SunnudagsMogginn - 08.01.2012, Blaðsíða 16
16 8. janúar 2012
Þorge
Þorgeir Már á mótorhjólinu fyrir slysið. Hann hyggst ekki stíga aftur fæti á
slíkt ökutæki í framtíðinni.
Dagarnir voru oft lengi að líða á spítalanum. Þorgeir Már tók upp á því að læra að
prjóna til að stytta sér stundirnar.
Hægri fótur var mjög illa
farinn og þurfti Þorgeir Már
að gangast undir margar
aðgerðir, m.a. þurfti að
græða húð af lærum á legg-
inn.
Loksins kominn heim til
sín og á hækjur til að byrja
með.
Þorg
fólkin
með
Því miður eru umferðarslys alltof algeng og mætti áreiðanlega koma í veg fyrir mörg þeirrameð meiri varkárni. Oft er það þannig að unga fólkið fer ógætilega og er auðvitað reynslu-minni ökumenn en hinir eldri. Hversu oft heyrum við ekki um slys í fréttum þar sem sagt er:„Ungur maður liggur þungt haldinn í öndunarvél eftir bílslys.“ Oftast fær almenningur ekki
að vita hvað tekur við, hvernig einstaklingnum reiddi af, hann gæti hafa haldið lífi en verið örkumla
fyrir lífstíð, um það er sjaldnast fjallað. Þorgeir Már er einn af þeim „heppnu“. Hann er haltur og með
ör um allan líkamann, aðallega á fótum. En hann er á lífi og hann er reynslunni ríkari.
Svartur kafli
Kvöldið byrjaði með grillveislu nokkurra frændsystkina á fallegum sumardegi heima hjá Þorgeiri. Þar
skemmti hann sér fram eftir kvöldi en ákvað svo að fara í partí með nokkrum vinum sínum. Vinirnir
fjórir fóru á bíl en Þorgeir á mótorhjólinu og þegar þau voru á Nýbýlavegi tók Þorgeir fram úr vin-
unum. Samkvæmt útreikningum lögreglu var hann á bilinu 100-135 kílómetra hraða.
Hann missti stjórn á hjólinu og við það kastaðist hann af því, hentist í loftköstum á vegrið og hjólið á
eftir. Þar klemmdist hægri fóturinn milli hjóls og vegriðs og laskast mjög illa. Opin beinbrot voru á
báðum fótum þó að sá hægri hafi skaddast mun verr. Við höggið féllu lungun saman og hann fór í
hjartastopp. Einnig var hann illa rispaður og lemstraður víða um líkamann, en hann notaði engan
hlífðarfatnað annan en hjálm. Vinirnir horfðu skelfingu lostnir á slysið og hringdu strax í neyðarlínuna
og fóru svo að hlúa að Þorgeiri. Það skipti sköpum að hjálp bærist sem fyrst en það liðu um það bil 10
mínútur áður en lögreglumaður hóf hjartahnoð og svo tóku sjúkraflutningsmenn við.
Þorgeir man ekkert eftir þessu. Hann man heldur ekkert eftir tveimur dögum á undan og ekki viku
á eftir. Hann vaknaði tæpri viku seinna á gjörgæslunni. „Ég man bara að ég vaknaði og sá mömmu
hálfgrátandi yfir mér og hún sagði mér að ég hefði fótbrotnað illa. Ég man að ég hugsaði hvers vegna
hún væri að gráta yfir því, en ég vissi auðvitað ekkert hvað þetta var slæmt og vissi ekki að ég hefði
farið í hjartastopp og verið sofandi í viku!“ segir Þorgeir.
„Annars man ég svo sem ekki mikið eftir gjörgæslunni, ég var auðvitað sofandi og svo eftir það á svo
sterkum verkjalyfjum. Þetta var alveg svartur kafli. Það var ekki fyrr en ég var fluttur á bækl-
unardeildina að ég fór að átta mig á hvað hafði gerst; fór að púsla saman brotunum. Ég hafði alltaf
haldið ég væri ódrepandi og ekkert gæti komið fyrir mig. Ég gerði mistök, ég viðurkenni það. Ég var
ekki með próf á svona hjól og ég keyrði alltof hratt. Það mældist einnig áfengi í blóðinu, þó það væri
undir mörkum. En ég var heppinn að lifa þetta af,“ segir Þorgeir reynslunni ríkari.
Löng og ströng spítalavist
Strax við komuna á spítalann var Þorgeir settur í öndunarvél og líkaminn kældur niður. Það þurfti að
huga að fótunum og var hann settur í bráðaaðgerð. Þorgeir segir læknana hafa íhugað hvort hann
myndi halda hægra fæti en aðaláhyggjurnar beindust að því hvort heilinn hefði skaddast eftir súrefn-
isskortinn við hjartastoppið.
Þegar Þorgeir vaknaði svo var ljóst að ekki hafði orðið neinn heilaskaði og ekki heldur mænuskaði.
Þungu fargi var létt af fjölskyldu og stórum hópi af vinum og vandamönnum sem höfðu beðið í ofvæni
eftir fréttum af honum. Við tóku fleiri aðgerðir á fótum og þá þurfti að taka húð af lærunum til að
græða á verstu sárin. Alls voru gerðar fjórar stórar aðgerðir og nokkrar minni. Þorgeir sá fyrst fæturna
þegar verið var að skipta á umbúðum og brá nokkuð. „Ég bjóst ekki við því að þetta væri svona
slæmt,“ segir Þorgeir, en mikið af mjúkvef hafði skaddast og þurfti að festa járnpinna í fæturna. Örin
voru ansi djúp og ljót. En Þorgeir ákvað að fá að taka þátt í batanum og segist hafa lært heilmikið um
umönnum sára og hvernig ætti að skipta um umbúðir, og er hann þakklátur hjúkrunarfræðingunum
sem leyfðu honum að vera með í því.
