Bændablaðið - 04.07.2013, Side 38

Bændablaðið - 04.07.2013, Side 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 4. júlí 2013 Hrútavinafélagið Örvar heldur 100 ára afmælishátíð á Eyrarbakka á laugardaginn til heiðurs stofnandanum: Selur inn á afmæli forsetans til styrktar menningunni Það verður vegleg veisla laugardagskvöldið 6. júlí í Félagsheimilinu Stað á Eyrar- bakka sem menningaráð Hrútavinafélagsins Örvars stendur fyrir. Kalla Hrútavinir þetta 100 ára afmæli en sú tala er fengin með smá reikningskúnstum sem hvaða útrásarvíkingur sem er gæti verið fullsæmdur af. Tilefnið er að menningarvitinn og forseti félagsins, Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka, fyllir 60 lífárin hinn 7. júlí næstkomandi. Að auki hefur hann verið í félagsmálaforystu í 40 ár. Samtals gera þetta 100 ár. Selt inn á afmælið! Hrútavinir hafa margoft verið í fréttum á síðum Bændablaðsins fyrir margvísleg uppátæki. Nú skal halda veislu í Félagsheimilinu Stað á Eyrarbakka með mjög þjóðlegum hætti. Þar verður þessum tveim áföngum fagnað í tali og tónum. Skemmtunin byrjar klukkan átta. Á borðum verður rammíslensk kjötsúpa með öllu tilheyrandi að hætti Hrútavina, ásamt límonaði og lageröli. Fram koma m.a. hljómsveitirnar Æfing og Siggi Björns frá Flateyri, Granít frá Vík í Mýrdal og Kiriyama Family frá Eyrarbakka, Stokkseyri og Selfossi. Á eftir verða svo tónleikar með hljómsveitinni Granít sem á fagmáli kallast flöskuball sem standa mun fram á nótt. Þangað verður hver og einn að koma með sína vökvun eins og félagarnir orða það og síðast en ekki síst verða vinir sigtaðir frá viðhlæjendum með því að hafa 2.500 króna aðgangseyri. Rennur hann af einstakri góðmennsku óskiptur til styrktar þessum menningarviðburði. Veislustjórar verða Guðmundur Jón Sigurðsson og Hendrik Tausen, sem átt hafa margþætta félagsmálasamleið með afmælisbarninu í þessi 40 félagsmálaár. Toppurinn á ferlinum Björn Ingi starfaði fyrst að félagsmálum á Flateyri á sinni gömlu heimaslóð til 1984, síðan í Hafnarfirði og svo í þorpunum Stokkseyri og Eyrarbakka og víðar á Suðurlandi frá 1999. Toppurinn á félagsmálaferli Björns Inga hlýtur þó að teljast Hrútavinafélagið Örvar á Suðurlandi. Félagið var stofnað 1999 og hefur hann verið forseti þess frá upphafi. Félagsmenn segja Björn eitt helsta félagsmálatröll Suðurlands enda þurfi meira en meðalmann til að veita forystu hinu margundarlega en áhrifamikla Hrútavinafélagi. Hann féllst á það með miklum eftirgangsmunum og semingi að veita Bændablaðinu örstutt viðtal um ferilinn. Byrjaði hjá Gretti „Ég byrjaði félagsmálavafstrið í Íþróttafélaginu Gretti á Flateyri undir öruggri handleiðslu félagsmála- leiðtogans Hendriks Tausen og tók við formennsku af honum 1974. Í framhaldi af því fylgdi ég honum yfir í Verkalýðsfélagið Skjöld, þar sem ég byrjaði í stjórn 1977. Formaður varð ég þar 1981 og gegndi þeirri stöðu til ársins 1985.“ Lengsta samfellda félagsmála- vertíð Björns er forysta hans í Önfirðingafélaginu, sem er félag brottfluttra Önfirðinga. Í 20 ár var hann formaður félagsins, en það voru gerðir alveg hreint ótrúlegir hlutir á þessum árum. „Ég lét af formennsku í Önfirðinga- félaginu á árslok 2012 og vil þakka sérstaklega félögum og samstarfsfólki fyrir þennan skemmtilega tíma.