Bændablaðið - 12.06.2007, Blaðsíða 8
Bændablaðið | Þriðjudagur 12. júní 20078
Ég hygg að flestir landsmenn séu
stoltir af Landbúnaðarháskóla
Íslands á Hvanneyri og Hólaskóla
- Háskólanum á Hólum í Hjaltadal.
Þetta eru einir elstu skólar landsins,
stofnaðir 1889 og 1882. Þeir standa
nú í miklum blóma og eru ótvíræð
flaggskip menntasetra í dreifbýli
á Íslandi. Þótt allir vilji nú Lilju
kveðið hafa hefur barátta þeirra
fyrir tilveru sinni ekki alltaf verið
dans á rósum hin síðari ár. Með
breyttri menntastefnu og tilkomu
fjölbrautaskólanna og niðurlagn-
ingu iðnskólanna á árunum fyrir
1980 var gerð hörð hríð að land-
búnaðarskólunum. Þeir þóttu úreltir
og rétt væri að steypa þeim inn í hið
samhæfða og einsleitna framhalds-
skólakerfi. Hólaskóla var reyndar
lokað í tvö ár í þessari hrinu en var
settur af stað á ný með pólitískri
ákvörðun fyrir þrýsting frá velunn-
urum hans. Hér skal ekki lagt mat
á hvort fjögurra ára samræmdur
framhaldsskóli fyrir alla hafi verið
rétt stefnumörkun á sínum tíma en
ég tel að iðnmenntunin hafi ekki
borið sitt barr út um land eftir að
þessi ákvörðun var tekin. Heilu
atvinnugreinarnar búa enn að nem-
endum gömlu iðnskólanna, sérstak-
lega út um land. Búnaðarskólarnir
hafa skarað fram úr í þróun tækni
og háskólanám á sviði grunngreina
atvinnuveganna.
Æ síðan hafa búnaðarskólarn-
ir þurft að standa vörð um tilveru
sína og sjálfstæði en jafnframt ná
að þróast í fjölþættar viðurkenndar
háskóla- og rannsóknastofnanir.
Áhrifamiklum aðilum innan
stjórnsýslunnar hefur verið tilvist
þessara skóla einhver þyrnir í augum.
Þeir skilja hvorki né þekkja til inn-
viða þessara menntasetra né skynja
hin sterku tengsl þeirra við atvinnu-
lífið í landsbyggðarsamfélaginu og
stöðu þeirra á alþjóðavísu.
Ég var skólastjóri á Hólum í
Hjaltadal 1981 til 1999 og þekki vel
þessa baráttu. Mér er nær að full-
yrða að hvorki Landbúnaðarháskóli
Íslands né Hólaskóli væru við
lýði með þeirri reisn sem þeir eru
í dag ef þeir hefðu t.d. heyrt undir
menntamálaráðuneytið.
Sérstaða og náin tengsl skólanna
við grasrótarsamfélagið
Styrkur þessara skóla er sérstaða
þeirra og náin tengsl við grasrót
dreifbýlisins. Þeir heyrðu fyrst
undir atvinnuvegaráðuneytið og
síðar undir landbúnaðarráðuneytið
og nutu þess. Samtök bænda og
fjöldi velunnara stóðu vörð um
þá. Þeir eru ekki venjulegir skólar
í skilningi „teknókrata“ nútímans.
Þetta eru staðir, fjölhliða mennta-
og menningarstofnanir lands-
byggðarinnar og þjóðarinnar allrar.
Þeir eru lögbýli með fjölbreyttan
búrekstur.
Ég minnist þess veturinn 1999
þegar sett voru ný lög um bún-
aðarfræðslu og Hvanneyrarskólinn
viðurkenndur sem háskóli og
Hólaskóli fékk lagaheimild fyrir
sérhæfðu háskólanámi. Þá var einn-
ig gerð hörð atlaga að skólasetr-
unum og fram kom tillaga um að
flytja þá til menntamálaráðuneytis.
Þá var leitað ásjár forsætisráðherra,
Davíðs Oddssonar. Hann spurði
þeirrar eðlilegu spurningar hvort
eitthvert vandamál væri að hafa
þá undir landbúnaðarráðuneytinu,
hvort eitthvað gengi illa. Hann vissi
að þeir hafa haft þessa stjórnsýslu-
legu stöðu í 100 ár, hún hefði reynst
þeim vel og því hvorki rök né þörf
fyrir slíkum breytingum?
Fjöregg landbúnaðarins
Búnaðarskólarnir hafa byggst upp á
mjög sérstæðan hátt. Þar hefur farið
saman menntun, endurmenntun,
rannsóknir og ráðgjöf. Sami aðil-
inn, sama stofnunin, hefur gjarnan
haft alla þessi þætti á hendi. Þessi
samþætting hefur reynst öllum hag-
kvæm. Náin tengsl eru við háskóla
og rannsóknastofnanir í nágranna-
löndum en einnig mjög bein tengsl
við bændur og annað starfsfólk í
landbúnaði hér innanlands.
