SunnudagsMogginn - 08.01.2012, Blaðsíða 27
8. janúar 2012 27
Frakklandi þar sem textanum er hreinlega
breytt og hún á mömmu. Það er ekki langt
síðan Lína langsokkur kom út hér í réttri
þýðingu, þ.e. sem næst frumtextanum. “
Sjálf hefur Kristín þýtt bókmenntaverk
en það var hluti af lokaverkefni hennar í
M.A. náminu og Bjartur gaf út. „Sú bók
heitir Rannsóknin og er eftir Philippe
Claudel. Bókmenntaþýðing er allt annað
en nytjaþýðing. Höfundurinn vomir yfir
manni. Það er mjög krefjandi að losa sig
undan byggingu frummálsins og gera
textann íslenskan. Það þarf iðulega að
taka ákvarðanir varðandi túlkun, hvað
var mikilvægt, hvað má aðlaga, jafnvel
breyta.
Bókin er ádeila á nútímaþjóðfélag og
stórar samsteypur sem gera manninn,
einstaklinginn, að engu nema hlekk í
keðju þeirra. Ég mæli með því að halda
þessari bók t.d. að menntaskólanemum
og yngri fullorðnum lesendum, en hún er
þó góð fyrir alla.“ Kristín vinnur nú að
ritgerð um þessa þýðingu og stefnir á út-
skrift úr þýðingafræðinni í vor.
Uppbygging í París þrátt
fyrir efnhagslegan samdrátt
Það eru 22 ár síðan Kristín flutti til Parísar
og margt hefur breyst. „Frakkland hefur
alltaf verið í smákreppu eins og Ísland er
að upplifa núna. Það hefur alltaf verið
samdráttur hér frekar en þensla, en nú er
svartara yfir. Þegar evran var tekin upp
hækkaði allt í verði og verð á smávöru og
á kaffi- og á veitingahúsum hefur hækkað
mjög mikið fyrir innfædda,“ segir Kristín
en nefnir jafnframt að Parísarbúar hafi
alltaf staðið dálítið sér og séu dálítið öfga-
kenndir.
Þrátt fyrir samdrátt hefur verið mikil
uppbygging í borginni. „Í tíð Chiracs var
öll borgin þrifin og því er yfirbragð henn-
ar ljósara. Það er búið að þrífa allar bygg-
ingar og bakkana við Signu en þeir voru
orðnir kolsvartir og þá má ekki gleyma
baráttunni við hundaskítinn sem hefur
tekist mjög vel. Þegar París varð menn-
ingarborg árið 2000 var ákveðið að hún
yrði borg ljósanna og til verksins voru
fengnir færustu ljósahönnuðir sem lýstu
stórbyggingar og brýr,“ segir Kristín og
bætir við að það virðast alltaf vera til fjár-
magn í stórverkefni sem þessi jafnvel þótt
verið sé að skera niður í opinbera kerfinu.
