Bændablaðið - 29.04.2008, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 29.04.2008, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Þriðjudagur 29. apríl 2008 Málgagn bænda og landsbyggðar LEIÐARINN LOKAORÐIN Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjölmargra annarra er tengjast landbúnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 5.400 en sjötugir og eldri greiða kr. 2.400. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294-2279 – Ritstjóri: Þröstur Haraldsson, ábm. th@bondi.is – Sími: 563 0375 Blaðamenn: Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Margrét Þóra Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurdór Sigurdórsson ss@bondi.is Auglýsingastjóri: Eiríkur Helgason eh@bondi.is – Sími: 563 0303 – Myndvinnsla og frágangur: Prentsnið ehf. Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins að mestu leyti. ISSN 1025-5621 Af geitungum, evrum og repju Það er komin gul slikja á repjuakr- ana og ávaxtatrén farin að blómstra hér í sunnanverðu Þýskalandi en þangað þurfti yðar einlægur að bregða sér fyrstu helgi hins nýkviknaða sumars. Ég fór reynd- ar úr ágætisveðri og í enn betra, en svo sé ég á fréttasíðum netsins að hitinn heima er kominn niður undir frostmark og varað við hálkublett- um á Hellisheiði og skafrenningi á Holtavörðuheiði. Kannski maður framlengi dvölina. Allt hefur þó sínar jákvæðu hliðar. Það var frétt um það nú um helgina að fyrstu geitungarnir og hunangsflugurnar væru farnar að sveima um garða landsmanna. Þetta kuldakast gæti hugsanlega sett strik í reikning geitungastofns- ins. Því myndu margir fagna. Menn á mínum aldri ólust upp á þeirri sælu tíð þegar þessar pöddur voru óþekktar hér á landi. Ég man enn eftir því hvað mér varð bilt við það þegar ég kom til útlanda og upplifði geitunga í fyrsta sinn, ekki síst af því þeir sýndu svo mikinn áhuga á að deila með mér matnum og drykkjar- föngunum. Við vorum hópur unglinga frá Íslandi, grunlaus um þennan ófögnuð, og stukkum hæð okkar í loft upp í hvert sinn sem geitungarnir birtust. Nú eru geitungar orðnir hluti af daglegri tilveru Íslendinga og raunar margt fleira svipaðrar ættar sem áður fyrr var óþekkt. Sennilega á þeim plágum eftir að fjölga ef spár um hlýnun andrúms- loftsins ganga eftir. Ekki mun hina nýju landnema skorta fæðu því fregnir úr ríki náttúrunnar herma að gróðurbelti hveitis færist norð- ur um einn metra á klukkustund þessi misserin. Þá verður þess væntanlega ekki langt að bíða að gulir repjuakrar og blómstrandi ávaxtatré verði jafnalgeng og indæl sjón og hér suður við Saxelfi. Hér fara reyndar öll viðskipti fram í evrum eins og æ fleiri dreymir um á Íslandi. Hvort evran verður á undan repjunni að leggja undir sig landið verður ekki spáð um hér. Við fylgjumst spennt með. -ÞH Mikil áhersla er lögð á sjálfbæra þróun, sérstöðu landa og matvælaöryggi nú á tímum. Vaxandi eftirspurn eftir matvæl- um í heiminum, ekki síst í löndum Asíu, er talin ógn við matvælaöryggi víða um heim. Aðalástæðan er sú að efnahagur hefur batnað og íbúar taka upp breyttan lífsstíl. Á sama tíma og þessi þróun leiðir til aðfangahækkana í landbúnaði og efna- hagsumhverfið er bændum að ýmsu leyti óhagstætt, eru fyrirhugaðar lagabreyting- ar sem geta gert starfsskilyrði okkar enn óhagstæðari. Frumvarp um breytingu á ýmsum lögum, vegna endurskoðunar á undanþáguákvæðum EES-samningsins, er nú til umsagnar hjá Bændasamtökunum. Frumvarpið felur í sér verulegar breyting- ar á