Skólarnir hafa sýnt mikinn
sveigjanleika og náð að aðlaga sig
stöðugt að breyttum aðstæðum svo
aðdáun vekur.
Landbúnaðarskólarnir eru hluti
af hinni sterku ímynd landbúnaðar-
ins og dreifbýlisins. Þeir hafa einnig
verið merkisberar nýrra tíma í land-
búnaði sem borið er traust til innan
greinarinnar. Við eigum ekki að taka
neina óþarfa áhættu í þessum efnum.
Ég skora á ríkisstjórnina að falla
frá áformum sínum um að rjúfa
meira en aldargömul tengsl land-
búnaðarskólanna við atvinnuráðu-
neyti sitt og samtök bænda. Þessi
sambúð hefur verið öllum aðilum
farsæl.
Það veit enginn hvað átt hefur
fyrr en misst hefur.
Næsta Bændablað
kemur út þriðjudaginn
26. júní
Ég var að glugga í nýútkomna
bók, skáldsöguna Byggðir og bú
Suður-Þingeyinga 2005. Tæplega
verður þetta flokkað undir heim-
ildarit, slíkar eru vitleysurnar.
Menn sagðir dánir þó við þokka-
lega heilsu séu. Sé bókin Byggðir
og bú frá 1985 borin saman við
þessa ber ekki saman um marga
hluti, hvor sem er réttari. Ef skoð-
uð er stærð til dæmis íbúðarhúsa
er samanburður ekki góður. Húsin
hafa annaðhvort minnkað eða
stækkað, sum sennilega eins. Ekki
skal fullyrt hvor bókin réttari er.
Ekkert samræmi er við upptaln-
ingu bygginga, ýmist gripafjöldi
eða m2. Sé litið yfir jarðir í talinu
á undan eyðibýlum virðast allar
vera í byggð þótt svo sé ekki.
Kannski hafa jarðir þurft að vera
í eyði einhvern tiltekinn árafjölda
til þess að flokkast sem eyðijarð-
ir. Allavega sé ég ekki þar regl-
una. Ábúendatal greinir ekki frá
ábúðarlokum ef jörð fer í eyði. Af
hverju lýsing á landamerkjum er
sett með jörðum veit ég ekki og
sé ekki hvaða heimildargildi slíkt
hefur eða annan tilgang. Sagt er í
formála að bókin miðist við 2005
og ætti því ábúendatal að mið-
ast við það. Nokkrir aðilar eru
með dánardægur 2006. Þar fer sú
regla.
Við hjónin eigum sumarhús í
landi Þverár í Reykjahverfi. Þar
eru fleiri bústaðir, en mín kona
ein sögð vera eigandi að bústað.
Ég hef sennilega ekki staðið nægj-
anlega gegn eignatöku hennar. Ein
kona, sem átti tvö börn fyrir hjóna-
band, er sögð eiga börnin með
sitt hvorum manninum. Konan
segir svo ekki vera. Kannski veit
ritnefndin eða höfundur betur
en konan. Þá er á kjöl bókanna
nafn Ragnars Þorsteinssonar
eins og hann sé einn höfundur,
gott fyrir aðra ritnefndarmenn
eða Búnaðarsamband Suður-
Þingeyinga að vera ekki bendlaðir
við rangfærslur eða lélega vinnslu
og yfirlestur en í öllu falli ein-
kennileg merking á svona bók. Þá
finnst mér vanta að bæjarnafnatal
sé í báðum bókunum en ekki bara
í síðara bindi, en það er svo sem
ekki neitt rangt við það, aðeins
mín skoðun. Þá þarf ekki að leita
eins lengi að bæ ef maður er ekki
þeim mun kunnugri og ekki að
vera með báðar bækurnar við
hendina. Og ekki er dýrðin gefin.
Eg trúi því tæpast að ég hafi fund-
ið allar villurnar en nóg er samt. Í
Bændablaðinu frá 1.maí 8.tbl segir
í viðtali við Ragnar Þorsteinsson:
„Ég er búinn að kynnast fólk-
inu vel, enda fór eg heim á hvern
bæ. Það var gríðarleg áhersla lögð
á að ná efninu sem réttustu og mér
sýnist á þeim viðbrögðum sem
bókin fær að litlar athugasemdir
séu og almenn ánægja með hana.“
Auðvitað er ekki almenn
ánægja með bókina og ég veit
að henni hefur verið skilað enda
lítið hægt að gera þegar verk-
ið er komið út. Sjálfsagt er erfitt
að skila svona bók til að fá end-
urgreitt verðið enda getur maður
illa skilað bók sem maður kaupir
en er ekki ánægður með efnið. Þó
tel ég að svona rit eigi að vera rétt
og greina frá staðreyndum. Ég veit
um aðila sem sendu inn leiðrétt-
ingar í tæka tíð en þær voru ekki
teknar með.
Mér finnst ekki ástæða til að
klappa lengi fyrir þessu verki. Ég
held að enginn hafi sóma af þess-
ari útgáfu, því miður, en til þessa
virðist hafa verið vandað með
prentun og annan frágang.
