Læknablaðið - 15.01.1986, Page 35
LÆKNABLAÐIÐ
19
LÆKNABLAÐIÐ
THE ICELANDIC MEDICAL jOURNAL
Læknafélag íslands og
Læknafélag Reykjavíkur
72. ÁRG. - JANÚAR 1986
SORTUÆXLI
Nýgengi illkynja æxla hjá íslendingum jókst
um 1.0-1.2% árlega tímabilið 1980-1984 (1).
Fjölgun nýgreindra lungnakrabbameina er án
efa sú orsök þess arna sem mestan ugg vekur,
en batahorfur sjúklinga með lungnaæxli hafa
naumast skánað síðastliðin þrjátíu ár. Sem
betur fer er ekki svo um ýmis önnur algeng
æxli, svo sem krabbamein í brjóstum og
meltingarvegum. Þótt sortuæxli í húð teljist
ekki í flokki algengustu krabbameina, hefur
þessi meinsemd um margt sérstöðu, bæði frá
sjónarhóli faraldsfræðinga og þeirra sem
ætlað er að greina og annast meðferð þeirra
sem sjúkdómurinn hrjáir.
Grein Jóns Gunnlaugs Jónassonar og fé-
laga hans í Læknablaðinu (2) miðlar mikil-
vægum upplýsingum um faraldsfræði og smá-
sæja flokkun sortuæxla. Mun reyndar sá fyrst
og fremst hafa verið tilgangur höfunda, síður
að lýsanáið afdrifum sjúklinganna, enda nán-
ast ógjörningur í afturvirkri rannsókn sem
þessari. Afstaða skurð- og lyflækna til
sortuæxla þefur breyst verulega á þrjátíu ár-
um, og án nákvæmra upplýsinga um umfang
lækninga á hverjum tima er takmarkað gagn
að tölfræðilegu mati á horfum.
Skilningur okkar og skoðanir á sortu-
æxlum hafa tekið breytingum síðastliðin þrjá-
tíu ár. Kemur einkum þrennt til: í fyrsta lagi
hefur alls staðar þar sem þelljóst fólk býr, átt
sér stað raunveruleg og marktæk árleg fjölg-
un nýgreindra sjúklinga með sortuæxli í húð
(3). Sú almenna umræða (4) sem hlaut að leiða
af því á þátt í þeirri sýndarbreytingu sem
virðist á gangi og hegðun sjúkdómsins.
Þannig, og í öðru lagi, greinast nú tiltölulega
Qeiri sjúklingar en áður með flæðimein. Þessi
fjölgun flæðimeina samfara fækkun hnúð-
laga sortuæxla er marktæk og almenn meðal
áhættuhópa hvar sem er í heiminum (5). Með
því að horfur sjúklinga með flæðimein eru
skárri en þeirra sem hnúðæxli hafa er þessi
tilflutningur gleðiefni. Hugsanlega, og í
þriðja lagi, verður víxlun þessi rakin til nýrra
viðhorfa þeirra sem vefjagreiningu stunda,
fremur en til raunverulegrar breytingar í eðli
sjúkdómsins. Eftir því sem tiltölulegur fjöldi
lítilla (þunnra) æxla hefur aukist, hefur
athygli og aðgát meinafræðinga skerpst.
Nýlegar og nákvæmar undirflokkanir sortu-
meina og forstigsbreytinga þeirra endurspegla
breytta afstöðu meinafræðinga fremur en
breytta hegðun sjúkdómsins. Afbrigði í
yfirhúð aðlægri meginæxli skipta nú einatt
sköpum í undirflokkun. Áður óþekkt hugtök
á borð við hyperplasia melanocytica prema-
lignans (5), nevus dysplasticus (6), hyperpla-
sia melanocytica atypica intraepidermalis (7)
öðlast nú mikilvægi, án efa oftlega umfram
óljósa lífræna þýðingu sína.
Allir ofangreindir þættir, hver fyrir sig og
með öðrum, hafa tvímælalaust leitt til endur-
skilgreiningar sjúkdómsins. Samtímis, eins
og einatt þegar innsæi okkar í sjúkdómsferli
eykst, skjóta upp kollinum til mótvægis
spurningar og efasemdir þar sem þeirra var
síst von. Meðan þekking okkar á áreitis-
viðbrögðum melanocýta, móðurfruma sortu-
æxla, er jafn gloppótt og nú, hefur sú flokkun
ein hagnýtt gildi sem byggir á klínískri
athugun og reynslu.
Jóhannes Björnsson
HEIMILDIR
1) Ragnarsson J, Ingimarsson GS. Tíðni krabbameina
er vaxandi: Sjö hundruð ný krabbamein á ári.
Heilbrigðismál 1985; 33 (2): 14-5.
2) Jónasson JG, Magnússon B, Tulinius H, Björnsson
A. Sortuæxli íslandi 1955-1984. Læknablaðið 1985;
71: 274-81.
3) Kopf AW, Rigel DS, Friedman RJ. Editorial. The
Rising Incidence and Mortality Rate of Malignant
Melanoma. J Dermatol Surg Oncol 1982; 8: 760-1.
4) Morgunblaðið 1984; 08.11., bls. 64; 11.11., bls. 64.
5) McGovern VJ, Shaw HM, Milton GW. Histogenesis
of malignant melanoma with an adjacent component
of the superficial spreading type. Pathology 1985;
17: 251-4.
6) Elder DE, Ainsworth AM, Clark WH. The surgical
pathology of cutaneous malignant melanoma. In:
Goldman LI, Mastrangelo MJ (ritstj.). Human
malignant melanoma. Clinical oncology mono-
graphs. New York: GruneandStratton 1979; 55-108.
7) Sagebiel RW. Histopathology of borderline and
early malignant melanomas. Am J Pathol 1979; 3:
543-52.