Bændablaðið - 12.06.2007, Síða 16
Bændablaðið | Þriðjudagur 12. júní 200716
Fyrir nokkru birtist hér í
Bændablaðinu viðtal við
Guðmund Óla Gunnarsson
hljómsveitarstjóra sem tilheyrir
þeim vaxandi hópi þéttbýlisbúa
sem hafa fundið sér athvarf í sveit-
inni. Nú er röðin komin að tvenn-
um hjónum sem keyptu jörðina
Búrfell í Reykholtsdal, eða því
sem eitt sinn hét Hálsasveit, og
hafa verið að byggja hana upp
undanfarin fjögur ár. Það eru
læknarnir Hannes Petersen og
Friðrik Sigurbergsson og eig-
inkonur þeirra, Harpa Kristj-
ánsdóttir gullsmiður og kennari
og Árný Sigurðardóttir hjúkr-
unarfræðingur og forstöðu mað-
ur heilbrigðiseftirlits Reykja-
víkurborgar.
Þau Hannes og Harpa eru nú búin
að endurbyggja gamla íbúðarhúsið,
að heita má frá grunni, en Friðrik
og Árný ákváðu að byggja nýtt hús
sem þau eru flutt inn í. Öll starfa þau
í Reykjavík, þeir Hannes og Friðrik
á Landspítalanum í Fossvogi, Árný
hjá Reykjavíkurborg og Harpa
kennir við Iðnskólann. Hvað var
það sem dró þau upp í sveit?
Friðrik: „Hjá okkur var það
gamall draumur að eignast athvarf
í sveit þar sem hægt væri að gera
meira en á venjulegri sumarhúsa-
lóð, eitthvað stærra. Við Árný
höfum haft áhuga á skógrækt og
getum sinnt henni hér.“
Hannes: „Það var hestamennsk-
an sem dró okkur hingað. Við eigum
13 hesta og hafði lengi dreymt um
að koma okkur upp aðstöðu til þess
að geta verið með þá hjá okkur. Nú
erum við með níu þeirra hér uppfrá
en hinir eru enn fyrir sunnan.“
Góð skilyrði til skógræktar
Þeir Hannes og Friðrik hafa þekkst
lengi og starfa meðal annars saman
í þyrlusveit lækna. „Við fórum að
kíkja í kringum okkur og það er
óneitanlega auðveldara að gera það
úr þyrlu. Einn félaga okkar í þyrlu-
sveitinni á jörð hér í mynni dals-
ins og hann benti okkur á að hér
á Búrfelli væri jörð að fara í sölu.
Við brugðumst hratt við og buðum
uppsett verð í hana og fengum hana
seinnihluta vetrar 2003.“
Jörðin er 280 hektarar að stærð og
liggur sunnan með Reykjadalsá upp
í og yfir Búrfellin sem ná allt að 470
metra hæð. Þau eiga sem sé fjöll.
Þarna var sauðfjárbú en ræktun er
ekki mikil, túnin eru um 20 hektarar.
Friðrik segir að gróðurskilyrði fyrir
skóg séu góð í hlíðum Búrfellanna,
enda sjáist það á næsta bæ að þar
gengur vel að rækta skóg.
Friðrik og Árný ætla að helga
sig skógræktinni og eru orðnir þátt-
takendur í Vesturlandsskógum sem
hafa sett sér það verkefni að rækta
allar suðurhlíðar Reykholtsdals.
Þau ætla alveg að gefa hófdýrunum
frí og mega ekki til þess hugsa að
sauðfé komist í skóginn sem þau
ætla sér að rækta. Þess vegna hafa
þau lagt á sig að girða meðfram
veginum inn dalinn á tveggja km
kafla. Næsta skref verður að fá verk-
taka til þess að girða annað eins
uppi í Búrfellinu og loka hinn verð-
andi skóg af. Fyrr geta þau ekki
hafist handa við ræktunina fyrir
alvöru.