Ég held að þetta rit megi kalla
í besta falli Jarðalýsingu Suður-
Þingeyinga með staðreyndaívafi.
Þetta getur því miður aldrei orðið
heimildarrit.
Ævarr Hjartarson
Furulundi 33
600 Akureyri
Byggðir og bú Suður-Þingeyinga,
skáldsaga með staðreyndaívafi
Jón Bjarnason
Alþingismaður Vinstri hreyfingarinnar
– græns framboðs
jb@althingi.is
Menntamál
Hvers vegna vill ríkisstjórnin fórna landbúnaðarskólunum?
– Leyfum búnaðarskólunum á Hvanneyri og Hólum að njóta sérstöðu sinnar
Stofnað hefur verið fyrirtækið
Ríki Vatnajökuls ehf. Það eru
ferðaþjónustuaðilar á svæð-
inu frá Hvalnesi í austri og að
Lómagnúpi í vestri sem að því
standa. Undir klasann falla allir
þeir aðilar svæðisins sem þjóna á
einn eða annan hátt ferðamönn-
um eða fyrirtækjum í ferðaþjón-
ustu. Um er að ræða þá sem selja
m.a. gistingu, veitingar, afþrey-
ingu, reka verslanir og veita
samfélagslega þjónustu, svo sem
menningarstarfsemi, heilbrigð-
isþjónustu og samgöngur.
Undanfara stofnunar Ríkis
Vatnajökuls má rekja til fundaferð-
ar um klasasamstarf að tilstuðlan
Frumkvöðlaseturs Austurlands ehf.
árin 2004 til 2006, ásamt verkefn-
inu Hagvöxtur á heimaslóð vet-
urinn 2007. Fjöldi ferðaþjónustuað-
ila hefur tekið þátt í vinnufundum,
fyrirlestrum og námskeiðum vegna
þessa.
Eindreginn vilji til að efla
ferðaþjónustuna
Ari Þ. Þorsteinsson, sem sæti á
í stjórn Ríkis Vatnajökuls ehf.,
segir að það sem einkennt hafi
klasaundirbúninginn sé eindreginn
vilji allra hagsmunaaðila til að
byggja upp öfluga ferðaþjónustu
sem byggi á samstarfi aðila
sem gjarnan hafa verið í harðri
samkeppni. Þátttakendur í klasanum
meta því ávinning samstarfs fram
yfir sundurlyndi. Hann segir að
það hafi tekið tvö ár að undirbúa
stofnun fyrirtækisins og sannfæra
alla aðila í ferðamannaþjónustunni
á svæðinu um nauðsyn þess að
vinna saman en ekki að menn séu
að pukrast hver í sínu horni.
Mestur vandi íslenskrar ferða-
þjónustu hefur verið að fá betri nýt-
ingu yfir vetrartímann. Ari segir að
afstaða fólks til vetrarins á Íslandi
sé að breytast nokkuð. Myrkrið,
kyrrðin, norðurljósin, snjósleða-
ferðir og margt fleira verði eftirsótt-
ara með hverju árinu sem líði.
Í könnunum sem gerðar hafa
verið kemur í ljós að ýmislegt er
hægt að gera til efla ferðaþjón-
ustuna yfir veturinn. Ari segir að
fyrir austan hafi verið gerð tilraun
með að auglýsa norðurljósin og
þó nokkur hópur erlendra ferða-
manna hafi komi til landsins þess
vegna. Þeim var boðið að fara í
hreindýraskoðunarferð, boðið upp
á alíslenskan mat og loks horfði
fólk á norðurljósin. Það er ekki síst
fólk frá hinum heitu löndum Suður-
Evrópu sem hefur áhuga á svona
ferðum sem þó hafa afar lítið verið
markaðssettar á þeim slóðum.
Vatnajökull segullinn
Ari segir að markmið klasans sé að
vinna saman að því að gera Ríki
Vatnajökuls að einu af fimm þekkt-
ustu ferðaþjónustusvæðum Íslands
innan fjögurra ára með áherslu á
hið einstaka umhverfi Vatnajökuls,
auðuga menningu og mannlíf og
sérstöðu í matvælum. Ætlunin sé
að auka fjölda ferðamanna í Ríki
Vatnajökuls um 8-11% á næstu
fimm árum.
Í mars síðastliðnum sam-
þykkti Alþingi lög um stofnun
Vatnajökulsþjóðgarðs og verður
hann stærsti þjóðgarður Evrópu.
Vatnajökull og þjóðgarðurinn
marka svæðinu mikla sérstöðu á
heimsvísu og er einn helsti segull
landsins gagnvart ferðamönnum.
Þess má geta að fjörutíu aðilar
skráðu sig sem stofnhluthafa í Ríki
Vatnajökuls á stofnfundi fyrirtæk-
isins. S.dór
Ríki Vatnajökuls ehf.
Risaátak hafið í að auka ferða-
þjónustuna á Suðausturlandi