Morgunblaðið - 13.03.2013, Blaðsíða 26

Morgunblaðið - 13.03.2013, Blaðsíða 26
26 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 13. MARS 2013 ✝ Blængur Mika-el Bogason fæddist á Akureyri 19. febrúar 2001. Hann lést af slys- förum 1. mars 2013. Foreldrar hans eru Emma Agneta Björgvinsdóttir, f. 27. október 1976, og Bogi Þorsteins- son, f. 7. desember 1976. Systkini Blængs eru Þuríður Hekla, f. 2. nóvember 2010, dótt- ir Boga og Þóreyjar Dagmarar Möller, f. 6. febrúar 1986, og Sigtryggur Kristófer, f. 26. júlí 2011, sonur Emmu Agnetu og Kjartans Sigtryggssonar, f. 10. júní 1979. Foreldrar Emmu Agnetu eru Helen Þorkelsson, f. 4. júlí 1940, og Björgvin Leonardsson, f. 27. febrúar 1938, d. 1. ágúst 2009. Systkini Emmu eru Ásta Hrönn, f. 20. nóvember 1957, Jóhann, f. 2. júní 1958, Erla Björg, f. 7. maí 1959, og Halla, f. 1. september 1962. Foreldrar Boga eru Þor- steinn V. Pét- ursson, f. 8. júní 1952, og Þuríður Bogadóttir, f. 24. maí 1953. Systkini Boga eru Berg- steinn, f. 14. mars 1980, og Sara Björk, f. 6. nóv- ember 1991. Blængur Mikael átti ávallt lögheim- ili á Akureyri hjá móður sinni en var reglulega hjá föður sínum og hans fólki fyrir sunnan. Hann var í 6. bekk í Glerárskóla og hafði gaman af að ferðast og fræðast um allt milli himins og jarðar. Ungur ákvað hann að verða sjávarlíf- fræðingur og vék aldrei frá þeirri ákvörðun. Hann var vinur vina sinna, mikill fjöl- skyldumaður, drengur góður og besti stóri bróðir í heimi. Minningarathöfn var haldin í Fossvogskapellu fimmtudaginn 7. mars síðastliðinn. Útför Blængs Mikaels fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 13. mars 2013, og hefst athöfnin kl. 13.30. Elsku Blængur minn, enginn faðir á að þurfa að minnast sonar síns í minningargrein. Að þú komst í heiminn var mín mesta gleði, að fylgjast með þér vaxa og þroskast hefur gefið mér svo margt, þú varst hvatning mín til að lifa lífinu, við gerðum svo margt saman, áttum okkar hefð- ir, okkar siði, kósíkvöld og göngutúra þar sem við ræddum saman um lífsins gagn og nauð- synjar eins og tveir gamlir karl- ar, heimspeki og trúmál. Þú reyndir mikið að snúa mér til kristinnar trúar og fannst rök til að styðja þínar kenningar um til- vist guðs, þín trú var engin barnatrú, svo sérstakt hjá svo ungum manni. Við ferðuðumst mikið saman, fórum oft bara tveir. Á Siglufirði æfðum við skíði, austur í bústað fórum við í reiðtúra, á pæjunni fórum við um landið, skoðuðum fjöll og firði, sóttum öll þau söfn sem á vegi urðu, svo sérstakt hvað þú varst fróðleiksfús og spyrjandi á söfn- um þótt ungur værir. Við áttum okkar frasa á ferðalögum þegar eitthvað fagurt varð á vegi okkar: „Veistu hvað gerir þennan stað fagran? Það að við erum hérna.“ Þegar ég frétti af andláti þínu hrundi heimur minn. Minningin um allar góðu stundirnar gáfu mér einhvern styrk, en samt horfi ég á myndir af þér, langar aftur þangað, langar að gera allt það sem við ætluðum okkur. Við vorum búnir að plana margt; ferðast innan- sem utanlands, þú ætlaðir þér í Stýrimannaskólann og verða svo sjávarlíffræðingur, svo sérstakt hjá svo ungum manni að velja sjávarlíffræði og hvika aldrei frá þeirri ákvörðun. Þótt sorgin sé mikil og ekkert muni nokkurn tíma fylla það rúm í hjarta mínu sem þú átt vona ég og veit að við verðum alltaf sam- an, minning þín endar ekki með punkti á eftir grein. Ég skal reyna að gefast upp fyrir guði þínum og líkt og þú varst sérstak- ur og fagur drengur mun ég leita uppi það sem sérstakt er og fag- urt í lífinu og þá mun ég hugsa og segja: „Veistu hvað gerir þennan stað fagran? Það að við erum hérna.