Bændablaðið - 26.05.2011, Qupperneq 16

Bændablaðið - 26.05.2011, Qupperneq 16
16 Bændablaðið | fimmtudagur 26. maí 2011 Fyrir nokkru er lokið uppgjöri á skýrslum fjárræktarfélaganna árið 2010. Flestar niðurstöður eru ný met í samanburði við það sem áður er þekkt úr sex áratuga starfsemi fjárræktarfélaganna. 1.635 aðilar voru með í uppgjörinu að þessu sinni. Það er talsverð aukning frá því sem verið hefur. Bú sem hætta fjárbúskap hafa verið fá á allra síðustu árum. Nánast engin aukning er lengur möguleg frá búum á lögbýlum, en talsverður hópur tómstundabænda vítt og breitt um land hefur komið til þátttöku í þessu starfi á allra síðustu árum. Margt af þeim sinnir sauð- fjárbúskap af sérstakri kostgæfni og þó að hjörðin sé ekki alltaf stór á hún jafn mikið erindi til þátttöku í sameiginlegu ræktunarstarfi sem skýrsluhaldið er grunnurinn að. Skýrslufærðar voru 329.552 full- orðnar ær og 74.279 veturgamlar eða samtals 403.831 ær. Þetta er meiri fjöldi en hefur verið nokkru sinni áður. Mikil árgæska Árgæska til fjárbúskapar árið 2010 var mikil og endurspeglaðist það í meiri afurðum eftir hvern grip í fram- leiðslunni en dæmi eru um áður. Eini þátturinn þar sem engar breytingar er að merkja er í frjósemi fullorðnu ánna. Meðaltalstölurnar þar eru nákvæmlega þær sömu og árið áður eða 1,80 lömb fædd að meðaltali eftir fullorðna á og 1,65 komu að jafnaði til nytja eftir hverja þeirra. Breytingar eru þannig að heldur færri lömb eru að jafnaði eftir hverja á haustið 2010 en árið áður í Dalasýslu á Vestfjörðum, Húnavatnssýslum, Eyjafirði og Múlasýslum en í öðrum héruðum er sami lambafjöldi eða aðeins fleiri til nytja. Eins og ætíð birtist margfaldur breytileiki ef farið er að skoða niðurstöður eftir sveitum og síðan enn meiri á milli einstakra búa. Það eru sömu sveitir sem alltaf vekja athygli fyrir einstakan árangur. Kirkjubólshreppur á toppnum í frjósemi Af sveitum þar sem mikill fjárfjöldi er skráður er Kirkjubólshreppurinn eins og oft áður á toppi með 1,91 lamb fætt og 1,80 til nytja að jafnaði. Í félaginu á Vatnsnesi eru tölurnar 1,91 og 1,78 og í Öræfum 1,88 og 1,79. Varla kemur á óvart að það er í þessum sömu félögum sem yfirburðirnir eru mestir í frjósemi veturgömlu ánna. Ástæða er einnig til að nefna miklu betri lambahöld en almennt í stærstu fjársveitunum eins og Öxarfirði og Jökuldal. Athygli vekur að það gerist í fyrsta skipti að hlutfall af ám sem eru marglembdar (eiga þrjú eða fleiri lömb) lækkar örlítið, þetta voru rúmlega 18.500 ær eða 5,62% og var lækkun sem nam 0,2 prósentustigum frá árinu áður. Eins og áður hefur verið bent á er það svo á of mörgum búum að of margar ær eru geldar og eru rúmlega 3,3% allra fullorðnu ánna skráðar algeldar vorið 2010. Ljóst er að þessi tala er talsvert hærri í raun vegna þess að á mörgum búum er geldu ánum sem greinast við talningu fósturvísa slátrað síðla vetrar. Á búum þar sem hlutfall geldra áa er umfram 4-5% ár eftir ár er veruleg ástæða til að huga að mögulegum ástæðum og leita úrbóta. Vænleiki með besta móti Vænleiki dilka haustið 2010 var með allra mesta móti um allt land. Þegar borinn er saman meðalfall- þungi þeirra tæplega hálfu milljónar sláturlamba sem hafa skráð kjötmat í skýrslunum haustið 2010 er það 16,00 kg samanborið við 15,91 kg árið 2009. Í Austur-Skaftafellssýslu eru lömbin rúmlega 0,3 kg léttari haustið 2010 en árið áður, annars yfirleitt litlar breytingar milli ára en samt víðast smávægileg aukning meðal- fallþunga og mest á Vestfjörðum. Aukning