Harpa og Hannes ætla að taka
þátt í skógræktinni og Harpa hefur
meðal annars sótt skógræktarnám-
skeið á Hvanneyri ásamt Friðriki
og Árnýju. Það eru þó hestarnir sem
eiga hug þeirra fyrrnefndu. Þau eru
búin að koma upp gerði fyrir hest-
ana og eru byrjuð að innrétta fjár-
húsið svo þau geti tekið hestana á
hús. Hlöðuna er Friðrik búinn að
leggja undir sig en hann er með all-
hastarlega véladellu.
Betri netaðgangur breytti miklu
Hingað til hefur hreinsun jarðar-
inn ar og uppbygging tekið allan
þeirra tíma og nú sjá þau fyrir end-
ann á því. Þau eru búin að koma sér
upp heilsársaðstöðu þar sem þau
geta verið hvenær sem þau lystir.
Raunin er líka sú að þau eru mikið
á staðnum. Harpa: „Við Hannes
fluttum lögheimilið okkar hingað
upp eftir og erum hér alltaf þegar
við getum. Í fyrrasumar kom ég
ekki til Reykjavíkur samfleytt í
tvo mánuði, átti bara ekkert erindi
þangað!“
Árný og Friðrik eru enn heim-
ilisföst í Reykjavík en eru einnig
eins mikið í Búrfelli og þau geta.
„Við þyrftum að draga úr vinnu
ef við ættum að vera hér meira,“
segja þau. Raunar segist Árný oft
koma upp eftir til þess að vinna.
„Það er gott að vera hér í kyrrðinni
ef maður þarf að lesa eitthvað eða
skrifa. En þá sakna ég Netsins því
aðgangur að því er ekki nógu góður
hér. Ég gæti unnið miklu meira hér
ef ég hefði betri aðgang að Netinu,“
segir hún.
Hannes tekur í sama streng.
Hann vinnur að rannsóknum í sínu
starfi og vonast til að geta unnið að
úrvinnslu og skriftum sem tengjast
rannsóknum. „En það byggist á því
að hafa góðan netaðgang. Stór hluti
þessara rannsókna er unnin í hópum
sem oft þurfa að hittast og vinna
saman. Það væri vel hægt að gera
hér og í Reykholti er fín aðstaða til
fundarhalda og hægt að halda ráð-
stefnur og útvega fólki gistingu. En
þetta stendur og fellur með góðum
netaðgangi.“
Nú er eina netsambandið um
venjulega símalínu sem er óskap-
lega seinvirkt og vonlaust að hlaða
einhverju niður, í mesta lagi hægt
að sinna bankaviðskiptum og þess
háttar. Í boði hefur verið þráðlaust
samband frá fyrirtækinu emax en
það hefur þótt mjög óstöðugt svo
þau hafa ekki tengst því. Nú hafa
þau heyrt að til standi að setja upp
nýja sendi á Skáneyjarbunguna
og þá gæti sambandið lagast. „Þá
tengjumst við strax því þá getum
við boðið til okkar fólki og nýtt þá
góðu þjónustu sem hér er að hafa,“
segir Árný.
Vilja tengjast sveitinni
Ekkert þeirra fjögurra tengist daln-
um svo neinu nemi. Þau segjast
líka hafa verið svo upptekin við
tiltekt á jörðinni og uppbyggingu
húsanna að lítill tími hafi gefist til
þess að stunda félagslíf og rækta
sambandið við sveitungana. „En nú
fer það að breytast,“ segir Harpa og
bætir því við að hún hafi þó alltaf
tekið þátt í árlegri kvennareið sem
konurnar í dalnum standa fyrir.
Hannes segir að allir nágrannar
þeirra hafi undantekningarlaust tekið
þeim vel og reynst þeim hjálpleg-
ir. „Ef við höfum bankað upp á eða
hringt hafa allir verið boðnir og búnir
að hjálpa okkur og gefa okkur ráð,
lána okkur tæki eða kippa upp drátt-
arvélinni þegar við festum okkur.“
„Við höfum líka kippt öðrum
upp,“ skýtur Árný inn í.