“ Þinn pabbi, Bogi Þorsteinsson. Elsku drengurinn minn. Ég á engin orð yfir hvað lífið getur verið ósanngjarnt. Þú varst ljósið í lífi svo margra og að þú þurfir að yfirgefa þessa jörð svona snemma er óskiljanlegt og ég finn að hjarta mitt er brotið og það mun aldrei gróa. En ég verð að trúa því að þú hafir einhvern tilgang sem við hin skiljum ekki, þér var ætlað eitthvað svo miklu stærra en þetta líf. Við fengum einfaldlega að hafa þig að láni í smástund. Á meðan ég er full af sorg er ég líka þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Þegar ég kynnt- ist pabba þínum fékk ég þig í kaupbæti. Yndislegi strákurinn sem gladdi alla og þótti vænt um alla. Þú gafst einhvern veginn öll- um séns, sama hverjir þeir voru. Fordómar voru sko ekki til í þín- um huga. Ég held það hafi verið annað eða þriðja skipti sem við hittumst þegar þú spurðir hvort þú mættir kalla mig mömmu og þú sem alltaf hafðir haft pabba þinn út af fyrir þig tókst mér opn- um örmum, og ég var svo stolt og ég fann að ég og þú áttum sam- leið frá fyrstu stundu. Allar góðu stundirnar sem við áttum saman eru ómetanlegar og ég á ekkert nema fallegar minningar. Þegar ég reyni að hugsa um einhverja ákveðna minningu koma svo margar upp í hugann að ég gæti skrifað heila bók. En það sem stendur upp úr er hvað þú varst góður, góður við alla sem þú þekktir og sérstaklega við litlu systur þína. Í hvert skipti sem þú komst til okkar hoppaði hún af kæti yfir að stóri bróðir væri loksins að koma og það líður varla sá dagur að hún tali ekki um þig og hún hefur nú misst besta vin sinn. Þú varst svo dug- legur að hjálpa mér með hana, lékst við hana tímunum saman og horfðir á prinsessumynd af því að hún vildi horfa á prinsessumynd, þér var alveg sama svo lengi sem hún var glöð. Betri stóra bróður hefur enginn átt. Ég lofa þér því elsku Blængur minn að ég mun sjá til þess að hún viti sko ná- kvæmlega hvernig bróðir hennar var og ég mun kenna henni allt sem þú á þinni stuttu ævi hefur kennt okkur. Ég mun kenna henni að vera góð við dýr af því að þannig varst þú, ég mun kenna henni að fara með faðirvorið því það hefðir þú gert. Elsku ástin mín, ég kveð þig með trega og sorg í hjarta, en ég veit að nú ert þú stærsti engillinn á himnum og þú munt alltaf vera með okkur, þú verður alltaf í hjartanu mínu. Guð geymi þig elsku ljósið mitt. Við sjáumst. Þórey Dagmar Möller. Hver óttast er lífið við æskunni hlær sem ærslast um sólríka vegi, og kærleikur útrás í kætinni fær, sé komið að skilnaðardegi. Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm er verður að hlíta þeim lögum að beygja sig undir þann allsherjardóm sem ævina telur í dögum. Við áttum hér saman svo indæla stund sem aldrei mér hverfur úr minni. Og nú ertu genginn á guðanna fund það geislar af minningu þinni. (Friðrik Steingrímsson) Emma, Bogi, Þórey, Kjartan og litlu systkini Blængs Mikaels, góður Guð gefi ykkur styrk í sorg ykkar. Elsku Blængur minn, með þessum orðum viljum við kveðja þig og þakka þér allt sem þú gafst okkur. Hvíl þú í Guðs friði elsku drengurinn okkar. Amma Ragnhildur og Kristján afi. Elsku hjartans engillinn okk- ar, stóri fallegi strákurinn okkar. Óteljandi yndislegar minningar sem við yljum okkur við. Okkar eina barnabarn í 10 ár. Óskipt at- hygli og dekur, samt ekki hægt að spilla þér, alltaf svo þakklátur. Mikill pælari, kölluðum þig