„En tónninn er svartsýnni í fólki og at-
vinnuleysi, sem ekki hefur verið mikið í
París, þó að það hafi verið í Frakklandi, er
að aukast. Það og hærra húsnæðisverð
hefur orðið til þess að fjöldi Parísarbúa,
jafnvel þeirra sem alla sína ævi hafa búið í
París, hefur orðið að flýja út í úthverfin.“
En fjöldi ferðamanna er ekkert að drag-
ast saman í París. „Í París búa um 2, 2
milljónir en hingað leggja leið sína á bilinu
12-15 milljónir ferðamanna. Aukningin
virðist endalaus og þeir sem vinna í ferða-
mannageiranum þurfa ekkert að óttast
um sín störf.“
Hvernig líkar Frökkum við forsetann,
Nicolas Sarkozy? „Hann er mjög um-
deildur og ég þekki fáa sem líkar við
hann. Jafnvel fólk úr hans eigin flokki sér
eftir að hafa kosið hann. Fólk er öllu já-
kvæðara í garð spúsu hans Cörlu Bruni.“
En eru Frakkar almennt skemmtilegt
fólk? „Franska þjóðarsálin, ef maður leyf-
ir sér að alhæfa, kann að lifa lífinu, kann
að skemmta sér, er skemmtilega kald-
hæðin, hefur þennan kolbikasvarta húm-
or sem á rosalega vel við mig, eins og það
sem Marie Antoinette á að hafa sagt um
brauðið og kökurnar. Það er bara dæmi-
gerður franskur húmor. Þú finnur alveg
franska, fúla þjóninn en hinn dæmigerða
Frakka getur þú t.d. hitt á matarmörk-
uðunum, þar sem fólk kaupir ferskt í
matinn, fær ráðleggingar og upplifir
skemmtileg samskipti og nærveru.“
Latínuhverfið kallast á við
Mýrina og hverfin á hæðunum
Kristín á sér nokkur uppáhaldshverfi í
París, fer með fólk þangað og segir sögu
þeirra. „Latínuhverfið, Mýrin, Mont-
martre og Belleville eru hverfi sem ég
myndi ráðleggja fólki að kynna sér og
skoða ef það á leið til Parísar. Lat-
ínuhverfið verður til snemma á miðöldum
og það er skólahverfið í París. Þar fékk þó
Georges-Eugène Haussmann (1809-
1891), oft nefndur arkítekt Parísar, að fara
sínu fram, megnið af miðaldagötunum
þröngu vék fyrir stóru breiðgötunum.
Þar er Sorbonne, einn frægasti háskóli
Evrópu, og fleiri háskólar. Þar er einnig
mikið menningarlíf, mikið af litlum kvik-
myndahúsum, þar sem oft og tíðum er
verið að sýna gamlar kvikmyndir.
Þeim hefur reyndar aðeins fækkað með
tilkomu stóru kvikmyndahúsanna með
mörgu sölunum en þau litlu setja engu að
síður setja svip sinn á hverfið sem og
kaffihúsin og barirnir sem námsmenn-
irnir stunda grimmt. Þá er í Latínuhverf-
inu fullt af litlum bókabúðum, i viðbót við
bóksalana við Signu.“
Kristín segir að í Latínuhverfinu hafi
námsmenn iðulega búið en nú sé það að
breytast. „Eins og í öðrum hverfum Par-
ísar hefur húsnæðisverð hækkað mikið og
þeir hafa ekki lengur efni á því og hafa
flúið út í úthverfin. Það skiptir ef til vill
ekki öllu máli því almenningssamgöngur
eru það góðar, sérstaklega metró-ið að
fólk er fljótt á milli staða. Mörgum af
gömlu námsmannaíbúðunum hefur hins
vegar verið breytt í hótel fyrir ferða-
menn.“
Gyðingar og samkynhneigðir í Mýrinni
Kristín segi að Mýrin sé eitt af sínum
uppáhaldshverfum. „Hún er fremur ólík
Latínuhverfinu en hún byggist upp á 17.
öld. Þetta var og er gyðingahverfi en gyð-
ingarnir höfðu verið þar í góðu yfirlæti
fram að seinni heimstyrjöldinni þegar
skjólið breyttist í gildru og þeir lokuðust
inni í hverfinu og urðu auðveld fórn-
arlömb nasista sem hreinsuðu hverfið,
fjarlægðu börn sem fullorðna auk þess að
láta greipar sópa um eignir þeirra, án þess
að nokkur kæmi þeim til hjálpar. Þetta er
eitt af mörgu sem Frökkum þykir erfitt að
ræða í sögu sinni. En sorgin var hryllileg
og það tók tíma að koma á jafnvægi aftur.
Upp úr 1970 koma samkynhneigðir
fram í Frakklandi og krefjast tilveruréttar
síns og velja til búsetu Mýrina, sem er vel
staðsett, með falleg hús. Þeir opna fyrstu
barina og sérvöruverslanir, annað hvort
með handgerðar vörur eða fjölda-
framleiddar en alltaf smekklegt. Smátt og
smátt hefur Mýrin orðið eitt skemmtileg-
asta hverfi Parísar.“
Rauða Myllan í Montmartre
Montmartre var í fyrstu aðeins sveitaþorp
á einni af hæðunum yfir París, en svo þeg-
ar Haussmann stækkar borgina um 1860,
var þorpið innlimað í borgina sjálfa, að
sögn Kristínar.
