa á undan- förnum árum náð frábærum árangri í mjólkurframleiðslu sinni og átt afurðahæstu kú landsins oftar en einu sinni. Á síðasta ári var bú þeirra Hildar og Jóhanns afurðahæsta bú landsins sam- kvæmt skýrsluhaldinu og mjólkuðu 34,4 árskýr að meðaltali 7.450 kg sem eru met afurðir, ekkert bú hefur áður náð slíkum árangri. Afurðahæstu kýr þeirra hafa mjólkað yfir 12 þúsund kg." Síðan sagði ráðherra: Þau hjón hafa tekið alla þætti fóðurfram- leiðslu og fóðrunar til endur- skoðunar. Kornræktin er ein af undirstöðum fóðurframleiðslu þeirra og með túnræktuninni fylgir grænfóður og einært rýgresi og jafnvel belgjurtir. Með svo fjölbreyttri heima- ræktun fóðurs og votheysverkun í flatgryfjum sem þau tóku aftur upp, hafa skapast möguleikar til að gera svonefnt heilfóður handa gripunum. Heilfóðurblandari tekur við gróffóðrinu, korninu, öðrum fóðurbæti og nauðsynlegum við- bótarefnum. Þetta heilfóður fer í sjálfvirkan fóðurvagn sem er tölvustýrður og skammtar hverjum grip það sem hann þarfnast og á að fá. Með blöndun heilfóðurs og sjálfvirkri gjöf er hægt að beita meiri nákvæmni í fóðursamsetn- ingu og fóðrun. Við fóðrunina hafa þau notið góðra ráða frá Grétari Hrafni Harðarsyni dýra- lækni. Þetta á svo að leiða til öruggari og meiri afurða og betri heilbrigði gripanna. Þetta er nýjung á Íslandi, sem líkleg er til að leiða til framfara í kúabúskap. Þeim hjónum Hildi Ragnars- dóttur og Jóhanni Nikulássyni í Stóru-Hildisey II eru veitt land- búnaðarverðlaun 2004 fyrir frá- bæran árangur í mjólkurfram- leiðslu og merkar nýjungar sem þau hafa tekið upp í ræktun, fóður- framleiðslu og fóðrun á kúabúi sínu." Vallanes Um Vallanes sagði Guðni Ágústsson að Vallanes á Norður- Völlum á Fljótsdalshéraði væri fornþekkt prestsetur og kirkju- staður. ,,Jörðin er mikil og landgóð á því mikla og slétta nesi sem verð- ur á milli Grímsár og Lagarfljóts. En tímar breytast og árið 1979 hafði búskapur legið að mestu niðri í Vallanesi um 20 ára skeið. Þá hófu ung hjón, Kristbjörg Kristmundsdóttir og Eymundur Magnússon, búskap á jörðinni og hófu endurreisn og miklar ný- framkvæmdir, m.a. stórfellda ræktun. Frá hefðbundnum búskap var þó að mestu horfið árið 1989 er hafin var lífræn ræktun græn- metis og garðávaxta eftir ströngustu kröfum um slíka fram- leiðslu. Áður eða strax 1981 var hafin stórfelld og skipuleg skjól- beltarækt í Vallanesi og þar eru nú velvaxin skjólbelti nokkuð á sjötta kílómetra að lengd sem umlykja og skýla hátt í 40 hekturum af ræktunarlandi. Með skjólinu segist Eymundur hafa fært jörð sína "töluvert sunnar" á hnöttinn með tilliti til vaxtarskilyrða. Skógrækt undir merkjum Héraðsskóga er og umfangsmikil í Vallanesi. Kornrækt á 10-12 hekturum ár- lega er einn liður í hinu lífræna ræktunarkerfi á jörðinni og lánast vel..." Ráðherra sagði að ekki væri nóg með að Eymundur í Vallanesi hafi kynnt og aflað markaðar fyrir lífrænar afurðir sínar, grænmeti garðávexti og korn heldur hafi hann unnið þrekvirki sem frum- kvöðull í þróun á nýjum mat- vörum. ,,Hann er búinn að koma íslenska bygginu, sem flestir líta á sem fóðurkorn, á manneldis- markað og hefur gefið því hið fornþekkta nafn "bankabygg" (korn sem afar og ömmur eða langafar og langömmur þekktu sem besta kornmat). Nú má fá í verslunum: rauðrófubuff, bygg- buff og byggsalat auk margs annars sem allt er lífrænt ræktað og mest í Vallanesi og allt er selt undir vörumerkinu "Móðir jörð", sem Eymundur hefur á táknrænan hátt valið framleiðslu sinni. Það er fyrir frumkvæði í líf- rænni framleiðslu mikla og vel heppnaða ræktun grænmetis, garð- ávaxta, korns, skjólbelta og skóga, og fyrir kynningu á lífrænni framleiðslu og stórmerka vöru- þróun úr framleiðslu sinni, sem Eymundi Magnússyni bónda í Vallanesi eru veitt landbúnaðar- verðlaun ársins 2004," sagði Guðni Ágústsson. Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra afhenti landbúnaðarverðlaunin 2004 við upphaf Búnaðarþings. Hann benti á hve mikilvægt það er að eiga frumkvöðla á hvaða sviði landbúnaðarins sem er. Þeir sem leita nýrra leiða og þora að reyna þær í framkvæmd eigi heiður og þakkir skildar og sagði síðan: ,,Hér verða landbúnaðarverðlaun veitt til þriggja búa þar sem búendur hafa sýnt frumkvæði og tekið upp nýjar aðferðir eða nýja þætti í búskap sínum." Landbúnaðarverðlaun 2004 Guðni Ágústsson afhenti Flug- leiðum og starfsfólki félagsins, fyrir hönd íslensks landbúnaðar, viðurkenningagrip fyrir margháttaða aðstoð og samvinnu við þá sem starfa í íslenskum landbúnaði. Það var Sigurður Helgason, forstjóri Flugleiða, sem tók á móti gripnum. „Það er góður siður að veita þeim viðurkenningu sem vel vinna. Það hafa Flugleiðir gert í baráttunni við að halda landinu öllu í byggð og kunna að meta störf bændanna,“ sagði ráðherra í ávarpi sem hann flutti af þessu tilefni. Verðlaunahafar ásamt ráðherra. F.v. Daði Einarsson, Hildur Ragnarsdóttir, Jóhann Nikulásson, Eymundur Magnússon og Guðni Ágústsson.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.