stundum litla heimspekinginn okkar, ætíð svo fróðleiksfús. Varst mjög ungur þegar þú sagð- ist ætla að verða sjávarlíffræð- ingur. Vissir ótrúlegustu hluti um lífríki hafsins og hafðir meira gaman af fræðsluþáttum Davids Attenboroughs en ýmsu barna- efni. Undanfarið var Minecraft mikið áhugamál og þú fræddir okkur um þann undraheim en við skildum ansi takmarkað. Þú varst mikill grínari og skemmti- legur strákur með yndislegan húmor og dásamlegi dillandi hlát- urinn þinn ómar í eyrum okkar um ókomna tíð. Þú varst mikill fjölskyldumaður, náðir bæði til fullorðinna og barna, varst mjög barngóður, umvafðir litlu systk- ini þín svo unun var á að horfa. Þú varst mikið hjá okkur í Bakka- smára meðan pabbi þinn bjó hjá okkur þegar hann var í skólan- um. Ykkar feðgasamband var einstaklega fallegt og höfðu margir í fjölskyldunni orð á því. Á milli ykkar var ást, kærleikur og djúp vinátta. Fyrstu árin þegar þú komst til okkar frá Akureyri fylgdi alltaf gamla sængin og pandabangsinn, hann fylgir þér nú á leið þinni til ljóssins. Við munum litlar hendur, hjálpar- hendur sem alltaf vildu aðstoða. Litla fætur sem trítluðu um og fóru í göngu- og skoðunarferðir með okkur og pabba. Afi að grín- ast og þú segir „ég er ekki hræddur við þig“ en heldur samt fast í ömmu. Minningabrotin mörg og falleg, líka úr bústaðn- um okkar í sveitinni, þar sem þér leið svo vel. Þú að hjálpa afa með hjólbörur og við sláttinn. Að stússa í hestunum og á hestbaki á Gosa þínum. Spjallandi við vini í næstu bústöðum. Svangur eftir útiveruna, vildir alvörumat, eng- an barnamatseðil takk. Uppá- haldsmaturinn humar og nauta- steik. Dekkað borð og kveikt á kertum, stemningsmaður. Þreyttur á kvöldin, sofnar í koju fyrir ofan ömmu og afa eða hjá pabba í ykkar herbergi. Minn- umst líka allra samverustund- anna í húsinu okkar á Sigló, skíðaferða og fleiri skemmti- ferða. Oft fórstu líka norður með pabba og ykkar vinum. Portú- galsferðin okkar allra sl. sumar er okkur núna dýrmætari en orð fá lýst og við erum svo óendan- lega þakklát fyrir allar dásam- legu minningarnar sem við eigum og allar myndirnar. Þú að borða sverðfisk, smokkfisk, kolkrabba, sjá hákarla, vernda og leika við litlu systur þína, brosin, gleðin, hláturinn, fullorðinslegur, besti ferðafélagi sem hægt er að hugsa sér. Við ræddum um að fara sam- an í margar fleiri ferðir. En nú ert þú farinn í þitt ferðalag í hlýju mjúku peysunni sem ég prjónaði fyrir 12 ára afmælið þitt og þú sagðir að væri „perfect“ en okkar ferðalög verða að bíða uns við hittumst á ný. Elsku Blængur okkar, þú varst einstök kærleiksvera sem hafðir einlæga trú í hjarta þínu og baðst alltaf bænir. Þú gerðir líf okkar gleðiríkara og lifir áfram í hjörtum okkar. Þuríður amma og Þorsteinn afi í Bakkasmára. Elsku besti stóri bróðir. Eins og þú hefur svo oft sungið fyrir mig syng ég nú fyrir þig: Dvel ég í draumahöll og dagana lofa litlar mýs um löndin öll liggja nú og sofa. Sígur ró á djúp og dal dýr til hvílu ganga einnig sofna skolli skal með skottið undir vanga. (Þýð. Kristján frá Djúpalæk) Ég elska þig. Guð geymi þig, góða nótt. Þín systir, Þuríður Hekla Bogadóttir. Blængur frændi er dáinn. Sorgin er óbærileg. Það á enginn skilið að fara svo snemma á lífs- leiðinni. Ekki gleðigjafinn Blængur sem við nutum hverrar stundar með. Hann var svo opinn og einlægur drengur, brosmildur og fullur af lífi. Dætur okkar nutu þess að leika við hann því hann kunni að leika, deila með öðrum og var góður frændi. Hann