SunnudagsMogginn - 24.06.2012, Page 47
24. júní 2012 47
Auðvelt er að komast hjá gagn-rýni með því að segja ekkert,gera ekkert og vera ekkert. Þaðer ekki einkenni Sólveigar
Baldursdóttur sem fannst umræðan og
andrúmsloftið á Íslandi verða hættulega
neikvæð um og eftir efnahagshrun. Í stað
þess að blogga um ástandið eða hella sér út
í pólitík ákvað hún að gefa út sitt eigið
tímarit um allt það einstaka og upplífgandi
sem Ísland og Íslendingar hafa upp á að
bjóða. „Rauði þráðurinn í gegnum blaðið
er allt jákvætt og allt það frábæra sem við
eigum í mannauði og menningu. Í blaðinu
má finna umfjöllun um matarmenninguna
en ég þekki hana vel frá fyrri störfum,
náttúruna og fjársjóðinn í fólkinu,“ segir
Sólveig og bætir því við að tímaritið hafi
fengið góðar viðtökur.
Skrifar á ensku en er fyrir alla
Í stað þess að takmarka sig við Ísland og
íslenskan markað ákvað Sólveig að skrifa
allt blaðið á ensku og stíla þannig inn á er-
lenda ferðamenn og erlendan markað.
„Efni blaðsins á einnig erindi til Íslendinga
en mig langaði fyrst og fremst að segja út-
lendingum frá dásamlegu landi og þjóð.
Við fórum offari í sjálfshylli hér fyrir hrun
og misstum fókusinn. Mig langar til þess
að segja umheiminum ýkjulaust hvaða
fjársjóð við eigum á þessu landi í fólki og
menningu, alveg eins og svo margar aðrar
þjóðir eiga líka, en ég vil gera það án alls
yfirlætis en líka án allrar minnimátt-
arkenndar.“
Í nærri þrettán ár ritstýrði Sólveig
tímaritinu Gestgjafanum með góðum ár-
angri. Hún ákvað þó fyrir ári að tími væri
kominn fyrir eitthvað nýtt. „Þegar við
eldumst og þroskumst breytist forgangs-
röðin hjá okkur mörgum og mig var farið
að langa til þess að geta unnið hverja grein
betur og vanda enn betur það sem ég léti
frá mér. Á dagblöðum og tímaritum er
tíminn harður húsbóndi og oft þarf að
vinna efni hratt. Þess vegna gef ég bara út
tvö tölublöð á ári, eitt sumarblað og eitt
vetrarblað. Að því leytinu til er pressan
minni hjá mér en áður þar sem tölublöð-
um fjölgaði úr 6 í 17 á þeim tíma sem ég
ritstýrði Gestgjafanum,“ segir Sólveig.
Lætur drauma sína rætast
Það hlýtur að vera meira undir þegar hún
gefur blaðið út sjálf? „Vissulega er fjár-
hagsleg áhætta af útgáfunni töluverð en ég
geng ekki með drauma um að verða rík á
henni. Markmiðið er að blaðið standi und-
ir kostnaði til að byrja með og að ég sé að
verja tíma mínum í eitthvað sem skiptir
máli og ég hef gaman af.“
Eins og stendur er hægt að nálgast blað-
ið í helstu bókabúðum um allt land,
minjagripasölum og flugvélum Iceland
Express. En fljótlega stefnir Sólveig á
dreifingu blaðsins í Bandaríkjunum. „Það
hlæja margir að mér þegar ég segist stefna
inn á Bandaríkjamarkað en ég hef mikla
trú á þessu blaði og vil nota meðbyrinn
sem Ísland hefur fengið í fjölmiðlum und-
anfarið til að koma blaðinu á framfæri.
Þetta er vissulega stór draumur en það
gerist ekkert nema láta á hlutina reyna.“
Sólveig Baldursdóttir ritstýrði Gestgjafanum í þrettán ár en hefur nú snúið sér að eigin útgáfu þar sem hún leggur áherslu á að sýna land og þjóð á jákvæðan hátt.
