Fréttatíminn - 10.06.2011, Side 32
4 fótbolti Helgin 10.-12. júní 2011
H
ann er hávaxinn, yfirvegaður, naut-
sterkur, fljótur og með góða bolta-
tækni. Það er ekki nema von að talað
sé um Jón Guðna Fjóluson sem einn
efnilegasta varnarmann á Íslandi í
dag og lykilmann í íslenska U-21 árs landsliðinu.
Drengurinn er nýbúinn að skrifa undir þriggja
ára samning við belgíska liðið Beerschot og allt
bendir til þess að hann hafi spilað sinn síðasta leik
fyrir Fram. Og það er það sem hann hefur stefnt að
lengi – að fara í atvinnumennsku.
„Ég byrjaði að sparka bolta um leið og ég byrj-
aði að ganga,“ segir Jón Guðni sem er fæddur á
Ísafirði, bjó fyrstu ár sín í Bolungarvík en flutti
síðan til Þorlákshafnar. Ég er nú ekki mikið fyrir
að hrósa sjálfum mér en ég var sennilega bestur
í mínum flokki í Ægi í Þorlákshöfn. Það var bara
sjö manna fótbolti þar þannig að ég spilaði á yngra
árinu í þriðja flokki með Hrunamönnum á Flúðum.
Ég var keyrður á æfingar – klukkutíma fram og til
baka. Eftir það ár fór ég í Fram og var keyrður á
hverja æfingu þar til ég fékk bílpróf. Þá keyrði ég
sjálfur þar til ég fékk ógeð og ákvað að flytja bara
í bæinn. Foreldrar mínir hafa alltaf stutt dyggilega
við bakið á mér, sem og reyndar öll fjölskyldan, og
það hefur komið sé vel á erfiðum tímum,“ segir Jón
Guðni sem kennir sig við móður sína, Fjólu. „Hún
stendur mér næst – svo einfalt er það,“ segir Jón
Guðni þegar hann er spurður út í ástæðu þess.
Frá í ár vegna vaxtarkipps
Og hann hefur fengið að kynnast erfiðleikum.
Hann spilaði ekkert á yngsta árinu í öðrum flokki
árið 2006 vegna meiðsla. „Ég var alltaf frekar
lítill en stækkaði um örugglega hálfan metra á
þessu eina ári,“ segir Jón Guðni og hlær. Allt fór
í klessu – bæði bakið og hnén – vegna álagsins
sem vöxturinn olli og hann missti eitt ár úr. „Ég
var svo heppinn að hafa Ólaf Þór Guðbjörnsson
sem þjálfara sem var líka sjúkraþjálfari og hann
skildi alveg hvað var að og leyfði mér að hvíla. Það
var auðvitað hundleiðinlegt að vera ekki með en
ég efaðist aldrei um að ég myndi ná mér að fullu,“
segir Jón Guðni.
Leiðin hefur svo legið upp á við hjá Jóni Guðna
og segja má að hann hafi ekki litið um öxl síðan.
„Ég kom góður til baka og það var síðan á elsta
árinu í öðrum flokki sem ég fann að ég hafði alla
burði til að komast langt. Þegar ég fór að spila
reglulega með meistaraflokki gerðust hlutirnir
hratt. Umboðsmenn fóru að hringja og lið höfðu
áhuga. Ég hef hins vegar ekki hugsað mikið um
þetta. Ég er frekar rólegur að eðlisfari og hef
aldrei talið mig yfir aðra hafinn. Það breyttist ekk-
ert þótt einhver lið væru að sýna mér áhuga,“ segir
Jón Guðni.
Hann er ekki í vafa um hver það er sem hefur
mótað hann mest sem knattspyrnumann. „Það
er Þorvaldur Örlygsson. Hann hefur hjálpað mér
mest og ég hef bætt mig mikið undir hans stjórn.