deildi áhugamálum sínum og jákvæðri orku sem geislaði af honum. Hann var líka fullkominn stóri bróðir sem Sigtryggur litli elsk- aði og Blængur elskaði Sigtrygg. Eitthvað sem við hin sáum og upplifðum en Sigtryggur litli fann í hjartanu og sýndi með brosinu. Það verður núna okkar hlutverk að segja Sigtryggi frá afrekum stóra bróður, stórum sem smáum, varðveita myndirn- ar af þeim saman og minningarn- ar. Það er svo erfitt að trúa því að Blængur sé dáinn, að við hittum hann aldrei aftur, heyrum hann aldrei aftur hlæja eða segja okk- ur sögur. Hann átti hlut í hjarta okkar allra og þar verður hann um aldur og ævi. Kjartan kom með Emmu og Blæng inn í líf okkar fyrir fjórum árum og það var svo gaman að sjá hvað Kjartan og Blængur náðu strax vel saman. Kjartan gekk honum í föðurstað og Blængur kallaði hann pabba alveg eins og hann kallaði Boga pabba sinn fyr- ir sunnan. Það var líka eftirtekt- arvert hvað Emma var honum góð móðir og passaði vel upp á gullmolann sinn. Þegar við heim- sóttum Blæng fyrir norðan var hann glaður. Þegar við hittum hann á skíðum í Bláfjöllum með Boga pabba sínum var hann glað- ur. Blængur var hamingjusamur drengur með mikla útgeislun sem lýsti upp líf okkar hinna. Þannig var hann Blængur. Hann gat ver- ið fullorðinslegur í tali og haft skoðanir á hlutunum en þannig heillaði hann unga sem aldna í samræðum og leik. Þau ljós sem skærast lýsa, þau ljós sem skína glaðast þau bera mesta birtu en brenna líka hraðast og fyrr en okkur uggir fer um þau harður bylur er dauðans dómur fellur og dóm þann enginn skilur. En skinið loga skæra sem skamma stund oss gladdi það kveikti ást og yndi með öllum sem það kvaddi. Þótt burt úr heimi hörðum nú hverfi ljósið bjarta þá situr eftir ylur í okkar mædda hjarta. (Friðrik Guðni Þórleifsson) Það er erfitt að að skilja af hverju Blængur, sem var nýorð- inn tólf ára, er svo sviplega tek- inn frá okkur. Hann hafði hlakk- að mikið til að verða tólf ára hinn 19. febrúar síðastliðinn. Hann var að verða hálf-fullorðinn. Af því tilefni héldu Blængur og Kjartan upp á afmælisdaginn með því að horfa á mynd sem Blæng hafði lengi langað að horfa á en var bönnuð börnum yngri en tólf ára. Merkilegum áfanga náð í huga Blængs frænda. Elsku Emma, Bogi, Þórey, Kjartan, Sigtryggur, Þuríður, ömmur og afar. Hugur okkar er með ykkur á þessum erfiðu tím- um. Megi Guð gefa ykkur styrk til að læra að lifa með sorginni og mega minningarnar um Blæng verða okkur öllum eilífðarinn- blástur og gleðiljós. Telma Sigtryggsdóttir, Kjartan Örn Sigurðsson, María Sól Kjartansdóttir, Karen Ósk Kjartansdóttir, Ragnhildur Elva Kjart- ansdóttir og Katla Diljá Kjartansdóttir. Hrafninn minn, allan heiminn þú sérð, Færð svör við spurningum sem við ekki heyrum. Prakkarastrikin nú getur þú þreytt án þess að hræðsla mig meiði. Því þar er á ferð minn frábæri frændi lífsglaður, fallegur, fyndinn, drengur. Guð hann gefur jafn hratt og hann tekur, og svo ósanngjörn reiði, æsku hans rændi. Tómarúm ríkir og orðleysi lamar góði guð passaðu engilinn minn. Því ég sjá hann mun ekki framar. Faðir í fangið þig þráir að fá og móðir sinn strák vill kyssa, Vefja þig töfrum, lífi og ást og systkini með þér flissa. Þegar nafn þitt kalla, engin viðbrögð þú sýnir. Við handa minnar stroku þú finnur ei neitt Hvers vegna þú? og hvers vegna svona? Hörund þitt ljóst, svo líflaust og þreytt, þó brotið sé frænku hjartað í mola mun brosið þitt alltaf vísa minn veg. Litla bróður og Kjartan passa, að gleði og