Bændablaðið - 10.03.2004, Page 24

Bændablaðið - 10.03.2004, Page 24
24 Miðvikudagur 10. mars 2004 Fjarnám á vaxandi vinsældum að fagna hér á landi enda gefur það mörgum tækifæri til að mennta sig sem annars hefðu ekki átt þess kost. Tækniháskóli Íslands hefur tekið upp fjarnám í iðnfræði og næsta haust mun rekstrarfræði væntanlega bætast við. Aðsókn í tækninámið hefur verið mjög mikil sem sýnir best þörfina fyrir fjarnám. Stefanía Katrín Karlsdóttir, rektor THÍ, segir að fjarnámið hafi farið mjög vel af stað. Ætlunin var að fara rólega af stað og byrja með tíu til fimmtán nemendur en fyrr en varði höfðu 90 manns óskað eftir að komast í fjarnámið sem er miklu stærri hópur en hægt var að taka við. Aðeins var hægt að taka við 37 nemendum. Iðnfræðinámið hentar vel fyrir iðnaðarmenn sem vilja bæta við þekkingu sína og þeir fá meistararéttindi þegar þeir ljúka náminu. ,,Langflestir þeirra sem sóttu um að komast í fjarnám í iðnfræðinni eru utan af landi og maður sér þörfina fyrir tæknimenntun úti á landsbyggðinni. Allt er þetta fólk í fullri vinnu og því ekki auðvelt fyrir það að taka sig upp og flytja búferlum til að komast í nám. Fjarnám hentar því afar vel og fólk er afskaplega þakklátt fyrir að fá þetta tækifæri, sérstaklega fólk úti á landi. Margir eru til að mynda að koma í fjarnámið af Austurlandi og það endurspeglar þá miklu uppbyggingu er að eiga sér stað fyrir austan. Þeir sem eru með iðnmenntun vilja bæta við þekkingu sína til að takast á við verkefnin fyrir austan. Ljóst er að þörfin fyrir þetta nám er til staðar og ekki bara fyrir fólk af landsbyggðina heldur alla því þetta er skóli án veggja," sagði Stefanía Katrín. Hún segir að hægt væri að taka við fleirum í fjarnám í framtíðinni en nú stunda það. Skólinn er hins vegar í kvótakerfi hvað nemendafjölda varðar og hefur orðið að hafna mörg hundruð manns á hverju ári. Tækniháskólinn hefur bara ákveðna upphæð á fjárlögum og þar segir hversu margir nemendur mega vera í hverri námsdeild. Stefanía Katrín segir að brýn þörf sé fyrir aukið fé til THÍ svo hægt verði að sinna þeirri eftirspurn sem er eftir tækninámi. ,,Ekki síst er þetta nám nauðsynlegt í ljósi könnunar sem Samtök iðnaðarins létu gera í vetur en þar kemur fram að þörf fyrirtækja í landinu fyrir fólk með menntun í verk- og tæknigreinum er gríðarlega mikil á næstu árum. Mér finnst það því þjóðfélagsleg skylda að útvega atvinnulífinu þetta fólk svo það fái að þróast áfram og byggjast upp en það gerist ekki ef starfsfólk með réttu menntunina vantar. Tækniháskólinn getur komið til móts við þörfina fyrir verkmenntað fólk á næstu árum en til þess þarf að auka fjárveitingu til skólans," segir Stefanía Katrín Karlsdóttir. fjarnám Stefanía Katrín Karlsdóttir, rektor Tækniháskóla Íslands Þörfin fyrir fjarnám er mikil hér á landi Sigrún Margrét Vilhjálmsdóttir Fjarnám er góður kostur Sigrún Margrét Vilhjálmsdóttir á Egilsstöðum hefur stundað fjarnám í hjúkrun við Háskólann á Akureyri og er að ljúka BS prófi þaðan í vor. Hér er um fjögurra ára nám að ræða og segist Sigrún hafa tekið allt námið í fjarnámi. ,,Fyrsta árið vorum við í Neskaupstað og vorum þá 12 í byrjun í náminu en 8 héldu áfram og eru að ljúka námi í vor. Fjórar eru frá Neskaupstað og fjórar frá Egilsstöðum. Fjarnámið er þannig hjá okkur að við erum raun alveg í tímum með öðrum nemendum á Akureyri þótt við höfum aðstöðu í húsakynnum Fræðslunets Austurlands. Við erum með fjarfundabúnað og sitjum í tímum eins og þau á Akureyri. Við getum haft samband við kennara og aðra nemendur að vild. Þetta er alveg eins hjá þeim fjórum sem búa í Neskaupstað en þær hafa aðstöðu í Verkmenntaskólanum þar," sagði Sigrún. Enda þótt fjarnám gefi kost á að fara hægar í sakirnar og taka námið á lengri tíma en þeir sem stunda skólann segir Sigrún að þær hafi tekið námið á sama hraða og nemendurnir á Akureyri. Hún segir að á hverri önn fari þær í eina viku til Akureyrar og sæki þá tíma í skólanum. Sömuleiðis þurfi þær að fara í verklegt nám á sjúkrahúsi en það þurfi að sjálfsögðu allir nemar í hjúkrun að gera hvort sem þeir eru í fjarnámi eða stundi nám í skólanum. ,,Mér þykir fjarnámið frábært og þægilegt því við þurfum ekki að fara burt úr okkar heimabyggð til þess að ljúka námi," segir Sigrún Margrét Vilhjálmsdóttir. Gunnþóra