Hann er frábær þjálfari og allt annar karakter en
halda mætti af viðtölum sem hann fer í. Hann er
mjög hress náungi.“
Skuggi yfir gleðistund
Jón Guðni og unnusta hans, Ólöf Þóra Jóhannes-
dóttir, eignuðust sitt fyrsta barn 5. apríl síðastliðinn
– stúlku sem fékk nafnið Ragnhildur Fjóla. Það bar
þó skugga á gleðistundina því fljótlega eftir fæðingu
kom í ljós að hún er með sjaldgæfan sjúkdóm. „Hún
fæddist og öll sú hamingja sem fylgir því helltist
yfir okkur. Maður reiknar alltaf með að allt sé eðli-
legt hjá manni sjálfum – að ekkert komi fyrir. Hún
greindist með Charge-heilkenni sem leggst misjafn-
lega á börn. Það eru engin tvö börn eins. Það fyrsta
sem við fengum að vita var að það vantaði tengingu
í vinstri þumalfingurinn. Eins og staðan er núna
eru sett spurningarmerki við augun og eyrun hjá
henni. Það verður að koma í ljós hveru mikið hún
kemur til með að sjá og heyra. Henni hefur þó geng-
ið vel og þroskast betur en hægt var að vona.“
Jón Guðni segir það hafa verið mikið áfall að fá
fréttirnir af dóttur sinni. „Auðvitað var það gríðar-
legt sjokk og erfitt að sætta sig við það. Það tók
nokkra daga að jafna sig á þessu en síðan fundum
við út að það þýðir ekkert að svekkja sig. Þetta er
sami leikurinn. Við vorum að eignast barn og það
er alveg yndislegt. Ég hef þroskast og styrkst sem
persóna við þessa lífsreynslu,“ segir Jón Guðni.
Jón Guðni er fyrsti maðurinn til að viðurkenna
að hann hafi, líkt og nánast allt Fram-liðið, spilað
langt undir getu það sem af er þessu tímabili. „Ég
hef fundið fyrir pressunni, bæði vegna sífellds tals
um atvinnumennsku og síðan Evrópumótið. Það er
ætlast til meira af mér en ég hef sýnt í sumar og ég
get alveg viðurkennt að ég hef ekki náð að sýna mitt
rétta andlit,“ segir Jón Guðni.
Hann dvelur þó ekkert við fortíðina því fram
undan eru tvö stórverkefni; fyrst Evrópumótið í
Danmörku og síðan byrjun á atvinnumannsferli í
Belgíu. Hann vonast til að bæta sig sem leikmaður
í Belgíu og segir sig helst skorta meiri talanda og
baráttu. „Ég er að vinna í því sérstaklega en auðvit-
að er alltaf hægt að bæta sig í öllu sem fótboltamað-
ur – það er endalaust hægt að bæta sig. Það er samt
skondið að ég var alltaf að fá rauð spjöld í yngri
flokkunum. Ég var snarvitlaus krakki sem reif kjaft
við alla þegar ekki gekk vel,“ segir Jón Guðni sem
ætlar að koma sér hratt og vel inn í hlutina í Belgíu.
„Ég lít á Belgíu sem stökkpall í stærri deild. Ég ætla
mér lengra en það,“ segir hann.
Og markmiðið á Evrópumótinu er klárt: „Það er
skýrt markmið hjá okkur að komast upp úr riðl-
inum og gæla við sæti á Ólympíuleikunum. Fyrsti
leikurinn er mjög mikilvægur. Við þurfum að byrja
vel og stefnum að sigri í honum. Það er frábær
andi í hópnum, liðið er gott og menn eru klárir í
slaginn.“
Óskar Hrafn Þorvaldsson
oskar@frettatiminn.is
Fótbolti EM U-21 árs landsliða
Lítur á Belgíu
sem stökkpall
í stærri deild
Jón Guðni Fjóluson er nýjasti atvinnumaður Íslands í fótbolta. Guttinn
frá Bolungarvík heldur á vit ævintýranna í Belgíu þar sem hann mun
leika næstu þrjú árin með Beerschot í höfuðborg demantanna, Antwer-
pen. Óskar Hrafn Þorvaldsson ræddi við hann um uppvöxtinn, fótbolta-
ferilinn, föðurhlutverkið og EM sem hefst á morgun, laugardag.
Þetta er sami leikurinn. Við vorum að
eignast barn og það er alveg yndislegt.
Ég er frekar
rólegur að
eðlisfari og
hef aldrei
talið mig
yfir aðra
hafinn. Það
breyttist
ekkert þótt
einhver lið
væru að
sýna mér
áhuga
Nafn: Jón Guðni Fjóluson
Fæddur: 10. apríl 1989
Hæð: 1,93 m
Þyngd: 82 kg
Leikir/mörk í efstu deild: 56/11
A-landsleikir/mörk: 4/0
Jón Guðni Fjóluson sést hér í leik með íslenska A-landsliðinu gegn Andorra í fyrra. Ljósmynd Eggert Jóhannsson
Jón Guðni handsalar
samninginn við Chris Van
Puyveldes, yfirmann íþrotta-
mála hjá Beerschoot.