Dagblaðið Vísir - DV - 22.10.2007, Blaðsíða 6
„Þessar tölur segja allt sem segja
þarf og það er sjálfsagt stutt í að einn
milljarður króna bætist við í lífeyr-
issjóðina á dag. Þetta eru gífurlegar
upphæðir,“ segir Reynir Ingibjarts-
son, formaður Aðstandendafélags
aldraðra, AFA. Hann segir það vera
réttlætismál að lögum um lífeyris-
sjóði verði breytt svo þeir geti gagn-
ast lífeyrisþegum betur.
Eignastaða lífeyrissjóðanna hef-
ur aldrei verið sterkari en nú. Eigna-
staða og lífeyrisgreiðslur haldast þó
engan veginn í hendur. Samkvæmt
tölum úr síðasta ársuppgjöri Lands-
sambands lífeyrissjóða nam hrein
eign þeirra samtals um 1.498 millj-
örðum króna samanborið við 1.219
milljarða í árslok 2005. Hreinar eign-
ir jukust því um 276 milljarða króna
á einu ári eða um 756 milljónir á dag.
Þrátt fyrir þessa gífurlegu aukningu
hækkaði greiðsla til lífeyrisþega að-
eins um sex milljarða króna á milli
ára. Í árslok 2005 var gjaldfærður
lífeyrir 34 milljarðar króna en hafði
hækkað upp í 40 milljarða í árslok
2006. Munurinn á eignaaukningunni
og hækkunum á lífeyrisgreiðslum er
fjörutíuogsexfaldur.
Hundruð milljóna á dag
Lífeyrissjóður starfsmanna ríkis-
ins er stærsti lífeyrissjóður lands-
ins, með heildareignir upp á rúma
282 milljarða króna. Á síðasta ári
var eignaaukning hans 55 milljarðar
króna eða um 150 milljónir króna á
dag. Lífeyrissjóður verslunarmanna
er næststærsti lífeyrissjóður landsins
en eignaaukning hans var tæpir 50
milljarðar króna á síðasta ári. Lífeyr-
isgreiðslur úr sjóðnum námu aftur á
móti 3.147 milljónum króna.
Gildi lífeyrissjóður er þriðji stærsti
lífeyrissjóður landsins en eignir hans
jukust úr 181 milljarði króna í 215
milljarða króna á síðasta ári.
Hver dagur skiptir máli
Reynir Ingibjartsson telur að vel
megi leysa brýn búsetuvandamál
aldraðra með því að lífeyrissjóðirnir
hafi aðkomu að málinu. „Miðað við
þessar eignir lífeyrissjóðanna myndi
það kosta þá upphæð sem kem-
ur inn í lífeyrissjóðina á einni viku.“
Hann gagnrýnir jafnframt lögin um
lífeyrissjóðina því samkvæmt þeim
hafa þeir ekki heimild til þess að eiga
byggingar. Hins vegar mega þeir eiga
gífurlega mikið af hlutabréfum og
skuldabréfum. „Það er mjög eðlilegt
að breyta þessum lögum. Lífeyris-
sjóðirnir eiga að takast á við þenn-
an vanda því það virðist engin lausn
vera í sjónmáli. Hver dagur skiptir
máli þegar fólk er komið á þennan
háa aldur. Á meðan safnast fólk upp
á sjúkrahúsum og það er auðvitað
dýrasti kosturinn.“
Hann segir það vera spurningu
um réttlætisvitund að breyta þess-
um reglum. „Þessir lífeyrissjóð-
ir eru orðnir stærri en öll fjárlög ís-
lenska ríkisins. Gróði þeirra er fyrst
og fremst vegna hárra vaxtatekna og
það er mjög eðlilegt að brot af þess-
um vaxtagjöldum muni ganga í að
búa lífeyrisþegum gott ævikvöld.“
Gæti útvatnað hlutverk
lífeyrissjóða
Hrafn Magnússon, framkvæmda-
stjóri Landssambands lífeyrissjóð-
anna, segist vera á þeirri skoðun
að lífeyrissjóðirnir eigi að stunda
sinn hefðbundna rekstur eins og
lög kveða á um, að sjá um ávöxtun
og greiða út lífeyri. „Við teljum að
lífeyrissjóðirnir eigi ekki að standa
í atvinnurekstri á borð við rekst-
ur hjúkrunarheimila. Lífeyrissjóð-
irnir eru hins vegar tilbúnir til þess
að lána ríki og sveitarfélögum fé til
uppbyggingar á hjúkrunarheimil-
um. Það er ekki heimild í lögum um
að lífeyrissjóðirnir greiði fyrir fram-
kvæmdir af þessu tagi.“
Hlutverk og staða lífeyrissjóð-
anna gæti breyst mikið ef þeir færu
út í að fjármagna uppbyggingu á
hjúkrunarheimilum að mati Hrafns.
„Það gæti opnað á aðrar gáttir því
það eru ýmis önnur aðkallandi verk-
efni en bygging hjúkrunarheimila.
Jafnvel þótt ég skilji að það sé þörf á
byggingu hjúkrunarheimila myndi
þetta útvatna það hlutverk sem líf-
eyrissjóðirnir hafa.“
Mánudagur 22. október 20076 Fréttir DV
„Miðað við þessar
eignir lífeyrissjóðanna
myndi það kosta þá
upphæð sem kemur inn
í lífeyrissjóðina á einni
viku.“
ValGeir Örn raGnarsson
blaðamaður skrifar: valgeir@dv.is
GÆTI AUÐVELDLEGA
LEYST VANDANN
Á síðasta ári hækkaði eignastaða lífeyrissjóðanna um 276 milljarða króna en
greiðslur úr sjóðunum til lífeyrisþega hækkuðu um aðeins sex milljarða
króna. reynir ingibjartsson formaður Aðstandendafélags aldraðra telur
nauðsynlegt að breyta lögum um lífeyrissjóði svo þeir geti komið að því að
bæta búsetumál eldri borgara. Framkvæmdastjóri Landssambands lífeyris-
sjóða segir að það myndi útvatna hlutverk lífeyrissjóðanna.
eldri borgarar Formaður
aðstandendafélags aldraðra vill
að lífeyrissjóðirnir komi að upp-
byggingu á íbúðum fyrir aldraða.