“ Samið um vörslu orlofsfjár „Stærsti atburðurinn á mínum ferli í verkalýðsfélaginu er samningurinn um að orlofsfé launafólks á Flateyri yrði greitt inn á reikninga þess í Sparisjóði Önundarfjarðar og því ávaxtast í heimabyggð í stað þess að geymast vaxtalítið hjá Póstgíróstofunni eins og verið hafði. Þetta var gömul hugmynd frá stjórnarárum Hendriks en hafði ekki komist í framkvæmt. Það var ekki einfalt að landa þessu. Atvinnurekendur á staðnum, sem og sparisjóðurinn, voru undir gríðarlega miklum þrýstingi að sunnan um að gefa sig ekki. Þarna sýndi Einar Oddur Kristjánsson þann kjark sem til þurfti og hann taldi skynsamlegast fyrir fólkið, fyrirtækið og byggðina. Það var þessi kjarkur sem gerði þjóðarsáttarsamningana að veruleika. Hann bugaðist ekki undan pressu valdamikilla aðila. Ægir E. Hafberg sparisjóðsstjóri, sem nú stýrir Landsbankanum í Þorlákshöfn, lét bankakerfið heldur ekki buga sig þrátt fyrir mikla pressu. Það er stærsta og sælasta stund félagsmálalífs míns þegar skrifað var undir þennan samning í stofunni heima hjá Ægi Hafberg sparisjóðsstjóra. Í fyrstu var Hjálmur hf. eina fyrirtækið, enda stærsta og öflugasta fyrirtæki staðarins, en hin komu öll á eftir þannig að þetta baráttumál félagsins fékk farsælan endi.“ Uppalinn á Flateyri Björn Ingi er fæddur á Sjúkraskýinu á Flateyri og uppalinn í þorpinu þar sem lífið snerist öðru fremur um hafið, fjöruna og fjöllin. Hann er kvæntur Jónu Guðrúnu Haraldsdóttur. Börnin þeirra heita Júlía Bjarney fædd 1979, Inga Rún fædd 1980 og Víðir fæddur 1988. Ofdekraður frá fyrsta degi „Það var gott að alast upp á Flateyri, þar var ég ofdekraður strax frá fyrsta degi, sérstaklega af konum. Evrópskar rannsóknir hafa sýnt að eitt það versta sem karlar lenda í er að vera ofdekraðir af konum. En ég mótmæli því harðlega. Móðir mín var komin yfir fertugt þegar ég fæddist og leit á mig sem einstakan gullmola og happafeng og ég var meðhöndlaður eftir því. Hulda systir var komin yfir tvítugt þegar ég kom í heiminn og auðvitað var ég dekraður af henni líka. Í næsta húsi bjó Lilja Guðmundsdóttir, sem ævinlega var kölluð Lilja skó eftir iðn föður síns. Hún var mér sem önnur móðir og dekraði mig ekki minna en hinar tvær. Og þetta er bara fyrsti kaflinn í ofdekri kvenna. Næsti kafli kvenlegs ofdekurs tók við þegar við Jóna Guðrún byrjuðum að vera saman. Þá bættust hún og tengdamamma við með enn meira dekur. Gróa Björns er enginn venjulegur dekrari, þar er sko hreint ofdekur. Og nú síðast eru dæturnar farnar að dekra við mig þannig að það er ekki gott að segja hvar þetta endar en ég kann þessu vel og nýt fram í fingurgóma beggja handa,“ segir Björn. Kveikt í fjalli Flateyri fyrri ára var heill ævintýraheimur fyrir unga drengi sem margt þurftu að prófa, bátar og bryggjur, fjörurnar og heillandi hafið. Það var gnótt tækifæri fyrir drengi að fá hugmyndaflugi sínu útrás og furðu fátt sem var bannað. „Fjaran og hlíðin voru mitt svæði þegar ég var barn. Við púkarnir dunduðum okkur heilu sumrin við að hlaða kofa úr grjóti og torfi í hlíðinni ofan við Ástarbrautina sem nú er horfin undir varnargarða. Ég var vel búinn í ferðalög