Bændablaðið - 27.06.2006, Side 40
40 Þriðjudagur 27. júní 2006
Nokkur misbrestur er á því inn-
an ESB hvernig eftirlitinu með
salmonellu er háttað því í yfirlitið
vantar upplýsingar frá 5-11 þjóð-
um (mismunandi eftir kjöttegund-
um). Og Ísland er ekki með í þessu
yfirliti. Ástæðan er fyrst og fremst
sú að eftirlit hliðstætt því sem ESB
hefur verið að koma á fer ekki
fram hér á landi nema þegar ali-
fuglakjöt á í hlut. Þar standa Ís-
lendingar vissulega vel því á árinu
2005 fannst ekkert salmonellusmit
í íslenskum alifuglum. Í þeim
flokki voru 1,6% allra sýna smituð
í Danmörku árið 2004 en innan við
1% í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð.
Hvað aðrar kjöttegundir varðar
þá er eftirlit nokkuð gott með
svínakjöti og stendur raunar til að
bæta það enn frekar eins og frá
verður greint hér á eftir. Einnig er
hrossakjöt sem flutt er úr landi
skimað fyrir salmonellu. Ekki hef-
ur hins vegar þótt ástæða til þess
að fylgjast með salmonellu í nauta-
og kindakjöti. Fyrir því er sú
ástæða helst að hér á landi hefur
enginn veikst af völdum salmon-
ellusmits sem rakið hefur verið til
þessara kjöttegunda.
Núverandi eftirlit
Konráð Konráðsson dýralæknir
svínasjúkdóma segir að þær tölur
sem til séu um salmonellusmit í ís-
lensku svínakjöti séu áþekkar og í
Danmörku þar sem smit kom fram
í 1,3% sýna árið 2004. Við þetta
gerir hann þó tölvuverða fyrirvara.
Sá stærsti er að í Danmörku eru
sýni tekin reglulega og oft frá öll-
um svínabúum en hér á landi bein-
ist eftirlitið fyrst og fremst að þeim
búum þar sem salmonella hefur
fundist. Á þeim búum eru tekin
stroksýni reglulega og niðurstöður
úr þeim sýna að verulega hefur
dregið úr tíðni salmonellu á síð-
ustu árum.
Aðferðin sem beitt er við strok-
sýnin er sú að oftast eru sýni úr
fimm skrokkum meðhöndlað sem
eitt sýni. Ef það reynist innihalda
smit getur verið að það sé úr einum
skrokki eða allt upp í það að allir
skrokkarnir fimm séu smitaðir. Á
árinu 2005 voru tekin sýni með
þessum hætti úr 10.511 skrokkum
og reyndust menguð sýni vera 28.
Miðað við fjölda skrokka að baki
hverju sýni merkir þetta að á bilinu
28-138 skrokkar hafi verið meng-
aðir. Það jafngildir 0,26-1,31%
tíðni.
Hafa verður í huga að þessar
rannsóknir ná einungis til búa þar
sem grunur um salmonellusmit
hafði vaknað. Slíkur grunur vaknar
oftast þegar smit kemur fram í svo-
nefndum vöndulsýnum sem tekin
eru úr niðurföllum sláturhúsa. Á
árinu 2005 voru tekin 114 slík sýni
hjá þeim átta sláturhúsum sem
leyfi höfðu til svínaslátrunar og
fannst eitt sem benti til salmon-
ellusmits.
Niðurstaðan úr þessu eftirliti er
sú að tíðni salmonellusmits í
svínakjöti er svipuð og í Dan-
mörku ef litið er á efstu mörk en
allt bendir til þess að hún sé mun
minni.
Nýtt eftirlitskerfi
Konráð segir að með haustinu
sé ráðgert að breyta eftirliti með
salmonellu í svínakjöti og færa það
í svipað horf og tíðkast í Dan-
mörku. Tilgangurinn er að færa
eftirlitið í nútímalegra horf, bæta
viðbrögð eftirlitsaðila ef smit kem-
ur upp, samræma vinnubrögð og
gera eftirlitið réttlátara gagnvart
svínabændum, meðal annars með
því að líta á alla svínarækt sem
hugsanlegan áhættuþátt en ekki
einstök bú.
Kjarninn í nýja eftirlitinu verð-
ur kjötsafapróf sem byggist á
vöðvasýnum úr svínaskrokkum í
sláturhúsi. Verður sýnatakan í
höndum héraðs- og eftirlitsdýra-
lækna en rannsóknir á kjötsafanum
fara fram á Keldum. Niðurstöður
rannsóknanna verða notaðar til að
raða búum í flokka eftir fjölgun
smitaðra sýna síðustu þrjá mánuði.
Eftirliti með búunum verður síðan
hagað eftir þessari flokkun og
hversu mikil hætta er talin á smiti.
