Kjarninn - 03.10.2013, Side 71
01/01 kjarninn Álit
F
yrir nokkru var ég stödd hjá ræðismanninum í
Zürich til að ná í íslenskt vegabréf fyrir nýfædda
dóttur mína. Ræðismaðurinn, sem er eldri maður
og ávallt mjög viðkunnanlegur, byrjar á að spyrja
okkur nýbökuðu foreldrana hvað við höfum fyrir
stafni hér í borg. „Íslenskar konur vilja náttúrulega ekki vera
heimavinnandi,“ sagði hann í framhaldi af því þegar hann
beindi spurningunni að mér. Ég hikaði, brosti og sagði lágum
rómi „nei, eiginlega ekki“ og er ekki frá því að örlað hafi á
smá samviskubiti í örskamma stund.
Mér fannst þessi athugasemd hans þó áhugaverð. Í fyrsta
lagi vegna þess að Sviss hefur lengi verið álitið mjög íhalds-
samt þjóðfélag og má segja að hefðin og kerfið hér í landi
geri konum ekki auðvelt að fara aftur á vinnumarkaðinn
þegar barn er komið til sögunnar. Í öðru lagi hefur umræða
um samræmingu starfsframa kvenna og fjölskyldulífs verið
nokkuð áberandi að undanförnu. Sú umræða er mikið til
komin vegna nýútkominnar bókar aðalframkvæmdastjóra
Facebook, Sheryl Sandberg, sem nefnist Lean In á frummál-
inu og hefur hlotið titilinn Stígum fram á íslensku.
Fréttir af helstu netsamfélögum eins og Facebook,
Google, YouTube, Instagram og Yahoo vekja gjarnan athygli.
Að undanförnu eru það þó ekki einungis uppfærslur og
nýjungar þessara miðla sem fjallað hefur verið um heldur
einnig sú staðreynd að það eru tiltölulega ungar konur sem
skipa sumar af æðstu stöðum þessara tæknifyrirtækja. Fram
til þessa hafa karlmenn nær undantekningalaust stjórnað
slíkum fyrirtækjum.
Kona verður forstjóri
Saga Marissu Mayer, sem ráðin var forstjóri Yahoo í júlí 2012,
er athyglisverð og vakti ráðning hennar töluverða athygli.
Ekki var nóg með að það væri kona sem hreppti stöðuna hjá
þessum tæknirisa sem var kominn í öngstræti með rekstur
sinn, heldur var hún aðeins 37 ára gömul og gengin sex
mánuði með sitt fyrsta barn. Það vakti ekki síður athygli að
Mayer væri ráðin þar sem hún er þekkt fyrir að setja þarfir
neytandans í fyrsta sæti. Fram að því hafði helsta markmið
fyrirtækisins verið að hámarka hagnað hluthafa.
Mayer tilkynnti fljótlega í kjölfar ráðningar sinnar að hún
myndi aðeins taka nokkrar vikur í barneignarleyfi og að hún
myndi vinna á meðan á því stæði. Það er óhætt að segja að
hún hafi fengið það óþvegið því hún var harðlega gagnrýnd,
aðallega af öðrum konum, fyrir þá ákvörðun sína.
Stígum fram
Bók Sandberg, Lean In –Women, Work and the Will to Lead,
kom út í Bandaríkjunum í mars á þessu ári og hefur bókin
setið á vinsældalistum fjölmargra bókaverslanna víða um
heim síðustu mánuði. Á aðeins nokkrum mánuðum hefur
bókin verið þýdd á yfir 30 tungumál. Guðrún Bergmann
þýddi bókina á íslensku.
Upphafið að bókinni má rekja til TEDtalk-fyrirlesturs sem
Sandberg hélt í desember 2010 undir yfirskriftinni „Why we
have too few women leaders“ (http://www.ted.com/talks/
sheryl_sandberg_why_we_have_too_few_women_leaders.
html) sem vakti verðskuldaða athygli. Sandberg segir frá
fjölmörgum persónulegum atvikum, mistökum og sigrum, og
byggir því umræðuna mikið til út frá reynslu sinni auk þess
að tengja umfjöllunina ýmsum tölfræðilegum staðreyndum.
Sandberg lítur svo á að sterk félagsleg viðmið séu í
kringum konur og fjölskyldulíf sem sé meðal annars ástæða
þess að svo fáar konur sitja í stjórnunarstöðum fyrirtækja.