Snæþórsdóttir: Mér líkar þetta afskaplega vel Gunnþóra Snæþórsdóttir á Egilsstöðum er að ljúka hjúkrunarnámi í vor og hefur verið í fjarnámi allan tímann eins og Sigrún M. Vilhjálmsdóttir. Hún segir að þær sem hafa stundað hjúkrunarnám í fjarkennslu á Egilsstöðum hafi verið nokkuð víða til húsa við fjarnámið þar til Fræðslunet Austurlands tók til starfa í haust í nýju húsnæði með frábærri aðstöðu til fjarnáms. Þær byrjuðu í Neskaupstað og voru síðan til húsa í Menntaskólanum á Egilsstöðum og víðar. Gunnþóra var spurð hvernig henni hafi líkað að stunda námið með fjarkennslufyrirkomulagi. ,,Mér hefur líkað það afskaplega vel og ég hefði aldrei farið í þetta nám nema að geta stundað það með þessum hætti og verið heimavið. Fjarnámið var því forsenda þess að ég fór í námið. Ég hygg að þannig sé það með marga sem hafa farið í nám með fjarkennslufyrirkomulagi," segir Gunnþóra, Hún segir að eftir að Fræðslunet Austurlands flutti í núverandi húsnæði hafi öll aðstaða til fjarnáms stórbatnað því nú séu þær beintengdar við Menntaskólann á Akureyri og því óháðar símanum. Áður hafi þetta allt gengið hægar fyrir sig með lakari nettengingum. Ásta Sigríður Sigurðardóttir: Svona nám eykur fólki sjálfstraust Ásta Sigríður Sigurðardóttir, á Þingmúla í Skriðdal, stundar fjarnám í ferðamálafræðum við Hólaskóla. Hún hefur sótt aðstoð til Fræðslunets Austurlands við námið hvað varðar aðstöðu, námsaðstoð, próf og fjarfundi. Hún hefur stundað námið í einn og hálfan vetur en það er alls 45 einingar og segist Ásta fara yfir á þeim hraða sem henti henni með vinnu á búinu. ,,Ég er með réttindi svæðisleiðsögumanna og þess vegna fór ég í þetta ferðamálafræðinám til að auka við þá þekkingu sem ég hafði á eigin svæði og fá þannig meiri víðsýni," sagði Ásta Sigríður. Hún segir að aðstoðin hjá Fræðsluneti Austurlands hafi verið ómetanleg og þá alveg sérstaklega í byrjun því þá kunni hún ekki einu sinni á tölvu og að fara inn á netið sem er forsenda fjarnámsins. ,,Það er dálítið álag að fara í fjarnám og kunna lítið fyrir sér enda þótt starfsfólk Hólaskóla sé einstaklega hjálplegt og vilji allt fyrir nemendur gera," segir Ásta. Hún segir að sér hafi líkað námið ákaflega vel, hún hafi kynnst mörgu góðu fólki í tengslum við það og námið auki fólki sjálfstraust. ,,Það er frábært að stunda svona fjarnám og þegar maður eykur við þekkingu sína líður manni miklu betur fyrir utan hvað svona nám nýtist manni til margra hluta," sagði Ásta Sigríður.Gunnþóra Snæþórsdóttir (t.v.) og Sigrún Margrét Vilhjálmsdóttir við nám í húsnæði FNA á Egilsstöðum. /Bændablaðið HB Hefur ræktað fóðurkál í sama stykkinu í rösk 20 ár Jens Jóhannsson, bóndi á Teigi í Fljótshlíð, hefur ræktað fóðurkál í sama stykkinu í meira en 20 ár og aldrei þurft að hafa áhyggjur af arfa. Hann segir að arfinn komi ekki ef hans aðferð er notuð. ,,Við förum þannig að við þetta að á vorin þegar við mokum út úr fjár- húsunum látum við skítinn í þetta flag og plægjum það síðan og völtum. Þar næst sáum við fóður- kálsfræi og völtum yfir strax aftur. Þar með losnar maður alveg við arfa. Ef menn láta líða einhvern tíma frá því að flagið er plægt þá fær arfinn forskot og nær yfir- höndinni en með þeirri aðferð sem við notum nær fóðurkálið yfir- höndinni," sagði Jens í samtali við blaðið. Kenningin er sú að ef menn nota sama stykkið til kálræktar ár eftir ár komi upp mikill arfi. Jens segir að það sé hætta á slíku ef menn fara rangt að. Hann segir að ef menn plægja og láta sáningu bíða, hvað þá ef menn herfa flagið, þá komi arfinn um leið. En með þeirri aðferð sem hann notar losni hann alveg við arfa. Hermann Árnason, stöðvar- stjóri Sláturfélags Suðurlands, segir Jens hafa náð góðum árangri við flokkun sláturlamba. Jens segist hafa reynt að stunda sauð- fjárrækt sem best með því að nota sæðingar og vinsa síðan úr bestu lömbin. Hann er með á fimmta hundrað fjár á fóðrum í vetur. Grunnskólabörn í Búðardal hafa gefið úr skólablað sem þau kalla Hroll og er 36 síður. Blaðið, sem er hið skemmtilegt aflestrar, er prýtt fjölda mynda og teikninga. Í því eru fréttir, sögur, ljóð og viðtöl m.a. við Villa á pöbbnum, Guðrúnu skólastjóra, Jóa löggu og Guð- mund kennara. Ásta Sigríður Sigurðardóttir

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.