Læknablaðið - 15.11.1991, Blaðsíða 19
LÆKNABLAÐIÐ 1991; 77: 343-7.
343
Arthur Löve
LIFRARBÓLGUVEIRA C
INNGANGUR
Nokkru eftir að greining á lifrarbólgum
A og B kom til sögunnar varð ljóst að
líklega væru til fleiri veirur, sem gætu valdið
lifrarbólgu (1,2). Einkum var lýst lifrarbólgum
eftir blóðgjafir, sem ekki voru af völdum
lifrarbólguveira A eða B eða annarra þekktra
veira, sem stundum valda lifrarbólgum, svo
sem cytomegaloveira (CMV) og Epstein Barr
veira (EBV). Voru þetta nefndar nonA, nonB
lifrarbólgur. Nokkuð ljóst var að um smitefni
var að ræða, og þá væntanlega veiru, sem
olli að minnsta kosti mörgum nonA, nonB
lifrarbólgutilfellanna. Kom sjúkdómurinn
oftast eftir blóð- eða blóðhlutagjöf og hagaði
sér svipað og lifrarbólga B. Einnig hefur
verið lýst einstökum tilfellum af nonA, nonB
lifrarbólgu ótengdum blóðgjöfum, en þær
virðast vera af svipuðum toga (3). Síðan
reyndist mögulegt að sýkja apa með blóði
sem valdið hafði nonA, nonB lifrarbólgu hjá
fólki (4,5), en ekki hefur enn tekist að rækta
veiru úr nonA, nonB lifrarbólgusýkingum.
Hins vegar hefur rannsóknum á þessu
sviði fleygt fram undanfarin misseri með
tilkomu erfðatækniaðferða. Tekist hefur
að skilgreina nýja veiru, sem nefnd hefur
verið lifrarbólguveira C og virðist hún
vera orsakavaldur meirihluta nonA, nonB
lifrarbólgna einkum þeirra sem koma eftir
blóðgjafir. Auk þessa hefur faröldrum af
annarri tegund nonA, nonB lifrarbólgu
verið lýst, einkum í Austurlöndum, svo
sem Indlandi, Pakistan og suðurhlutum
Sovétríkjanna (6,7). Virðist þar vera á ferðinni
veira, sem berst með vatni eða fæðu og hefur
stuttan meðgöngutíma. Hefur þessi veira verið
nefnd lifrarbólguveira E (8,9).
Frá Rannsóknastofu Háskólans í veirufræöi, Ármúla 1a.
SJÚKDÓMSFERILL
Sjúkdóms- og meinafræðilegum einkennum
hefur verið marglýst fyrir nonA, nonB
lifrarbólgur, sem komið hafa eftir blóðgjafir
(10-18). Meðgöngutími er mjög mislangur,
tvær til 26 vikur og að meðaltali 7, 8 vikur
í einni rannsókn (13). Meðal meðgöngutími
í lifrarbólgu B eftir blóðgjöf var 11,8
vikur í sömu rannsókn. Einkenni virðast
mjög missvæsin og oft virðist sýkingin
einkennalaus, hugsanlega aðeins með vægum
lifrarensímhækkunum. Ef lifrarbólgueinkenni
koma fram, eru þau svipuð og í öðrum
veiru-lifrarbólgum, einkum lifrarbólgu B.
Fyrst koma fyrirboðseinkenni, einkum frá
meltingarvegi, svo sem ógleði og uppköst.
Síðan kemur gula, sem oftast gengur yfir á
einni til tveimur vikum. Allmargir, allt að
50%, fá þrálátan lifrarsjúkdóm, sem getur
endað í skorpulifur í um það bil 20% tilfella.
Venjulega er bráður sjúkdómsþáttur nonA,
nonB lifrarbólgu vægari en samsvarandi
þáttur lifrarbólgu B. Miðað við lifrarbólgu
B eru ensímhækkanir venjulega lægri í
nonA, nonB lifrarbólgu og í þrálátum
tilfellum er mjög einkennandi að sjá sveiflur
á lifrarensímum. Meinafræðileg mynd nonA,
nonB lifrarbólgu hefur nokkur séreinkenni
miðað við lifrarbólgur A og B (14-18), Er þar
helst að nefna a) þétta íferð eitilfrumna, oft í
gallbrautum, b) fituhrömun, oft smáblöðrótta,
c) innanstokkæðaríferð eitilfrumna eða
Kupffer frumufjölgun og d) afbrigðilega
gallvegaþekju, sem svipar til fyrstu skemmda
í frum- gallvega- lifrarbólgu (primary biliary
hepatitis).
ERFÐATÆKNI
Á síðustu misserum hafa orðið stórstígar
framfarir á þessu sviði, einkum vegna
þess að hægt var að einangra mikið magn