Sandberg hvetur konur til að stíga fram, draga ekki úr eigin
væntingum til sjálfra sín og sækjast eftir þeim frama sem
þær dreymi um að eiga. Hún vill meina að konur eigi það
ómeðvitað til að halda sig til hlés og vera hræddar við að láta
skoðanir sínar í ljós, sem haldi aftur af þeim við að sækjast
eftir og taka að sér háar stjórnunarstöður í fyrirtækjum. Hún
er sannfærð um að ef hlutirnir eigi að breytast og kynja-
jafnrétti að nást verði konur að taka af skarið og gera sitt til
að hlutirnir þróist í réttlátari átt.
Þrátt fyrir mikla velgengni bókarinnar hefur Sandberg
ekki verið laus við gagnrýni. Það hefur meðal annars verið
gagnrýnt að hún einblíni of mikið á að allar konur einbeiti
sér að því að komast til valda og eigi að sækjast eftir hærri
stöðum innan fyrirtækja. Sagan af því þegar hún var að
mjólka sig með brjóstapumpu um leið og hún sat fjarfund
inni á skrifstofu sinni þegar hún starfaði hjá Google hefur
valdið nokkru fjaðrafoki. Það sama á við um frásögnina af
því þegar hún uppgötvaði að dóttir sín væri með lús meðan
þær sátu um borð í einkaflugvél eBay, en hún hafði tekið
hana með sér í stutta viðskiptaferð. Sandberg hefur sagt í
kjölfar þessarar gagnrýni að ef fólk túlki orð hennar þannig
að hún meini að allar konur skuli stefna á frama í atvinnu-
lífinu hafi boðskapur hennar verið misskilinn. Hún ítrekar
að mæður sem starfi ekki eða lítið á vinnumarkaði eigi ekki
að vera gagnrýndar fyrir þá ákvörðun sína frekar en aðrar
konur. Hvatning hennar snúi aðallega að þeim sem óski sér
frama en haldi aftur af sér að sækjast eftir honum.
Bókin er vissulega skrifuð út frá bandarískum raunveru-
leika þar sem fæðingarorlof eru ekki þekkt í þeirri mynd sem
þekkist á Íslandi og leikskólar og barnagæsla ekki niður-
greidd nema að litlu leyti. Upphæðir fyrir slíka þjónustu geta
því verið himinháar, ekki ólíkt því hvernig þessum þáttum er
háttað hér í Sviss.
Það er ljóst að hefðirnar eru misjafnar milli landa og
skoðanir fólks á hvað sé réttast að gera sem betur fer
fjölbreyttar. Fólk hefur val og sama hvað fólki finnst um
stjórnunarstíl og stutt fæðingarorlof Marissu Mayer eða
framahvetjandi bók Sandberg eiga þessar konur hrós skilið.
Þær eru hugrakkar og ákveðnar og brjóta gegn hefðbundn-
um gildum. Þær hafa elt drauma sína, tekist að samræma
þessi tvö krefjandi verkefni; að eignast fjölskyldu og taka
að sér mjög annasamt starf. Það er töff að sjá drauma fólks
verða að veruleika.
Hitti naglann á höfuðið
Það má segja að fyrrnefndur ræðismaður hafi hitt naglann
á höfuðið varðandi hugðarefni mitt síðustu mánuði, enda
las ég bók Sandberg nokkrum vikum áður en dóttirin kom í
heiminn. Þó svo að einhverjum Svisslendingum finnist skrýt-
ið að nær allir foreldrar vinni úti og að flest börn frá eins
árs aldri séu í barnagæslu alla virka daga vikunnar eins og
tíðkast á Íslandi skiptir engu. Hvort mæður ákveða að vera
heimavinnandi á meðan börnin eru að alast upp eða að fara
aftur á vinnumarkaðinn stuttu eftir fæðingu barns skiptir
engu. Það sem skiptir máli er að konur hafi val um að gera
það sem hentar þeim og fjölskyldum þeirra án þess að þurfa
ítrekað að verja ákvörðun sína. Að eiga val felur í sér mikið
frelsi og það er mikilvægt að við stöndum vörð um það. Að
þora og sjá draum verða að veruleika er einstakt fyrir hvern
þann sem upplifir slíkt. Hver sem þinn draumur er skaltu
elta hann. Þú átt valið.
Eltu drauminn,
kona!
Álit
Bryndís Björnsdóttir
skrifar frá Zürich í Sviss