kjötframleiðslunnar eftir ærnar er að vonum alveg í samræmi við breytingu fallþungans á milli ára. Eftir tvílembuna reiknast að jafnaði 32,3 kg af dilkakjöti hjá einlembunni 17,8 kg, eftir ána sem skilaði lambi af fjalli 28,8 kg og eftir hverja á sem lif- andi var við byrjun sauðburðar feng- ust 26,9 kg, sem er 0,2 kg meira en haustið 2009 og mestu afurðir nokkru sinni í fjárræktarfélögunum. Jafnar afurðir Það sem tryggði hina glæsilegu niðurstöðu haustið 2010 var öðru fremur hve afurðir voru jafnar um allt land, ekki einstök héruð þar sem varð nokkurt hrap eins og hefur verið flest ár. Samt er verulegur munur eftir svæðum og í þeim sýslum þar sem eru fleiri en tíu þúsund ær skýrslufærðar er sýndur samanburður á afurðum síðustu tvö haust. Eins og oftast áður eru afurðirnar langtum mestar í Strandasýslu, 29,5 kg eftir ána og hafa aukist umtalsvert frá fyrra ári. Síðan fylgja Vestur-Húnavatnssýsla, Eyjafjörður og Suður-Þingeyjarsýsla næst á eftir með afurðir. Aðeins í Dalasýslu, Vestur-Húnavatnssýslu og á Austurlandi eru örlítið minni afurðir eftir hverja á haustið 2010 en árið áður, í öllum öðrum héruðum eru afurðir meiri. Enn meiri afurðamunur kemur í ljós þegar hann er skoðaður í minni einingum. Fjárræktarfélög sem vekja athygli fyrir miklar afurðir og eru með fjölda áa skýrslufærðan eru Sf. Kaldrananeshrepps með 32,6 kg, Sf. Hólmavíkurhrepps með 32,2 kg, Sf. Kirkjubólshrepps með 32,1 kg, Sf. Vatnsnesinga 31,2 kg og Sf. Biskupstungna 31,4 kg. Mestar afurðir á Sauðadalsá Með hverju ári fjölgar búum með frábærar afurðir og er þau að finna um allt land. Yfirlit um þau er aðgengilegt á netinu. Mestar afurðir á búum með fleiri en 100 ær árið 2010 voru hjá Þormóði og Borghildi á Sauðadalsá 38,6 kg, hjá Eiríki Jónssyni í Gýgjarhólskoti 38,5 kg og Indriði og Lóa á Skjaldfönn sem voru með 37,3 kg framleiðslu eftir hverja á. Eins og áður eru það í aðalatriðum sömu búin sem skipa efstu sætin ár eftir ár skipta aðeins smávegis um innbyrðis röð. Veturgömlu ærnar Munur í afurðum hjá veturgömlu ánum er hlutfallslega miklu meiri en hjá fullorðnu ánum. Þannig er munur á afurðum eftir fullorðnu ærnar í þeim sýslum þar sem hann er minnstur og mestur um 20%, en hjá veturgömlu ánum er þessi munur hlutfalllega fast að 80%. Við þær framleiðsluaðstæður sem nú eru í sauðfjárræktinni, þegar markaðurinn virðist geta tekið við talsvert aukinni framleiðslu, er því augljóst að ein- hver nærtækasta leið til aukinnar framleiðslu án nýrra fjárfestinga í byggingum eða bústofni er í meiri afurðum mjög víða eftir veturgömlu ærnar. Fyrst er þar að benda á að um 13% veturgömlu ánna eru af ásetn- ingi hafðar lamblausar. Þar til við- bótar eru nær 15% geldar. Í því er að vísu einhver hluti vegna hins óskýrða fósturdauða hjá veturgömlum ám hér á landi en samt vonandi enn fleiri geldar af öðrum ástæðum. 0,86 lömb eftir hvern vetrarfóðraðan gemling Árið 2010 fæddust að jafnaði 0,86 lömb eftir hvern vetrarfóðraðan gemling og 0,67 lömb fengust til nytja eftir hvern þeirra. Þetta er 0,01 lambi fleira fædd, en sama lamba- fjölda minna til nytja að jafnaði en haustið 2009. Þessi færri lömb til nytja leiða til að dilkakjötsfram- leiðslan hjá gemlingunum verður 0,1 kg minni haustið 2010 en 2009, hvort sem metið er á grunni afurða eftir veturgamla á sem skilaði lambi eða hverja veturgamla á. Vakin hefur verið athygli á þeim mikla afurða- mun sem er á milli héraða hjá vetur- gömlu ánum, Í einstökum félögum með margar ær skýrslufærðar vekja niðurstöðurnar úr Kirkjubólshreppi