Morgunblaðið/Kristinn
Í blíðum og jákvæðum tón
„Rauði þráðurinn í gegnum blaðið er allt jákvætt
og allt það frábæra sem við eigum í mannauði og
menningu,“ segir Sólveig um nýja tímaritið sitt
sem hún gefur út tvisvar á ári og skrifar á ensku.
Vilhjálmur A. Kjartansson vilhjalmur@mbl.is
Þ
að er engin lognmolla
þar sem Jack Reacher
er. Hann getur nánast
allt, þó að hann eigi
hvorki farsíma né tölvu, og
verður ekki á mistök nema til
þess að hleypa spennu í at-
burðarásina. Jack Reacher
bregst einfaldlega ekki.
Þeir eru nokkrir töffararnir í
spennusögunum en enginn
kemst með tærnar þar sem Jack
Reacher er með hælana. Hann er
með þetta allt, er fljótur að
hugsa, snöggur að greina glæpa-
mennina, sér út möguleikana
hverju sinni á augabragði og
bregst við áður en andstæðing-
arnir ná að depla auga. Maður
réttlætisins og sem slíkur fyr-
irgefst honum þó að hann gangi
stundum aðeins of langt.
Í nýjustu bókinni, Fórn-
ardauða (e. Worth Dying For),
er höfundurinn Lee Child enn í
Bandaríkjunum. Að þessu sinni
kominn með Jack Reacher til
Nebraska eftir að hetjan hafði
lent í svaðilförum í Suður-
Dakóta í bókinni Fimbulköldum
(e. 61 Hours). Þá var því haldið
opnu hvort Jack Reacher hefði
lifað af sprengingu og Susan
Turner í Virginíu hafði gefið
hann upp á bátinn – hafði sett
gömlu starfsmannaskýrsluna
hans í brúnt umslag með þeim
skilaboðum að það skyldi end-
ursent til starfsmannahalds.
En Jack Reacher slær á allar
efasemdir og er mættur til leiks
á ný – í brúnni úlpu á leið til
Virginíu. Að vísu svolítið aum-
ur, en harðjaxl eins og hann er,
er með háan sársaukaþröskuld
og ekki beint þekktur fyrir að
barma sér.
Eins og fyrri daginn er Jack
Reacher fljótur að þefa uppi
vandræði, en það sem í fyrstu
virðast vera heimiliserjur
tveggja einstaklinga, þar sem
ofbeldi kemur við sögu, reynist
vera hinn versti glæpur, þar sem
margir eiga hlut að máli.
Það er ekki auðvelt að taka til
hendi í sveitinni þar sem sjálf-
kjörnir kóngar hafa ráðið öllu
um langa hríð og langt er í lag-
anna verði. En þegar Jack Reac-
her blandast í mál er honum
ekkert heilagt og hann er ekki
þekktur fyrir að láta óþokka
komast upp með neitt múður. Á
stundum neyðist hann til þess
að fara út fyrir ramma laganna,
en stundum verður að sveigja
lög til að réttlætið nái fram að
ganga.
Eftir hitamolluna að und-
anförnu er hressilegt að lesa um
Jack Reacher. Fórnardauði er
reyndar ekki besta bókin um
þennan harðjaxl og koma hefði
mátt fyrir nokkrar fljótfærn-
isvillur með betri prófarkalestri,
en eftir stendur prýðis spennu-
bók, sem er reyndar ekki fyrir
viðkvæma, þar sem viðbjóðs-
legir glæpamenn fá makleg
málagjöld. Það er fyrir öllu.
Jack Reacher bregst ekki
Bækur
Fórnardauði Eftir Lee Child. 411 bls. Kilja. Þýðing
Jón St. Kristjánsson. JPV 2012.
Reyfarasmiðurinn Lee Child.
Steinþór Guðbjartsson