„Mont þýðir fjall og þarna er mjög gott
útsýni yfir borgina, svo í Montmartre
safnaðist svolítið af efnaðra fólki, þó að
norður- og austurhlutinn hafi í raun verið
fátækrahverfin. Ríka fólkið falaðist eftir
útsýninu og skemmtanalífinu. Myllurnar,
sem áður muldu bæði korn og kalkstein,
breyttust fljótlega í dansstaði og þarna
verður til m.a. til hin fræga Rauða mylla.
Hverfið verður þekkt fyrir skemmtistaði
sína og verður aðalsuðupottur bæði fá-
tæka fólksins, verkamanna og svo ríka,
fína fólksins og þannig er það enn þann
dag í dag. Þeir sem búa í þessu hverfi líta
ekki á sig sem Parísarbúa heldur fyrst og
fremst á sig sem Montmartre-búa, líkt og
Vestmannaeyingar sem líta ef til vill fyrst
á sig sem slíka og svo Íslendinga.“
Bóhemburgeisarnir í Belleville
Þá er það Belleville-hverfi sem er einnig
sveitaþorp sem var innlimað í París á sama
tíma og Montmartre.
Kristín segir að þar hafi verið byggð
íbúðarhús eða réttara sagt hafi verið
skóflað upp íbúðum fyrir fátæka af ódýr-
ari gerðinni, langt frá dýrri húsagerð
Haussmann. „Í þessu hverfi er nú mikil
uppsveifla, mörg hús hafa verið rifin og
endurbyggð og nú er þetta að verða tísku-
hverfi unga, nýríka fólksins – bóhemab-
urgeisanna,“ segir Kristín og hlær.
„Það er fólk sem gengur í lífrænt rækt-
aðri bómull, drekkur latte með lífrænni
mjólk, er meðvitað um umhverfið og
þjóðfélagið en er ofsalega frekt og ríkt,
enda er betra að vera með góðar tekjur til
að hafa efni á þessum lífsstíl. Um leið og
þetta er rosalega skemmtileg uppbygging
fyrir hverfið, því það myndast þörf fyrir
verslanir og veitingahús, þá eru bóhemb-
urgeisarnir um leið kröfuharðir í garð yf-
irvalda, til dæmis hvað varðar skólahald
og hvað er borðað í mötuneytinu þar.“
Kristín segir að það sé oft mikil spenna
á milli gömlu íbúanna og þeirra nýju.
„Nýju íbúarnir hafa meira á milli hand-
anna en þeir eldri og vilja oft ráðast í
miklar breytingar á húsunum, eins og
stigagöngum í niðurníðslu, sem hinir
eldri hafa ekki efni á. Húsfundir í Belle-
ville geta því orðið að algjörri martröð. En
það er samt gaman að upplifa þessa
blöndu og þessa dýnamík og uppbygg-
ingu,“ segir hin íslenska Parísardama sem
er hafsjór af fróðleik. Enda hefur hún
gengið París þvera og endilanga og þekkir
þar orðið hverja þúfu. Kristín hefur sjálf
þurft að flýja út í úthverfin eins og fleiri
Parísarbúar og býr í hverfi, ásamt manni
sínum og tveimur börnum, sem heitir
Copavogure eða Kópavogur eins og þau
kalla hann í glensi. Hún segist ekki vera á
heimleið frá París enda líki henni afar vel
að búa þar, hún þori samt engu um að spá
... það gæti orðið krókur á leið hennar.
Bókabás eiginmanns Kristínar við Signubakka. „Þarna þrífast Bragar Parísarborgar.“
’Franska þjóð-arsálin, ef maðurleyfir sér að alhæfa, kannað lifa lífinu, kann aðskemmta sér, erskemmtilega kaldhæðin,
hefur þennan kolbika-
svarta húmor sem á
rosalega vel við mig, eins
og það sem Marie Antoi-
nette á að hafa sagt um
brauðið og kökurnar.
Það er bara dæmigerður
franskur húmor.