Bændablaðið - 26.05.2011, Page 31
32 Bændablaðið | fimmtudagur 26. maí 2011
Utan úr heimi
Hvað eiga Willie Nelson, Neil
Young, John Mellencamp og Dave
Matthews sameiginlegt, fyrir utan
þá augljósu staðreynd að þeir eru
allir heimsþekktir tónlistarmenn?
Jú, þeir eru allir áhugamenn um
viðgang fjölskyldubúskapar í
Bandaríkjunum og sitja í stjórn
félagsskapar sem nefnist Farm
Aid.
Upphaf Farm Aid má rekja til
samnefndra tónleika sem haldnir
voru 22. september 1985 í Illinois
í Bandaríkjunum. Markmiðið með
tónleikahaldinu var að vekja athygli
á þeirri staðreynd að fjölskyldubúum
í bandarískum landbúnaði hefði farið
ört fækkandi og einnig að safna fé til
að styðja við og styrkja bandarískar
bændafjölskyldur til að halda áfram
búskap á jörðum sínum. Tónleikarnir
voru skipulagðir af Young, Nelson
og Mellencamp og hefur því verið
haldið fram að athugasemd sem
Bob Dylan lét falla á Live Aid tón-
leikunum í júlí sama ár hafi verið
kveikjan að tónleikahaldinu. Dylan
sagði þá eitthvað í þá átt að hann
vonaðist til að eitthvað af þeim pen-
ingum sem söfnuðust á Live Aid,
sem haldnir voru til að safna fram-
lögum til að bregðast við hungurs-
neyðinni í Eþíópíu, yrðu nýttir til að
borga niður lán bandarískra bænda.
Dylan var reyndar harðlega gagn-
rýndur fyrir taktleysi og vanskilning
á markmiðum Live Aid tónleikanna
vegna þessara ummæla sinna.
80.000 manna áheyrendaskari
Allt um það. Farm Aid voru hins
vegar haldnir í september 1985 og
voru tónlistarmennirnir sem tróðu
upp ekki af verri endanum. Auk
þeirra Young, Nelson og Mellencamp
komu fram heimsþekktir lista-
menn á borð við áðurnefndan Bob
Dylan, Joni Mitchell, Johnny Cash,
Emmylou Harris, The Beach Boys,
Roy Orbison og Jon Bon Jovi auk
fjölda annarra. Um 80.000 manns
sóttu tónleikana og söfnuðust 9 millj-
ónir dollara til styrktar fjölskyldubú-
skap í Bandaríkjunum.
Á þeim 25 árum sem liðin eru
frá fyrstu Farm Aid tónleikunum
hafa viðlíka tónleikar verið haldnir
23 sinnum, en árin 1988 og 1991
féllu tónleikarnir niður af ýmsum
ástæðum. Fjöldi listamanna hefur
lagt málstaðnum lið á þessum árum
en meðal þeirra þekktustu má nefna
Guns N‘ Roses, Elthon John, Sheryl
Crow, Lou Reed og Noruh Jones.
Búið er að tilkynna að næstu Farm
Aid tónleikar fari fram í Kansasborg
13. ágúst næstkomandi og munu
stjórnarmennirnir fjórir koma fram
þar en enn á eftir að kynna aðra
listamenn sem taka munu þátt.
Farm Aid hefur áhrif
Fyrstu Farm Aid tónleikarnir vöktu
talsverða athygli og ollu umræðum
um stöðu fjölskyldubúskapar í
Bandaríkjunum. Meðal annars beittu
Nelson og Mellencamp áhrifum
sínum og fengu áheyrn fyrir bændur
fyrir þinginu þar sem þeir vitnuðu
um stöðu fjölskyldubúskapar í
Bandaríkjunum. Síðar, eða árið
1987, lögleiddi þingið svokallað
Agricultural Credit Act, lög sem eiga
að hjálpa til við að forða fjölskyl-
dubúum frá nauðungaruppboðum
vegna vanefnda á skuldum.