starfsumhverfi bænda ef það verður samþykkt óbreytt. Í því er m.a. opnað fyrir innflutning á fersku kjöti og frumvarpið felur í sér margþættar gjaldtökuheimildir og leyfisveitingar sem geta orðið veru- lega íþyngjandi fyrir bændur. Ennfremur er vart þörf á því að fjalla um í þessum miðli hversu berskjaldaðir búfjárstofnar okkar eru gegn sjúkdómum sem við erum laus við. Á síðustu áratugum hefur verið unnið að því að sporna gegn útbreiðslu búfjársjúkdóma og koma í veg fyrir pestir sem víða erlendis eru landlægar. Sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis fjallar um frumvarpið eins og eðlilegt er þegar lög sem þessi eru til meðferðar. Þar þarf að meta fjárhagsleg- ar afleiðingar á atvinnu þeirra sem vinna við frumframleiðslu og úrvinnslu land- búnaðarvara og setja fram hugmyndir um mótvægisaðgerðir. Bent skal á að á sama tíma fellur niður útflutningsskylda lamba- kjöts sem mun án efa raska því jafnvægi sem ríkt hefur á kjötmarkaði. Á það hefur verið bent og það mun vera rétt að fyrir alllöngu var gert samkomulag í Brussel sem bindur hendur okkar um margt sem í frumvarpinu stendur. Ljóst má þó vera að margt í útfærslu laganna má aðlaga svo það verði sem minnst íþyngjandi fyrir atvinnugreinina. Nokkrir dagar nægja hins vegar ekki hagsmuna- samtökum bænda til þess að benda á allar þær leiðir. En hvað gerðist í Brussel sem varð til þess að EES-samningurinn, sem þó var gerður 1992, hélt ekki lengur gildi sínu? Hvað varð um þau rök sem þá giltu um sérstöðu eyríkisins í málum sem varðar t.d. búfjársjúkdóma? Fram hefur komið að framkvæmdastjórn ESB hafi gert kröf- ur til breytinga. En hverjar voru þær kröf- ur nákvæmlega, eða er framkvæmdastjórn ESB yfirleitt heimilt að stilla okkur upp við vegg með þessum hætti? Þrátt fyrir að eftir hafi verið leitað, þá höfum við ekki fengið frumgögn þessarar kröfugerðar framkvæmdastjórnar ESB. Er það svo að embættismenn í Brussel geti afgreitt með varanlegum hætti svo veigamikla samn- inga án þess að um málið sé fjallað með eðlilegum hætti heima fyrir? Fróðlegt væri að heyra viðhorf utanríkismála- nefndar til þessa máls. Það er rétt að hvetja alla þá sem hafa aðgang að hinu takmarkaða netsambandi til sveita að kynna sér til hlítar lagafrum- varpið og þær gerðir ESB sem málið varða. Sú aðvörun þarf þó að fylgja að það er mikið verk. En hvað ætli gerist ef frumvarpið verð- ur ekki samþykkt á þessu þingi? Nefnt hefur verið að eftirlitsstofnun EFTA gæti blandað sér í málið. Sá málarekstur tæki hins vegar marga mánuði. Einnig hefur verið nefnt að viðskiptahömlur verði settar á aðrar útflutningsvörur Íslendinga, þ.e.a.s. fiskafurðir. Menn hafa þó ekki sýnt fram á að ESB sé einhliða heimilt að setja slíkar hömlur Það liggur því ekkert á að afgreiða þetta frumvarp: Bændur þurfa að fá betri aðkomu að því og skýra þarf hvort frumvarpið gengur lengra en skuldbind- ingar krefjast. Það er því meginkrafa Bændasamtaka Íslands að stjórnmála- menn gefi hagsmunaaðilum svigrúm til nánari skoðunar og jafnframt aðlögunar. Hér gildir að gefa sér tíma til þess að rannsaka gaumgæfilega allar hliðar þessa umfangsmikla máls. Því fara samtökin fram á að frumvarpið verði ekki afgreitt á þessu þingi. - EBL Frestum afgreiðslu bandormsins Heitar umræður urðu á aðalfundi Búnaðarsambands Eyjafjarðar, sem haldinn var í Hlíðarbæ í Hörgárbyggð nýverið, vegna frumvarps sem lagt hefur verið fram á Alþingi og varðar breyt- ingar á matvælalöggjöf, viðauka við EES-samninginn