Fyrsta mánuðinn var Þorgeir alveg rúmfastur en mátti svo fara í hjólastól. Næst tók við göngugrind
og loksins hækjur eftir tvo og hálfan mánuð á spítalanum. Þaðan lá leiðin á Grensásdeild þar sem hann
dvaldi í tvær vikur en svaf þá heima hjá sér. Endurhæfingin á Grensásdeildinni gekk vel og mátti Þor-
geir nú stíga í báða fæturna. „Fóturinn verður sjálfsagt alltaf stífur, það var sett svo mikil húð sem
stoppar sinina. Ætli ég geti ekki hreyft fótinn við ökkla svona 30 %, en sé fram á kannski 70% bata, en
það kemur bara í ljós,“ segir Þorgeir.
Hann segir það enn óákveðið hvort hann nái það góðum bata að hann geti áfram starfað sem smið-
ur. „Ég er ekkert með plan B, þetta kemur bara í ljós. Ég er bara jákvæður fyrir því að fara aftur í skóla,
ég er bara að reyna að átta mig á hlutunum ennþá,“ segir Þorgeir.
Spítalavistin langa reyndi á taugarnar. Dag eftir dag lá hann í rúminu með mikla verki. „Tíminn var
ofboðslega lengi að líða. Maður var bara mest að hugsa um að komast í gegnum þetta, láta tímann líða.
Ég var líka svo stirður í puttunum fyrst að ég gat lítið notað tölvuna,“ segir Þorgeir.
Kærasta og prjónaskapur
En ýmislegt gott gerðist líka. Þorgeir lærði að prjóna á spítalanum. „Frænka mín Brynja stakk upp á
því að ég stytti stundirnar með prjónaskap og mætti með prjóna og kenndi mér fyrstu handtökin. Svo
hjálpuðu mér mikið mamma og amma Bergdís,“ segir Þorgeir og getur nú státað af sokkum, húfu,
trefli og fjórum peysum. Hann segir að hann hafi skorað mörg stig hjá starfsfólkinu fyrir dugnaðinn
við prjónaskapinn.
En fleira merkilegt gerðist á deild B5. Stúlka að nafni Karen, sem hann kynntist í útilegu stuttu fyrir
slysið, fór að venja komur sínar á stofuna til Þorgeirs. „Við byrjuðum bara saman á spítalanum. Hún
kom oft með mat til mín eins og pizzur og hamborgara, eitthvað svona sveitt, hún skoraði sko með
því,“ segir Þorgeir og hlær.
Hann tekur þó fram að spítalamaturinn hafi alls ekki verið svo slæmur en nokkuð einhæfur. Karen
keyrði svo Þorgeir um í hjólastólnum þegar kom að því að hann mátti fara í smá gönguferðir utandyra.
„Ég kalla þetta eiginlega ævintýri, allt sem er búið að gerast í sumar, að kynnast stelpu og byrja með
henni á spítalanum. Við erum ofboðslega ánægð saman og allt gengur rosa vel. Hún er nánast flutt inn
til mín,“ segir Þorgeir glaður.
Kenya um jól og áramót
Nú er Þorgeir á fullu að byggja sig upp, hann fer um allt á reiðhjóli og er byrjaður að mæta í ræktina.
„Það er ekkert annað að gera. Maður leggur bara allt í sjálfan sig núna. Ég ætla að byggja mig upp og
leggja í það alveg 100% og reyna að ná sem mestum bata,“ segir Þorgeir ákveðinn.
Í lok nóvember fór hann svo með fjölskyldunni, móðir sinni Elínu, stjúpföðurnum Borgari og yngri
bræðrum þeim Mána og Steini í mikla ævintýraferð til Kenya. Þar ætla þau að dvelja saman í tvo mán-
uði og njóta sumars og sólar á meðan mesta skammdegið ræður hér ríkjum. „Það er fínt að fara út
núna, þegar hálkutíminn fer að renna upp. Hitinn fer líka vel í líkamann,“ segir Þorgeir sem hlakkar
til að æfa fæturna í volgum sandi við Indlandshaf.
Þakklæti efst í huga
Þorgeir segist halda að hann fari ekki aftur á mótorhjól. „Ég held ég geri það ekki, af virðingu við fjöl-
skylduna; ég er ekki hræddur við hjólið, en það er bara ekki gáfulegt. Ég keyri ekki of hratt þegar ég
keyri bíl, en það er eitthvað við hjólið, það er svo auðvelt að missa sjónar á hraðanum,“ segir Þorgeir.
Hann segist hafa lært að vera varkárari í lífinu. Einnig gerir hann sér betur grein fyrir því hvað hann
er heppinn með fjölskyldu og vini. Hann er ákaflega þakklátur öllum sem studdu hann í baráttunni,
bæði fjölskyldu, vinum og ekki síst starfsfólkinu á spítalanum. „Skrítið hvað maður var nálægt end-
anum, að þetta var næstum búið. Undarleg tilfinning. Og auðvelt að gleyma hvað þetta var alvarlegt
slys. Nú er ég svo þakklátur að vera til staðar og hvað allt hefur gengið ofboðslega vel,“ segir Þorgeir,
sem hefur snúið aftur til lífsins.