mjög snemma því Lilja skó gaf mér reiðhjól strax þegar ég varð sex ára. Eftir það passaði hún vel upp á að ég væri vel settur með farskjóta. Síðasta hjólið gaf hún mér í fermingargjöf, dýrindis BSA-hjól sem var glansandi flott og bar af öðrum hjólum á eyrinni enda bónað og þrifið reglulega. Sinubrunar voru líka heillandi, þá var alsiða að kveikja í sinu um allt. Siggi Björns alheimstrúbador var heimagangur hjá okkur á Ránargötunni og við brölluðum ýmislegt. Við náðum til dæmis áður óþekktum afköstum við að kveikja í sinu. Við bundum gott band í strigapoka með einhverju eldfimu í, svo var kveikt í pokanum og hlaupið um hlíðina, það urðu mjög virðulegir sinubrunar úr þessu hjá okkur. Það bókstaflega brann allt fjallið. En við gættum þess að brenna bara á vorin á meðan það var leyfilegt.“ Fleiri konur Björn Ingi byrjaði ungur að vinna og þrátt fyrir að hugurinn stæði til skipstjórnar þegar hann var lítill lá leiðin fyrst í frystihúsið, þar sem hann steig sín fyrstu atvinnuspor. Þar komst hann enn og aftur í kvenlegt dekur þar sem hann keyrði á borðin sem kallað var. Þá var bökkum með fiski raðað á trillu sem færði fiskinn til kvennanna í salnum sem snyrtu og pökkuðu. „Ég náði góðu sambandi við konurnar, þær voru skemmtilegar og með góðan húmor. Þær fyrirgáfu mér líka með brosi á vör í hvert skipti sem ég keyrði með trillunni á fætur þeirra. Skömmuðust aldrei þó að þetta væri greinilega mjög vont. Sumarið sem ég varð 15 ára fór ég á skak með Leifi Björnssyni og Helga Sigurðssyni á Þorsteini NK 79. Þar tapaði ég fullkomlega öllum áhuga á sjómennsku, var drullusjóveikur og leist ekkert á þetta. Síðan hef ég verið í landi fyrir utan eitt sumar í útgerð með Friðriki Hafberg og Þorsteini Guðbjartssyni og skamman tíma á Gylli eftir að hann kom. Beitningin varð mitt starf, fyrst sumarvinna með skóla og svo fullt starf í nær hálfan annan áratug. Var um tíma við hagræðingarráðgjöf á vegum ASV og ASÍ.“ Fjölskyldan flytur „Sumarið 1984 fluttum við suður þar sem ég fór í Fiskvinnsluskólann. Eftir að skólanum lauk fór ég til starfa hjá Vinnumálasambandi samvinnufélaga og síðan SÍF, Sölusambandi íslenskra fiskframleiðanda. Þar var miðstöð allrar saltfisksölu úr landinu ásamt öflugri tilraunavinnslu til að bæta vinnsluna og auka fjölbreytni.“ Þar kom að Björn stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem hann rak með miklum brag ásamt félaga sínum Einari S. Einarssyni í 20 ár. Hólmaröst ehf. starfaði fyrst í Reykjavík, en fyrirtækið sérhæfði sig í kolavinnslu fyrir Hollandsmarkað ásamt því að vinna hefðbundinn saltfisk. Vörur þeirra félaga fengu góðar móttökur á mörkuðum ytra og reksturinn gekk vel. Við byrjuðum á Grandanum 1988 en fluttum okkur á Stokkseyri 1999, þar var ónotað stórt og mikið frystihús sem við náðum okkur í. Þar var fyrirtækið til ársins 2007, nú er þar orðin menningarverstöð og vinnslan okkar löngu komin á skrá sögunnar. Þegar mest var umleikis hjá okkur vorum við með 120 manns í vinnu þannig að við þurftum töluvert hráefni. Það kom að því að ekki var lengur hægt að treysta á hráefni og því var þetta sjálfhætt. Ég sneri mér að allt öðru og hef verið fangavörður á Litla- Hrauni frá árinu 2007.