Hannes bætir því við að eflaust
séu þau eitthvað milli tannanna á
fólki. „Því finnst eflaust fyndið að
sjá okkur snúa heyi með heytætlu
þar sem aðeins þrír armar virka. En
það er allt í lagi.“
Friðrik er reyndar kominn til
áhrifa í sveitinni, hann tók sæti í
stjórn veiðifélags Reykjadalsár í
vetur, enda mikill veiðimaður, þótt
uppáhaldsíþróttin sé að ganga til
rjúpna. Þau segjast hafa fullan hug
á að tengjast samfélaginu í dalnum,
sækja fundi og samkomur og eiga
samskipti við nágrannana. Friðrik
bætir því við að þeir Hannes hafi
getað liðsinnt fólki með sinni lækn-
isfræðilegu kunnáttu og sparað því
sporin niður í Borgarnes ef svo
hefur borið undir. „Ætli það endi
ekki með því að við opnum stofu
hér uppfrá,“ bætir Hannes við og
brosir.
Þau segjast líka hafa séð að nóg
framboð er á alls kyns félagslífi í
sveitinni. „Það væri hægt að ganga
í kirkjukór eða sækja tónleika í
Reykholti eða Fossatúni. Á Mið-
Fossum er mikið líf og hægt að
sækja hin og þessi námskeið og
þannig mætti áfram telja.“
Þetta er ekki fjárfesting
Bændur hafa stundum kvartað yfir
því að þegar þéttbýlisbúar kaupi
jarðir sé það þeirra fyrsta verk
að setja upp skilti sem á stendur:
Einkalóð, allur aðgangur bannaður.
Þeir segja líka að erfitt geti reynst
að fá þessa nýbúa til að taka þátt í
smölun og öðrum störfum sem þarf
að sinna í sveitinni.
„Við viljum taka fullan þátt í
störfum sveitarinnar og lokum ekki
landinu fyrir umferð,“ segir Harpa.
„Við höfum að vísu ekki farið á
fjall ennþá en við greiðum fjall-
skilagjald og smölum heimaland-
ið.“ Hannes bætir því við að hann
geti vel hugsað sér að fara á fjall,
hann þurfi bara að gefa sig fram við
fjallkónginn Jón á Kópareykjum.
„Meðfram ánni norðan við veg-
inn eru reiðleiðir sem við ætlum
að halda opnum. Við höfum meira
að segja rætt um að koma þar upp
gerði þar sem hestamenn gætu áð
með góðu móti. Það yrði okkur til
ánægju,“ segir Hannes. Harpa bætir
því við að þegar Kvennareiðin átti
leið hjá Búrfelli í fyrra hafi Hannes
komið út og trakterað konurnar á
viskíi.
Það er best að háls-, nef- og
eyrnalæknirinn Hannes Petersen
eigi lokaorðin í þessu spjalli þegar
hann segir fyrir munn þeirra allra:
„Fyrir okkur er þetta ekki fjárfest-
ing. Við keyptum þennan stað til
að vera á, en ekki til þess að ávaxta
okkar pund.“
Myndir og texti: –ÞH
Keyptum þennan stað til að vera á
Rætt við tvenn hjón úr Reykjavík sem keyptu sér jörð í Reykholtsdal
Friðrik og Hannes með stolt staðarins, sexhjól sem þeir keyptu í vor og
þeir segja að hafi komið sér afar vel í girðingavinnunni.
Við borðstofuborðið í gamla húsinu á Búrfelli, frá vinstri: Friðrik, Árný,
Hannes og Harpa.
Við dráttarvélina sem nágrannarnir þurftu einhvern tímann að kippa upp. Að baki sér í Búrfellshlíðina sem brátt
verður þakin skógi og til vinstri er hlaðan sem nú er orðin að vélageymslu.