Þessu til viðbótar er lagt til að einu
sinni á ári séu tekin saursýni frá
öllum svínabúum sem greinast í
kjötsafaprófi með mótefnagildi 0,2
eða hærra gegn salmonellu.
Konráð segir að helstu forsend-
ur þess að hægt sé að draga úr því
að salmonella greinist í skrokkum
við slátrun séu þær að sýkingar-
tíðni í grísum sé sem lægst og að
krossmengun við slátrun grísa í
sláturhúsi sé í lágmarki. Hann bæt-
ir því við að kjötsafaprófið hafi
verið reynt hér á landi undanfarin
misseri og gefið ágæta raun. Hrað-
próf með stroksýnum geti jafn-
framt leitt í ljós hvort ástæður
smitsins séu fólgnar í aðstæðum á
búinu eða vinnuferli sláturhússins
en mikilvægt sé að greina þar á
milli eigi árangur að nást í barátt-
unni gegn salmonellusmiti.
Salmonella
Smit í lágmarki en samt
ástæða til að efla eftirlitið
- Nýjar aðferðir við eftirlit með salmonellu í svínakjöti verða teknar í gagnið í haust
Á heimasíðu samtakanna Danish Meat sem hafa innan sinna vé-
banda danska kjötframleiðendur og -útflytjendur rákust starfsmenn
Bændasamtakanna á yfirlit yfir tíðni salmonellusmits í kjöti og náði
það til allra 25 ríkja Evrópusambandsins og Noregs að auki. Norður-
löndin standa þar vel að vígi með lægsta tíðni í öllum tegundum kjöts
sem eftirlit er haft með, það er alifuglakjöti, svínakjöti og nautakjöti.
Lengi býr að fyrstu gerð!
Mikilvægt er að gera kálfana
gæfa. Eigi kálfur að geta orðið
góð og þæg mjólkurkýr þarf hann
að vera vanur allri umgengni og
snertingu mannsins. Styggur kálf-
ur er ekki líklegur til að verða þæg
kýr! Segja má að þrjú atriði skipti
hvað mestu máli um það hvort
nautgripir fái tilfinningu fyrir því
að sambýlið við manninn sé ör-
uggt og gott. Skoðum málið nánar.
Traust milli manns og kálfs
Fyrsta atriðið er traust. Það má
byggja upp á þann hátt, að reyna
að ná sambandi við kálfinn eins
fljótt og mögulegt er. Því yngri
sem kálfurinn er, því auðveldara
er að móta hann. Vertu hjá kálfin-
um, klappaðu honum og kjassaðu.
Leyfðu honum að hnusa af þér,
beygðu þig niður þannig að þú
virkir ekki stór og ógnandi. Mikil-
vægt er að þú beygir þig svo höf-
uðið þitt sé í sömu hæð og haus
kálfsins. Leyfðu kálfinum að
skoða þig í rólegheitum, með því
að beygja þig niður og rétta út
höndina til hans.
Kálfinum má ekki bregða!
Annað atriðið er að ekkert
komi kálfinum á óvart, allt sé fyr-
irsjáanlegt. Fyrir nautgripi er mik-
ilvægt að fóðrun og hirðing sé
ávallt með sama hætti, það sé
regla á hlutunum. Gerðu hlutina
alltaf í sömu röð og notaðu sama
raddblæ, hvað sem á dynur! Ef t.d.
á að vigta gripi, er best að gera
það fyrst á unga aldri. Þannig
verður auðveldara að eiga við þá
síðar. Einnig er mikilvægt að
flutningur gripa og rekstur gerist
sem mest án krókaleiða og fyrir-
gangs. Svo er alltaf auðveldara að
reka þá móti birtu, en í átt að
dimmum gáttum.
Öryggistilfinning
Þriðja atriðið er að skepnur
þurfa að finna fyrir öryggi í um-
hverfi sínu. Þeim þarf að finnast
mögulegt að víkja sér undan
hættu. Sú hætta finnst þeim
kannski stafa frá mönnum en
einnig frá öðrum gripum sem geta
ógnað þeim. Í lausagöngu kemur
þetta oft fram. Að mati greinarhöf-
undar er engin verri lausn til en
ferkantaðar stíur, þar eru engar
flóttaleiðir. Í slíkri stíu er bara ein
aðferð, sem getur hjálpað naut-
gripum til að losna við hræðslu,
það er árás! Þess vegna þrífast
nautgripir illa við slíkar aðstæður.
Ef stíunni væri skipt skipt í tvennt,
t.d. með grind í miðju en opin til
beggja enda, batnar umhverfið. Þá
finnst skepnunni að hún geti flúið
aðsteðjandi hættu. Nýju lausa-
göngufjósunum er þannig skipt í
átsvæði og legusvæði og í slíkum
fjósum má oft ganga innan um
dýrin án þess að það trufli þau. Því
meira pláss sem skepnur hafa við
slíkar aðstæður, því öruggari
verða þær með sig. Uppeldistað-
stæður hafa ótrúlega mikið að
segja um skapferli nautgripa.