Mikilvægi fjölskyldubúskapar
Farm Aid þróaðist svo og varð að
félagasamtökum sem vinna að því
að vekja athygli á mikilvægi fjöl-
skyldubúskapar í Bandaríkjunum. Á
25 árum hafa samtökin safnað ríflega
39 milljónum dollara, sem nýttar hafa
verið til að stuðla að sterkum og öfl-
ugum rekstri fjölskyldubúskapar í
bandarískum landbúnaði. Það hefur
meðal annars verið gert með því
að vekja athygli á matvælum fram-
leiddum á fjölskyldubúum, bæði með
auglýsingaherferðum og á Farm Aid
tónleikunum sjálfum. Til að fjöl-
skyldubúskapur geti áfram þrifist þarf
að vinna nýja markaði fyrir afurðir og
það hafa Farm Aid samtökin reynt að
gera með því að styrkja markaðsstarf
og vinna að því að koma afurðum
þeirra í sölu í héraði, hvort sem er í
kjörbúðum, á veitingastöðum eða hjá
opinberum stofnunum. Þá hafa sam-
tökin einnig haldið úti neyðarsíma til
að bregðast við óvæntum áföllum hjá
bændum með stuðningi við þá, bæði
lögfræðilegum og með öðrum hætti.
Samtökin reka jafnframt styrktarsjóð
sem úthlutað er úr árlega.
Enginn er eyland
Farm Aid er afar virðingarvert fram-
tak eins og sjá má af umfjölluninni
hér að ofan. Ekki einasta styðja sam-
tökin við bandaríska bændur heldur
hafa þau í 25 ár boðið upp á frábæra
tónlist á árlegum risatónleikum. Því er
Farm Aid til umræðu hér, að síðustu
misseri hefur fjölskyldubúskapur
verið talsvert í deiglunni á Íslandi.
Er þar skemmst að minnast skýrslu
starfshóps landbúnaðarráðherra um
eflingu svínaræktar frá því í febrúar
2010 þar sem segir:
„Það er umhugsunarvert hvort
ekki eigi með einhverjum hætti að
stuðla að fjölgun smærri svínabúa
og gera þannig svínarækt á Íslandi
líkari öðrum greinum landbúnaðar þar
sem fjölskyldurekstur er algengastur.“
Svipaðar hugmyndir eru reifaðar í
skýrslu um eflingu alifuglaræktunar
frá því í apríl síðastliðnum. Þá byggja
drög að nýjum jarðalögum að sumu
leyti á því að grunngildi í íslenskum
landbúnaði verði fjölskyldurekstur.
Að lokum má nefna að í umræðu
síðustu missera um dýravelferð
hefur ítrekað verið bent á að verk-
smiðjubúskapur svokallaður sé ekki
falleg framtíðarsýn.
Geirmundur og Guðni?
Hver veit því? Kannski mun íslensk-
ur landbúnaðarráðherra í framtíðinni
ávarpa tónleikagesti á tónleikum til
stuðnings íslenskum fjölskyldubú-
rekstri. Hverjir myndu spila á slíkum
tónleikum er ómögulegt að spá fyrir
um en blaðamaður telur þó ljóst að
enginn væri betur til þess fallinn
að loka slíkum tónleikum annar en
Geirmundur Valtýsson, í syngjandi
sveiflu. Kannski Guðni Ágústsson
kynni? /fr.
Tónlist notuð til að vekja athygli á fjölskyldubúskap:
Farm Aid í 25 ár
Heimsfrægir listamenn leggja bændum lið
25 ára afmælistónleikar Farm Aid í Miller Park í Milwaukee, Wisconsin í Bandaríkjunum í október 2010.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra er ekki að syngja á Farm Aid tónleikum á þessari mynd, heldur
að halda ræðu á Búnaðarþingi 2011, - tónleikarnir koma kannski seinna. Hann virðist þó í nýju jarðalagafrumvarpi
að sumu leyti vera að feta inn á slóð þeirrar hugmyndafræði sem varð kveikjan að Farm Aid tónleikunum í Banda-
ríkjunum árið 1985. Mynd / HKr.
Willie Nelson í hörku stuði á Farm Aid tónleikum 1985. Neil Young mætti í sparibuxunum á tónleikana1985.
Sheryl Crow lagði sín lóð á vogar-
skálarnar til styrktar fjölskyldubú-
skap á Farm Aid tónleikum 2003