“ Rokkað á Sólbakka „Uppáhaldið nú síðustu ár hefur verið hin öfluga tónlistartenging sem Sólbakkasetrið stóð fyrir í samstarfi við Önund Pálsson í Tankanum, sem var frumlegasta hljóðver á landinu. Þetta leiddi af sér plötuútgáfu þriggja hljómsveita. Það eru Granít, Kiriyma Family og nú síðast en ekki síst Æfing, sem sló í plötu á 45 ára afmæli bandsins. Það verður hlutverk allra Önfirðinga að koma sem flestum lögum Æfingar á vinsældalista. Lögin eru öll sögur að vestan og kveikja minningar og á stundum jafnvel söknuð. Allar hafa þessar hljómsveitir haldið tónleika og skemmtanir fyrir vestan í tengslum við útgáfuna. Nú síðast Æfing, sem hélt heila hvítasunnugleði nú í vor þar sem fjöldi brottfluttra Önfirðinga kom að upplifa.“ Elliheimilisbjarmi Björn Ingi horfir björtum augum til framtíðarinnar og telur engu að kvíða þó að aldurinn sæki hraðar á en áður, og af fasi hans skín einhvers konar rósrauður elliheimilislöngunarbjarmi. „Tímamótin leggjast vel í mig og ég er þakklátur fyrir það sem lífið hefur gefið mér til þessa og því einskis nema góðs að vænta î framtíðinni. Ég er fullur tilhlökkunar, það verða sem fyrr næg verkefni við að fást.“ /GS Laugar landsins Sundlaug Seltjarnarness Sundlaug Seltjarnarness stendur við Íþróttamiðstöð Seltjarnarness við Suðurströnd. Laugin var tekin í notkun árið 1984 en verulegar endurbætur voru gerðar á henni árið 2006. Segja má að hið eina sem eftir stóð eftir endur bæturnar hafi verið laugarkerin sjálf, en þau voru einnig flísalögð upp á nýtt og löguð. Um 190.000 manns sóttu laugina heim í fyrra, fyrir utan börn undir greiðslualdri. Laugin sjálf er 25 metra hefðbundin laug sem almenningur nýtir til sundiðkunar en einnig fer skólasund fram í lauginni. Við hlið hennar er barnalaug með hærra hitastigi. Þá er vaðlaug með leiktækjum fyrir yngstu kynslóðina sem iðulega er full af börnum að leik. Þrír heitir pottar eru á laugarsvæðinu, þar af einn stór og mikill nuddpottur. Rennibraut er við laugina og við hana er setpottur sem nýtist foreldrum til að fylgjast með ungviðinu við leik. Á útisvæði er jafnframt eimbað og útiklefar. Stórir búningsklefar eru inni og góð aðstaða fyrir fatlaða. Vatnið í lauginni hefur ákveðna sérstöðu en það kemur beint frá borholu hitaveitu Seltjarnarness í nágrenninu. Vatnið er steinefnaríkt og er laugin af þeim sökum vinsæl hjá fólki með viðkvæma húð, þar eð vatnið þykir fara betur með húðina en annað sundlaugarvatn. Sundlaug Seltjarnarness er opin frá 6.30 til 21.00 á virkum dögum en frá 8.00 til 19.30 um helgar yfir sumartímann. Á vetrum er opið frá 8.00 til 18.00 um helgar. Frekari upplýsingar má fá í síma 561-1700 eða með því að senda tölvupóst á netfangið haukur@seltjarnarnes.is. Björn Ingi Bjarnason, forseti Hrútavina félagsins Örvars. Hljómsveitin Granít frá Vík í Mýrdal á Sólbakka 2011. F.v.: Auðbert Vigfússon, Hróbjartur Vigfússon, Guðmundur Pétur Guðgeirsson, Bárður Einarsson, Kristinn Jóhann Níelsson og Sveinn Pálsson. Síðan Önundur Pálsson upptöku meistari, Ásgeir Magnússon, sveitarstjóri í Vík, sem er ættaður frá Sólbakka, og Eiríkur Finnur Greipsson, formaður bæjarráðs Ísafjarðarbæjar.

x

Bændablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.