og hefur í för með sér, að heimilt verður að flytja inn til landsins ferskt kjöt. Hljóðið í bændum sem sóttu fundinn var í þyngra lagi vegna þessa og umræður miklar. Samþykkti fundurinn ályktun vegna málsins en víða var komið við að auki. Þá var kjörin stjórn sambandsins, sú sama og setið hefur. Tveir stjórnarmanna, Sigurgeir Hreinsson formaður og Svana Halldórsdóttir, hugð- ust ganga úr stjórn nú, en leik- ar fóru þó þannig að bæði sitja áfram. „Það stóð nú til að hætta, við áttum bæði að hætta í stjórninni núna, en það fór ekki á þann veg,“ segir Sigurgeir. Hann hefur lengi setið í stjórn sambandsins, kom fyrst inn fyrir ríflega 20 árum og hefur setið sem fastast þar með einhverjum hléum síðan. Hann hefur gegnt formennsku hjá sam- bandinu síðustu ár. „Ég hætti um tíma, stóð í fjósbyggingu og ýmsu öðru sem tók tíma og þá vildi ég auðvitað líka gefa öðrum kost á að gegna formennskunni,“ segir hann. Farið var að ýta á hann að koma inn aftur, „og ég freistaðist, enda er þetta að mörgu leyti alveg ágætt starf til að sinna,“ segir Sigurgeir. Móðgun við okkur hvernig málið er lagt upp Hvað aðalfundinn varðar segir Sigurgeir, að hæst hafi borið um- ræður um frumvarp vegna mat- vælalöggjafarinnar. „Það má segja að það hafi verið helsta mál þings- ins og vissulega er þungt hljóð í mönnum vegna þess, við höfum miklar áhyggjur af því hvert þetta muni leiða og þá þykir okkur málið lagt upp á furðulegan hátt,“ segir Sigurgeir. Hann nefnir að á aðal- fundi Landsambands kúabænda, sem haldinn var á fyrstu dögum aprílmánaðar, hafi landbúnaðar- ráðherra ávarpað fundarmenn og ekki minnst einu orði á málið. Annað hafi verið uppi á teningnum daginn eftir fund LK, en á fundi í Valhöll hafi hann rætt um fyr- irhugaðar breytingar. „Okkur þykir þetta móðgun við okkur,“ segir Sigurgeir og bætir við, að hann hafi verið nokkra daga að ná þessu, slíkt hafi áfallið verið. Hann átelur einnig þann asa, sem virðist á því að málið fái framgang og nefnir að Bændasamtökin hafi fengið mjög skamman tíma til að skila áliti sínu á frumvarpinu. Ekki verði annað séð en að fyrir ráðamönnum vaki að koma málinu hratt áfram, helst svo hratt að engum gefist tóm til að gaumgæfa það frá öllum hliðum og hugsanlegar afleiðingar þess, að óheftur innflutningur á hráu kjöti verði leyfður. Á fundinum í Hlíðarbæ var þess krafist að unnið verði áhættu- mat, sem byggi á vísindalegum grunni, um þá hættu sem kann að vera á að smitefni búfjársjúkdóma geti borist til landsins með fersku kjöti. „Jafnframt verða lög að vera nægilega skýr og aðgengileg almenningi, samanber umfjöll- un umboðsmanns Alþingis um almennar kröfur til lagasetningar. Sú staðreynd að útfærsla á fram- kvæmd lagana liggi ekki fyrir styrkir þá kröfu að málið er ekki hægt að afgreiða frá Alþingi,“ segir í ályktun fundarins. Heitar umræður á aðalfundi BSE um frumvarp um breytingar á matvælalöggjöf Virðist vaka fyrir ráðamönnum að koma málinu hratt í gegn Arnrún Magnúsdóttir frá Syðsta- Samtúni tók á móti hvatningarverð- launum fyrir hönd veitingastaðar- ins Friðriks V, en hann er í farar- broddi hreyfingarinnar „Matur úr héraði“. Helgi Steinsson og Ragnheiður Þor- steinsdóttir á Syðri-Bægisá hlutu viðurkenningu fyrir nautgriparækt. Á myndinni má sjá Helga hampa verðlaununum, en viðurkenning fyrir sauðfjárrækt var einnig veitt búi í Hörgárbyggð og féll hún þeim Guðmundi Skúlasyni og Sigrúnu Franzdóttur í skaut.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.