eins og svo oft áður athygli en þar er hver veturgömul ær að skila að meðaltali 0,95 lömbum til nytja og framleiðslan hjá hverri þeirra er 16,6 kg af dilkakjöti að meðaltali. Nefnd skulu örfá bú með stóra hópa af veturgömlum ám með ótrú- lega mikla framleiðslu. Hjá Eiríki í Gýgjarhólskoti fengust 25,0 kg að jafnaði eftir hverja veturgamla á, Indriði og Lóa á Skjaldfönn og Haukur á Deplum eru með 21,4 kg framleiðslu að jafnaði, Ellert á Sauðá 20,5 og á félagsbúinu í Lundi á Völlum fengust að jafnaði 20,0 kg af dilkakjöti eftir talsvert á annað hundrað veturgamalla áa. Gæðamat Að lokum skal farið nokkrum orðum um niðurstöður úr kjötmatinu. Það eru nær hálf milljón lamba sem hafa þessar upplýsingar í skýrslu- haldinu frá haustinu 2010. Eins og fram hefur komið var meðal- fallþungi þessara lamba nákvæm- lega 16 kg. Meðaltalið í mati fyrir gerð var 8,72 samanborið við 8,55 haustið 2009 og fitumatið var 6,54 samanborið við 6,61 árið áður. Enn heldur því áfram sú ákveðna þróun sem verið hefur í meira en áratug til sífellt aukinna kjötgæða lambanna frá ári til árs. Stundum er þetta sett fram sem hlutfall í mati fyrir gerð á móti fitu og var það 1,33 haustið 2010. Byggt á þeim mælikvarða var matið í einstökum héruðum best í Þingeyjarsýslunum, þar sem hlutfall- ið er 1,42 í Norðursýslunni og 1,41 í Suðursýslunni. Fyrir gerð er besta matið í Norður-Þingeyjarsýslu 9,67 að jafnaði og 9,22 í Strandasýslu. Í einstökum félögum þar sem mat byggir á upplýsingum fyrir meira en þúsund lömb er matið best í Sf. Reykjahrepps þar sem það er 10,45 að meðaltali, í Sf. Öxfirðinga 10,21 og Sf. Kirkjubólshrepps 9,96. Samanburður í fitumatinu hefur reynst örðugri vegna hins sterka sambands fallþunga og fitumatsins. Þegar gerð var grein fyrir niður- stöðum á síðasta ári var lagt til að bera þetta saman á grunni hlutfalls á milli fallþungans og fitumatsins. Slíkur samanburður er að sjálfsögðu hagstæðari nú en áður eða 2,45 og ef honum er beitt til að bera saman matið eftir sýslum eru lömbin í Vestur-Húnavatnssýslu og Norður- Múlasýslu fituminnst en í báðum sýslunum er þetta hlutfall 2,55. Forvitnilegt er að skoða fitumatið á þennan hátt fyrir einstök bú. Þegar það er skoðað þannig fyrir búin sem eru á lista yfir 8 fyrir gerð og yfir 100 sláturlömb þá kemur búið á Brekku í Fljótsdal á toppinn með 3,05, næst kemur Austurhlíð í Biskupstungum með 2,91 og Þóroddsstaðir í Hrútafirði með 2,89. Minnkun fitu vegna breytinga á fjárstofni Við fyrstu skoðun virðist þessi mælikvarði á fituleysi lambanna vera mjög lítið bundinn fallþung- anum eða matinu, hvort sem er fyrir gerð eða fitu. Það vakti athygli mína hve stór hluti þeirra búa sem sæðingastöðvarnar hafa verið að sækja til hrúta á allra síðustu árum skipa sér mjög ofarlega í slíkum samanburði. Það er mjög sterk vís- bending um að sú mikla minnkun á fitu í íslenska dilkakjötinu sem orðið hefur á allra síðustu árum sé að langsamlega stærstum hluta komin til vegna breytinga á fjárstofninum. Þær breytingar hafa fyrst og fremst orðið vegna skipulegs úrvals á sæð- ingastöðvahrútunum fyrir þennan eiginleika um langt árabil, eins og áður hefur verið sýnt fram á. Jón Viðar Jónmundsson landsráðunautur í sauðfjárrækt Bændasamtökum Íslands jvj@bondi.is SauðfjárskýrsluhaldNokkrar helstu niðurstöðutölur sauðfjárskýrsluhaldsins árið 2010: Árgæska til fjárbúskapar var mikil - Vænleiki dilka haustið 2010 var með allra mesta móti um allt land

x

Bændablaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.