Reyndu að haga málum þannig í
þínu fjósi að þessir hlutir séu í
lagi, það hefur mikil áhrif á atferli,
vöxt og þrif nautgripa.
Lund og kynbætur
Erfitt er að kynbæta fyrir lund,
eiginleikinn hefur lágt arfgengi og
krefst stórra afkvæmahópa. Þar
fyrir utan er matið huglægt. Að-
stæður á búinu, s.s. bás, getur
einnig leynt raunverulegu eðli
skepnunnar. En fyrir kýr með
slæmt skap skal velja naut sem
gefur gott skap. Við kaup á grip
skal velja bú, þar sem skepnur
hafa verið í öruggu umhverfi,
helst við sambærilegar aðstæður
og í þínu fjósi. Þetta gildir sérstak-
lega um eldri gripi, sem er erfiðara
að venja. Ef þú átt skepnu með
leiðinlega lund og óæskilega
hegðun, losaðu þig við hana. Slík-
ar skepnur gera vinnuumhverfi
þitt verra og hafa neikvæð áhrif á
aðra gripi. Ef slík skepna er í for-
ystu gripa á beit, geta afleiðing-
arnar verið slæmar.
Munur á nautgripakynjum
Skapferli nautgripakynja er
breytilegt, en meiri áhrif hefur
hirðirinn, aðbúnaðar og tamning
gripanna. Forystukýrin hefur allt
að segja um hátterni hópsins.
Munur er á hjarðeðli nautgripa-
kynja. Því meira hjarðeðli, sem
kynið hefur, því verr taka gripir
því að vera aðskildir frá hópnum,
þ.e.a.s. þegar taka þarf grip frá til
einstaklingsmeðhöndlunar. Kyn
með mikið hjarðeðli eru t.d. High-
land, Angus og Limousine. Fyrir
þá sem eiga slíka gripi er sérstak-
lega mikilvægt að venja þá við
manninn á unga aldri.
Alltaf skal hafa varann á ná-
lægt nýbæru. Kýr með sterkt móð-
ureðli gerir allt til að verja kálf-
inn! Líklega er álíka mikill munur
á lund gripa innan kyns og á milli
nautgripakynja.
Krakkar og kálfar
Umhverfi og tamning ráða
mestu um skapferli nautgripa.
Leggðu því áherslu á að umhverfi
þeirra sé öruggt og gott. Gefðu þér
nægan tíma til að spekja kálfana
og kenndu krökkunum að um-
gangast þá af varfærni svo þeir
verði gæfir. Því betri forsendur
sem gripahirðirinn hefur til að
skilja atferli og viðbrögð naut-
gripa, því auðveldara verður að ná
markmiðinu um að eiga meðfæri-
lega og gæfa gripi. Góðar mjólk-
urkýr!
Náðu sambandi með því að beygja þig niður,
réttu út hönd og leyfðu kálfinum að þefa af þér.
Prófaðu síðar að klappa honum ef hann samþykkir
þig.
Róaðu æstan grip með því að strjúka honum á
hrygg eða klóra honum við halarót.
Ekki klappa æstri skepnu á hausnum.
Forðastu að stara á grip, sem þú ætlar að fanga,
hann upplifir það sem ógnun. Vertu klókur og forð-
astu að mæna á hann allan tímann, líttu á hann út
undan þér!
Ef þú gengur að nautgrip aftan við bóg, gengur
hann áfram. Ef þú nálgast hann framan við bóg mun
hann bakka.
Ef þú nálgast nautgrip aftan frá og kemur
skyndilega inn í sjónsviðið, getur hann sparkað.
Gefðu frá þér hljóð, þá veit hann að þú nálgast.
Merki um hræðslu; Höfuð hátt borið, eyru vísa
fram, galopin augu, stórir augasteinar.
Höfuð sígur og grönum stungið ögn fram; Dýr-
ið leitar eftir snertingu.
Höfuð hátt borið, granir og eyru vísa fram;
Skepnan er á vakt og veitir einhverju eftirtekt. Ef
höfuð sígur, leitar dýrið undankomuleiðar.
Höfuð borið lágt og hornagarður vísar fram;
Ógnun, miklar líkur á að dýrið geri árás!
Byggt m.a. á grein Kristian Heggelund í Buskap
nr. 3, 2006.
Atriði er varða rétta umgengni við nautgripi
Nautgriparækt
Sigtryggur Jón Björnson og Sverrir
Heiðar LBHÍ, Hvanneyri
Gæfar kýr - betri kýr!
mikilvægt að spekja kálfana
Hér hefur kálfurinn nálgast Birgi Þór á eigin forsendum og hann strýkur
kálfinum vingjarnlega.