hamingja lýsi þar leið, í gegnum þitt fallega hjarta. Elsku Emma, Bogi, Kjartan, Þórey og stórfjölskylda Blængs, megi góður guð gefa ykkur styrk í sorginni. Með tímanum minnkar sárs- aukinn og eftir standa minningar um yndislega drenginn ykkar. Hvíldu í friði og ró elsku strák- urinn minn. Guðborg frænka. Hugljúfur drengur er hrifsað- ur frá fjölskyldunni og hann færður á æðri stað til horfinna ættingja, eins og við hin gerum líka með tímanum. Þannig vil ég hugsa til frænda míns og vinar Blængs Mikaels. Blængur var skemmtilegur og fjörugur strákur þótt hann væri líka óttalegur „prófessor“. Hann gat komið með skrítnar en jafn- framt fyndnar setningar eða spurningar sem maður var oft hissa á að svo ungur drengur hugsaði um. Við Blængur höfum átt marg- ar skemmtilegar stundir bæði tvö ein; í spjalli, í leik, að ógleymdu púslinu og með fjölskyldunni hér í bænum og á Sigló. Minnist ég fyrrasumars þegar Blængur og fjölskylda voru á L-12 efri hæð og við Embla á neðri hæð. Þau frændsystkinin náðu strax saman og voru óaðskiljanleg þann tíma sem þau áttu þar. Ég er eiginlega alveg viss um að þau hafi skoðað Sigló í frumeindir, því Blængi var mikið í mun að sýna hinni „sænsku“ frænku sinni alla „merkilegu staðina“ í firðinum. Það voru alltaf ánægð og glöð börn sem komu heim að kvöldi eftir viðburðaríkan dag. Elskulegi frændi og vinur, leiðir skilur í bili, þangað til geymi ég minningu þína. Guð geymi og styrki mömmu þína og pabba, litlu systkini og Þóreyju, afa Steina og ömmu Þurý, ömm- ur þínar, frændfólk og vini. Guð geymi þig vinur. Þín frænka, Þórdís K. Pétursdóttir (Dísa). Þegar Bogi bróðir, pabbi þinn, hringdi í mig og sagði að bróð- ursonur minn hann Blængur væri dáinn skildi ég ekki neitt. Hvernig má það vera? Flaug beint heim frá Bergen til að vera með fjölskyldunni sem elskaði þig meira en allt og gerði allt fyr- ir þig. Mamma og pabbi, afi og amma þín voru þér svo góð að stundum fannst mér þú vera meira eins og bróðir minn, bjóst svo mikið með okkur og varst oft hjá okkur í dágóðan tíma. Svo fórstu aftur norður og leið smá- tími þangað til við hittumst næst og ég farinn að hlakka svo til að sjá þig aftur að ég bað um að fá að sækja þig á flugvöllinn. Þú varst svo sérstakur, hafðir góða nær- veru, gaman að keyra þig heim og segja þér hvað sem er því meiri pælara hef ég ekki kynnst og svör þín voru dýrmæt. Þegar ég sá þig liggja í kistunni þinni rann upp fyrir mér að nú væri ég að kveðja litla uppáhaldsfrænda minn sem er farinn í aðra ferð og enginn Beddi frændi til að keyra þig. Ég er glaður að hafa fengið að kynnast þinni gömlu sál, í þín tólf ár, þú hefur kennt mér meir en orð fá lýst. Þinn guðfaðir, Bergsteinn. Einu sinni fæddist lítill ljós- hærður gutti sem kom inn í líf okkar og breytti því frá fyrsta Blængur Mikael Bogason ✝ Ástkær faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, SVAVAR GUÐNI GUNNARSSON, Víðilundi 20, Akureyri, lést á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri þriðjudaginn 12. mars. Sigurður Svavarsson, Alice Liu, Gunnar Þór Svavarsson, Steinunn Zebitz, Kristlaug Þórhildur Svavarsdóttir, Hjörleifur Hjálmarsson, Ari Svavarsson, Ágústa G. Malmquist, barnabörn og barnabarnabörn. ✝ Ástkær bróðir okkar, HEIÐAR BRYNTÝR JÓNSSON, sambýlinu Mururima 4, lést á heimili sínu sunnudaginn 10. mars. Jarðarförin auglýst síðar. Pálína Ellen Jónsdóttir, Jóhanna Guðrún Zoëga Jónsdóttir, Helgi Jón Jónsson.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.